5.6.2015 | 14:40
Ferð til Nýju Jórvíkur
Þótt sérviska þyki á Íslandi að kalla New York Nýju Jórvík, laga margar þjóðir þetta staðarnafn að tungum sínum. Portúgalir segja til dæmis Nova Iorque og Spánverjar Nueva York. Í öndverðum október árið 2014 átti ég einu sinni sem oftar leið um þessa borg borganna, einn 54 milljóna árlegra gesta. Borgin er stundum kölluð stóra eplið (big apple), eftir að bandaríski rithöfundurinn Edward S. Martin birti bók um hana 1909. Kansas-búar sjá gráðuga borg í Nýju Jórvík, skrifaði Martin þá. Þeir telja, að stóra eplið drekki í sig óeðlilega mikið af þjóðarsafanum. Margir aðrir hafa haft orð á lífsgæðakapphlaupi borgarbúa, græðgi þeirra og ágirnd, til dæmis Einar Benediktsson:
Mér fannst þetta líf allt sem uppgerðarasi
og erindisleysa með dugnaðarfasi.
Þeir trúa með viti í Vesturheim.
Viltu sjá þjón fyrir herrum tveim,
þá farðu í Fimmtutröð.
Fimmtatröð var Fifth Avenue, en herrarnir tveir Guð og mammón, hinn sýrlenski guðs auðsins. Einar vék einnig heldur óvirðulega að siðum og háttum borgarbúa:
Og jórturleðrið er jaxlað hraðar
í Jórvík nýju en annars staðar.
Raunar er miðstöð fjármálaheimsins ekki á Fimmtutröð, heldur í Garðastræti, eins og íslenskulegast væri að nefna Wall Street suðaustarlega á Manhattan-eyju. Skrifa ég stundum fyrir Garðastrætisblaðið, Wall Street Journal.
Morgunblaðið skýrði frá því 8. júlí 1939, að Fiorello La Guardia, borgarstjóri Nýju Jórvíkur 19331945, hafi mælt í ræðu við opnun Íslandsdeildar Heimssýningarinnar vorið 1939: Stærsta borg heims flytur mestu þjóð heims kveðju sína. Eitthvað kann að vera hér ofsagt, nema ef borgarstjórinn hefur átt við það, að líklega eru Íslendingar sú þjóð heims, sem er mest þjóð, fullnægir best hefðbundnum skilyrðum fyrir því. Og vissulega er allt stórt í sniðum í Nýju Jórvík. Eggert Stefánsson söngvari spurði, þegar hann sigldi inn í hafnarmynnið og sá styttuna af frelsisgyðjunni: Hvur er þessi stóra stelpa? Eftir vesturför sagði Eiríkur Ketilsson heildsali við félaga sína í kaffi á Hótel Borg: Blessaðir verið þið, New York er alveg ómöguleg borg. Hugsið ykkur að labba niður Fifth Avenue, rekast á 300 manns og geta ekki rægt einn einasta. En líklega er þetta einn helsti kosturinn á Nýju Jórvík: Þar er ekki spurt, hvað maður hafi gert, heldur hvað hann geti gert.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. desember 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook
5.6.2015 | 05:52
Russell á Íslandi
Breski heimspekingurinn Bertrand Russell var einn merkasti hugsuður tuttugustu aldar, stærðfræðingur, ritsnillingur, háðfugl, andófsmaður, jarl með seturétt í lávarðadeildinni, andkommúnisti, guðleysingi og friðarsinni. Hann hafði yndi af að ganga gegn viðteknum viðhorfum og sat tvisvar í breskum fangelsum, fyrst fyrir andstöðu sína við þátttöku Breta í fyrri heimsstyrjöld, sem ég tel vel ígrundaða, síðan fyrir ólöglegar mótmælaaðgerðir við kjarnorkuvopnavörnum Vesturveldanna, en þær varnir voru að flestra dómi nauðsynlegar. Þegar ég vann á dögunum að lítilli bók með greinum Russells, sem birtust í íslenskum blöðum á sínum tíma um kommúnisma, rakst ég á skemmtilega teikningu af honum, sem Halldór Pétursson hafði gert fyrir Samvinnuna. Ég tók líka eftir því, að Russell minntist einu sinni á Ísland í ritum sínum. Það var í greininni Outline of Intellectual Rubbish, Frumdráttum þvættings, sem birtist fyrst 1943. Þar skrifaði hann: Haldi einhver því fram, að tveir og tveir séu samanlagt fimm eða að Ísland liggi við miðbaug, þá finnum við frekar til vorkunnsemi en reiði.
Ég veit aðeins um einn Íslending, sem hlustað hefur á Russell sjálfan, þótt eflaust hafi þeir verið fleiri. Hann var dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Russell var félagi á Þrenningargarði (Trinity College) í Cambridge 1944-1949, en Jóhannes stundaði um þær mundir nám í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, LSR, sem fluttist í stríðinu til Cambridge. Þótti Jóhannesi mikið til Russells koma, eins og hann lýsti í viðtali við mig í sjónvarpsþættinum Maður er nefndur. Jóhannes skrifaði líka fróðlega grein um Russell í Lesbók Morgunblaðsins 1951, skömmu eftir að Russell hafði fengið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Þjóðviljinn var hins vegar lítt hrifinn af Russell á þeim árum vegna andkommúnisma hans og sagði í forsíðufrétt um verðlaunaveitinguna, að Russell væri boðberi lauslætis og kjarnorkustríðs.
Russell naut mikillar virðingar á Íslandi, og þýddi Matthías Jochumsson skáld eina fyrstu greinina, sem eftir hann birtist í íslensku tímariti, í Eimreiðinni 1917. Margar aðrar ritgerðir og greinar voru þýddar eftir hann og jafnvel smásaga í Vikunni. Tvær bækur Russells hafa komið út á íslensku, Uppeldið (On Education) 1937 og Þjóðfélagið og einstaklingurinn (Authority and the Individual) 1951, og tvö styttri kver, Að höndla hamingjuna (The Conquest of Happiness) 1997 og Af hverju ég er ekki kristinn (Why I am Not a Christian) 2006. Russell var raunar eitt sinn spurður, hverju hann myndi svara Guði, stæði hann andspænis honum eftir andlátið og yrði að skýra trúleysi sitt. Russell var ekki lengi að hugsa sig um: Ónóg gögn.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. desember 2014. Nú hef ég raunar komist að því í grúski mínu, að séra Sigurður Einarsson, sem oftast er kenndur við Holt, hlýddi á fyrirlestur Russells í Kaupmannahöfn 1936, og varð mjög hrifinn.)
4.6.2015 | 19:34
Veruleikinn að baki myndunum
Víetnam-stríðinu lauk með því, að kommúnistar í Norður-Víetnam sviku friðarsamninga, sem þeir höfðu gert við Bandaríkjastjórn í París 1973, réðust á Suður-Víetnam og hertóku 1975, á meðan Bandaríkjaher hafðist ekki að, enda hafði þingið bannað forsetanum að veita þar frekari aðstoð. Víetnam-stríðið var undir lokin mjög umdeilt. Ein ástæðan er, hversu opin Bandaríkin eru: Fréttamenn gátu lýst hörmungum stríðsins frá annarri hliðinni, en enginn fékk að skoða það frá hinni. Tvær áhrifamiklar ljósmyndir eru jafnan birtar úr stríðinu.
Önnur myndin var frá hinni misheppnuðu Tet-sókn kommúnista í ársbyrjun 1968. Hún var af lögreglustjóranum í Saigon, Nguyen Ngoc Loan, að skjóta til bana kommúnista, Nguyen Van Lem, á götu í borginni. Lem var talinn hafa stjórnað dauðasveitum kommúnista. Ljósmyndarinn, Eddie Adams, fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir myndina, en hafnaði þeim, því að honum fannst birting myndarinnar hafa haft óæskileg áhrif. Hann bað Loan lögreglustjóra síðar afsökunar á þeim skaða, sem hann hefði valdið honum og fjölskyldu hans. Loan flýði til Bandaríkjanna eftir hertöku Suður-Víetnams 1975 og opnaði pítsustað í úthverfi Washington-borgar. Hann rak staðinn til 1991, þegar uppskátt varð um fortíð hans. Loan andaðist 1998. Komið hefur út bók um hann og Tet-sóknina eftir James S. Robbins.
Hin ljósmyndin var frá júní 1972. Íbúar í þorpinu Trang Bang voru á flótta undan kommúnistum þegar flugmaður í flugher Suður-Víetnams kom auga á þá, hélt, að þeir væru kommúnistar, og varpaði napalm-sprengjum á hópinn. Eldur læstist í föt níu ára stúlku, Kim Phuc, svo að hún reif sig úr þeim og hljóp skelfingu lostin, nakin og hágrátandi út í buskann ásamt öðrum börnum í þorpinu. Þá smellti ljósmyndarinn Nick Ut mynd af þeim, sem flaug á augabragði um heimsbyggðina. Eftir að Ut tók myndina aðstoðaði hann Kim við að komast á sjúkrahús. Fyrst var henni vart hugað líf, en eftir tveggja ára dvöl á sjúkrahúsinu og sautján skurðaðgerðir sneri hún heim til sín. Eftir að kommúnistar hertóku Suður-Víetnam notuðu þeir Kim óspart í áróðri. Hún hugsaði sitt. Hún fékk leyfi til að stunda nám í Havana á Kúbu, þar sem hún hitti landa sinn. Þau ákváðu að ganga í hjónaband og flugu til Moskvu 1992 í brúðkaupsferð. Á heimleiðinni var komið við í Nýfundnalandi. Þar gengu hjónin frá borði og báðu um hæli í Kanada. Þau búa nú í Ontario-fylki og eiga tvö börn. Kim hefur hitt skurðlæknana, sem björguðu lífi hennar forðum, og ljósmyndarann, sem hafði fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir mynd sína. Komið hefur út bók um Kim Phuc eftir Denise Chong.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. nóvember 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.6.2015 kl. 13:18 | Slóð | Facebook
4.6.2015 | 16:25
Frænka Jörundar hundadagakonungs
Á þingi alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pèlerin samtakanna, í Hong Kong haustið 2014 var lokahófið föstudaginn 5. september á eyju nálægt borginni, Lamma, og sigldum við þangað. Mér var þar skipað til borðs hjá höfðinglegri, hvíthærðri konu, og við tókum tal saman. Hún var frá Sviss og heitir Annette Wagnière, fædd Perrenoud. Þegar hún heyrði, að ég væri frá Íslandi, sagði hún mér, að frændi sinn hefði rænt þar völdum árið 1809, Jørgen Jørgensen, sem við Íslendingar nefnum oftast Jörund hundadagakonung. Viðurnefni Jörundar stafar af því, að stjórnartími hans 25. júní til 22. ágúst 1809 fór að mestu leyti saman við hundadaga, 13. júlí til 23. ágúst, en hundadagar draga nafn sitt af hundastjörnunni, Canicula eða Síríus, björtustu stjörnu stjörnumerkisins Stórahunds.
Jörundur fæddist í Kaupmannahöfn 29. mars 1780, sonur konunglegs úrsmiðs, sem einnig hét Jørgen Jørgensen, og konu hans, Anna Lethe Bruun. Íslendingar þekkja ævintýri hans, meðal annars af bókum Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar og Helga P. Briems sendiherra og ritgerðum Önnu Agnarsdóttur prófessors. Eftir umhleypingasama ævi bar Jörundur beinin hinum megin á hnettinum, á eyjunni Tasmaníu 20. janúar 1841. Var hann þá kvæntur, en barnlaus.
Sessunautur minn í lokahófinu er komin af eldri bróður Jörundar, Urban Jørgensen. Hann fæddist 5. ágúst 1776 í Kaupmannahöfn og lést þar 14. maí 1830. Faðir hans sendi hann tvítugan að aldri í námsferð til Sviss. Þar kynntist hann kunnum úrsmið, Jacques-Fréderic Houriet, kvæntist dóttur hans, Sophie-Henriette, og eignuðust þau hjón tvo syni. Annar þeirra, Jules Frederik, ílentist í Sviss. Hann fæddist 27. júlí 1808, varð vellauðugur og smíðaði mjög dýr og vegleg úr, sem úrasafnarar sækjast enn eftir. Hann var góður vinur ævintýraskáldsins H. C. Andersens, sem heimsótti hann oft á herragarð hans í Sviss, Le Châtelard í Les Brenets. Jules reisti útsýnisturn við frönsku landamærin, nálægt húsi sínu í Les Brenets, og er hann kenndur við hann, Jürgensen-turninn.
Jules Jürgensen lést 17. desember 1877. Ein dóttir hans, Sophie (18401917), giftist úrsmiðnum Auguste Perrenoud, og getur H. C. Andersen þeirra hjóna í dagbókum sínum. Sonur þeirra var Georges Henri Perrenoud (18671927), sem hefur líklega haft sömu ævintýralöngun í blóðinu og frændi hans Jörundur, því að hann fluttist til Síle. Sonur hans var Claude Alphonse Maurice Perrenoud (19102003), sem sneri aftur til Sviss, og er Annette dóttir hans. Urban Jörundarbróðir var því langalangalangafi hennar. Hún fæddist 26. september 1941 og giftist 1962 svissneskum iðnrekanda, Daniel Wagnière, og sat hann með okkur við borðið, virðulegur öldungur með gleraugu. Eiga þau hjón fjögur börn. Þótt langt sé um liðið, varðveitir hinn svissneski leggur Jørgensen-ættarinnar minninguna um ævintýramanninn á Íslandi, bróður Urbans, ættföður þeirra.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. nóvember 2014.)
4.6.2015 | 09:05
Steinólfur í Fagradal
Maður var nefndur Steinólfur Lárusson og bjó í Fagradal á Skarðsströnd í Dölum. Hann fæddist 26. júní 1928 og hóf ungur búskap þar vestra með foreldrum sínum. Steinólfur varð snemma þjóðsagnahetja í sveitum, og hefur raunar verið skrifað um hann bókarkver. Hann var mikill að vexti og burðum, orðheppinn, skrafhreyfinn og hláturmildur, og voru hlátrar hans stórir eins og maðurinn sjálfur. Kvaðst hann vera af galdramönnum kominn. Eitt sinn á sínum yngri árum var Steinólfur á ferð í Reykjavík með fleira fólki, og varð honum gengið niður Bankastræti. Þá sá hann í fyrsta skipti á ævinni dverg, sem gekk beint í flasið á honum. Steinólfur varð svo hissa, að hann þreif dverginn upp, svo að hann gæti horft í andlit honum. Fyrst varð honum orðfall, en síðan taldi hann sig þurfa að ávarpa dverginn, og hið eina, sem honum datt í hug að segja, var: Hvað er klukkan? Síðan setti hann dverginn niður, og tók sá á rás út í buskann sem vonlegt var. (Minnir þetta á annað atvik, þegar maður var spurður: Eruð þér kvæntir? og hann svaraði: Nei, en ég hef verið í Hrísey.)
Þrátt fyrir skamma skólagöngu var Steinólfur í Fagradal prýðilega að sér og áhugamaður um umbætur í búskap. Fylgdu jörð hans dúntekja og selveiðar, og einnig hafði hann áhuga á fiskeldi, nýtingu vetnis, vindorku, jarðhita, graskögglagerð og þurrkun á þangi. Skrifaði hann ráðamönnum fræg bréf um ýmis mál. Eitt þeirra var 1984 til sýslumannsins í Dalasýslu um það, hvernig nýta mætti hið furðulega dýr trjónukrabba. Kvað hann það hafa augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa, og getur dýrið horft aftur fyrir sig og fram og haft yfirsýn fyrir báða sína enda jafntímis; leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins. Birtist þetta bréf í Morgunblaðinu 1992. Annað bréf skrifaði Steinólfur 1990 samgönguráðherra, gullkreistara ríkisins, um það, hversu brýnt væri að smíða brú yfir Gilsfjörð, og var það bréf kallað Gilsfjarðarrollan. Eftir að heilsan bilaði, fluttist Steinólfur árið 2004 á dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal. Þegar hann var nýkominn þangað, ávarpaði hann einu sinni sem oftar ráðskonuna hressilega og spurði, hvað hún ætlaði nú að hafa í matinn í hádeginu. Snitsel, svaraði hún. Þá sagði Steinólfur öldungis hlessa: Snitsel? Snitsel! Ég hef étið landsel og útsel. En snitsel, það kvikindi hef ég aldrei heyrt um, hvað þá étið. Steinólfur lést 15. júlí 2012.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014.)
3.6.2015 | 16:51
Brot úr Berlínarmúrnum
Hinn 9. nóvember 2014 er liðinn aldarfjórðungur frá hinum miklu tímamótum, er Berlínarmúrinn hrundi, en þá féllu sósíalistaríkin um koll og Kalda stríðinu milli Ráðstjórnarríkja Stalíns og Vesturveldanna lauk með fullum sigri Vesturveldanna. Í Kalda stríðinu hafði Berlín verið skipt í hernámssvæði Stalíns annars vegar og Vesturveldanna hins vegar. Múrinn var reistur fyrirvaralaust 13. ágúst 1961 í því skyni að stöðva fólksflótta frá Austur-Þýskalandi. Þótt austur-þýskir sósíalistar kenndu sig við alþýðuna, átti alþýðan sjálf enga ósk heitari en sleppa undan þeim og fá að vinna fyrir sjálfa sig og ekki fyrir ríkið, jafnvel þótt henni væri tilkynnt, að með því að vinna fyrir ríkið væri hún að vinna fyrir sjálfa sig. Vörðunum austan megin múrsins var skipað að skjóta alla, sem reyndu að komast yfir, og er talið, að hátt í hundrað manns hafi þar látið lífið.
Tveir Bandaríkjaforsetar héldu frægar ræður við Berlínarmúrinn. John F. Kennedy sagði 26. júní 1963: Ich bin ein Berliner. Með því ætlaði hann að segja, að hann væri í anda Berlínarbúi, styddi sameiningu borgarinnar og frelsi borgarbúa. Eðlilegra hefði að vísu verið að segja: Ich bin Berliner, því að ein Berliner er í þýsku oftast notað um kökusnúð. Þjóðverjar brostu í kampinn, en tóku viljann fyrir verkið og voru forsetanum þakklátir fyrir hina karlmannlegu hvatningu. Ronald Reagan sagði 12. júní 1987, um leið og hann hnyklaði brúnir og hækkaði röddina: Mr. Gorbachev, tear down this wall. Herra Gorbatsjov, jafnaðu þennan múr við jörðu. Það féll hins vegar í hlut Berlínarbúa sjálfra að jafna múrinn við jörðu, eftir að ljóst varð, að Gorbatsjov myndi ekki halda hinni óvinsælu sósíalistastjórn uppi með hervaldi, enda hafði hann hitt fyrir ofjarl í Reagan, sem lét sér ekki nægja neina kökusnúða, heldur breytti með auknum varnarviðbúnaði karlmennsku orðsins í manndóm verksins.
Ég fékk skemmtilega gjöf á fertugsafmælinu 19. febrúar 1993, þegar fjórir vinir, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, færðu mér brot úr Berlínarmúrnum á litlum steinpalli með áletruðum silfurskildi, og hafði Kjartan útvegað sér brotið í Berlín. Við samfögnuðum þýskri alþýðu, skáluðum og rifjuðum upp, að tuttugu árum áður, 1973, hafði Davíð, ungur laganemi, skrifað grein í Morgunblaðið til að andmæla sósíalista einum, Þorsteini Vilhjálmssyni eðlisfræðingi. Þeir höfðu báðir þá um sumarið farið austur fyrir múr, til Austur-Berlínar, og Þorsteinn síðan talað opinberlega um, hversu opnir og óþvingaðir íbúarnir þar væru. Íslensk tunga kann líklega ekki herfilegri öfugmæli um líf íbúanna í Austur-Berlín. Hefur Þorsteinn aldrei tekið þessi orð sín aftur eða sýnt iðrunarmerki, ólíkt öðrum sósíalista, Tryggva Sigurbjarnarsyni verkfræðingi, sem skrifaði vissulega 1961 til varnar Berlínarmúrnum í málgagn sósíalista, Þjóðviljann, en sagði í viðtali við Morgunblaðið 2013, að enginn saknaði Austur-Þýskalands.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. nóvember 2014.)
3.6.2015 | 12:32
Einar dansaði við Herttu
Á alþjóðamótum dansaði Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins 1939-1968, ætíð við finnska kommúnistann Herttu Kuusinen, þegar því varð við komið. Var hann eflaust jafnfimur við það og að dansa hverju sinni eftir línunni frá Moskvu. Hertta fæddist í finnsku smáþorpi 1904 og var dóttir Ottos V. Kuusinens, eins þægasta þjóns Stalíns. Kuusinen var forsætisráðherra leppstjórnar, sem mynduð var í bænum Terijoki, þegar Rauði herinn réðst inn í Finnland 30. nóvember 1939. Finnar vörðust svo frækilega, að Kremlverjar hættu við að hertaka landið. Eftir það minntust Kremlverjar ekki á Terijoki-stjórnina.
Hertta gerðist átján ára starfsmaður Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu. Ári síðar giftist hún finnskum hermanni, Tuure Lehén. Hún kenndi um skeið dulmálssendingar í þjálfunarbúðum fyrir byltingarmenn í Moskvu, en þær sóttu nokkrir ungir íslenskir kommúnistar. Í sömu búðum kenndi maður hennar skipulagningu óeirða. Hertta skildi við hann 1933 og fór skömmu síðar á laun til Finnlands í því skyni að stunda undirróður. Hún var handtekin þar 1934, sat í fangelsi í fimm ár, starfaði neðanjarðar 1939-1941, en var aftur handtekin 1941. Fyrrverandi eiginmaður hennar, Tuure Lehén, var innanríkisráðherra í hinni skammlífu leppstjórn Kuusinens (þótt Þjóðviljinn fullyrti raunar 16. desember 1949, að Lehén væri ekki til).
Hertta var látin laus eftir sigur Rauða hersins í stríðinu 1941-1944 við Finna, en eftir það hófu Kremlverjar afskipti af finnskum stjórnmálum. Kommúnistar stofnuðu Finnska Alþýðubandalagið með nokkrum jafnaðarmönnum og sakleysingjum, og Hertta varð þingmaður og ráðherra. Hún giftist 1945 einum leiðtoga kommúnista, Yrjö Leino. Hann varð um þær mundir innanríkisráðherra. Næstu ár undirbjuggu kommúnistar valdarán. Hægri sinnaðir lögregluforingjar voru reknir og kommúnistar ráðnir í stað þeirra. En efasemdir sóttu á Leino. Finninn í honum varð loks kommúnistanum yfirsterkari, og hann varaði yfirmenn finnska hersins við vorið 1949. Þeir gerðu ráðstafanir til að verjast valdaráni. Leino hætti þátttöku í stjórnmálum, brotinn maður, og Hertta skildi við hann 1950. Hún lést í Moskvu 1974.
Hefði valdaráni kommúnista ekki verið afstýrt í Finnlandi, þá hefðu þau Einar Olgeirsson og Hertta Kuusinen eflaust haldið glaðbeitt áfram að dansa saman. En lítið hefði þá orðið um dans í Finnlandi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. nóvember 2014.)
2.6.2015 | 21:17
Vetrarstríðið og kinnhestur Hermanns
Eftir að ég sótti norræna sagnfræðingamótið í Joensuu í Finnlandi í ágúst 2014 og skoðaði gamlar vígstöðvar við smábæinn Ilomantsi, rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér um samskipti Íslendinga og Finna. Stalín réðst á Finnland 30. nóvember 1939, þremur mánuðum eftir að þeir Hitler höfðu samið um að skipta Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Féll Finnland í hlut Stalíns. Hann taldi sig geta lagt landið undir sig á örfáum dögum, enda sendi hann fram 450 þúsund hermenn. Hann skipaði jafnframt finnska leppstjórn í bænum Terijoki, skammt frá landamærunum. Otto V. Kuusinen var forsætisráðherra, en íslenskir kommúnistar þekktu hann vel frá fyrri tíð, því að hann sá ásamt öðrum oft um Norðurlandamál í Alþjóðasambandi kommúnista í Moskvu. Íslenskir kommúnistar könnuðust líka við dóttur hans og tengdason, Herttu Kuusinen og Tuure Lehén. Þau hjón höfðu bæði kennt í þjálfunarbúðum í Moskvu, sem um tuttugu íslenskir kommúnistar sóttu fyrir stríð. Hertta leiðbeindi nemendum í að senda dulmálsskeyti, en maður hennar lýsti því, hvernig skipuleggja skyldi óeirðir, og skrifaði hann strangleynilega handbók um það. Varð Tuure Lehén, sem var sænskumælandi Finni, innanríkisráðherra í leppstjórn Kuusinens.
Íslendingar fylgdust vel með tíðindum af finnsku vígstöðvunum. Þegar leið fram í mars 1940, urðu Finnar að sætta sig við flesta skilmála Stalíns, en hetjuleg barátta þeirra varð þó til þess, að Kremlverjar hættu við hertöku landsins. Eftir að fregnir bárust til Íslands af raunum Finna, rann mörgum í skap, ekki síst við íslenska kommúnista, sem studdu Stalín ótrauðir. Hermann Jónasson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, spjallaði við nokkra aðra þingmenn fimmtudaginn 14. mars 1940 inni í svonefndu ráðherraherbergi. Örlög Finna bar á góma, og var þungt í mönnum. Dyrnar inn í herbergið voru opnar, og stóð einn þingmaður kommúnista, Brynjólfur Bjarnason, í gættinni og lagði við hlustir. Hermann kvað íslenska kommúnista þæga þjóna Stalíns. Þeir ættu því að taka sér viðurnefnið Kuusinen, til dæmis Brynjólfur Bjarnason Kuusinen og Einar Olgeirsson Kuusinen. Brynjólfur reiddist, gekk inn í herbergið og sagði Hermanni, að hann þyrfti ekki að dreifa neinum lygasögum. Honum yrði ekki trúað, enda væri hann landsfrægur fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann vatt sér þá að Brynjólfi og laust hann kinnhesti yfir borð, sem þar stóð á milli þeirra.
Brynjólfur endurgalt ekki kinnhestinn, enda var Hermann gamall glímukappi og rammur að afli. Urðu nokkur blaðaskrif um þennan óvenjulega viðburð, en engin eftirmál opinberlega. Leppstjórn Kuusinens hvarf úr sögunni strax eftir friðarsamninga Finna og Kremlverja. En ríkisstjórn gat Hermann ekki myndað með kommúnistum, fyrr en eftir að Brynjólfur var horfinn af þingi 1956.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. október 2014.)
26.11.2014 | 18:58
Skemmtilegt spjall um Sjálfstætt fólk
Miðvikudagskvöldið 19. nóvember tók ég þátt í spjallfundi um Sjálfstætt fólk Halldórs Kiljans. Hann fór fram í Stúdentakjallaranum milli 17 og 18.30, og vorum við framsögumenn Illugi Jökulsson, Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur, Símon Birgisson leikhúsfræðingur og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri. Sögðu þeir Símon og Þorleifur Örn frá hugleiðingum sínum undirbúningi sínum undir fyrirhugaða leikgerð verksins á fjölum Þjóðleikhússins, en við Dagný og Illugi ræddum um söguhetjur verksins.
Ég benti á þrennt, sem hefur ekki vakið mikla athygli í greiningu á verkum Laxness. Eitt er ástarþríhyrningur, sem er ekki settur saman úr tveimur konum og einum karli eða öfugt, heldur úr fremur þroskuðum og rosknum karli, sem keppir ótrauður að voldugri hugsjón, ungri stundum kornungri stúlku sem truflar hann um stund í þessari keppni, og hugsjóninni, sem að lokum sigrar oftast. Arnaldur og Salka Valka, og hugsjónir Arnalds og brotthvarf; Bjartur í Sumarhúsum og Ásta Sóllilja; Ólafur Kárason og konur hans; Arnas Arnæus og Snæfríður Íslandssól; Búi Árland og Ugla.
Einnig benti ég á, að sumar söguhetjur Laxness eru barnaníðingar, paedophilar, til dæmis Ólafur Kárason, þótt hann hafi venjulega notið óskiptrar samúðar lesenda, af því að hann er minnipokamaður, loser á bandarískri ensku. Salka Valka, Steinunn í Paradísarheimt og fleiri ungar stúlkur eru það, sem kallað er nú á dögum misnotaðar.
Hið þriðja er, að sögunum lýkur með brotthvarfi söguhetjunnar, og hún á sér því engan enda eða opinn. Þar er hliðstætt, þegar Bjartur í Sumarhúsum fer upp á heiði og Ólafur Kárason upp á jökulinn. Hvað gera þeir síðan? Það er fróðlegt efni hliðarsögu, hypothetical history. Endirinn minnir á smásöguna Vonir eftir Einar H. Kvaran, nema hvað þar er farið á kanadísku sléttuna, sem er sennilega tákn um sjálfsvíg. Laxness sótti margt til Einars Kvarans og líka til Jóns Trausta, sem samdi örlagasögur um fólk á heiðarbýlum. En lausn Jóns Trausta var, að Halla á heiðarbýlinu snýr niður til byggða, og þar finnur hún frelsi. Sú lausn er sögulega rétt: Þetta gerði fólk, sem lítið átti undir sér, í sveitum á Íslandi. Það fann frelsið í kapítalismanum, annaðhvort með því að flytjast að sjávarsíðunni eða til Vesturheims. Fyrr á öldum hafði slíkt fólk soltið í hel og landið aldrei borið meira en 50 þúsund manns.
Enginn vafi er á því, að Sjálfstætt fólk átti að vera ádeila á Bjart í Sumarhúsum og sveitasælutal. Hefur Illugi Jökulsson talið Bjart dæmi um harðstjóra, jafnvel ófreskju. En Bjartur brýtur sér leið út úr ramma Laxness og verður að hetju vegna þrjósku sinnar, seiglu og festu. Hann tekur hverjum ósigri með því að halda áfram. Laxness hefur sett dálítið af sjálfum sér í hann, því að þetta einkenndi hann, ekki síst fyrstu árin, þegar hann varð fyrir miklu andstreymi. Þannig varð andhetjan óvart að hetju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.6.2015 kl. 13:31 | Slóð | Facebook
26.11.2014 | 11:04
Gamansaga um Frakka og Bandaríkjamenn
Nokkrir Bandaríkjamenn standa saman í hnapp á götuhorni, og fram hjá ekur svört glæsikerra, sem gljáir á. Einn þeirra segir með aðdáun í röddinni: Einn góðan veðurdag á ég eftir að aka um í bíl sem þessum.
Nokkrir Frakkar standa saman í hnapp á götuhorni, og fram hjá ekur svört glæsikerra, sem gljáir á. Einn þeirra segir afundinn: Það kemur einhvern tímann að því, að þessi náungi geti ekki lengur ekið bíl sem þessum.
(Sagt á stúdentaráðstefnu í Háskóla Íslands 15. nóvember 2014, eftir erindi mitt um boðskap Thomasar Pikettys.)