Responses to frequent questions by foreign journalists

Here are some of my responses to foreign journalists who are curious about the situation in Iceland:

It is obvious that if the Left Greens, the Social Democrats and the Pirates gain a majority in Parliament (which they might, even if they might not gain a majority of the population), they will have to form a government together. Their policies and programmes point in that direction, and that is what their votes will expect of them. Their constituencies will simply demand that and not allow them to do anything else. They are entrapped by their own rhetoric. Anyway, the Left Greens are only refusing to exclude any other partners such as the centre-right Independence Party in order to raise their price in coalition talks with the rest of the left. It is a ploy, not a policy.

Iceland has recovered completely economically from the 2008 bank crash, and is flourishing while other European countries are languishing, the victims of stagnation and huge government debts. Iceland has no unemployment, whereas the unemployment rate of young people in some European countries is around 50%. Iceland has achieved this without an increase in inequality. Income distribution in Iceland is now the most even in the world. Iceland also has a strong pension system, mostly well-funded, and the pensioners enjoy better income on average than in the other Nordic countries.

It would therefore be surprising if the Independence Party which has been in government since 2013 would not get good support. Probably it will gain more seats than it seems to be getting now (according to opinion polls), under the old maxim, formulated by Clinton’s political adviser, Carville: It’s the economy, stupid! There is however a relentless personal campaign going on, driven by the overwhelmingly leftwing media in Iceland, against the leader of the Independence Party, Bjarni Benediktsson, all based on the fact that he is a wealthy man from a wealthy family. He has not been shown to have done anything illegal or immoral: He has just taken care of his property in the same way as all wealthy people do. He did not possess any insider information in the bank crash, for example, as he was then a member of parliament, and not a government minister. He simply read the newspapers, as everybody else did.

Likewise, if the left does not gain a majority of seats in the Parliament, probably the other parties would form a government. But the more parties there will be, the more difficult negotiations between them before forming a government will become.


Voru bankarnir gjaldþrota?

Í nýlegri ritgerð fyrir Brookings stofnunina í Washingtonborg velta Sigríður Benediktsdóttir, Gauti B. Eggertsson og Eggert Þórarinsson því fyrir sér, hvort íslensku bankarnir hafi verið gjaldþrota árið 2008, svo að allar björgunartilraunir hafi í raun verið vonlausar. Þau nefna eina röksemd fyrir því. Samkvæmt bandarískri rannsókn frá 2007 hafi endurheimtuhlutfall fjármálastofnana af ótryggðum kröfum (skuldabréfum) verið 59%, en þetta hlutfall hafi reynst vera 29% fyrir íslensku bankana.

Þessi röksemd er hæpin af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi voru samkvæmt neyðarlögunum íslensku allar innstæður tryggðar, innlendar sem erlendar, en í Bandaríkjunum voru aðeins tryggðar innlendar innstæður upp að 100 þúsund dölum, og rannsóknin, sem þau Sigríður vitna í, náði aðeins til áranna 1982–1999. Tölurnar eru því alveg ósambærilegar, eins og þau Sigríður nefna raunar sjálf.

Í öðru lagi hefði af þessum ástæðum verið rétt að bera saman endurheimtuhlutföll fjármálastofnana í heild. Samkvæmt yfirgripsmikilli rannsókn Nada Mora frá 2012 fyrir Seðlabankann í Kansas-borg voru þau að miðgildi fyrir tímabilið 1970–2008 24,6% í Bandaríkjunum. En endurheimtuhlutföll íslensku bankanna voru að miðgildi 48% samkvæmt nýlegri og vandaðri rannsókn Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar.

Í þriðja lagi fer endurheimtuhlutfall auðvitað eftir árferði. Mora nefnir í rannsókn sinni, að endurheimtuhlutfallið, sem hún reiknar út fyrir fjármálastofnanir, sé ekki síst lágt vegna ársins 2008, þegar margar fjármálastofnanir féllu. Hér á Íslandi var ekki aðeins kreppa, heldur bankahrun, og það hafði í för með sér gjaldþrot margra skuldunauta bankanna.

Í fjórða lagi lækkar endurheimtuhlutfall við brunaútsölur. Í Bandaríkjunum eru fjármálastofnanir venjulega endurskipulagðar eftir föstum reglum. En allur gangur var á því, hvernig farið var með eigur íslensku bankanna. Í Bretlandi var að mestu leyti komið í veg fyrir brunaútsölur. Þar voru endurheimtuhlutföll Heritable og KSF 98% og 87%. Þeir voru því greinilega ekki gjaldþrota. Annars staðar fékkst aðeins 10–20% raunvirðis fyrir banka, til dæmis í Noregi og Danmörku, þar sem stjórnvöld knúðu fram brunaútsölur.

Bankahrunið 2008 var vissulega stórt. En óþarfi er að gera meira úr því en efni standa til.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. október 2017.)


Hverjir geta talað í nafni þjóðarinnar um stjórnarskrá?

„Þjóðin“ hefur valið stjórnarskrá, segja Gunnar Smári, Þorvaldur Gylfason og fleiri. Í kosningum til stjórnlagaþings var þátttakan aðeins 36,8%. M.ö.o. höfðu 63,2% ekki áhuga. Kosningarnar voru síðan dæmdar ólöglegar. Þá skipaði stjórnin sama fólk í „stjórnlagaráð“. Kjörsóknin um tillögur þess var 48,4%. M.ö.o. höfðu 51,6% þjóðarinnar ekki áhuga. Af þeim, sem kusu, vildu 67% miða við uppkastið frá „stjórnlagaráðinu“. Þetta merkir, að einn þriðji kjósenda samþykkti þetta uppkast. Tveir þriðju hluta þjóðarinnar samþykktu það ekki, mættu annaðhvort ekki á kjörstað eða greiddu ekki atkvæði með því. Til samanburðar var kjörsóknin vegna lýðveldisstjórnarskrárinnar 1944 98,4%, og hana samþykktu 98,5% þeirra, sem greiddu atkvæði. Getum við, sem styðjum gömlu, góðu lýðveldisstjórnarskrána, ekki frekar talað í nafni þjóðarinnar en þessir fulltrúar eins þriðja hluta þjóðarinnar, sem leist vel á uppkast hins ólöglega „stjórnlagaráðs“, en það hóf hvern fund á að syngja saman og hefur síðan verið að kynna skrípaleik sinn erlendis?


Bloggið sem hvarf

Hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson birti á bloggi sínu 8. október 2009 lista um mestu mistökin, sem gerð hefðu verið fyrir og í bankahruninu íslenska. Hann hefur nú eytt þessu bloggi, en fjölmiðlum í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þótti það fréttnæmt eins og allt annað, sem var til þess fallið að gera lítið úr Davíð Oddssyni. Í Fréttablaðinu og á visir.is var bloggið því endursagt á þeim tíma.

Gauti skrifaði: „Stærstu mistökin eru líklega fólgin í veðlánaviðskiptum Seðlabanka Íslands sem ollu gjaldþroti hans. Í þessum viðskiptum töpuðust um 300 milljarðar, sem jafnast á við um 1 milljón á hvert mannsbarn á Íslandi, eða um 5 milljónir á hverja þriggja barna fjölskyldu. Þessi mistök lenda beint á íslenskum skattgreiðendum.“

Gauti getur þess ekki, að reglur Seðlabankans um veð voru þrengri en flestra annarra banka, til dæmis Seðlabankans bandaríska, en þar starfaði Gauti frá 2004 til 2012. Hann nefnir ekki heldur, að með Neyðarlögunum frá 6. október 2008 var kröfum Seðlabankans á bankana skipað aftur fyrir kröfur innstæðueigenda. Olli það miklu um bókfært tap hans þá. Raunar kemur fram í nýlegri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, að líklega verður tap skattgreiðenda af bankahruninu ekkert.

Tveir dómar, hvor í sínu landi, skipta hér síðan máli, þótt þeir væru kveðnir upp, eftir að Gauti skrifaði bloggið. Vorið 2011 gerði Hæstiréttur Bandaríkjanna Seðlabankanum þar í landi eftir mikinn málarekstur að upplýsa um veðlán til banka í lánsfjárkreppunni. Sannaðist þá, eins og ég hef áður bent hér á, að bankinn hafði lánað gegn miklu lakari veðum en Seðlabankinn íslenski.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu vorið 2016 (í máli nr. 130/2016), að ekkert hefði verið athugavert við veðlán Seðlabankans, og yrði því þrotabú eins lántakandans að endurgreiða honum skuld sína. Seðlabankinn hefði ekki brotið neinar reglur.

Skiljanlegt er því, að Gauti skyldi eyða bloggi sínu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2017.)


Deilt um einstefnuna í Háskólanum

Ég hef í nokkrum færslum á Facebook deilt á rétttrúnaðarkórinn, sem tekið hefur við af frjálsa samkeppni hugmynda í vísindum. Fyrst skrifaði ég:

Norræna félagið o. fl. halda á næstunni fund um norsku kosningarnar: Þar er aðalræðumaður blaðamaður af Klassekampen, öfgavinstrablaði (Mímir Kristjánsson, fyrrv. formaður Rød ungdom), en síðan eru í pallborði framkvæmdastjóri Vinstri grænna (Björg Eva Erlendsdóttir), formaður ungra pírata (Björt Guðjónsdóttir) og Magnús Þór Hafsteinsson.

Síðan skrifaði ég um fyrirhugað málþing um „Umhverfisógn og þörfina á nýrri siðbót“:

Á fundi Alþjóðamálastofnunar um norsku kosningarnar tala þrír einstaklingar yst til vinstri (framkvæmdastjóri Vinstri-grænna, blaðamaður á Klassekampen og formaður Ungra pírata) og einn á miðjunni (var í Frjálslynda flokknum sáluga á Íslandi). Hér er annað dæmi um hina furðulegu einstefnu, sem er að vera sífellt algengari í Háskólanum. Allir vita, hvað þessi kór mun syngja saman, og engin rödd mun hljóma öðru vísi.

Með færslunni setti ég mynd af fundarboðinu um umhverfisógnina og þörf á siðbót. Í þriðja skipti skrifaði ég um fyrirlestur um nýfrjálshyggju:

Screen Shot 2017-09-01 at 09.16.20

Háskólinn heldur áfram einstefnunni. Aðeins eru boðnir fram fyrirlesarar af vinstri væng. Í kynningu á þessum er sagt: „Guy Standing er breskur hagfræðingur við Lundúnarháskóla sem er þekktur fyrir gagnrýni sína á kapítalisma og viðtekna efnahagslega hugsun.“ Hann hefur með öðrum sömu skoðanir og 98% samkennara minna og 5,7% þjóðarinnar.
 

Andri Sigurðsson skrifaði þá á Facebook vegg minn:

Hannes, neoliberalismi er það sem við búum við. Hversvegna ættum við ekki að gagnrýna hann? Það er hin vísindalega aðferð. Hvernig ætlar þú að þróast áfram annars? Nei alveg rétt, þú ert sáttu við ástandið. Það er þannig sem við stöðnum.

Ég svaraði honum:

Mér finnst sjálfsagt að gagnrýna nýfrjálshyggju (og hef raunar ekkert á móti heitinu). En þá verður að vera skýrt, við hvað er átt, en nýfrjálshyggja sé ekki notuð sem samheiti um allt, sem venjulegt fólk hlýtur að vera mótfallið. Eðlilegast væri að leggja í heitið þá merkingu, að þetta sé hreyfing, sem þau Thatcher og Reagan beittu sér fyrir og framkvæmdu og sem þeir Hayek og Friedman voru hugmyndasmiðir að. Ég gæti kannast við mig í þeirri merkingu sem nýfrjálshyggjumaður. Og þá verður líka að tryggja, að andstæð sjónarmið nýfrjálshyggjumannanna sjálfra komist líka að, því að vísindin eru frjáls samkeppni hugmynda. En í Háskólanum er römm andstaða frá þessum 98%, sem hafa sömu skoðanir og 5,7% þjóðarinnar, við það að hleypa andstæðum sjónarmiðum að. Þetta er jaðar, sem heimtar að vera miðja, mús, sem kynnir sig sem ljón, þúfa, sem vill heita fjall. Ég gæti nefnt mörg skýr dæmi um það. Á ég að nefna einhver?


Rannsókn ASÍ á skattbyrði og tekjudreifingu

Nýbirt rannsókn ASÍ á skattbyrði sýnir, að hún hafi aukist helst hjá tekjulægsta hópnum. Ástæðan er sú, segja ASÍ-menn, að persónuafsláttur hefur ekki hækkað í samræmi við laun. Það er út af fyrir sig rétt, en segir ekki alla söguna. Um þetta deildum við Stefán Ólafsson prófessor á sínum tíma. Ég taldi, að persónuafsláttur ætti ekki að hækka í samræmi við laun, því að þá greiddu menn ætíð sama hlutfall af tekjum sínum í skatt óháð því, hvort þær hækkuðu, en auðvitað ættu þeir að taka þátt í sameiginlegum byrðum þjóðarinnar, þegar og ef laun þeirra hækkuðu.

Ástæðan til þess, að skattbyrði tekjulægsta hópsins hefur þyngst, er, að hann er orðinn aflögufærari en áður. Þetta er svipað og þegar fyrirtæki greiðir engan skat, þegar það græðir ekkert, en greiðir tekjuskatt, um leið og það fer að græða. Skattbyrði þess hefur þyngst, en það er fagnaðarefni, til marks um betri afkomu. Raunar er persónuafsláttur hér miklu hærri en á öðrum Norðurlöndum og í öðrum grannríkjum. Ég tel eðlilegast, að allir taki þátt í að greiða fyrir þjónustu ríkisins, en sumir séu ekki skattfrjálsir og geti síðan greitt atkvæði með því að þyngja skattbyrði á aðra, eins og Vinstri grænir virðast vilja. Um allt þetta má raunar lesa nánar í bók minni um skattamál, sem til er á Netinu.


Vinir í raun

Íslenska spakmælið „Sá er vinur, er í raun reynist“ er sömu merkingar og enska spakmælið „A friend in need is a friend indeed“. Hvort tveggja má rekja til orða rómverska skáldsins Quintusar Enniusar, sem uppi var 239–169 f. Kr.: „Amicus certus in re incerta cernitur.“

Þetta á við um þá sjö þingmenn neðri málstofu breska þingsins, sem skrifuðu undir bókun um Ísland frá Austin Mitchell 13. október 2008, fimm dögum eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og settu þá á sama lista á heimasíðu fjármálaráðuneytis síns og Al-Kaída, Talíbana og Norður-Kóreu. Mitchell var þingmaður Grimsby fyrir Verkamannaflokkinn og kunnur Íslandsvinur.

Ekki virðist hafa verið sagt frá þessari bókun í íslenskum fjölmiðlum, en í henni var harmað, að breska ríkisstjórnin leitaðist ekki við að hjálpa gamalli vinaþjóð í erfiðleikum. Íslendingar væru góðir viðskiptavinir Breta, hefðu fjárfest verulega í Bretlandi og ættu betra skilið.

Þrír aðrir þingmenn Verkamannaflokksins skrifuðu undir bókunina, Ann Cryer, Neil Gerrard og Alan Simpson. Þeir töldust allir til vinstri vængs Verkamannaflokksins og veittu iðulega umdeildum málum stuðning.

Tveir þingmenn Íhaldsflokksins skrifuðu undir, Peter Bottomley og David Wilshire. Þeir voru báðir kunnir fyrir að lúta lítt flokksaga og töldust til hægri vængs flokksins. Eiginkona Bottomleys, Virginia, sat líka á þingi fyrir Íhaldsflokkinn og var um skeið ráðherra.

Enn fremur skrifuðu Elfyn Llwyd frá Velska þjóðarflokknum og Angus MacNeil frá Skoska þjóðarflokknum undir bókunina. Árið 2016 var óspart hneykslast á því í breskum blöðum, að MacNeil hefði nýtt tækifæri, sem þarlendum þingmönnum gefst á að læra erlend mál á kostnað þingsins, til að nema íslensku. Var þetta talinn hinn mesti óþarfi. Kjördæmi MacNeils er Ytri Suðureyjar, eins og þær heita á íslensku (Outer Hebrides), en þar talar meiri hluti íbúa gelísku.  

Sorglegt er til þess að vita, að aðeins skyldu átta breskir þingmenn af 650 standa að bókuninni og sumir ef til vill frekar sakir andófseðlis en vináttu við Ísland. Hvað sem því líður, ætti okkur að vera ljúft ekki síður en skylt að halda nöfnum Mitchells og hinna þingmannanna sjö á lofti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017.)


Minningin um fórnarlömbin

RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt,Yeonmi Park heldur ásamt Almenna bókafélaginu og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fund í samkomusal Veraldar, húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, í hádeginu föstudaginn 25. ágúst, þar sem Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, segir frá lífi sínu í Norður-Kóreu, síðasta kommúnistaríkinu.

Park er aðeins 24 ára, en hún flúði fyrir tíu árum frá Norður-Kóreu með móður sinni. Bók hennar hefur verið þýdd á fjölda mála og verið efst á metsölulistum hérlendis. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnir höfundinn, og Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnar umræðum að erindi Parks loknu.

Fundurinn er kl. 12:05–13:15. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, á meðan húsrúm leyfir.


Útvarpsviðtal við mig: Styttur og minnismerki

Ég var nú í morgun í viðtali á Bylgjunni um það, hvenær á að fjarlægja styttur og minnismerki og hvenær ekki. Ég rifjaði upp, að eftir stríð voru allar styttur fjarlægðar af nasistum, Hitler, Göring og Göbbels, á fyrrverandi yfirráðasvæði þeirra. Margar styttur hefðu verið fjarlægðar af Lenín, Stalín og öðrum kúgurum í Austur-Evrópu eftir fall kommúnismans, en ekki allar, og væri ég einmitt í starfshópi Platform of European Memory and Conscience um að láta fjarlægja síðustu minnismerkin um kommúnistaleiðtogana.

Hvar ætti að draga mörkin? var ég spurður. Svarið er einfalt. Menn eiga ekki að heiðra níðinga, sem dæmdir hafa verið eða hefðu verið fyrir glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og glæpi gegn friðnum, en þessir glæpir voru skilgreindir í Nürnberg-réttarhöldunum eftir stríð. Það merkir, að styttur og myndir til heiðurs Hitler, Göring, Göbbels, Lenín, Stalín, Maó, Pol Pot og Castro eiga ekki rétt á sér í frjálsum menningarlöndum. Þessa fjöldamorðingja á ekki að heiðra. Líklega týndu um 100 milljónir manna lífi sökum kommúnismans, og ekki þarf að minna á Helför gyðinga.

http://www.vb.is/media/cache/7f/49/7f497f9dd8735e1f5fd8483c3d168a1a.jpg

Ég kvað hins vegar ýmsar aðrar myndir og styttur þátt í menningararfi okkar, hvað sem liði ólíkum skoðunum á viðfangsefnunum Til dæmis hefði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir látið það verða sitt fyrsta verk að fjarlægja úr Höfða hið fræga málverk af Bjarna Benediktssyni, sem vakti á sínum tíma yfir þeim Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov. Með því hefði hún sýnt sögunni óvirðingu. Það væri hins vegar eins óviðkunnanlegt að sjá brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni, fyrsta og eina formanni kommúnistaflokks Íslands, við hátíðasal Háskóla Íslands og það hefði verið að sjá brjóstmynd af einhverjum formanni nasistaflokks þar. Brynjólfur hefði haft sáralítil tengsl við Háskólann og í rauninni jafnfráleitt að skreyta anddyri Háskólans með brjóstmynd af honum og að veita gömlum nasista heiðursdoktorsnafnbót, svo að nógu ólíklegt dæmi sé tekið.

Ég taldi herforingja Suðurríkjanna ekki stríðsglæpamenn í sama skilningi og nasista og kommúnista á 20. öld. Robert Lee hefði að vísu átt þræla, en það hefðu Washington og Jefferson líka átt. Þess vegna ætti að fara varlega í að fjarlægja minnismerki um þessa herforingja. Suðurríkin hefðu tapað borgarastríðinu, en herforingjar þeirra hefðu ekki verið verri menn en starfsbræður þeirra úr Norðurríkjunum, eftir því sem ég best vissi. Raunar hefði gott orð farið af Lee.

Ekki vannst tími til að ræða fleiri dæmi, en yfir Arnarhóli gnæfir stytta af Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum, en hann átti þræla, sem frægt er. Að lokum barst talið að Trump Bandaríkjaforseta. Ég kvað eina skýringuna á furðumiklum stuðningi við hann vera, að gjá væri að myndast milli háskóla, opinberra stofnana og fjölmiðla annars vegar og alþýðufólks hins vegar. Í háskólum og öðrum stofnunum væri reynt að þagga niður ýmsar skoðanir. Þetta væru orðin vígi jaðarfólks (svipað og gerðist í Icesave-deilunni á Íslandi, þegar fulltrúar 98% landsmanna áttu sér aðeins þrjár eða fjórar raddir í Háskólanum, auk þess sem ótrúlega hátt hlutfall háskólakennara styður jaðarflokk, Samfylkinguna, sem aðeins hlaut 5,7% í síðustu þingkosningum).

Trum hefði til dæmis nærst á útlendingaandúð. Sjálfur væri ég hlynntur meginreglunni um frjálsan innflutning fólks, en andvígur innflutningi þeirra, sem aðeins koma til að njóta velferðarbóta eða til að reyna að neyða okkur til að taka upp siði öfgamúslima. Ég hef enga samúð með því fólki. Við ættum tvímælalaust að herða landamæraeftirlit okkar og taka upp sömu ströngu reglur og Norðmenn.


Ný syndaaflausn

Þegar ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins lokaði að nauðsynjalausu breskum bönkum í eigu Íslendinga haustið 2008, setti hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki, greiddi tafarlaust út Icesave-innstæður í Landsbankanum (í stað þess að veita ársfrest til þess, eins og reglur leyfðu) og krafðist þess síðan, að íslenska ríkið endurgreiddi hinu breska alla upphæðina með vöxtum, vildi hópur menntamanna fara að kröfum þeirra. Þau Þorvaldur Gylfason, Stefán Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason töldu okkur Íslendinga samsek Landsbankanum og þess vegna öll samábyrg um skuldbindingar hans. Hefði verið farið að vilja þeirra, hefði vaxtakostnaðurinn einn numið um 200 milljörðum króna.

Þessi hugmynd um nauðsynlega yfirbót er ekki ný. Líklega hafa engir tveir viðburðir greypst eins í huga þjóðarinnar og Tyrkjaránið 1627 og bankahrunið 2008. Íslendingar vissu í bæði skiptin, að þeir voru hjálparvana, en héldu um leið, að þeir ættu ekki aðra óvini en eld og ís. Þess vegna voru þeir þrumu lostnir. Strax eftir Tyrkjaránið töldu skáld og aðrir menntamenn, að það „hefði ekki verið annað en refsing og reiðidómur guðs fyrir ljótan lifnað manna hér á landi“, eins og Jón Þorkelsson skrifaði í inngangi að safnriti sínu um ránið. Lærdómurinn, sem af þessu mætti draga, væri að iðka góða siði og sækja betur kirkjur, sagði Arngrímur lærði. Einnig þyrfti að refsa óbótamönnum harðar, kvað Guðmundur Erlendsson í Ræningjarímum.

Vilhjálmur Árnason og aðrir spekingar, sem skrifað hafa um bankahrunið, sleppa að vísu öllu guðsorði, en virðast telja hrunið hafa verið refsingu fyrir ágirnd og óhóf bankamanna, sem þjóðin öll hafi tekið þátt í og sé því samsek þeim um. 200 milljarðarnir, sem Icesave-samningarnir hefðu kostað þjóðina, væru nauðsynleg yfirbót. Með þeim fengi hún syndaaflausn. Lærdómurinn, sem af þessu megi draga, sé að iðka góða siði og sækja betur heimspekifyrirlestra Vilhjálms og félaga. Einnig þurfi að refsa óbótamönnum harðar, eins og Þorvaldur Gylfason skrifar vikulega í blað það, sem Jón Ásgeir Jóhannesson gefur enn út og dreifir ókeypis til landsmanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2017.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband