Ný ritgerð mín í enskri bók

Ég var að fá í hendur nýja bók, Understanding the Crash. The Financial Crisis of 2008, sem Danube Institute í Búdapest gefur út. Á meðal höfunda eru ásamt mér Norman Lamont lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, Peter J. Wallison, lögmaður bandaríska forsetaembættisins í tíð Ronalds Reagans og höfundur minnihlutaálits rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings um fjármálakreppuna 2008, Péter Ákos Bod, fyrrverandi seðlabankastjóri Ungverjalands, Jack Hollihan, kunnur bandarískur fjárfestir, og fleiri.

Ritgerð mín í bókinni nefnist „The Rise, Fall and Rise of Iceland“. Þar ræði ég um helstu skýringar, sem fram hafa verið settar á bankahruninu íslenska, en bendi á, að sumar þeirra fái ekki staðist. Til dæmis orsakaði nýfrjálshyggja ekki bankahrunið, því að íslensku bankarnir störfuðu við nákvæmlega sama regluverk og bankar í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki nægir heldur að nefna til sögunnar glannaskap bankamanna, þótt vissulega hafi hann verið mikill, því að margir aðrir bankar en hinir íslensku hefðu hrunið, hefði þeim ekki verið hjálpað, til dæmis Danske Bank í Danmörku, RBS í Bretlandi og UBS í Sviss.

Haldbærari skýringar á því, að bankahrun varð á Íslandi við hina alþjóðlegu fjármálakreppu, en ekki annars staðar, eru, að íslenska seðlabankanum var einum seðlabanka neitað um gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann, að breskum bönkum í eigu Íslendinga var einum neitað um þá fyrirgreiðslu, sem breska ríkið veitti bönkum í október 2008, og að Verkamannaflokksstjórnin breska setti hryðjuverkalög á Íslendinga — ekki aðeins Landsbankann, heldur líka Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Í ritgerðinni ræði ég enn fremur eftirleikinn, brottrekstur Davíðs Oddssonar — sem hafði einn ráðamanna varað við örum vexti bankakerfisins — úr Seðlabankanum, landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde — sem reyndist hin mesta sneypuför — og hið ótrúlega Icesave-mál, þar sem ráðherrar vinstri stjórnarinnar reyndu með dyggum stuðningi sumra samkennara minna að loka Íslendinga inni í skuldafangelsi, af því að þeir héldu, að þar gætu þeir sjálfir orðið fangelsisstjórarnir.

Ritgerðin er sótt í fyrirlestur, sem ég flutti á ráðstefnu í Búdapest í nóvember 2013. Þar var Lamont lávarður líka, og spratt hann upp eftir hann og baðst afsökunar á framferði bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem hann sagði til skammar. Ólíkt fórst honum og utanríkisráðherra þessarar Verkamannaflokksstjórnar, David Miliband, sem kom til Íslands og bannaði allar spurningar um samskipti Íslendinga og Breta vegna fjármálakreppunnar og bankahrunsins, en við Miliband brostu blítt allir sömu samkennarar mínir og höfðu viljað loka okkur inni í skuldafangelsi.


Hvað segir ESB sjálft?

Deilt er um, hvers eðlis aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi verið. Sumir segja, að þetta hafi verið samningar tveggja aðila. En er ekki best að spyrja Evrópusambandið sjálft? Í bæklingi frá því um aðildarferli umóknarþjóða segir:

First, it is important to underline that the term “negotiation”can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Eins og aðrir hafa bent á, fer hér ekkert á milli mála: not negotiable.


Íslendingar geta litið stoltir um öxl

Eftir bankahrunið komst í tísku, sérstaklega í hópi menntamanna, að gera lítið úr Íslendingum, sjálfstæðisbaráttu þeirra og þjóðernisvitund. Það er jafnfráleitt og þegar menn voru fyrir bankahrunið að tala um Íslendinga sem snjöllustu þjóð í heimi. En Íslendingar þurfa þrátt fyrir allt ekki að skammast sín. Hér er tiltölulega friðsamlegt: Morð á hver tvö hundruð þúsund íbúa eru um tvö í Evrópu að meðaltali, eitthvað innan við tíu í Bandaríkjunum (en raunar aðeins tvö, ef aðeins er miðað við fólk af evrópskum uppruna), en hér á landi 0,3. Þjóðin er í góðum álnum og hefur mikla möguleika, ef við nýtum rétt öll þau tækifæri, sem okkur bjóðast, höldum uppi hinu skynsamlega skipulagi fiskveiða, löðum ferðamenn að landinu, seljum útlendingum orku og gætum hófs í opinberum útgjöldum og álögum. Það er fróðlegt að lesa í Hagskinnu, sem er bók með tölum frá liðnum tíma, að frá 1870 til 1940 voru Íslendingar aðeins hálfdrættingar á við Dani í tekjum (vergri landsframleiðslu á mann). Eftir það höfum við staðið þeim jafnfætis um margt, þar á meðal velmegun. En á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, Háskólans og lýðveldisins er hollt að hafa í huga, að besta vegarnestið inn í framtíðina er það atvinnufrelsi, sem Jón Sigurðsson mælti fyrir.

(Skrifað 17. júní 2014.)


Fróðleiksmoli um kynbundna kúgun

Föstudagsmorguninn 6. júní 2014 flutti ég fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands, um „Kúgun karla“. Tilvísunin er í rit enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills um Kúgun kvenna, sem hefur komið tvisvar út í íslenskri þýðingu. Ég er að sjálfsögðu sammála Mill um það, að kynin tvö eigi að njóta fullra réttinda til sjálfsþroska og þátttöku í opinberu lífi. Konur voru því miður löngum kúgaðar. En eru þær það lengur á Vesturlöndum? Hefur þetta ef til vill snúist við? Í því sambandi kynnti ég niðurstöður ýmissa nýrra rannsókna.

Á meðan ég var að semja fyrirlesturinn, rifjaðist upp fyrir mér, þegar Helga Kress flutti það, sem hún kallaði „jómfrúrfyrirlestur“ sinn sem prófessor í Háskóla Íslands 10. október 1991. Fyrirlesturinn nefndist „Skassið tamið“ og var um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af ruddaskap og yfirgangi karla við konur. Benti Helga á ýmis dæmi um þetta, sem farið hefðu fram hjá körlum í röðum bókmenntaskýrenda vegna kynlægrar einsýni þeirra. Eftir fyrirlesturinn svaraði hún spurningum. Ég bar fram eina. Hún var, hvað Helga segði um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af misjafnri framkomu kvenna við karla, til dæmis Gunnhildar konungamóður við Hrút Herjólfsson og griðkonunnar, sem gerði lítið úr Gretti, svo að ekki sé minnst á allar þær konur, sem eggjuðu feður, bræður eða syni sína til hefnda.

Helga var snögg til svars: Þá var það textinn, sem kúgaði. Þennan texta hefðu karlar sett saman konum til hnjóðs, oft kvenhatarar í klaustrum. Þetta svar Helgu var afar fróðlegt. Hún tók mark á textanum, þegar sagði frá kúgun karla á konum, en þegar í textanum sagði frá kúgun kvenna á körlum, var hann orðinn enn eitt dæmið um kúgun karla á konum. Kenning Helgu var með öðrum orðum óhrekjanleg. Hún geymdi í sér skýringar á öllum frávikum frá sér. Hún var alltaf rétt. Slíkar kenningar kenndi ensk-austurríski vísindaheimspekingurinn Karl Popper við gervivísindi, en tvö dæmi um þau taldi Popper vera marxisma og freudisma. Ef fræðimaður hallaðist að borgaralegum skoðunum, þá var hann að sögn marxista leiguliði borgarastéttarinnar. Ef hann hallaðist að skoðunum marxista, þá var hann sannur fræðimaður. Kenningin var alltaf rétt.

Því miður get ég hins vegar ekki lofað því, að í fyrirlestri mínum hafi ég sett fram kenningu, sem verði alltaf rétt.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 24. maí 2014, lítillega breyttur.)


Áfengiskaup leka

Margt hefur verið sagt síðasta misserið um leka. Íslenskukennari minn í Menntaskóla og síðar yfirlesari bóka minna, Jón S. Guðmundsson, var ekki ánægður með orðið í merkingunni að lauma leyndarmálum í blöð. Hann taldi það of enskulegt, beina þýðingu á „leak“. Nú er orðið þó líklega viðtekið í íslenskri tungu, eins og gömul saga sýnir. Arreboe Clausen var lengi einkabílstjóri forsætisráðherra, hvers af öðrum. Eitt sinn vildi viðmælandi hans forvitnast um ýmis undirmál, sem Arreboe ætti að vita um, og spurði: „Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka?“ Arreboe svaraði: „Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.“

Lekar eru jafnan álitamál. Hvenær eiga leyndarmál erindi til almennings og hvenær eiga menn að fara að dæmi Arreboes? Eiga blaðamenn að virða trúnað við menn, sem sjálfir virtu ekki trúnað, og neita að segja til þeirra? Í frægu íslensku lekamáli komst aldrei upp, hver heimildarmaðurinn var. Fréttamaður Ríkisútvarpsins, Arnar Páll Hauksson, skýrði 24. nóvember 1988 frá umfangsmiklum kaupum forseta Hæstaréttar, Magnúsar Thoroddsens, á áfengi á sérkjörum. Fáir vissu áður af þessu máli. Upplýsingarnar fékk Arnar Páll annaðhvort hjá forseta Alþingis, Guðrúnu Helgadóttur, eða fjármálaráðherra, Ólafi Ragnari Grímssyni, en í réttarhöldum vegna brottvikningar Magnúsar sóru þau bæði þvert fyrir að hafa verið heimildarmenn fréttamannsins. Umhugsunarefni er, að eftir þetta hafði fréttamaður á Ríkisútvarpinu pólitískt líf annars tveggja aðsópsmikilla stjórnmálamanna í hendi sér.

Annað lekamál ári síðar snerist líka um áfengiskaup á sérkjörum, en var annars eðlis. Þá gerðu yfirskoðunarmenn ríkisreiknings athugasemdir við það, að Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hafði 7. maí 1988 keypt 100 flöskur af freyðivíni, tvær af gini og tvær af viskíi á ráðherraverði, sem var miklu lægra en útsöluverð, og sent í fertugsafmæli vinar síns og flokksbróður, Ingólfs Margeirssonar, sem hafði sem ritstjóri Helgarpóstsins verið stóryrtur baráttumaður gegn spillingu. Jón Baldvin baðst opinberlega afsökunar á mistökum sínum, sem hann sagði vera, en skömmu síðar missti sá starfsmaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem talinn var hafa komið á framfæri ábendingu um áfengiskaupin, stöðu sína. Má þó halda því fram, að hann hafi verið að gæta almannahags með ábendingu sinni. Ef til vill hefur honum líka blöskrað hræsni þeirra ráðherra, sem viku Magnúsi Thoroddsen úr embætti fyrir óhófleg áfengiskaup, en misnotuðu sjálfir sérkjör þau, sem þeim stóðu til boða.

Vissulega á áfengi til að leka, en áfengiskaup líka, eins og þessi tvö mál sýna.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 17. maí 2014.)


Brestir í kenningu Pikettys

Í bókinni Fjármagn á 21. öld heldur Tómas Piketty því fram, að tekjudreifing sé orðin miklu ójafnari á Vesturlöndum en hún var mestalla 20. öld. Hún sé að nálgast það, sem hún var á 18. og 19. öld, þegar Jane Austen og Honoré de Balzac skrifuðu skáldsögur um fólk, sem gat aðeins komist úr lágstétt í hástétt með því að stofna til vensla. Piketty telur Gini-stuðulinn, sem er oft notaður til að mæla tekjudreifingu, óheppilegan. Hann vill frekar horfa á hlut tekjuhæsta 1% í heildartekjum. Sá hlutur sé nú orðinn miklu hærri en áður.

Þótt sumar tölur Pikettys hafi verið véfengdar, meðal annars í vandaðri úttekt Lundúnablaðsins Financial Times, skulum við rökræðunnar vegna gera ráð fyrir, að Piketty hafi rétt fyrir sér um þróunina. En eru ekki sömu gallar á þessari mælingu og Gini-stuðlinum?

Gini-stuðullinn mælir tekjudreifingu eins árs. Hann er 0, ef allir hafa sömu tekjur, og 1, ef einn maður hefur allar tekjurnar. Á Norðurlöndum, þar á meðal Íslandi, er hann um 0,25–0,30. Í Bretlandi og Bandaríkjunum er hann hærri, um 0,35–0,40. Sums staðar er hann enn hærri, til dæmis í Brasilíu. En hvað gerist, ef við horfum á ævitekjur frekar en tekjur eins árs? Alkunna er, að menn hafa misjafnar tekjur á ævinni. Þeir eru tekjulausir sem börn, tekjulágir sem unglingar og námsmenn, hækka smám saman í tekjum á starfsferli sínum, en verða aftur tekjulágir sem ellilífeyrisþegar, enda hafa þeir þá oftast komið sér upp nægum eignum af tekjum sínum til æviloka.

Hugsum okkur, að allir hafi sömu ævitekjur. Þá hækkar Gini-stuðullinn, ef fjölgar í hópi þeirra, sem stunda langskólanám. Hann hækkar líka, ef menn fara fyrr en áður á eftirlaun. Hann hækkar líka, ef menn lifa lengur en áður. En allt þetta þrennt — langskólanám, lækkaður eftirlaunaaldur og langlífi — er jafnan talið æskilegt, og í raun er ekkert af þessu til marks um ójafnari tekjudreifingu milli manna en áður, heldur aðeins ójafnari tekjudreifingu sama manns á ævinni. Hið sama gerist, ef við notum mælikvarða Pikettys. Hlutur hins tekjuhæsta 1%, eins og hann mælist á einu ári, stækkar, ef fleiri fara almennt í langskólanám, fara fyrr á eftirlaun og lifa lengur. Þetta þrennt hefur einmitt verið að gerast síðustu þrjátíu ár.

Önnur ástæða er til þess, að hlutur tekjuhæsta 1% í heildartekjum er eflaust ofmældur samkvæmt kenningu Pikettys. Hún er, að eftir skattalækkanir á þennan hóp síðustu áratugi 20. aldar fluttist starfsemi hans að mörgu leyti úr óskattlögðum farvegum í skattlagða. Þessi hópur hefur í þjónustu sinni herskara af lögfræðingum og endurskoðendum til að skipuleggja skattgreiðslur sínar (sem er ekki hið sama og að svíkja undan skatti). Þessi hópur hafði oftast ekki launatekjur, sem erfitt er að komast hjá því að greiða skatt af, heldur margvíslegar fjármagnstekjur. Um leið og skattar lækkuðu á slíkar tekjur, skiluðu skattgreiðslur af þeim sér betur í ríkissjóð. Þær birtust, ef svo má segja. Þau gæði, sem tekjuhæsta 1% hafði til ráðstöfunar, voru ef til vill jafnmikil fyrir skattalækkanirnar, en þau voru ekki alltaf í skattlögðum farvegum.    

Piketty ofmetur þannig hlut tekjuhæsta 1% í heildartekjum. Um leið vanmetur hann hlut tekjulægsta hópsins, hvort sem við skilgreinum hann sem 5%, 10% eða 20%, því að hann reiknar út ráðstöfunartekjur eftir skatta, en fyrir millifærslur. Til dæmis reiknar hann ekki með bótum og niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu, sem eykur ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins verulega. Því vanmetur hann raunverulegar tekjur tekjulægsta hópsins. Við það mælist enn hlutur tekjuhæsta 1% stærri í heildartekjum, jafnvel þótt hann hafi ekki stækkað.

Ekki er allt sem sýnist í þessum fræðum. Hitt er annað mál, að frjálslynt fólk hefur meiri áhuga á auðsköpun en endurdreifingu. Það vill jafna upp á við, ekki niður á við. 


Grýlubrellur Stefáns Ólafssonar

Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir óralöngu, var eitt námskeiðið í rökfræði. Þar vorum við vöruð við ýmsum rökleysum eða brellum, sem báru virðuleg nöfn á latínu. Ein hafði þó enskt heiti, „straw man fallacy“, þegar andstæðingi er gerð upp skoðun, sem tiltölulega auðvelt er að hrekja, og síðan er hin uppgerða skoðun hrakin með lúðrablæstri og sigurópum. Ég hef lagt til að kalla þetta „grýlubrelluna“ á íslensku.

Stefán Ólafsson prófessor, sem virðist vera sjálfskipaður talsmaður Hólmsteinshatarafélagsins, hefur oft notað þessa grýlubrellu á mig, til dæmis í ádeilum á mig fyrir skoðanir á loftslagsmálum, sem ég hef aldrei haft.

beitir hann sömu brellu vegna fyrirlesturs, sem ég flutti um karlmennsku á dögunum. Boðskapur minn þar var einfaldur. Þegar við skoðum tölur um óhamingju eða böl, hallar á karla: Þeir lifa skemur en konur, stytta sér frekar aldur, verða frekar fyrir slysum, fremja frekar glæpi og hneigjast frekar til fíkniefnaneyslu og ofdrykkju. Ég dró þá eðlilegu ályktun af þessum tölum, að hlutskipti karla sé almennt erfiðara en kvenna.

Ég setti hins vegar ekki fram neina kenningu um það, að þetta sýndi, að konur kúguðu karla, enda er það ekki skoðun mín. Því síður setti ég fram neina kenningu um það, að þetta hlutskipti karla væri jafnréttisbaráttunni að kenna. Þegar Stefán ræðst á mig fyrir þessar kenningar, missir hann þess vegna marks. Ég er femínisti í þeim skilningi, að ég styð fullt jafnrétti kynjanna og ber virðingu fyrir frjálsu vali kvenna jafnt og karla. En ég er ekki öfgafemínisti, sem trúi því, að karlar eigi almennt enga ósk heitari en kúga konur.

Þegar ég talaði um launamun kynjanna, setti ég hins vegar fram þá skýringu á honum (sem raunar má heita viðtekin í hagfræði), að karlar og konur röðuðu sér ólíkt í tegundir starfa af ýmsum hvötum, og þegar tekin séu meðaltöl launa í þeim störfum, sem kynin hafa tilhneigingu til að velja, séu þau meðaltöl lægri í þeim störfum, sem konur hafa tilhneigingu til að velja sér, en af ástæðum, sem ekki verða rakin til þess, að konur hafi tilhneigingu til að velja þau. Launamuninn megi því ekki nema að mjög litlu leyti rekja til þess, að karlar mismuni konum, „karlaveldið“ skammti kjör.

Stefán heldur því hins vegar fram, að konur fái ekki jafnhá laun fyrir sömu vinnu og karlar. Ef hann veit einhver dæmi þess, þá á hann að láta yfirvöld vita. Samkvæmt lögum eiga konur og karlar að fá jafnhá laun fyrir sömu vinnu. Mér finnst það sjálfum líka réttlátt og eðlilegt, hvort sem það á síðan að vera lögboðið eða ekki.

Ég tel síðan og ætti ekki að þurfa að taka það fram, að verkaskipting á heimilum sé einkamál hjóna, sem hvorugum okkar Stefáni kemur við. Væntanlega hafa flest hjón þann hátt á, að það hjónanna, sem líklegra er til að geta sérhæft sig, einbeitt sér og aflað hárra tekna, fari út á vinnumarkaðinn, en hitt sinni frekar heimilishaldi, þótt nú færist það í vöxt, að bæði hjónin sinni lífsbaráttu og heimilishaldi saman, og hef ég ekki nema gott eitt um það að segja. Ég benti hins vegar á það, að náttúran hefur kjörið konur til að ganga með börn og gefa þeim á brjóst, og það er dýrmæt lífsreynsla, sem karlar fara á mis við (að meistara Þórbergi undanteknum, sem skrifaði langt mál um það, þegar hann var þungaður). Ef til vill er ein skýringin á því, að konur ráða betur við lífið en karlar, að þær öðlast lífsfyllingu við þetta.

Það er eflaust rétt, sem Stefán Ólafsson segir, að karlar eru í eðli sínu árásargjarnari en konur vegna kirtlavaka sinna (testosterón). Sjálfur er hann gott dæmi um þessa árásargirni. Vart líður svo vika, að hann ráðist ekki á mig á bloggi sínu á Eyjunni. En ef til vill telur hann sig líka eiga harma að hefna, þar eð ég hef komið upp um rangar tölur hans um tekjudreifingu, skattleysismörk og lífeyristekjur og um trúnaðarbrot hans í starfi.  


Viðbrögð við fyrirlestri mínum um kúgun karla

Það var fróðlegt að sækja hið alþjóðlega þing um karlafræði (masculinity studies), sem haldið var í Reykjavík 5.–6. júní. Flestir þátttakendur virtust vera andvígir karlmennsku, stækir femínistar. Þegar ég flutti fyrirlestur minn að morgni 6. júní, var troðfullt í fundarsalnum, og menn hlustuðu kurteislega, en með steinrunnin andlit, og lófatakið var dauflegt á eftir. Ég bjóst ekki við öðru, enda hafði ég sagt:

  • að konur og karlar nytu jafnréttis að lögum á Íslandi og annars staðar á Vesturlöndum,
  • að karlar lifðu styttra og erfiðara lífi en konur: lífslíkur þeirra væru minni, sjálfsvíg þeirra tíðari, einnig dauðsföll af slysförum og morð, þeir leiddust frekar út á glapstigu, glæpi, fíkniefnaneyslu og ofdrykkju,
  • að þess vegna væri hæpið að tala um, að karlar undirokuðu eða kúguðu konur,
  • að eðlilegar skýringar væru til á launamun kynjanna, því að hann mætti rekja til ólíks vals kynjanna á tegundum starfa,
  • að ástæðan til þess, að konum gengi betur að ráða við lífið, væri sennilega, að þær fengju meiri lífsfyllingu vegna barneigna,
  • að náttúran hefði neitað körlum um þessa lífsfyllingu, því að þeir gætu ekki borið börn og gefið þeim á brjóst,
  • að minnstar líkur væru á mismunun, þar sem samkeppni á markaði væri hörðust,
  • að kvenfrelsissinnar ættu að beina kröftum sínum að því að efla samkeppni heima fyrir og aðstoða kúgaðar konur, ekki síst í Arabalöndunum.

Þetta hentar auðvitað ekki öllu því fólki, sem hefur atvinnu af því að skapa fórnarlömb úr konum og veita þeim síðan aðstoð (sem engu hefur breytt og sjaldnast komið að gagni).

Mín ágæta bekkjarsystir úr sagnfræði, Kristín Ástgeirsdóttir, sagði í viðtali við visir.is, að margir ráðstefnugestir hefðu orðið reiðir yfir því, að mér hefði verið hleypt á ráðstefnuna. Síðan bætti hún því við, að ég hljómaði eins og „reiður, hvítur maður“, en einn fyrirlesarinn á ráðstefnunni hefði einmitt talað um slíka menn. Ég spyr: Hver er reiður? Ef marka mátti Kristínu, þá voru það einmitt ráðstefnugestirnir! Ég er að minnsta kosti ekki reiður, þótt ég sé hvítur.

Maður að nafni Michael Kimmel ræddi síðan við fjölmiðla. Hann bar ekki brigður á tölur mínar, en neitaði því, að þær sýndu, að konur væru hamingjusamari en karlar. Ég held raunar, að erfitt sé að mæla hamingju. Auðveldara er að mæla óhamingju eða mannlegt böl, og tölur mínar eru einmitt um slíkt böl: skammlífi, sjálfsvíg, dauðaslys, morð, fangelsisvist, fíkniefnaneyslu, ofdrykkju.

Raunar er ég sammála Kimmel um það og sagði það beinlínis í fyrirlestri mínum, að karlmennskuímyndin er körlum erfiðari en kvenleikaímyndin konum. Mér er hins vegar ekki ljóst, hvað á að gera við því: Breyta körlum í konur? Ráðast á milljón ára náttúruval?

Ég er hins vegar ósammála Kimmel, þegar hann vitnar  með lítilsvirðingu í Adam Smith um þrælahald. Það er rétt, sem Smith hélt fram, að þrælahald er óhagkvæmt og myndi þess vegna útrýma sjálfu sér, ef löggjafinn reisti slíkri útrýmingju ekki skorður. Þræll er meira virði sem frjáls maður en sem þræll, svo að gott viðskiptatækifæri myndast með því að kaupa honum frelsi, hvort sem hann sjálfur gerir það (eins og Erlingur Skjálgsson aðstoðaði hann við að gera samkvæmt frásögn Snorra) eða aðrir.

Kimmel heldur því fram, að konur fái lægri laun fyrir sömu vinnu. Ef hann veit einhver dæmi þess frá Íslandi, þá á hann að láta yfirvöld vita. Hér á landi hafa jöfn laun kynjanna fyrir sömu vinnu verið leidd í lög. Kenning mín var önnur. Konur hafa tilhneigingu til þess (og á því eru auðvitað margar undantekningar) að velja störf, sem geta farið saman við barneignir og heimilishald. Þau störf eru almennt lægra launuð en önnur störf, sem ekki geta farið saman við barneignir og heimilishald, til dæmis vegna kröfu um samfellda viðveru eða sívirka þekkingaröflun. Þess vegna mælast konur með lægri laun en karlar. Launamunur kynjanna er því tölfræðileg tálsýn. Konum er ekki mismunað af körlum (nema að litlu leyti, og það getur líka verið á hinn bóginn). Og ef þeim er mismunað, þá er mesta hagsmunamál þeirra, að samkeppnin verði sem hörðust, því að þá hefur vinnuveitandinn ekki ráð á öðru en fá til sín bestu starfskraftana, hvort sem þeir eru karlar eða konur


Kúgun karla?

Árið 1900 kom út á íslensku bókin Kúgun kvenna eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill, og þýddi Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum hana. Hún var endurútgefin í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags árið 2003.  Þar færir John Stuart Mill þau rök gegn kúgun kvenna, að við hana farist mannkynið á mis við ýmsa hæfileika kvenna, af því að þær fái ekki að njóta sín. Er sú röksemd Mills auðvitað góð og gild, þótt margir telji líka, að jafnrétti karla og kvenna sé réttlætismál.

Nú er kúgun kvenna vonandi úr sögu á Vesturlöndum, þótt auðvitað hafi sumir endurskilgreint orðið og noti það nú um það andlega ok, sem hefðbundin kynhlutverk eiga að vera. En þá má spyrja á móti, eins og ég geri í fyrirlestri um kúgun karla á alþjóðlegri ráðstefnu um karlmennsku í Reykjavík föstudaginn 6. júní, hvort ekki sé nú þungbærara að vera karl en kona. Fyrirlestur minn er á ensku og verður í málstofu kl. 9–11 í herbergi 130 í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskólans.

Lífslíkur, sjálfsvíg, slys og  morð

Lítum á nokkrar tölur í þessu sambandi. Einn mælikvarðinn á farsæld er lífslíkur við fæðingu. Víðast hvar eru lífslíkur kvenna nokkrum ári meiri en karla. Meðaltalið í OECD-löndum 2011 var 77 ár fyrir karla og 83 ár fyrir konur. Hér á landi var það þetta sama ár 81 ár fyrir karla og 84 ár fyrir konur. Hins vegar er ekkert tillit tekið til þessa munar á lífslíkum kynjanna við innheimtu lífeyrisgjalda, svo að segja má, að karlar greiði niður lífeyri fyrir konur.

Einn skýrasti mælikvarðinn á það, hvort lífið sé þungbært, er hins vegar sjálfsvíg. Þá er lífið orðið óbærilegt. Karlar eru þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að stytta sér aldur en konur. Meðaltalið í OECD-löndum 2008 var 176 karlar á hverja 10.000 íbúa og 52 konur. Hér á landi var það 153 karlar og 67 konur.

Karlar eru ekki aðeins skammlífari en konur og líf þeirra þungbærara, eins og tíðni sjálfsvíga sýnir, heldur er líf karlanna miklu hættulegra.  Tvöfalt fleiri karlar létust til dæmis í umferðarslysum í Bandaríkjunum 2007 en konur. Þrisvar sinnum fleiri karlar en konur létu þar lífið af annarra völdum sama ár.

Glæpir, fíkniefnaneysla, ofdrykkja og stríðsrekstur

Einn mælikvarði á farsæld er, hversu margir fara á glapstigu. Í Bandaríkjunum voru 91% fanga karlar og 9% konur 2013. Á Íslandi voru 97% fanga karlar og 3% konur.  Hlutfallið er svipað í öðrum löndum. Ári áður, 2012, fóru 1.329 þúsund karlar og 683 þúsund konur í fíkniefnameðferð í Bandaríkjunum og 1.745 þúsund karlar og 703 þúsund konur í áfengismeðferð. Hlutföllin eru svipuð í öðrum löndum. Segja má, að rösklega tvöfalt fleiri karlar en konur flýi á vit fíkniefna og áfengis.

Því má ekki gleyma, að konur eru víðast hvar ekki herskyldar ólíkt körlum. Tvær blóðugar heimsstyrjaldir voru háðar á 20. öld auk margra staðbundinna stríða. Karlar voru langflestir þeirra, sem þá féllu. Sýna þessar staðreyndir ekki, að þungbærara sé að vera karl en kona? Að minnsta kosti má ráða það af lögmáli framboðs og eftirspurnar: Erfitt er að afla áreiðanlegra talna um kynskipti, en líklega eru um 80% þeirra, sem skipta um kyn, fæddir drengir.

Launamunur tölfræðileg tálsýn

Launamunur kynjanna er vissulega nokkur. En hann er ekki vegna þess, að karlar mismuni konum, heldur vegna þess að konur hafa tilhneigingu til að velja störf, sem farið geta saman við barneignir og heimilishald. Þetta eru störf, sem geta verið hlutastörf, til dæmis frá kl. 8–12 á daginn, eða störf, sem stunda má í nokkur ár, taka sér leyfi frá í 4–5 ár, en snúa aftur í síðar, án þess að aflahæfi launþegans minnki að ráði, því að störfin krefjast ekki samfelldrar viðveru eða sívirkrar þekkingaröflunar. (Hagfræðingar myndu orða þetta svo, að í slíkum störfum sé úrelding mannauðs hæg.) Orsakasambandið er því annað en oft er látið í veðri vaka. Konur mælast ekki að meðaltali með lægri laun en karlar vegna þess, að kvennastörf séu láglaunastörf, heldur vegna þess, að lægri laun eru í boði fyrir þau störf, sem konur hafa tilhneigingu til að velja. Þau störf krefjast ekki samfelldrar viðveru, sívirkrar þekkingaröflunar og fela ekki í sér verulega ábyrgð.

En tapa konur á þessum skiptum? Þær öðlast dýrmæta reynslu, sem körlum er neitað um, að ganga með og ala á brjósti börn. Hér mega hagmælingar ekki villa mönnum sýn. Þegar börn fæðast og annað foreldrið eða þau bæði minnka við sig vinnu til að sinna börnunum, oftast þó konan, lækka ráðstöfunartekjur þeirra. En gleði þeirra af lífinu eykst. Börnin eru launin, þótt þau mælist ekki hjá hagstofunni.

Af þessum ástæðum er jafnlaunabaráttan því barátta við vindmyllu, við tölfræðilega tálsýn. Femínistar kunna að svara, að tilhneiging kvenna til að velja störf, sem fara saman við heimilishald og barneignir, sé til marks um kúgun þeirra. Valið sé ekki frjálst. Konur séu undir oki kvenleikaímyndar, kröfunnar um að gerast móðir og húsmóðir. Eflaust átti þetta við á liðnum öldum, og nægir að vísa til ljóða Ólafar frá Hlöðum og Theodóru Thoroddsen um það. En nú á dögum er þessi krafa ekki sterk. Konur þurfa ekki að sinna henni frekar en þær vilja. Réttara er líka að segja, að bæði kynin búi við ímyndir, sem hafi áhrif á val þeirra á framtíðarhlutskipti. Karlar eiga að vera sterkir, dimmraddaðir, afla tekna og sjá fyrir heimilinu. Karlmennskuímyndin íþyngir körlum enn frekar en kvenleikaímyndin konum, eins og tölurnar sýna, sem ég nefndi hér um lífslíkur, tíðni sjálfsvíga, fórnarlömb umferðarslysa og morða, glæpi, fíkniefnaneyslu og ofdrykkju, svo að ekki sé minnst á kynskipti.  

Þversögn femínismans

Þversögn femínismans er síðan, að stuðningsmenn hans vilja ekki binda enda á kúgun kvenna, heldur setja nýja kúgun í stað gamallar. Ég tók þátt í sjónvarpsumræðum að kvöldi 25. apríl 1987 með einum forsvarsmanni Kvennalistans þáverandi. Ég spurði hana í hléi, hvað femínistar segðu um Margréti Thatcher, sem væri alls ekki sammála þeim. „Hún neitar að gangast við sjálfri sér sem konu,“ svaraði femínistinn. Hér er á ferð sami greinarmunur og Marx gerði á stéttvísum og óstéttvísum öreigum og Pétur Þríhross á sönnum og sviknum Íslendingum. Konur áttu að vera femínistar. Annars voru þær ekki „sannar“ konur.

Jafnframt ganga femínistar í lið með íhaldsmönnum liðins tíma og vilja banna fórnarlambalausa glæpi eins og vændi og klám. Þetta bann bitnar ekki aðeins á kaupendum, sem vissulega eru flestir karlar, heldur líka seljendum, sem vissulega er flestir konur, þótt ekki sé það einhlítt. Þegar sagt er, að vændinu fylgi mansal og önnur kúgun, eru það ekki rök fyrir að banna vændi, heldur fyrir því að banna einmitt mansal og aðra kúgun, og það verður best gert með því að lögleiða vændi, svo að hafa megi strangt eftirlit með því og konur þurfi ekki „verndara“ á strætum stórborga.

Hagsmunir kynjanna fara saman

Einstaklingshyggjumenn vilja hins vegar ekki steypa alla í sömu mót, heldur leyfa fólki, konum jafnt og körlum, að vaxa og dafna í sjálfvöldum hlutverkum. Jafnréttisbaráttu kvenna lauk með fullum sigri þeirra víðast á Vesturlöndum. Þeim miklu fjármunum, sem eytt er í jafnréttisfulltrúa og kynjafræðikennara á Íslandi, væri betur varið í aðstoð við kúgaðar konur í múslimaríkjum. Þar er raunverulegt verkefni að vinna. Jafnframt ættu kynin tvö, karlar og konur, að vinna saman að auknu frelsi í atvinnumálum, því að öflugt atvinnulíf veitir dætrum og sonum þessa fólks fleiri tækifæri síðar meir. Hagsmunir kynjanna fara saman, svo að hvorugt þarf að kúga hitt.

(Grein í Morgunblaðinu 6. júní 2014.)


Viðtal við mig í Die Presse

Nýlega birtist við mig viðtal í hinu víðlesna austurríska blaði Die Presse, sem Nikolaus Jilch tók. Þar var ég spurður, hvort bankahrunið á Íslandi mætti rekja til nýfrjálshyggju, eins og sumir vinstri menn halda fram. Ég svaraði því til, að það væri fráleitt, enda hefðu Íslendingar búið við sömu samræmdu reglur á fjármálamarkaði og aðrar þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu, sem nær til Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Liechtenstein. Þrjár meginástæður væru til þess, að íslensku bankarnir hefðu hrunið, en ekki bankar í öðrum Evrópulöndum. Bandaríski seðlabankinn hefði neitað íslenska seðlabankanum um gjaldeyrisskiptasamninga, sem hann hefði hins vegar gert við seðlabanka annarra Norðurlanda (utan Evrusvæðisins) og seðlabanka margra annarra landa. Slíkir gjaldeyrisskiptasamningar gerðu til dæmis danska seðlabankanum kleift að bjarga Danske Bank, sem hefði ella hrunið. Í öðru lagi hefði ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins neitað bönkum í eigu Íslendinga í Bretlandi um fyrirgreiðslu, á sama tíma og hún hefði eytt stórfé í að bjarga öðrum bönkum í Bretlandi, sem ella hefðu hrunið. Í þriðja lagi hefði það bætt gráu ofan á svart, þegar stjórn Verkamannaflokksins hefði sett hryðjuverkalög á Landsbankann (og raunar líka á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband