Hvað er nýfrjálshyggja?

Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin og ber fyrir því tvo kunna vinstri menn bandaríska, Joseph Stiglitz hagfræðing og Robert Kuttner fréttamann. En hvað er nýfrjálshyggja? Flestir geta verið sammála um, að hún sé sú skoðun, sem Friedrich von Hayek og Milton Friedman efldu að rökum og Margrét Thatcher og Ronald Reagan framkvæmdu upp úr 1975, að ríkið hefði vaxið um of og þrengt að frelsi og svigrúmi einstaklinganna. Mál væri að flytja verkefni frá skriffinnum til frumkvöðla og lækka skatta.

Það studdi nýfrjálshyggjuna, að ríkisafskiptastefnan, sem fylgt hafði verið frá stríðslokum, hafði gefist illa, en samkvæmt henni átti að tryggja fulla atvinnu með peningaþenslu. Þetta reyndist ekki gerlegt til langs tíma litið. Afleiðingin hafði orðið verðbólga með atvinnuleysi, ekki án þess. Þau Thatcher og Reagan náði góðum árangri, og leiðtogar annarra þjóða tóku upp stefnu þeirra, ekki síst stjórnmálaforingjar í hinum nýfrjálsu ríkjum, sem kommúnistar höfðu stjórnað í Mið- og Austur-Evrópu, Mart Laar, Václav Klaus og Leszek Balcerowicz. Undir forystu þeirra breyttust hagkerfi þessara ríkja undrafljótt og án blóðsúthellinga úr kommúnisma í kapítalisma, og þjóðir landanna tóku að lifa eðlilegu lífi. Þetta er eitt þögulla afreka mannkynssögunnar.

Frá hruni kommúnismans 1991 hefur verið ótrúlegt framfaraskeið á Vesturlöndum, eins og  Matt Ridley og Johan Norberg rekja í bókum, sem komið hafa út á íslensku. Meginskýringin er auðsæ: aukin alþjóðaviðskipti, sem gera mönnum kleift að nýta sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar. Mörg hundruð milljón manna í Kína, Indlandi og öðrum suðrænum löndum hafa þrammað á sjömílnaskóm úr fátækt í bjargálnir, og á Vesturlöndum hafa almenn lífskjör batnað verulega í öllum tekjuhópum, þótt vitanlega hafi teygst á tekjukvarðanum upp á við, enda gerist það fyrirsjáanlega við aukið svigrúm einstaklinganna. Hinir ríku hafa orðið ríkari, og hinir fátæku hafa orðið ríkari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. janúar 2021.)


Orðaskipti um skotárásir

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði á Facebook:

Örsaga úr hversdeginum #107: Með skotárásum á starfsstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra og fjölskyldu hans er endanlega ljóst að við verðum öll að staldra nú við og taka okkur taki í opinberri umræðu og því hvernig við tölum um hvert annað. Þetta mun annars enda með ósköpum. Viðbjóðurinn sem vellur um skólpleiðslur kommentakerfanna, hrakyrðin og hótanirnar eru daglegt brauð. Við höfum séð í Bandaríkjunum hvernig fer þegar öfgafólk stendur upp frá lyklaborðinu og lætur verkin tala. Sem opinber persóna til margra ára, þekki ég vel hvernig það er í lenda í þessari hakkavél. Að fá nafnlausar hótanir og níðpósta. Lesa ógeðsleg ummæli frá einhverju fólki sem þekkir mann ekki neitt og veit ekkert hvað það er að tala um. Íslenskir stjórnmálamenn hafa mátt þola þetta, jafnvel umsátur um heimili sín án þess að nokkuð væri aðhafst. Ekkert okkar á að sætta sig við þetta og við eigum ekki að umbera þetta sem samfélag. Hingað og ekki lengra.

Ég er auðvitað sammála honum, en skrifaði athugasemd:

Þetta er ekkert nýtt. Menn fá nafnlaus níð- og hótunarbréf, og skotið er í rúður hjá þeim og jafnvel veist að þeim á almannafæri. Það, sem er nýtt, er að hlaupa með þetta í fjölmiðla, en á því nærast ofbeldisseggirnir. Það á í kyrrþey að kippa þeim úr umferð.

Þá skrifaði Egill Helgason:

Þetta er nú skrítið og svo eru einhverjir furðufuglar að læka þetta – að eigi að þegja um það ef skotið er úr byssum á skrifstofur stjórnmálaflokka eða bifreiðar stjórnmálamanna? En ef skotið er á heimili þeirra - má þá segja frá því?

Ég svaraði:

Það er dálítið einkennilegt að sjá umræðustjóra Ríkisútvarpsins, sem kostað er af almannafé og menn geta ekki sagt upp áskrift að, afgreiða hér venjulegt fólk, kjósendur og skattgreiðendur, sem furðufugla. Hjá BBC í Bretlandi gilda strangar reglur um, hvað umræðustjórar á vegum þess mega segja opinberlega. Menn eiga ekki að geta dregið óhlutdrægni þeirra í efa. Tvö dæmi um hlutdrægnina í Sífri Egils: 1) Þeir tveir hagfræðingar íslenskir, sem hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu, Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson, eru aldrei boðnir í þáttinn, en þar er hins vegar Þorvaldur Gylfason (jaðarmaður, fékk 2,45% í kosningum) fastagestur, en hann lætur m. a. að því liggja, að þeir Nixon og Bush hafi ráðið Kennedy bana og að Bandaríkjamenn hafi sjálfir sprengt upp einn turninn í New York í september 2001. 2) Náungi, sem var slíkur aðdáandi Elvis Presleys, að hann tók upp nafn hans, fullur heiftar í garð Kaupþings, af því að hann var rekinn frá Singer & Friedlander í Lundúnum, var látinn bölsótast yfir Ármanni Þorvaldssyni í einum þættinum, en Ármann hefur aldrei fengið tækifæri til að svara fyrir sig. Hverjir eru furðufuglarnir?

Sverrir Herbertsson, sem ég þekki nú raunar ekki, gerði líka réttmæta athugasemd:

Er ekki verið að meina að ofbeldiseggirnir nærist á athyglinni sem þeir fá í fjölmiðlum.

Ég svaraði honum líka:

Jú, nákvæmlega. Lögreglan hefur alltaf ráðlagt mönnum, sem fyrir þessu verða (og ég er einn þeirra, meðal annars skotför í glugga), að hafa ekki hátt um það. Ástæðan til þess, að ég segi þetta núna og fer þannig ekki eftir þessum ráðleggingum, er, að ég er alls ekki lengur opinber persóna, heldur aðeins meinlaus grúskari á Þjóðarbókhlöðunni. En athyglin er það súrefni, sem þessir ofbeldisseggir nærast á.


Rakhnífur Occams

Þegar ég stundaði forðum heimspekinám, var okkur kennt um „rakhníf Occams“. Vilhjálmur af Occam var enskur munkur af reglu heilags Frans frá Assisi, og var hann uppi frá 1285 til 1349. Rakhnífur Occams merkir þá reglu, að jafnan beri að velja einföldustu skýringuna, sem völ sé á. Þessi regla er oftast orðuð svo á latínu: „Entia non sunt multiplicanda præter necessitatem.“ Það er á íslensku: „Eigi ber að fjölga einingum umfram það, sem nauðsynlegt getur talist.“ Það er annað mál, að þessa reglu er hvergi að finna í þeim ritum Vilhjálms, sem kunn eru. Þar segir þó á einum stað: „Pluralitas non est ponenda sine necessitate.“ Það er á íslensku: Ekki ber að nota fleira en nauðsynlegt er. Sjá Quodlibeta (um 1324), 5. kafla, 1. spurningu, 2. grein.

Mér datt rakhnífur Occams í hug, þegar ég horfði á viðtal Helga Seljans fréttamanns við Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi eiganda Baugs, í „Kveik“ fimmtudagskvöldið 21. janúar 2021. Þar rakti Jón Ásgeir upphaf Baugsmálsins svonefnda, sem hófst sumarið 2002, til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, sem hefði sigað lögreglunni á sig. En er einfaldasta skýringin á upphafi málsins ekki sú, sem liggur fyrir? Hún er, að gamall viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, Jón Gerald Sullenberger, kærði hann þá um sumarið fyrir lögreglu. Kvað hann Jón Ásgeir hafa tekið þátt í því með sér að gera ólöglegt skjal. Aðrir kunna að hafa haft skoðanir á Jóni Ásgeiri og umsvifum hans, til dæmis forsætisráðherra, og jafnvel látið þær í ljós í einkasamtölum. En þarf að blanda þeim í málið, svo einföld og augljós skýring sem til er á upphafi þess? Eins og kom fram í dómsúrskurðum, bar Jón Gerald þungan hug til Jóns Ásgeirs og þurfti því enga hvatningu til kærunnar, og eftir mikið þóf urðu lyktir þær, að báðir voru þeir nafnar sakfelldir fyrir gerð skjalsins og dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hér hefði fréttamaðurinn mátt nota rakhníf Occams.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.)


Laxness: Lærisveinn Einars og Brynjólfs

Oft er með réttu talað um mikil áhrif Halldórs Laxness á hreyfingu íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista. Minna hefur verið rætt um áhrif helstu íslensku stalínistanna á skáldið. Hér skal ég nefna tvö dæmi um bein áhrif Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar á Laxness.

Eftir að Laxness hafði gefið út Sölku Völku, birti Einar greiningu í Rétti 1932 á bókinni undir heitinu „Skáld á leið til sósíalismans“. Kvað hann Laxness ekki hafa náð fullum þroska sem öreigarithöfundur. Hann ætti til að skopast að verkalýðsbaráttu. Hann gæti lært margt af skáldverkum eins og Anna proletarka (Öreigastúlkunni Önnu) eftir tékkneska rithöfundinn Ivan Olbracht. Sú bók var til í bókasöfnum og bókabúðum hér á landi í þýskri og sænskri þýðingu. Laxness fór að ráði Einars, því að söguþráðurinn í Atómstöðinni er tekinn beint upp úr sögu Olbrachts. Alþýðustúlka kemur úr sveit, vinnur hjá efnaðri fjölskyldu og flækist inn í stjórnmálaátök, nema hvað í sögu Olbrachts svíkja jafnaðarmenn kommúnista eftir fyrra stríð, en í sögu Laxness er landið selt.

Upphafið að Gerska æfintýrinu, ferðabók Laxness frá Rússlandi, sem kom út haustið 1938, hefur löngum þótt meistaralegt. Þar segist Laxness í fyrsta sinn á ævinni geta skrifað bók, sem þýdd yrði á allar þjóðtungur Norðurálfu, og keypt sér fyrir ritlaunin bústað við Miðjarðarhaf og Rolls Royce bíl. Hann þyrfti ekki að gera annað en skrifa ádeilu á Rússland. Þess í stað ætlaði hann að skrifa um það sannleikann. Hugmyndin að þessu upphafi er bersýnilega tekin beint úr grein eftir Brynjólf Bjarnason í Þjóðviljanum 5. mars 1937. Hefði Laxness skrifað níð um stjórnarfar Stalíns, segir Brynjólfur þar, þá hefðu Morgunblaðið og Alþýðublaðið „óðar gert hann að dýrlingi um allar aldir. Þá hefðu nú ekki verið sparaðir peningarnir úr ríkissjóði til vísinda og lista. Þá hefði Halldóri verið reist veglegt hús og voldugur minnisvarði í lifanda lífi.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.)


Afmælisgrein um Davíð

Davíð Oddsson er 73 ára í dag. Ég skrifaði af því tilefni grein um hann í The Conservative.


Fastur dálkahöfundur í The Conservative

Ég er orðinn fastur dálkahöfundur í The Conservative, sem íhalds- og umbótaflokkarnir í Evrópu gefa út á netinu. Ég skrifa þar að meðaltali tvisvar í viku um hin ýmsu mál, árásina á þinghúsið bandaríska, þöggunartilburði bandarísku netrisanna, boðskap Burkes til okkar, kenningar Actons um söguna, misráðna fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, heimsókn Churchills til Íslands 1940, afskræminguna af Thatcher í framhaldsþættinum Krúnunni og ánægjuvél Nozicks. Hér má nálgast pistla mína.


Svar við færslu Guðmundar Andra

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar skrifar á Facebook:

Víða sér maður fólk dásama Ísraelsríki fyrir góða frammistöðu við að bólusetja sitt fólk. Sitt fólk. Bara sitt fólk. Palestínuþjóðin á herteknu svæðunum fær ekkert. Sjaldan hefur maður séð jafn svart á hvítu það ranglæti sem þetta ríki er reist á.

Ég svaraði:

Þessi færsla lýsir miklum misskilningi. Það er hlutverk ríkis að láta borgara sína hafa forgang um þau gæði, sem það getur úthlutað. Annars væri það tilgangslaust. Og Palestínumenn hafa sína stjórn, sem flýtur í gjafafé frá útlöndum, en því miður fer það mestallt í spillta stjórnmálamenn þar. Sú stjórn hefði átt að útvega Palestínumönnum bóluefni. Þetta er mælskubrella hjá þér til að leiða athyglina frá því, að heilbrigðisráðherra (gamall samherji þinn í Icesave-málinu) gætti hagsmuna Íslendinga ekki nógu vel og að í ljós er komið, að ESB, sem þú hefur ofurtrú á, hefur ekki ráð undir hverju rifi.


Árásirnar á þinghúsin

ÓeirðirHeimsbyggðin fylgdist agndofa með því, er æstur lýður braust 6. janúar inn í bandaríska þinghúsið. Er með ólíkindum, að hann hafi komist svo langt. Það er fróðlegt siðferðilegt úrlausnarefni, hver ber ábyrgðina. Auðvitað ber þessi óþjóðalýður, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kallaði hann réttilega, mestalla ábyrgðina, en einhverja sök á einnig Donald Trump Bandaríkjaforseti. Um slíka skipta sök hefur einn kennari minn í Oxford, David Miller, skrifað bók, National Responsibility and Global Justice (2007), sem ég nýtti mér í skýrslu minni um bankahrunið. Miller telur, að ræðumaður á útifundi beri nokkra ábyrgð á gerðum hóps, sem grípur til ofbeldis eftir að hafa hlustað á æsingaræðu hans, jafnvel þótt sjálfur taki hann ekki beinan þátt í því ofbeldi.

Eftir þeim mælikvarða báru samkennarar mínir, þeir Þorvaldur Gylfason og Gylfi Magnússon, nokkra ábyrgð á síendurteknum árásum óþjóðalýðs á Alþingishúsið í bankahruninu 2008–2009 eftir æsingaræður þeirra á fundum, og með sömu rökum ber Trump nokkra ábyrgð á innrásinni í bandaríska þinghúsið. Á Íslandi er þó sambærilegasta dæmið, þegar óeirðaseggir réðust á Alþingishúsið 30. mars 1949, eftir að Einar Olgeirsson hafði látið þau boð út ganga, að þingmenn sósíalista væru fangar inni í húsinu. (Var Einar ákærður og dæmdur fyrir aðild að árásinni.)

Eflaust minna stuðningsmenn Trumps á, að margir forystumenn Lýðræðisflokksins (Demókrata) sættu sig ekki við úrslit forsetakjörsins 2016, heldur siguðu lögreglu á forsetann og helstu fylgismenn hans, jafnframt því sem þeir höfðuðu fáránlegt mál á hendur honum til embættismissis. Þeir geta líka bent á óeirðirnar í mörgum ríkjum Bandaríkjanna á síðasta ári, þar sem vinstriöfgamenn gengu óáreittir berserksgang. En þótt þetta kunni að einhverju leyti að skýra innrásina í þinghúsið bandaríska, afsakar það hana ekki. Í rótgrónum lýðræðisríkjum er ofbeldi óafsakanlegt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. janúar 2021.)


Hef ég drepið mann?

kina_veira_kortOftast er ágreiningur í stjórnmálum þess eðlis, að ekki verður með fullri vissu úr honum skorið, enda er lífið undirorpið óvissu. Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? spurði Jón Hreggviðsson. Enginn vissi með fullri vissu, hvað hafði gerst, þegar Sigurður böðull sálaðist. Þó eru til mál, sem atvikin hafa hagað því svo, að unnt er að skera úr um þau. Eitt þeirra er Icesave-málið. Strax og ljóst varð, að þjóðin myndi fella samning Svavars Gestssonar, buðu Bretar miklu betri kjör, þótt niðurstaðan yrði að lokum sú, sem við höfðum nokkur haldið fram allan tímann, að það hefði ekki verið um neitt að semja, því að íslenska ríkið hefði ekki borið ábyrgð á viðskiptum einkaaðila. Samningur Svavars var eins og Sigurður Már Jónsson sagði í fróðlegri bók sinni um málið „afleikur aldarinnar“. Samanburðurinn á samningi Svavars og síðan þeim, sem Lee Buchheit gerði, nægði til að skera úr um málið. Við hefðum sparað okkur hundruði milljóna í vexti með samningi Buchheits, svo að ekki sé minnst á allt annað. Hér voru mistökin mælanleg: Tveir samningamenn, tvær niðurstöður.

Nú er því miður komið til sögu annað dæmi jafnskýrt. Það eru samningar íslenskra stjórnvalda um bóluefni vegna veirufaraldursins, sem gengið hefur um heiminn. Svo virðist sem Íslendingar fái ekki nægt bóluefni fyrr en seint á árinu. Stjórnvöld hafa leikið stórkostlega af sér. Heilbrigðisráðherra tók aðeins númer á biðstofu Evrópusambandsins og ætlaði að bíða þar auðsveip eftir því, að nafn Íslands yrði kallað upp. Hún virðist ekki hafa haft áhuga á að nýta sér aðstoð einkaaðila, sem voru boðnir og búnir. Þegar þetta er skrifað á síðasta degi ársins 2020, hafa Ísraelsmenn hins vegar þegar bólusett í fyrri umferð fleira fólk en Íslendingar eru í heild. Hvað höfðu samningamenn þeirra, sem samningamenn Íslendinga höfðu ekki? Hér eru mistökin mælanleg: Tvær þjóðir, tvær niðurstöður. Við höfðum öll skilyrði til að losna úr þessari prísund á fyrstu mánuðum ársins 2021. Í Icesave-málinu átti að hneppa okkur í áratuga skuldafangelsi. Nú á að loka okkur inni fram eftir ári eins og við værum í Austur-Þýskalandi, og á meðan munu einhverjir deyja, aðrir smitast og fyrirtæki fara í þrot. Það tókst að leiðrétta afglöpin í Icesave-málinu. Vonandi tekst það líka í Covid19-málinu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. janúar 2021.)


Afturköllunarfárið

Kress.HÍ.1986Siðfræðingarnir uppi í Háskóla eru fljótir að taka til máls, þegar menn af hægri væng eru taldir misstíga sig. Til dæmis hefur Henry Alexander Henrysson krafist þess opinberlega, að Illugi Gunnarsson, þingmenn Miðflokksins og Kristján Þór Júlíusson segi af sér, ýmist fyrir vináttu við aðra eða ógætileg ummæli í einkasamtölum. En ég hef ekki orðið var við, að Henry Alexander eða hinir siðfræðingarnir í Vatnsmýrinni, þeir Vilhjálmur Árnason og Jón Ólafsson, hafi sagt neitt um mál Róberts Spanós, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, sem þáði í september síðast liðinn heiðursdoktorstitil í Istanbul, þótt þúsundir tyrkneskra háskólakennara hefðu nýlega verið flæmdar úr stöðum sínum. Jafnframt heimsótti hann borgarstjórann í Mardin, sem Erdogan forseti skipaði eftir að hafa sett löglega kjörinn borgarstjóra af.

Þögn siðfræðinganna um þetta mál er æpandi, en aðrir minntu á, að Gunnar Gunnarsson þáði heiðursdoktorstitil í Heidelberg á valdatíma nasista. Sá munur er þó á, að Gunnar var ekki embættismaður. Hann þurfti ekki að sitja í dómarasæti yfir tyrkneskum stjórnvöldum eins og Spanó á væntanlega eftir að gera. En ef til vill er enn forvitnilegra, hvort afturkalla eigi heiðursdoktorstitla, eins og nú er að verða algengt. Nokkrir bandarískir háskólar hafa til dæmis ógilt slíkar nafnbætur leikarans Bills Cosbys, eftir að uppvíst varð um kynferðisbrot hans. Árið 2007 afturkallaði Edinborgarháskóli doktorstitil Roberts Mugabes, leiðtoga Simbabve, vegna síendurtekinna mannréttindabrota. Elsta dæmið, sem ég kann, var, þegar Pennsylvaníu-háskóli afturkallaði í ársbyrjun 1918 heiðursdoktorstitla þeirra Vilhjálms II. Þýskalandskeisara og sendiherra Þýskalands í Bandaríkjunum, Johanns von Bernstorffs.

Sjálfum finnst mér nóg um þetta afturköllunarfár (cancel culture). Það er samt umhugsunarefni. Árið 1980 afturkallaði Keele-háskóli í Bretlandi heiðursdoktorstitil Kurts Waldheims, forseta Austurríkis, eftir að í ljós kom, að hann hafði verið í þýska hernámsliðinu í Júgóslavíu á stríðsárunum, þótt engir stríðsglæpir hefðu sannast á hann. Og við eigum íslenskt dæmi. Árið 1975 veitti Háskólinn þýska málfræðingnum Bruno Kress heiðursdoktorstitil. Hann var ákafur nasisti fyrir stríð, félagi nr. 3.401.317 í Nasistaflokknum þýska og styrkþegi „rannsóknarstofnunar“ SS-sveitanna, Ahnenerbe, Arfleifðarinnar, en forstjóri hennar og fleiri starfsmenn reyndust sekir um alvarlega stríðsglæpi. Hefði Háskólinn átt að fara að dæmi Keele-háskóla? Sjálfur er ég ekki viss um það. En siðfræðingarnir í Vatnsmýrinni ættu ef til vill að ræða það í sömu andrá og mál Spanós.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. desember 2020.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband