Furðu lostinn yfir Þórólfi

Ég les, að útgerðarmenn hafi verið skelfingu lostnir yfir Þórólfi Matthíassyni, þegar vinstri stjórnin 2009–2013 fól honum einhvers konar eftirlit með þeim. Það er skiljanlegt. Þórólfur er einhver minnsti vinur útgerðarmanna, sem nú er uppi.

Ég hef hins vegar aldrei verið skelfingu lostinn yfir Þórólfi. Ég var hins vegar einu sinni furðu lostinn yfir honum. Við sátum þrír í mestu makindum á kaffistofu kennara í Odda 23. október 2008, Sigurður Júlíus Grétarsson sálfræðingur, Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur og ég, og skröfuðum um nýútkomnar bækur, þar á meðal rit Guðjóns Friðrikssonar um forsetann. Þá kom Þórólfur Matthíasson inn á kaffistofuna, gneypur á svip. Hann sneri baki í okkur, á meðan hann fékk sér kaffi, gekk síðan snúðugt að dyrunum á kaffistofunni, sneri sér við eitt andartak og öskraði á mig af lífs og sálar kröftum: „Djöflastu til að segja af þér, helvítið þitt!“ Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans, og nokkra næstu morgna á undan hafði Þórólfur þráspurt mig, þegar hann rakst á mig á göngum Odda eða á kaffistofunni, hvenær ég ætlaði að senda afsagnarbréfið, en ég aðeins brosað kurteislega við og engu svarað. Eftir þetta öskur á mig skálmaði Þórólfur út. Við Sigurður Júlíus og Vilhjálmur þögnuðum þrír og litum undrandi hver á annan. Hverju er við þetta að bæta? Síðan héldum við áfram skrafi okkar.

Hitt er rétt, að Þórólfur reyndi að hræða líftóruna úr íslensku þjóðinni í Icesave-deilunni. Þá hafði Svavar Gestsson gert samning við Breta og Hollendinga, sem hefði falið í sér líklegar greiðslur til þeirra að upphæð 2,9 milljarða punda, og af því voru 2,2 milljarðar vaxtagreiðslur. (Þetta voru líklegar greiðslur, en tekin var ábyrgð á miklu hærri upphæð.) EFTA-dómstóllinn komst sem kunnugt er að sömu niðurstöðu og rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu, að íslenska ríkið hefði ekki borið neina lagalega ábyrgð á viðskiptum einkaaðila, Landsbankans annars vegar og erlendra innstæðueigenda hins vegar. Þórólfur studdi hins vegar samninginn dyggilega og kom fram í sjónvarpi:

 

Ég hef sem fyrr engu við að bæta. Þórólfur talar fyrir sig sjálfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband