Brot úr Berlínarmúrnum

Hinn 9. nóvember 2014 er liðinn aldarfjórðungur frá hinum miklu tímamótum, er Berlínarmúrinn hrundi, en þá féllu sósíalistaríkin um koll og Kalda stríðinu milli Ráðstjórnarríkja Stalíns og Vesturveldanna lauk með fullum sigri Vesturveldanna. Í Kalda stríðinu hafði Berlín verið skipt í hernámssvæði Stalíns annars vegar og Vesturveldanna hins vegar. Múrinn var reistur fyrirvaralaust 13. ágúst 1961 í því skyni að stöðva fólksflótta frá Austur-Þýskalandi. Þótt austur-þýskir sósíalistar kenndu sig við alþýðuna, átti alþýðan sjálf enga ósk heitari en sleppa undan þeim og fá að vinna fyrir sjálfa sig og ekki fyrir ríkið, jafnvel þótt henni væri tilkynnt, að með því að vinna fyrir ríkið væri hún að vinna fyrir sjálfa sig. Vörðunum austan megin múrsins var skipað að skjóta alla, sem reyndu að komast yfir, og er talið, að hátt í hundrað manns hafi þar látið lífið.

Tveir Bandaríkjaforsetar héldu frægar ræður við Berlínarmúrinn. John F. Kennedy sagði 26. júní 1963: „Ich bin ein Berliner“. Með því ætlaði hann að segja, að hann væri í anda Berlínarbúi, styddi sameiningu borgarinnar og frelsi borgarbúa. Eðlilegra hefði að vísu verið að segja: „Ich bin Berliner“, því að „ein Berliner“ er í þýsku oftast notað um kökusnúð. Þjóðverjar brostu í kampinn, en tóku viljann fyrir verkið og voru forsetanum þakklátir fyrir hina karlmannlegu hvatningu. Ronald Reagan sagði 12. júní 1987, um leið og hann hnyklaði brúnir og hækkaði röddina: „Mr. Gorbachev, tear down this wall.“ Herra Gorbatsjov, jafnaðu þennan múr við jörðu. Það féll hins vegar í hlut Berlínarbúa sjálfra að jafna múrinn við jörðu, eftir að ljóst varð, að Gorbatsjov myndi ekki halda hinni óvinsælu sósíalistastjórn uppi með hervaldi, enda hafði hann hitt fyrir ofjarl í Reagan, sem lét sér ekki nægja neina kökusnúða, heldur breytti með auknum varnarviðbúnaði karlmennsku orðsins í manndóm verksins.

Ég fékk skemmtilega gjöf á fertugsafmælinu 19. febrúar 1993, þegar fjórir vinir, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, færðu mér brot úr Berlínarmúrnum á litlum steinpalli með áletruðum silfurskildi, og hafði Kjartan útvegað sér brotið í Berlín. Við samfögnuðum þýskri alþýðu, skáluðum og rifjuðum upp, að tuttugu árum áður, 1973, hafði Davíð, ungur laganemi, skrifað grein í Morgunblaðið til að andmæla sósíalista einum, Þorsteini Vilhjálmssyni eðlisfræðingi. Þeir höfðu báðir þá um sumarið farið austur fyrir múr, til Austur-Berlínar, og Þorsteinn síðan talað opinberlega um, hversu „opnir og óþvingaðir“ íbúarnir þar væru. Íslensk tunga kann líklega ekki herfilegri öfugmæli um líf íbúanna í Austur-Berlín. Hefur Þorsteinn aldrei tekið þessi orð sín aftur eða sýnt iðrunarmerki, ólíkt öðrum sósíalista, Tryggva Sigurbjarnarsyni verkfræðingi, sem skrifaði vissulega 1961 til varnar Berlínarmúrnum í málgagn sósíalista, Þjóðviljann, en sagði í viðtali við Morgunblaðið 2013, að enginn saknaði Austur-Þýskalands.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. nóvember 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband