Veruleikinn að baki myndunum

Víetnam-stríðinu lauk með því, að kommúnistar í Norður-Víetnam sviku friðarsamninga, sem þeir höfðu gert við Bandaríkjastjórn í París 1973, réðust á Suður-Víetnam og hertóku 1975, á meðan Bandaríkjaher hafðist ekki að, enda hafði þingið bannað forsetanum að veita þar frekari aðstoð. Víetnam-stríðið var undir lokin mjög umdeilt. Ein ástæðan er, hversu opin Bandaríkin eru: Fréttamenn gátu lýst hörmungum stríðsins frá annarri hliðinni, en enginn fékk að skoða það frá hinni. Tvær áhrifamiklar ljósmyndir eru jafnan birtar úr stríðinu.

nguyen_loan.jpgÖnnur myndin var frá hinni misheppnuðu Tet-sókn kommúnista í ársbyrjun 1968. Hún var af lögreglustjóranum í Saigon, Nguyen Ngoc Loan, að skjóta til bana kommúnista, Nguyen Van Lem, á götu í borginni. Lem var talinn hafa stjórnað dauðasveitum kommúnista. Ljósmyndarinn, Eddie Adams, fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir myndina, en hafnaði þeim, því að honum fannst birting myndarinnar hafa haft óæskileg áhrif. Hann bað Loan lögreglustjóra síðar afsökunar á þeim skaða, sem hann hefði valdið honum og fjölskyldu hans. Loan flýði til Bandaríkjanna eftir hertöku Suður-Víetnams 1975 og opnaði pítsustað í úthverfi Washington-borgar. Hann rak staðinn til 1991, þegar uppskátt varð um fortíð hans. Loan andaðist 1998. Komið hefur út bók um hann og Tet-sóknina eftir James S. Robbins.

kim_phuc.jpgHin ljósmyndin var frá júní 1972. Íbúar í þorpinu Trang Bang voru á flótta undan kommúnistum þegar flugmaður í flugher Suður-Víetnams kom auga á þá, hélt, að þeir væru kommúnistar, og varpaði napalm-sprengjum á hópinn. Eldur læstist í föt níu ára stúlku, Kim Phuc, svo að hún reif sig úr þeim og hljóp skelfingu lostin, nakin og hágrátandi út í buskann ásamt öðrum börnum í þorpinu. Þá smellti ljósmyndarinn Nick Ut mynd af þeim, sem flaug á augabragði um heimsbyggðina. Eftir að Ut tók myndina aðstoðaði hann Kim við að komast á sjúkrahús. Fyrst var henni vart hugað líf, en eftir tveggja ára dvöl á sjúkrahúsinu og sautján skurðaðgerðir sneri hún heim til sín. Eftir að kommúnistar hertóku Suður-Víetnam notuðu þeir Kim óspart í áróðri. Hún hugsaði sitt. Hún fékk leyfi til að stunda nám í Havana á Kúbu, þar sem hún hitti landa sinn. Þau ákváðu að ganga í hjónaband og flugu til Moskvu 1992 í brúðkaupsferð. Á heimleiðinni var komið við í Nýfundnalandi. Þar gengu hjónin frá borði og báðu um hæli í Kanada. Þau búa nú í Ontario-fylki og eiga tvö börn. Kim hefur hitt skurðlæknana, sem björguðu lífi hennar forðum, og ljósmyndarann, sem hafði fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir mynd sína. Komið hefur út bók um Kim Phuc eftir Denise Chong.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. nóvember 2014.)


Frænka Jörundar hundadagakonungs

10975_10152607877857420_2316408031601389334_n.jpgÁ þingi alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pèlerin samtakanna, í Hong Kong haustið 2014 var lokahófið föstudaginn 5. september á eyju nálægt borginni, Lamma, og sigldum við þangað. Mér var þar skipað til borðs hjá höfðinglegri, hvíthærðri konu, og við tókum tal saman. Hún var frá Sviss og heitir Annette Wagnière, fædd Perrenoud. Þegar hún heyrði, að ég væri frá Íslandi, sagði hún mér, að frændi sinn hefði rænt þar völdum árið 1809, Jørgen Jørgensen, sem við Íslendingar nefnum oftast Jörund hundadagakonung. Viðurnefni Jörundar stafar af því, að stjórnartími hans 25. júní til 22. ágúst 1809 fór að mestu leyti saman við hundadaga, 13. júlí til 23. ágúst, en hundadagar draga nafn sitt af hundastjörnunni, Canicula eða Síríus, björtustu stjörnu stjörnumerkisins Stórahunds.

Jörundur fæddist í Kaupmannahöfn 29. mars 1780, sonur konunglegs úrsmiðs, sem einnig hét Jørgen Jørgensen, og konu hans, Anna Lethe Bruun. Íslendingar þekkja ævintýri hans, meðal annars af bókum Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar og Helga P. Briems sendiherra og ritgerðum Önnu Agnarsdóttur prófessors. Eftir umhleypingasama ævi bar Jörundur beinin hinum megin á hnettinum, á eyjunni Tasmaníu 20. janúar 1841. Var hann þá kvæntur, en barnlaus.

Sessunautur minn í lokahófinu er komin af eldri bróður Jörundar, Urban Jørgensen. Hann fæddist 5. ágúst 1776 í Kaupmannahöfn og lést þar 14. maí 1830. Faðir hans sendi hann tvítugan að aldri í námsferð til Sviss. Þar kynntist hann kunnum úrsmið, Jacques-Fréderic Houriet, kvæntist dóttur hans, Sophie-Henriette, og eignuðust þau hjón tvo syni. Annar þeirra, Jules Frederik, ílentist í Sviss. Hann fæddist 27. júlí 1808, varð vellauðugur og smíðaði mjög dýr og vegleg úr, sem úrasafnarar sækjast enn eftir. Hann var góður vinur ævintýraskáldsins H. C. Andersens, sem heimsótti hann oft á herragarð hans í Sviss, Le Châtelard í Les Brenets. Jules reisti útsýnisturn við frönsku landamærin, nálægt húsi sínu í Les Brenets, og er hann kenndur við hann, Jürgensen-turninn.

Jules Jürgensen lést 17. desember 1877. Ein dóttir hans, Sophie (1840–1917), giftist úrsmiðnum Auguste Perrenoud, og getur H. C. Andersen þeirra hjóna í dagbókum sínum. Sonur þeirra var Georges Henri Perrenoud (1867–1927), sem hefur líklega haft sömu ævintýralöngun í blóðinu og frændi hans Jörundur, því að hann fluttist til Síle. Sonur hans var Claude Alphonse Maurice Perrenoud (1910–2003), sem sneri aftur til Sviss, og er Annette dóttir hans. Urban Jörundarbróðir var því langalangalangafi hennar. Hún fæddist 26. september 1941 og giftist 1962 svissneskum iðnrekanda, Daniel Wagnière, og sat hann með okkur við borðið, virðulegur öldungur með gleraugu. Eiga þau hjón fjögur börn. Þótt langt sé um liðið, varðveitir hinn svissneski leggur Jørgensen-ættarinnar minninguna um ævintýramanninn á Íslandi, bróður Urbans, ættföður þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. nóvember 2014.)


Steinólfur í Fagradal

Maður var nefndur Steinólfur Lárusson og bjó í Fagradal á Skarðsströnd í Dölum. Hann fæddist 26. júní 1928 og hóf ungur búskap þar vestra með foreldrum sínum. Steinólfur varð snemma þjóðsagnahetja í sveitum, og hefur raunar verið skrifað um hann bókarkver. Hann var mikill að vexti og burðum, orðheppinn, skrafhreyfinn og hláturmildur, og voru hlátrar hans stórir eins og maðurinn sjálfur. Kvaðst hann vera af galdramönnum kominn. Eitt sinn á sínum yngri árum var Steinólfur á ferð í Reykjavík með fleira fólki, og varð honum gengið niður Bankastræti. Þá sá hann í fyrsta skipti á ævinni dverg, sem gekk beint í flasið á honum. Steinólfur varð svo hissa, að hann þreif dverginn upp, svo að hann gæti horft í andlit honum. Fyrst varð honum orðfall, en síðan taldi hann sig þurfa að ávarpa dverginn, og hið eina, sem honum datt í hug að segja, var: „Hvað er klukkan?“ Síðan setti hann dverginn niður, og tók sá á rás út í buskann sem vonlegt var. (Minnir þetta á annað atvik, þegar maður var spurður: „Eruð þér kvæntir?“ — og hann svaraði: „Nei, en ég hef verið í Hrísey.“)

Þrátt fyrir skamma skólagöngu var Steinólfur í Fagradal prýðilega að sér og áhugamaður um umbætur í búskap. Fylgdu jörð hans dúntekja og selveiðar, og einnig hafði hann áhuga á fiskeldi, nýtingu vetnis, vindorku, jarðhita, graskögglagerð og þurrkun á þangi. Skrifaði hann ráðamönnum fræg bréf um ýmis mál. Eitt þeirra var 1984 til sýslumannsins í Dalasýslu um það, hvernig nýta mætti hið furðulega dýr trjónukrabba. Kvað hann það hafa „augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa, og getur dýrið horft aftur fyrir sig og fram og haft yfirsýn fyrir báða sína enda jafntímis; leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins.“ Birtist þetta bréf í Morgunblaðinu 1992. Annað bréf skrifaði Steinólfur 1990 samgönguráðherra, „gullkreistara ríkisins,“ um það, hversu brýnt væri að smíða brú yfir Gilsfjörð, og var það bréf kallað „Gilsfjarðarrollan“. Eftir að heilsan bilaði, fluttist Steinólfur árið 2004 á dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal. Þegar hann var nýkominn þangað, ávarpaði hann einu sinni sem oftar ráðskonuna hressilega og spurði, hvað hún ætlaði nú að hafa í matinn í hádeginu. „Snitsel,“ svaraði hún. Þá sagði Steinólfur öldungis hlessa: „Snitsel? Snitsel! Ég hef étið landsel og útsel. En snitsel, — það kvikindi hef ég aldrei heyrt um, hvað þá étið.“ Steinólfur lést 15. júlí 2012.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014.)


Brot úr Berlínarmúrnum

Hinn 9. nóvember 2014 er liðinn aldarfjórðungur frá hinum miklu tímamótum, er Berlínarmúrinn hrundi, en þá féllu sósíalistaríkin um koll og Kalda stríðinu milli Ráðstjórnarríkja Stalíns og Vesturveldanna lauk með fullum sigri Vesturveldanna. Í Kalda stríðinu hafði Berlín verið skipt í hernámssvæði Stalíns annars vegar og Vesturveldanna hins vegar. Múrinn var reistur fyrirvaralaust 13. ágúst 1961 í því skyni að stöðva fólksflótta frá Austur-Þýskalandi. Þótt austur-þýskir sósíalistar kenndu sig við alþýðuna, átti alþýðan sjálf enga ósk heitari en sleppa undan þeim og fá að vinna fyrir sjálfa sig og ekki fyrir ríkið, jafnvel þótt henni væri tilkynnt, að með því að vinna fyrir ríkið væri hún að vinna fyrir sjálfa sig. Vörðunum austan megin múrsins var skipað að skjóta alla, sem reyndu að komast yfir, og er talið, að hátt í hundrað manns hafi þar látið lífið.

Tveir Bandaríkjaforsetar héldu frægar ræður við Berlínarmúrinn. John F. Kennedy sagði 26. júní 1963: „Ich bin ein Berliner“. Með því ætlaði hann að segja, að hann væri í anda Berlínarbúi, styddi sameiningu borgarinnar og frelsi borgarbúa. Eðlilegra hefði að vísu verið að segja: „Ich bin Berliner“, því að „ein Berliner“ er í þýsku oftast notað um kökusnúð. Þjóðverjar brostu í kampinn, en tóku viljann fyrir verkið og voru forsetanum þakklátir fyrir hina karlmannlegu hvatningu. Ronald Reagan sagði 12. júní 1987, um leið og hann hnyklaði brúnir og hækkaði röddina: „Mr. Gorbachev, tear down this wall.“ Herra Gorbatsjov, jafnaðu þennan múr við jörðu. Það féll hins vegar í hlut Berlínarbúa sjálfra að jafna múrinn við jörðu, eftir að ljóst varð, að Gorbatsjov myndi ekki halda hinni óvinsælu sósíalistastjórn uppi með hervaldi, enda hafði hann hitt fyrir ofjarl í Reagan, sem lét sér ekki nægja neina kökusnúða, heldur breytti með auknum varnarviðbúnaði karlmennsku orðsins í manndóm verksins.

Ég fékk skemmtilega gjöf á fertugsafmælinu 19. febrúar 1993, þegar fjórir vinir, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, færðu mér brot úr Berlínarmúrnum á litlum steinpalli með áletruðum silfurskildi, og hafði Kjartan útvegað sér brotið í Berlín. Við samfögnuðum þýskri alþýðu, skáluðum og rifjuðum upp, að tuttugu árum áður, 1973, hafði Davíð, ungur laganemi, skrifað grein í Morgunblaðið til að andmæla sósíalista einum, Þorsteini Vilhjálmssyni eðlisfræðingi. Þeir höfðu báðir þá um sumarið farið austur fyrir múr, til Austur-Berlínar, og Þorsteinn síðan talað opinberlega um, hversu „opnir og óþvingaðir“ íbúarnir þar væru. Íslensk tunga kann líklega ekki herfilegri öfugmæli um líf íbúanna í Austur-Berlín. Hefur Þorsteinn aldrei tekið þessi orð sín aftur eða sýnt iðrunarmerki, ólíkt öðrum sósíalista, Tryggva Sigurbjarnarsyni verkfræðingi, sem skrifaði vissulega 1961 til varnar Berlínarmúrnum í málgagn sósíalista, Þjóðviljann, en sagði í viðtali við Morgunblaðið 2013, að enginn saknaði Austur-Þýskalands.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. nóvember 2014.)


Einar dansaði við Herttu

Á alþjóðamótum dansaði Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins 1939-1968, ætíð við finnska kommúnistann Herttu Kuusinen, þegar því varð við komið. Var hann eflaust jafnfimur við það og að dansa hverju sinni eftir línunni frá Moskvu. Hertta fæddist í finnsku smáþorpi 1904 og var dóttir Ottos V. Kuusinens, eins þægasta þjóns Stalíns. Kuusinen var forsætisráðherra leppstjórnar, sem mynduð var í bænum Terijoki, þegar Rauði herinn réðst inn í Finnland 30. nóvember 1939. Finnar vörðust svo frækilega, að Kremlverjar hættu við að hertaka landið. Eftir það minntust Kremlverjar ekki á Terijoki-stjórnina.

Hertta gerðist átján ára starfsmaður Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu. Ári síðar giftist hún finnskum hermanni, Tuure Lehén. Hún kenndi um skeið dulmálssendingar í þjálfunarbúðum fyrir byltingarmenn í Moskvu, en þær sóttu nokkrir ungir íslenskir kommúnistar. Í sömu búðum kenndi maður hennar skipulagningu óeirða. Hertta skildi við hann 1933 og fór skömmu síðar á laun til Finnlands í því skyni að stunda undirróður. Hún var handtekin þar 1934, sat í fangelsi í fimm ár, starfaði neðanjarðar 1939-1941, en var aftur handtekin 1941. Fyrrverandi eiginmaður hennar, Tuure Lehén, var innanríkisráðherra í hinni skammlífu leppstjórn Kuusinens (þótt Þjóðviljinn fullyrti raunar 16. desember 1949, að Lehén væri ekki til).

Hertta var látin laus eftir sigur Rauða hersins í stríðinu 1941-1944 við Finna, en eftir það hófu Kremlverjar afskipti af finnskum stjórnmálum. Kommúnistar stofnuðu Finnska Alþýðubandalagið með nokkrum jafnaðarmönnum og sakleysingjum, og Hertta varð þingmaður og ráðherra. Hún giftist 1945 einum leiðtoga kommúnista, Yrjö Leino. Hann varð um þær mundir innanríkisráðherra. Næstu ár undirbjuggu kommúnistar valdarán. Hægri sinnaðir lögregluforingjar voru reknir og kommúnistar ráðnir í stað þeirra. En efasemdir sóttu á Leino. Finninn í honum varð loks kommúnistanum yfirsterkari, og hann varaði yfirmenn finnska hersins við vorið 1949. Þeir gerðu ráðstafanir til að verjast valdaráni. Leino hætti þátttöku í stjórnmálum, brotinn maður, og Hertta skildi við hann 1950. Hún lést í Moskvu 1974.

Hefði valdaráni kommúnista ekki verið afstýrt í Finnlandi, þá hefðu þau Einar Olgeirsson og Hertta Kuusinen eflaust haldið glaðbeitt áfram að dansa saman. En lítið hefði þá orðið um dans í Finnlandi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. nóvember 2014.)


Vetrarstríðið og kinnhestur Hermanns

Eftir að ég sótti norræna sagnfræðingamótið í Joensuu í Finnlandi í ágúst 2014 og skoðaði gamlar vígstöðvar við smábæinn Ilomantsi, rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér um samskipti Íslendinga og Finna. Stalín réðst á Finnland 30. nóvember 1939, þremur mánuðum eftir að þeir Hitler höfðu samið um að skipta Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Féll Finnland í hlut Stalíns. Hann taldi sig geta lagt landið undir sig á örfáum dögum, enda sendi hann fram 450 þúsund hermenn. Hann skipaði jafnframt finnska leppstjórn í bænum Terijoki, skammt frá landamærunum. Otto V. Kuusinen var forsætisráðherra, en íslenskir kommúnistar þekktu hann vel frá fyrri tíð, því að hann sá ásamt öðrum oft um Norðurlandamál í Alþjóðasambandi kommúnista í Moskvu. Íslenskir kommúnistar könnuðust líka við dóttur hans og tengdason, Herttu Kuusinen og Tuure Lehén. Þau hjón höfðu bæði kennt í þjálfunarbúðum í Moskvu, sem um tuttugu íslenskir kommúnistar sóttu fyrir stríð. Hertta leiðbeindi nemendum í að senda dulmálsskeyti, en maður hennar lýsti því, hvernig skipuleggja skyldi óeirðir, og skrifaði hann strangleynilega handbók um það. Varð Tuure Lehén, sem var sænskumælandi Finni, innanríkisráðherra í leppstjórn Kuusinens.

Íslendingar fylgdust vel með tíðindum af finnsku vígstöðvunum. Þegar leið fram í mars 1940, urðu Finnar að sætta sig við flesta skilmála Stalíns, en hetjuleg barátta þeirra varð þó til þess, að Kremlverjar hættu við hertöku landsins. Eftir að fregnir bárust til Íslands af raunum Finna, rann mörgum í skap, ekki síst við íslenska kommúnista, sem studdu Stalín ótrauðir. Hermann Jónasson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, spjallaði við nokkra aðra þingmenn fimmtudaginn 14. mars 1940 inni í svonefndu ráðherraherbergi. Örlög Finna bar á góma, og var þungt í mönnum. Dyrnar inn í herbergið voru opnar, og stóð einn þingmaður kommúnista, Brynjólfur Bjarnason, í gættinni og lagði við hlustir. Hermann kvað íslenska kommúnista þæga þjóna Stalíns. Þeir ættu því að taka sér viðurnefnið Kuusinen, til dæmis Brynjólfur Bjarnason Kuusinen og Einar Olgeirsson Kuusinen. Brynjólfur reiddist, gekk inn í herbergið og sagði Hermanni, að hann þyrfti ekki að dreifa neinum lygasögum. Honum yrði ekki trúað, enda væri hann landsfrægur fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann vatt sér þá að Brynjólfi og laust hann kinnhesti yfir borð, sem þar stóð á milli þeirra.

Brynjólfur endurgalt ekki kinnhestinn, enda var Hermann gamall glímukappi og rammur að afli. Urðu nokkur blaðaskrif um þennan óvenjulega viðburð, en engin eftirmál opinberlega. Leppstjórn Kuusinens hvarf úr sögunni strax eftir friðarsamninga Finna og Kremlverja. En ríkisstjórn gat Hermann ekki myndað með kommúnistum, fyrr en eftir að Brynjólfur var horfinn af þingi 1956.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. október 2014.)


Skemmtilegt spjall um Sjálfstætt fólk

v2-141129957.jpgMiðvikudagskvöldið 19. nóvember tók ég þátt í spjallfundi um Sjálfstætt fólk Halldórs Kiljans. Hann fór fram í Stúdentakjallaranum milli 17 og 18.30, og vorum við framsögumenn Illugi Jökulsson, Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur, Símon Birgisson leikhúsfræðingur og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri. Sögðu þeir Símon og Þorleifur Örn frá hugleiðingum sínum undirbúningi sínum undir fyrirhugaða leikgerð verksins á fjölum Þjóðleikhússins, en við Dagný og Illugi ræddum um söguhetjur verksins.

Ég benti á þrennt, sem hefur ekki vakið mikla athygli í greiningu á verkum Laxness. Eitt er ástarþríhyrningur, sem er ekki settur saman úr tveimur konum og einum karli eða öfugt, heldur úr fremur þroskuðum og rosknum karli, sem keppir ótrauður að voldugri hugsjón, ungri — stundum kornungri stúlku — sem truflar hann um stund í þessari keppni, og hugsjóninni, sem að lokum sigrar oftast. Arnaldur og Salka Valka, og hugsjónir Arnalds og brotthvarf; Bjartur í Sumarhúsum og Ásta Sóllilja; Ólafur Kárason og konur hans; Arnas Arnæus og Snæfríður Íslandssól; Búi Árland og Ugla.

Einnig benti ég á, að sumar söguhetjur Laxness eru barnaníðingar, paedophilar, til dæmis Ólafur Kárason, þótt hann hafi venjulega notið óskiptrar samúðar lesenda, af því að hann er minnipokamaður, „loser“ á bandarískri ensku. Salka Valka, Steinunn í Paradísarheimt og fleiri ungar stúlkur eru það, sem kallað er nú á dögum misnotaðar.

Hið þriðja er, að sögunum lýkur með brotthvarfi söguhetjunnar, og hún á sér því engan enda — eða opinn. Þar er hliðstætt, þegar Bjartur í Sumarhúsum fer upp á heiði og Ólafur Kárason upp á jökulinn. Hvað gera þeir síðan? Það er fróðlegt efni hliðarsögu, hypothetical history. Endirinn minnir á smásöguna „Vonir“ eftir Einar H. Kvaran, nema hvað þar er farið á kanadísku sléttuna, sem er sennilega tákn um sjálfsvíg. Laxness sótti margt til Einars Kvarans og líka til Jóns Trausta, sem samdi örlagasögur um fólk á heiðarbýlum. En lausn Jóns Trausta var, að Halla á heiðarbýlinu snýr niður til byggða, og þar finnur hún frelsi. Sú lausn er sögulega rétt: Þetta gerði fólk, sem lítið átti undir sér, í sveitum á Íslandi. Það fann frelsið í kapítalismanum, annaðhvort með því að flytjast að sjávarsíðunni eða til Vesturheims. Fyrr á öldum hafði slíkt fólk soltið í hel og landið aldrei borið meira en 50 þúsund manns.

Enginn vafi er á því, að Sjálfstætt fólk átti að vera ádeila á Bjart í Sumarhúsum og sveitasælutal. Hefur Illugi Jökulsson talið Bjart dæmi um harðstjóra, jafnvel ófreskju. En Bjartur brýtur sér leið út úr ramma Laxness og verður að hetju vegna þrjósku sinnar, seiglu og festu. Hann tekur hverjum ósigri með því að halda áfram. Laxness hefur sett dálítið af sjálfum sér í hann, því að þetta einkenndi hann, ekki síst fyrstu árin, þegar hann varð fyrir miklu andstreymi. Þannig varð andhetjan óvart að hetju.

 


Gamansaga um Frakka og Bandaríkjamenn

Nokkrir Bandaríkjamenn standa saman í hnapp á götuhorni, og fram hjá ekur svört glæsikerra, sem gljáir á. Einn þeirra segir með aðdáun í röddinni: „Einn góðan veðurdag á ég eftir að aka um í bíl sem þessum.“

Nokkrir Frakkar standa saman í hnapp á götuhorni, og fram hjá ekur svört glæsikerra, sem gljáir á. Einn þeirra segir afundinn: „Það kemur einhvern tímann að því, að þessi náungi geti ekki lengur ekið bíl sem þessum.“

(Sagt á stúdentaráðstefnu í Háskóla Íslands 15. nóvember 2014, eftir erindi mitt um boðskap Thomasar Pikettys.)


Forvitnileg stúdentaráðstefnu í dag, laugardag

Samtökin European Students for Liberty halda forvitnilega ráðstefnu í dag, laugardaginn 15. nóvember, sem meira en 100 manns hafa skráð sig á. Hún er í Háskólatorgi, stofu HT-105, og hefst kl. 11.30. Ætlast er til, að menn skrái sig fyrirfram hér, en ég get ekki ímyndað mér, að neinum sé meinaður aðgangur.

Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent lýsir íslenska þjóðveldinu, en hann skrifaði doktorsritgerð um stofnun þess, hnignun og fall, þar sem hann beitti hagfræðilegri greiningu á mjög frumlegan hátt. Þjóðveldið er sérlega forvitnilegt vegna þess, að þar stóð skipulag án ríkisvalds. Stjórnleysingjar hafa því iðulega litið til þess. En hvernig leystu Íslendingar að fornu ýmis þau verkefni, sem ríkið leysir nú á dögum, svo sem réttarvörslu? Var þjóðveldið draumríki stjórnleysingja? Hinn kunni bandaríski hagfræðingur og frjálshyggju-stjórnleysingi (anarkókapítalisti) David Friedman hefur skrifað um íslenska þjóðveldið í þeim anda.

Pallborðsumræður verða um lögleiðingu fíkniefna, þar sem tveir fulltrúar Pírata koma fram, Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður, og stúdentaleiðtoginn Aleksandar Kokotovic frá Serbíu. Ég hef að vísu sjálfur aldrei sagt, að umræðan snúist um lögleiðingu fíkniefna, heldur um það, með hvaða rökum ríkið leyfi og jafnvel taki sér einkarétt til að selja sum fíkniefni, til dæmis níkótín og alkóhól, en banni önnur með lögum og eyði síðan fé og fyrirhöfn í að koma í veg fyrir sölu þeirra og neyslu, svo að lögregluyfirvöld fái ekki sinnt öðrum brýnum verkefnum eins og að verja líf okkar, limi og einkalíf fyrir ofbeldi og áreitni, jafnframt því sem til verði glæpafélög, sem fullnægi þörfinni fyrir þessi bönnuðu fíkniefni, við hlið ríkisins, sem fullnægi þörfinni fyrir hin leyfðu. Ef til vill eru til rök fyrir þessari mismunun, en þau hafa aldrei verið sett fram, svo að ég hafi sannfærst.

Sjálfur flyt ég erindi síðdegis (kl. 16) um boðskap franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys í bók hans, Fjármagni á 21. öld, en þar krefst hann ofurskatta á stóreignamenn og hálaunafólk í því skyni að jafna tekjudreifinguna. Telur hann fjármagn hlaðast upp í höndum fárra, hins margfræga 1% tekjuhæsta hóps. Virðist mér sem Piketty hafi tekið við af John Rawls sem helsti spámaður og andlegur leiðtogi vinstri manna, en sá munur er á, að Rawls hafði áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Og ég hélt hér áður fyrr í einfeldni minni, að fátækt væri böl, en auðlegð blessun. Á þeirri tíð voru áhyggjur af auðlegð, sem ekki væri illa fengin, kölluð öfund, en hún var ein af dauðasyndunum sjö (ásamt heift, græðgi, ágirnd, hirðuleysi, drambi og losta).

Tveir útlendingar aðrir flytja erindi, prófessor James Lark frá Bandaríkjunum og Lukas Schweiger frá Austurríki, sem er formaður European Students for Liberty, en svo skemmtilega vill til, að hann er búsettur á Íslandi um þessar mundir.


Vetrarstríðið og flokkaskiptingin

Í Finnlandi skoðaði ég fyrir skömmu vígstöðvarnar við Ilomantsi, þar sem barist var í Vetrarstríðinu 1939–1940 og líka í Framhaldsstríðinu 1941–1944, en bæði stríðin háðu Finnar við Stalín og herlið hans. Ilomantsi er austasti bær Evrópusambandinu á meginlandinu, örstutt frá rússnesku landamærunum. Svo einkennilega vill til, að Vetrarstríðið er einn fárra erlendra viðburða, sem raskað hafa flokkaskiptingu á Íslandi. Tildrög voru þau, að Stalín og Hitler höfðu með griðasáttmála í Moskvu 23. ágúst 1939 skipt Mið- og Austur-Evrópu upp á milli sín, og voru alræðisherrarnir tveir bandamenn fram að óvæntri árás þýska hersins á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941. Finnland kom samkvæmt griðasáttmálanum í hlut Stalíns. Vetrarstríðið skall á, þegar Rauði herinn hóf loftárásir á Helsinki 30. nóvember 1939 og 450 þúsund manna herlið þrammaði yfir finnsku landamærin. Á Íslandi háttaði þá svo til, að íslenskir kommúnistar höfðu nýlega fengið vinsælan jafnaðarmann, Héðin Valdimarsson, og nokkra samherja hans til samstarfs. Sameinuðust kommúnistar og þessir jafnaðarmenn haustið 1938 í nýjum flokki, Sósíalistaflokknum, en um leið var kommúnistaflokkurinn lagður niður. Héðinn var formaður hins nýja flokks, sem skyldi ólíkt kommúnistaflokknum virða lýðræði innan marka laganna.

Strax og fregnir bárust til Íslands af árásinni á Finnland, boðaði Héðinn Valdimarsson fund miðstjórnar Sósíalistaflokksins, þar sem hann gerði tillögu um að lýsa yfir samúð með finnsku þjóðinni. Hún var samþykkt með sex atkvæðum gegn fimm atkvæðum kommúnista, sem vildu ekki una þeirri niðurstöðu og skutu tillögunni til flokksstjórnar. Þar var hún felld með 18 atkvæðum gegn 14. Á meðal þeirra, sem felldu tillöguna, voru forystumenn kommúnista, stalínistarnir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, en líka Halldór Kiljan Laxness, sem þá átti sæti í flokksstjórninni. Við svo búið sögðu Héðinn Valdimarsson og stuðningsmenn hans sig úr Sósíalistaflokknum. Eftir stóðu fáir aðrir en kommúnistar. Þótt Finnar fengju ekki samúðarkveðju frá Sósíalistaflokknum í desemberbyrjun 1939, vörðust þeir ofureflinu vel og drengilega, en neyddust í mars 1940 til að semja frið við Stalín og afhenda honum mikið land, um það bil tíunda hluta Finnlands. Nokkrum árum síðar lést Héðinn Valdimarsson langt um aldur fram, kalinn á hjarta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. október 2014.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband