5.8.2014 | 19:22
Ofeldi launað með ofbeldi
Nú eru senn liðin fimm ár frá því, að lögleg ríkisstjórn landsins var hrakin frá með ofbeldi. Ekki var óeðlilegt, að almenningur mótmælti bankahruninu haustið 2008, enda vissi þá enginn, hvaðan á sig stóð veðrið, sem við sjáum nú skýrar en þá, að var fjárhagslegt fár, sem geisaði um heim allan og átti upptök sín annars staðar. En inn í raðir ráðvilltra borgara læddust óeirðaseggir, sumir grímuklæddir (og því ábyrgðarlausir). Þeir kveiktu elda fyrir framan Alþingishúsið, grýttu ráðamenn og sátu jafnvel um heimili þeirra. Ótrúlegt var líka að sjá, hvernig Hallgrímur Helgason rithöfundur réðst hamslaus af bræði á bíl Geirs Haardes forsætisráðherra við stjórnarráðið 21. janúar 2009 og reyndi að mölva í honum framrúðuna. Hann launaði ofeldi með ofbeldi (eins og skáldið Sigurður Pálsson orðaði það af öðru tilefni).
Mér var kennt í háskólanámi í heimspeki, að valið væri um tvær leiðir í mannlegum samskiptum, skynsemi eða ofbeldi. Háskólar ættu að vera virki skynseminnar. Siðmenning er ekkert annað en tilraun til þess að koma ofbeldi niður í lágmark, sagði spænski heimspekingurinn José Ortega y Gasset. Ofbeldismenn eru vissulega til með öllum þjóðum og eflaust jafnmargir hlutfallslega á Íslandi og annars staðar. Einkennilegra var hitt, þegar nokkrir háskólamenn gengu í janúar 2009 til liðs við óeirðaseggi og ofbeldismenn og töluðu á fundum þeirra. Eins og Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur hefur sýnt skilmerkilega í bók um Búsáhaldabyltinguna, var tilgangur margra mótmælenda að reyna með ofbeldi að ónýta lýðræðislegar ákvarðanir. Það er umhugsunarefni, að mótmælunum lauk snögglega í janúarlok 2009, þegar ríkisstjórnin fór frá. Hvað sem því líður, stóðust sumir háskólamenn ekki prófið þessa dimmu vetrardaga fyrir fimm árum. Þá settust nokkrir rykfallnir skóladúxar á tossabekk tilverunnar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. janúar 2014.)
5.8.2014 | 14:24
Hverjum Íslandsklukkan glymur
Einn af fastapennunum á blaði auðjöfursins (fyrrverandi?) Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Guðmundur Andri Thorsson, skrifar þar 6. janúar 2014 hugleiðingu um Íslandsklukkuna eftir Halldór Kiljan Laxness. Margt er þar vel sagt. En furðuleg er tilraun Guðmundar Andra til að særa Laxness upp úr gröf sinni og gera hann að liðsmanni sínum í nýliðinni kosningabaráttu. Guðmundur Andri segir, að íslensku þjóðinni hafi þá farist eins og Snæfríði Íslandssól og valið versta kostinn frekar en hinn næstbesta.
Þetta er fráleitt. Þau skötuhjú Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru ekki næstbesti kosturinn, heldur hinn versti. Í Íslandsklukkunni segir Arnæus við Jón Hreggviðsson, þegar hann fylgir honum til skips á Drageyri: Þú getur sagt þeim frá mér að Ísland hafi ekki verið selt; ekki í þetta sinn. Í Icesave-málinu gerðu þau Jóhanna og Steingrímur tilraun til að selja Ísland, en þeim tókst það ekki, því að þjóðin tók af þeim ráðin. Þau gerðu samninga við Breta og Hollendinga um að leiða Íslendinga í skuldafangelsi áratugum saman, því að þau héldu væntanlega, að þá gætu þau sjálf og lið þeirra orðið fangelsisstjórarnir.
Í samningaþrefinu í Icesave-málinu hefðu íslenskir ráðamenn átt að hlusta á það, sem Arnæus segir við Úffelen: Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armslengd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þótt tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvina þess. Betur verður þeirri stjórnlist, sem smáríki hljóta að temja sér, vart lýst.
Íslandsklukkan glymur ekki auðjöfrunum, sem höfðu hér öll völd árin 2004-2008, og því síður leigupennum þeirra. Hún glymur ekki heldur þeim Jóhönnu og Steingrími, sem síðan fengu völd í fjögur ár og ætluðu sér að greiða stórkostlegar skuldir, sem þjóðin hafði ekki stofnað til, vegna ímyndaðs stundarávinnings síns í innanlandsskærum. Hún glymur hins vegar íslenskri alþýðu, sem kom tvisvar í veg fyrir það í þjóðaratkvæðagreiðslum, að Ísland yrði selt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. janúar 2014.)
4.8.2014 | 12:48
Fréttatilkynning frá HÍ - Frétt í RÚV
Sleppum málvillunni (á meðan að). Sleppum líka ruglandinni (hvaða kjörum berjast hinir fátæku fyrir? sömu kjörum og áður eða sömu kjörum og hinir ríku?). En það er einkennilegt, ef Háskóli Íslands er allt í einu tekinn upp á því sem stofnun að halda því fram, að markaðshyggja (væntanlega íslensk þýðing á kapítalisma) geti ekki gengið til lengdar. Sú skoðun er að minnsta kosti mjög umdeild. Sósíalisminn er hruninn (nema í Norður-Kóreu, þar sem honum er haldið uppi með ógnarstjórn), en kapítalisminn lifir enn og virðist vera í fullu fjöri.
Síðan segir í fréttatilkynningunni: Dr. Meadows er þekktastur fyrir að vera meðhöfundur skýrslunnar Takmörk vaxtar (Limits to Growth) sem samin var fyrir Club of Rome árið 1972. Og síðar segir: Í skýrslunni Takmörk vaxtar (Limits to Growth) nýttu höfundar kvik kerfislíkön til að sýna afleiðingar samspils fólksfjölgunar og takmarkaðra náttúruauðlinda. Tilgangurinn var ekki að spá ákveðið um framtíðina heldur að kanna samskipti veldisvaxtar og takmarkaðra auðlinda. Nú, 40 árum eftir að skýrslan kom út, reynist líkanið hafa staðist og þau vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir eru of margir jarðarbúar, eyðilegging vistkerfa, mengun og þverrun náttúruauðlinda.
Svo er að sjá sem höfundur fréttatilkynningarinnar viti ekki, að bókin Limits to Growth kom út á íslensku 1974 undir heitinu Endimörk vaxtarins. Ég fer yfir það í nýjasta hefti Vísbendingar, (Líkan Meadows hrundi, ekki heimurinn, 2. tbl. 32. árg., bls. 23), hvernig spár Rómarklúbbsins í þessu riti hafa reynst. Mikla kokhreysti þarf til þess að halda því fram, eins og höfundur fréttatilkynningarinnar gerir, að líkan Meadows og félaga hans hafi staðist. Til þess þarf að endurskilgreina boðskap þeirra í Endimörkum vaxtarins.
Ég vissi ekki fyrir af fyrirlestri Meadows, svo að ég gat ekki sótt hann vegna annarra skuldbindinga. Ég hefði svo sannarlega verið fús til að halda uppi andmælum, hefði til mín verið leitað í tæka tíð. Rætt var við Meadows í Speglinum og í kvöldfréttum Sjónvarpsins kvöldið áður. Þar var Meadows ekki spurður einnar einustu gagnrýninnar spurningar, heldur fékk hann að láta gamminn geisa.
Í sjónvarpsviðtalinu sagðist Meadows muna, þegar olíutunnan kostaði þrjá dali, en nú kostaði hún um hundrað dali. Engin athugasemd var gerð. En þetta er augljós talnabrella: Færa verður dalina til sama gildis, ef á að bera þá saman. Í grein minni í Vísbendingu sýni ég þróun verðs á olíutunnu frá 1964 til 2012 á sambærilegu verðlagi (í árslok 2013). Olíutunnan kostaði til dæmis um 20 dali (á verðlagi ársins 2013) árið 1972, þegar Endimörk vaxtarins komu út á ensku, og hún var komin niður í 17 dali árið 1998, röskum aldarfjórðungi síðar, en rauk upp síðar.
Eiga þetta að heita vísindi? Eða mega menn segja hvað sem er, ef þeir eru andstæðingar kapítalismans?
3.8.2014 | 06:19
Þið eruð ekki þjóðin
Þegar Göran Persson, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra í tíu ár, kom til Íslands strax eftir bankahrunið haustið 2008, gaf hann Íslendingum það ráð, sem Svíar höfðu fylgt í miklum erfiðleikum 19911992, að snúa bökum saman og vinna sig út úr vandanum, en kjósa á eðlilegum tíma. Farin var önnur leið á Íslandi. Ráðherrar voru fyrst leiddir fyrir fjöldafundi, en síðan grýttir á götum og torgum úti, jafnframt því sem grímuklæddir menn hófu umsátur um heimili þeirra, og er það ljót saga. Ríkisstjórnin var hrakin frá völdum og kosið í flýti.
Á einum fyrsta fjöldafundinum, í Háskólabíói 24. nóvember 2008, á Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, að hafa svarað fyrir sig: Þið eruð ekki þjóðin! En hún sagði í raun og veru: Ég skil, að ýmsir hér í salnum vilja okkur burt. En ég er ekki viss um, að þeir, sem eru í salnum, séu þess umkomnir að tala fyrir þjóðina. Bauluðu þá nokkrir fundarmenn á hana, en klöppuðu hraustlega fyrir Þorvaldi Gylfasyni prófessor, sem setti fram margvíslegar kröfur í nafni þjóðarinnar.
Gat Þorvaldur talað fyrir þjóðina? Annað kom á daginn. Í kosningunum 2013 bauð Þorvaldur sig fram, af því að ráðamenn hefðu ekki hlustað á sig og þá um leið á þjóðina. Framboð hans hlaut samtals 4.658 atkvæði eða 2,46% greiddra atkvæða. 97,54% þeirra, sem greiddu atkvæði, afþökkuðu leiðsögn Þorvaldar. Á aðra mælikvarða var hlutfallið, sem Þorvaldur fékk, enn lægra, 1,96% af öllum á kjörskrá vorið 2013 og 1,45% af öllum Íslendingum þá á lífi.
Morgunblaðið smíðaði eftir þingkosningarnar 1949 hugtakið Þjóðina á Þórsgötu eitt, en þar á bæ var skrifstofa Sósíalistaflokksins, sem setti fram margar kröfur í nafni þjóðarinnar, þótt mikill meiri hluti Íslendinga hafnaði stefnu flokksins. Athugasemd Ingibjargar Sólrúnar á fundinum í Háskólabíói var sama eðlis. Þjóðin er ekki þúsund manna fundur fólks í geðshræringu. Þjóðin er miklu djúprættara og víðfeðmara hugtak en svo, að skrifstofufólk í Þórsgötu eða ræðumenn í Háskólabíói nái utan um það: Það skírskotar til þeirrar rösklega milljónar manna heildar, sem búið hefur á Íslandi í ellefu hundruð ár, hugsað, talað og skrifað á íslensku og átt sálufélag. Hugtakið vísar til varanlegra og viðurkenndra hagsmuna þessarar heildar á framfarabraut.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. janúar 2014.)
28.7.2014 | 12:08
Kamban, Kress og Lowrie
Sveinn Einarsson skrifar um skáldsöguna Ragnar Finnsson á bls. 187 í nýútkominni bók um Guðmund Kamban, sem Mál og menning gefur út: Helga Kress hins vegar nánast ber upp á Kamban ritstuld, þegar hún ber saman brot úr sögu hans og skáldsöguna My Life in Prison (Fangelsisár mín) eftir Donald Lowrie. Því er ekki að leyna að í tilvitnunum hennar eru sláandi líkindi. Allir þekkja hvernig höfundar viða að sér efni og hefur margoft verið bent á hvernig jafnólíkir höfundar og Shakespeare og Halldór Laxness eigna sér frásagnir og atburði, án þess að stuld megi kalla. Sennilega hefur Kamban þó lesið umrædda bók.
Öðru vísi mér áður brá. Ég notaði marga kafla úr æskuminningum Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans 2003 og umritaði þá, vann nýjan texta úr gömlum. Ég leyndi því hvergi, enda þekkti öll þjóðin þessar æskuminningar. Fyrir þetta var ég ásakaður um ritstuld og hörð hríð gerð að Háskólanum fyrir að reka mig ekki úr starfi. Meðal þeirra sem kröfðust þess að ég yrði rekinn var aðalyfirlesari Máls og menningar, Guðmundur Andri Thorsson, en það fyrirtæki gefur einmitt út bók Sveins. Munurinn á mér og þeim Kamban og Laxness var hins vegar, að ég reyndi hvergi að halda því fram eins og þeir, að þessir textar mínir væru sjálfstætt sköpunarverk. Ekki man ég til þess, að Sveinn Einarsson hafi komið mér til varnar. Öðru nær.
Sveinn Einarsson segir nú hinn hógværasti, að sennilega hafi Kamban lesið bók Lowries. En lauslegur samanburður sýnir vel, að heilu kaflarnir í Ragnari Finnssyni eru sóttir í bók Lowries. Helga Kress benti á þetta í bók um Kamban. En eins og hinn ágæti bókmenntamaður Sveinn Skorri Höskuldsson benti á í ritdómi um bók Helgu, var athugasemd um þessi rittengsl á milli Lowries og Kambans í aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Taldi hann Helgu seka um það, sem kallað er rannsóknarstuldur. Hún léti eins og hún hefði eftir sjálfstæða rannsókn komist að niðurstöðu, sem henni hefði verið bent á.
Helga mótmælti því harðlega, að hún hefði vitneskju sína um þessi rittengsl úr aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Og allir, sem þekkja Helgu, vita, að hún hefur gaman af ritum um þjáningar fanga, svo að ekkert er líklegra en hún hafi af sjálfsdáðum lesið bók Lowries og séð á augabragði rittengslin við bók Kambans.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2014.)
28.7.2014 | 05:20
Árið 2013 gert upp
Hér eru svör mín við spurningum Eyjunnar um árið 2013:
Sigurvegari ársins 2013?
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er hægt og örugglega að þokast upp á við. Hann getur sér traust og virðist vera í góðu jafnvægi. Sá erlendi þjóðarleiðtogi, sem helst vekur traust, er Angela Merkel í Þýskalandi.
Ekki sigurvegari ársins?
Jóhanna Sigurðardóttir beið mesta ósigur í kosningunum 2013, sem nokkur stjórnmálaleiðtogi á Íslandi hefur beðið. Eftir fjögurra ára stjórnarforsæti hennar féll fylgi Samfylkingarinnar úr 30% niður í 13%. Slíkt fylgishrun er einsdæmi í stjórnmálasögu Íslands og þótt víðar væri leitað.
Óvænta stjarna ársins?
Davíð Oddsson sem ræðumaður á frelsiskvöldverði RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, 7. október 2013, þegar rétt fimm ár voru liðin frá hinu fræga sjónvarpsviðtali við hann í miðju hruninu. Þegar varð uppselt á kvöldverðinn, og færa varð hann í sífellt stærra húsnæði og sífellt stærri sali, og sátu hann að lokum 141 maður.
PR-slys ársins?
Mál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Seðlabankanum, þar sem hann krafðist þess að fá hærri laun, því að um það hafi verið samið. Már var ráðinn seðlabankastjóri í skjóli nætur, og síðan launaði hann vinnuveitendum sínum með þessum málarekstri, sem varð að vísu sneypuför, því að hann tapaði málinu í Héraðsdómi og Hæstarétti. Már getur hins vegar illa predikað hófsemi í launagreiðslum eftir þetta fáránlega mál.
Það besta sem gerðist á árinu?
Dómur EFTA-dómstóllinn í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi féll Íslendingum í vil í janúar 2013. Íslenski málstaðurinn sigraði. Þetta var stórkostlegur sigur og endahnútur á Icesave-málið. Ísland varð hvorki Kúba norðursins né einhvers konar Norður-Kórea, eins og sumir háskólamenn höfðu haldið fram.
Síðan má nefna, að hagvöxtur á Íslandi fór fram úr áætlunum, eftir að hann hafði árin á undan verið minni en gert hafði verið ráð fyrir. Erlendis lítur út fyrir, að Bandaríkin og Bretland séu að rétta út kútnum. Eins og dr. Nils Karlsson frá Stokkhólmi lýsti í fyrirlestri í janúar 2013, hafa Svíar líka horfið af gömlu sænsku leiðinni, háum sköttum og víðtækri endurdreifingu tekna óháð framlagi, og eru nú feta sig inn á nýju sænsku leiðina, skattalækkanir og aukið svigrúm fyrir einkaframtak.
Það versta sem gerðist á árinu?
Hér innanlands er áhyggjuefni, hversu illa gengur að minnka umsvif ríkisins. Ótal opinberar stofnanir eru reknar, þar sem starfsmennirnir virðast ekki hafa neitt þarfara að gera en sitja fundi hver með öðrum.
Það var mikill missir að því, að Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 19791990, lést á árinu. Hún var ásamt Ronald Reagan í forystu Vesturveldanna, sem sigruðu í Kalda stríðinu. Jafnframt reisti hún Bretland úr rústum.
Hvað gerist 2014 (óskhyggja í bland við raunsæi)?
Íslendingar þurfa að taka aftur upp gott samband við Bandaríkin. Ríkisstjórnin þarf að taka upp nýja utanríkisstefnu og horfa á Atlantshafið og raunar heimshöfin sjö frekar en einblína á meginland Evrópu. Ríkisstjórnin verður að semja við kröfuhafa bankanna og létta gjaldeyrishöftunum af. Hún verður að lækka skatta til að örva atvinnulífið.
(Þessi svör birtust á gamlársdag 2013. Fróðlegt er að lesa þau sjö mánuðum síðar.)
28.7.2014 | 04:28
Þeim sást yfir
Haustið 1933 dvaldist Halldór Kiljan Laxness í Barcelona og fékkst við að skrifa Sjálfstætt fólk. Þar var þá staddur Jónas Jónsson frá Hriflu, og bauð sendifulltrúi Íslands í borginni, Helgi P. Briem, þeim Laxness og Jónasi á nautaat. Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur segir í ævisögu Kiljans, sem kom út 2004 (bls. 335): Þannig atvikast það að Jónas frá Hriflu og Halldór Laxness fara saman á nautaat, en því miður er ekkert vitað meira um þá ferð.
Ég fléttaði hins vegar inn í bók mína, Kiljan, um ævi Laxness 19321949, fjörlega frásögn um þetta sama nautaat, sem Jónas frá Hriflu hafði birt í Dvöl 1934. Frásögnin þótti svo skemmtileg, að hún var endurprentuð í bókinni Langt út í löndin 1944. Lýsti Jónas því með tilþrifum, hvernig naut ráku fyrst hesta riddara á hol í tvísýnum bardögum, en nautabaninn sjálfur birtist síðan í litklæðum og lagði sverð sitt í hjartastað hvers nautsins af öðru.
Nauðsynlegt er að þaulkanna heimildir til að komast hjá vandræðalegum yfirsjónum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég hlustaði á Lemúrinn á Rás eitt 15. október 2013, en þá lýsti Vera Illugadóttir afskekktum eyjum. Hún sagði meðal annars frá Galápagos-eyjum í Kyrrahafi, undan strönd Miðbaugsríkis, Ekvadors. Vera rakti örlagasögu, sem gerðist, eftir að ævintýrakona, sem titlaði sig barónessu, settist að á eynni Floreana 1932.
Það hefur hins vegar farið fram hjá umsjónarmönnum Lemúrsins, að ég birti í 3. hefti Þjóðmála sumarið 2013 ferðasögu mína frá Galápagos-eyjum í júní 2013. Þá hafði ég komist að því, að íslenskur maður hafði flust út í eyjarnar 1931 og borið þar beinin 1945. Hann var einmitt ein helsta frumheimildin um örlagasögu barónessunnar, sem ég endursegi stuttlega í Þjóðmálum. Virðist annar ástmaður barónessunnar hafa drepið hana og hinn ástmanninn, en orðið síðan sjálfur skipreka á eyðiey á leið til meginlandsins og látist úr þorsta ásamt fylgdarmönnum sínum. Bendi ég á, að Georges Simenon notar þessa viðburði sem uppistöðu í skáldsögunni Ceaux de la soif, sem best væri að þýða Hinir þyrstu, og hefur verið gerð sjónvarpsmynd eftir henni. Saga íslenska eyjarskeggjans, sem hét Valdimar Friðfinnsson, er ekki síður ævintýraleg, eins og ég hef minnst hér á.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2013.)
27.7.2014 | 23:41
Fundirnir sem ekki voru haldnir
Fræg eru ummæli Björns Sigfússonar háskólabókavarðar: Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert atriði. Stundum segja menn margt með því að þegja. Á sama hátt eru tveir fundir, sem boðaðir voru, en ekki haldnir, merkilegir í íslenskri stjórnmálasögu síðari tíma.
Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, MÍR, héldu venjulega hátíðarfund í Reykjavík á afmæli rússnesku byltingarinnar 7. nóvember, enda nutu samtökin ríflegs fjárhagsstuðnings að austan. Miðvikudagskvöldið 7. nóvember 1956 hafði slíkur fundur verið auglýstur á Hótel Borg, og ræðumaðurinn skyldi vera sjálfur Halldór Kiljan Laxness, sem hlotið hafði Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið áður. Hljóta dyggustu ráðstjórnarvinirnir í Sósíalistaflokknum eins og þeir Jón Rafnsson og Eggert Þorbjarnarson, starfsmenn Sósíalistaflokksins, og Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Dagsbrúnar, að hafa hlakkað til. En Kremlverjar gerðu þeim þann óleik að ráðast inn í Ungverjaland nokkrum dögum áður og kæfa í blóði uppreisn gegn kommúnistastjórninni. Hætt var þegjandi og hljóðalaust við fundinn.
Leið nú rösk hálf öld. Íslenskir vinstri menn höfðu haft húsbóndaskipti. Kremlverjar voru farnir veg allrar veraldar, en breski Verkamannaflokkurinn stjórnaði Bretlandi, hafði sett hryðjuverkalög á Íslendinga og krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur greiddu skuldir, sem nokkrir athafnamenn og erlendir viðskiptavinir þeirra höfðu stofnað til. Vildu vinstri menn láta undan þessum kröfum. Þegar því var tvívegis hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum, settu þeir traust sitt á, að EFTA-dómstóllinn liðsinnti þeim. Úrskurðinn átti að kveða upp 28. janúar 2013. Samfylkingin auglýsti fund miðvikudagskvöldið 30. janúar á Hallveigarstíg, þar sem Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, skyldi vera ræðumaður. En vinstri mönnum að óvörum vann Ísland málið. Þá var birt þessi óborganlega auglýsing: Ágæti félagi. Áður auglýstum fundi um Icesave-dóminn sem halda átti á Hallveigarstíg 1 annað kvöld, miðvikudagskvöldið 30. janúar, er frestað vegna þess að húsnæðið á Hallveigarstíg er þétt setið þessa dagana vegna landsfundarverkefna og undirbúnings sem honum tengist.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2013.)
27.7.2014 | 18:51
Ástarsaga Gunnars Karlssonar
Fyrir skömmu kom út hefti af tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu, og þar er ritdómur eftir mig um bók Gunnars Karlssonar, fyrrv. prófessors (og gamals kennara míns í sagnfræði), um ástir Íslendinga að fornu. Ritdómurinn er lofsamlegur, eins og vera ber, en ég hjó sérstaklega eftir kenningu Gunnars um samkynhneigð Guðmundar ríka, um leið og ég saknaði frambærilegs greinarmunar á Guðrúnu Ósvífursdóttur og Hallgerði Langbrók. Héðan má hlaða dómnum upp:
https://www.academia.edu/7491716/Leyfileg_ast_og_oleyfileg
27.7.2014 | 17:34
Þau sögðu það aldrei
Franski rithöfundurinn Voltaire var kunnur að andríki, svo að margt er eignað honum, sem hann á ekki. Ein frægasta setningin er: Ég er ósamþykkur því, sem þú segir, en ég mun fórna lífinu fyrir rétt þinn til að segja það. Voltaire sagði þetta aldrei, heldur er þetta endursögn S. G. Tallentyres (sem hét réttu nafni Evelyn Beatrice Hall) á skoðun Voltaires á því, er bókin Sálin eða DEsprit eftir Helvetius var brennd opinberlega árið 1759.
Maríu Antoinettu, drottningu Frakklands fram að byltingu, hafa verið eignuð fleyg orð, þegar henni var sagt, að þegna hennar vantaði brauð: Þá geta þau borðað kökur. Hvergi eru til neinar heimildir um, að drottning hafi sagt þetta. Hins vegar hefur heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau nánast sömu orð eftir ónafngreindri prinsessu í Játningum sínum, VI. bók, en þær voru ritaðar, nokkrum árum áður en María Antoinetta kom fyrst til Frakklands.
Ein kunnustu orðin, sem eignuð eru manni ranglega, tengjast líka frönsku stjórnarbyltingunni, sem hófst 14. júlí 1789 með árásinni á Bastilluna í París. Þegar Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína með fríðu föruneyti 1972, var Zhou Enlai, forsætisráðherra Kína, spurður, hvað honum fyndist um áhrif frönsku stjórnarbyltingarinnar. Það er of snemmt að segja til um það, svaraði Zhou. Þetta höfðu margir til marks um djúpa visku hins kínverska stjórnmálamanns, næstráðanda Maós. Talið var, að Kínverjar væru spekingar miklir, sem hugsuðu til langs tíma ólíkt Vesturlandamönnum.
Í ljós hefur komið, að þetta er rangt, eins og dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðingur benti mér fyrstur á, en má meðal annars sjá í Financial Times 10. júní 2011. Kínverskar heimildir sýna, að um var að ræða samtal Zhous við öryggismálaráðgjafa Nixons, Henry Kissinger, og Zhou var að svara spurningu um stúdentaóeirðirnar í París 1968, sem sumir æskumenn kölluðu þá byltingu. Bandarískir sendimenn í föruneyti Nixons staðfesta þetta. Verður góð saga hér að víkja fyrir boðorði Ara fróða um að hafa það jafnan, sem sannara reynist.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2013, að mestu leyti sóttur í bók mína, Kjarna málsins, sem fæst í góðum bókabúðum og er tilvalin gjöf á öllum árstímum.)