Einar dansaði við Herttu

Á alþjóðamótum dansaði Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins 1939-1968, ætíð við finnska kommúnistann Herttu Kuusinen, þegar því varð við komið. Var hann eflaust jafnfimur við það og að dansa hverju sinni eftir línunni frá Moskvu. Hertta fæddist í finnsku smáþorpi 1904 og var dóttir Ottos V. Kuusinens, eins þægasta þjóns Stalíns. Kuusinen var forsætisráðherra leppstjórnar, sem mynduð var í bænum Terijoki, þegar Rauði herinn réðst inn í Finnland 30. nóvember 1939. Finnar vörðust svo frækilega, að Kremlverjar hættu við að hertaka landið. Eftir það minntust Kremlverjar ekki á Terijoki-stjórnina.

Hertta gerðist átján ára starfsmaður Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu. Ári síðar giftist hún finnskum hermanni, Tuure Lehén. Hún kenndi um skeið dulmálssendingar í þjálfunarbúðum fyrir byltingarmenn í Moskvu, en þær sóttu nokkrir ungir íslenskir kommúnistar. Í sömu búðum kenndi maður hennar skipulagningu óeirða. Hertta skildi við hann 1933 og fór skömmu síðar á laun til Finnlands í því skyni að stunda undirróður. Hún var handtekin þar 1934, sat í fangelsi í fimm ár, starfaði neðanjarðar 1939-1941, en var aftur handtekin 1941. Fyrrverandi eiginmaður hennar, Tuure Lehén, var innanríkisráðherra í hinni skammlífu leppstjórn Kuusinens (þótt Þjóðviljinn fullyrti raunar 16. desember 1949, að Lehén væri ekki til).

Hertta var látin laus eftir sigur Rauða hersins í stríðinu 1941-1944 við Finna, en eftir það hófu Kremlverjar afskipti af finnskum stjórnmálum. Kommúnistar stofnuðu Finnska Alþýðubandalagið með nokkrum jafnaðarmönnum og sakleysingjum, og Hertta varð þingmaður og ráðherra. Hún giftist 1945 einum leiðtoga kommúnista, Yrjö Leino. Hann varð um þær mundir innanríkisráðherra. Næstu ár undirbjuggu kommúnistar valdarán. Hægri sinnaðir lögregluforingjar voru reknir og kommúnistar ráðnir í stað þeirra. En efasemdir sóttu á Leino. Finninn í honum varð loks kommúnistanum yfirsterkari, og hann varaði yfirmenn finnska hersins við vorið 1949. Þeir gerðu ráðstafanir til að verjast valdaráni. Leino hætti þátttöku í stjórnmálum, brotinn maður, og Hertta skildi við hann 1950. Hún lést í Moskvu 1974.

Hefði valdaráni kommúnista ekki verið afstýrt í Finnlandi, þá hefðu þau Einar Olgeirsson og Hertta Kuusinen eflaust haldið glaðbeitt áfram að dansa saman. En lítið hefði þá orðið um dans í Finnlandi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. nóvember 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband