Vetrarstríðið og kinnhestur Hermanns

Eftir að ég sótti norræna sagnfræðingamótið í Joensuu í Finnlandi í ágúst 2014 og skoðaði gamlar vígstöðvar við smábæinn Ilomantsi, rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér um samskipti Íslendinga og Finna. Stalín réðst á Finnland 30. nóvember 1939, þremur mánuðum eftir að þeir Hitler höfðu samið um að skipta Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Féll Finnland í hlut Stalíns. Hann taldi sig geta lagt landið undir sig á örfáum dögum, enda sendi hann fram 450 þúsund hermenn. Hann skipaði jafnframt finnska leppstjórn í bænum Terijoki, skammt frá landamærunum. Otto V. Kuusinen var forsætisráðherra, en íslenskir kommúnistar þekktu hann vel frá fyrri tíð, því að hann sá ásamt öðrum oft um Norðurlandamál í Alþjóðasambandi kommúnista í Moskvu. Íslenskir kommúnistar könnuðust líka við dóttur hans og tengdason, Herttu Kuusinen og Tuure Lehén. Þau hjón höfðu bæði kennt í þjálfunarbúðum í Moskvu, sem um tuttugu íslenskir kommúnistar sóttu fyrir stríð. Hertta leiðbeindi nemendum í að senda dulmálsskeyti, en maður hennar lýsti því, hvernig skipuleggja skyldi óeirðir, og skrifaði hann strangleynilega handbók um það. Varð Tuure Lehén, sem var sænskumælandi Finni, innanríkisráðherra í leppstjórn Kuusinens.

Íslendingar fylgdust vel með tíðindum af finnsku vígstöðvunum. Þegar leið fram í mars 1940, urðu Finnar að sætta sig við flesta skilmála Stalíns, en hetjuleg barátta þeirra varð þó til þess, að Kremlverjar hættu við hertöku landsins. Eftir að fregnir bárust til Íslands af raunum Finna, rann mörgum í skap, ekki síst við íslenska kommúnista, sem studdu Stalín ótrauðir. Hermann Jónasson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, spjallaði við nokkra aðra þingmenn fimmtudaginn 14. mars 1940 inni í svonefndu ráðherraherbergi. Örlög Finna bar á góma, og var þungt í mönnum. Dyrnar inn í herbergið voru opnar, og stóð einn þingmaður kommúnista, Brynjólfur Bjarnason, í gættinni og lagði við hlustir. Hermann kvað íslenska kommúnista þæga þjóna Stalíns. Þeir ættu því að taka sér viðurnefnið Kuusinen, til dæmis Brynjólfur Bjarnason Kuusinen og Einar Olgeirsson Kuusinen. Brynjólfur reiddist, gekk inn í herbergið og sagði Hermanni, að hann þyrfti ekki að dreifa neinum lygasögum. Honum yrði ekki trúað, enda væri hann landsfrægur fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann vatt sér þá að Brynjólfi og laust hann kinnhesti yfir borð, sem þar stóð á milli þeirra.

Brynjólfur endurgalt ekki kinnhestinn, enda var Hermann gamall glímukappi og rammur að afli. Urðu nokkur blaðaskrif um þennan óvenjulega viðburð, en engin eftirmál opinberlega. Leppstjórn Kuusinens hvarf úr sögunni strax eftir friðarsamninga Finna og Kremlverja. En ríkisstjórn gat Hermann ekki myndað með kommúnistum, fyrr en eftir að Brynjólfur var horfinn af þingi 1956.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. október 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband