Kjörbúðir og kjörklefar?

200401-2x1-donald-trump-joe-biden-ew-1155a_783b2a335319d054c2820d7d80ebc3a9.fit-1120wNú líður að lokum forsetakjörsins bandaríska, en allur heimurinn fylgist með því, enda eru Bandaríkin langöflugasta hagkerfi og herveldi heims. Án þess hefðu þeir Stalín og Hitler líklega skipt Norðurálfunni allri á milli sín upp úr 1940. Spekingar þeir, sem koma fram þessa dagana í fjölmiðlum, segja flestir líklegast, að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, muni sigra. Þetta er rangt. Líklegast er, að Donald Trump, núverandi forseti, muni tapa. Þeir, sem kjósa Biden, eru langflestir að kjósa á móti Trump.

Þetta leiðir hugann að einum mun á því að kjósa úti í kjörbúð og inni í kjörklefa. Úti í kjörbúð kýs maður með krónunum sínum þá vöru, sem hann vill. Inni í kjörklefa kýs hann með höndunum þann frambjóðanda, sem hann vill stundum ekki, en telur illskárri en keppinauturinn. Biden vekur ekki traust. Hann er gleyminn og reikull í tali og leyfir fjölskyldu sinni að hagnast á nafni sínu. Hann ber með sér, að hann er orðinn 77 ára. En hann nær líklegast kjöri, því að hinn spræki keppinautur hans vekur víða stæka andúð, sem er ekki með öllu óskiljanleg.

Annar galli á kjörklefalýðræðinu ólíkt kjörbúðalýðræðinu er, að menn vita ekki alltaf, hvað þeir kjósa yfir sig. Úti í kjörbúð geta menn skoðað vöruna, lesið sér til um innihaldið og séð, hvað hún kostar. En inni í kjörklefanum geta menn sjaldnast séð fyrir, hvað muni gerast, sérstaklega í löndum með hlutfallskosningar og samsteypustjórnir, en líka í löndum með tveggja flokka kerfi eins og í Bandaríkjunum, þótt kostir séu þar skýrari.

Og jafnvel þótt bandarískir kjósendur ættu nú orðið að þekkja þá Joe Biden og Donald Trump, vita þeir ekki, hvað kjör þeirra muni kosta. Biden hyggst hækka skatta á hina tekjuhærri og takmarka vinnslu jarðefna. Þetta er hvort tveggja vel fallið til vinsælda, en gæti haft neikvæðar afleiðingar í atvinnulífinu.

Kjarni málsins er, að vilji einstaklinganna kemur miklu betur fram, þegar þeir kjósa daglega með krónunum úti í kjörbúð en þegar þeir kjósa með höndunum inni í kjörklefa á fjögurra ára fresti. Þess vegna ætti að flytja sem flestar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum og skriffinnum til neytenda og skattgreiðenda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. október 2020.)


Stjórnarskrárhagfræði

24.1 BuchananFurðu sætir, að í öllum umræðunum um lýðveldisstjórnarskrána, sem samþykkt var með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944, hefur ekkert verið minnst á eina grein hagfræðinnar, stjórnarskrárhagfræði (constitutional economics), sem spratt upp úr rannsóknum James M. Buchanans og annarra hagfræðinga á almannavali í samanburði við einkaval. Er meira að segja haldið úti sérstöku tímariti um stjórnarskrárhagfræði. Buchanan fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986 fyrir rannsóknir sínar á almannavali.

Einkaval er, þegar maður fer út í kjörbúð og kaupir sér osthleif. Almannaval er, þegar maður fer inn í kjörklefa og krossar við einhvern kost af nokkrum, til dæmis stjórnmálaflokk til að fara með löggjafarvaldið næstu fjögur árin. Sá augljósi munur er á einkavali og almannavali, að engin nauðung kemur við sögu í einkavali. Maðurinn kaupir sér ekki osthleif, nema hann vilji. Hann velur aðeins fyrir sjálfan sig. En í almannavali eru alltaf sumir að velja fyrir alla. Einhverjir verða undir í atkvæðagreiðslunni.

Stjórnarskrárhagfræðin leitar leiða til að lágmarka nauðung í stjórnmálum. Einfaldast væri auðvitað að krefjast einróma samþykkis við öllum stjórnlagabreytingum, en allir sjá, að það er ekki framkvæmanlegt (þótt Íslendingar hafi farið býsna nærri því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944). Buchanan og lærisveinar hans telja því, að binda þurfi í stjórnlög ýmis ákvæði til verndar minni hlutum.

Til viðbótar við hefðbundin mannréttindaákvæði þurfi að koma reglur, sem torveldi meiri hluta að samþykkja þungar álögur á minni hluta, til dæmis skatta, sem aðeins fáir bera, eða skuldasöfnun, sem varpað er á komandi kynslóðir, eða verðbólgu, sem er ekkert annað en dulbúinn skattur á notendur peninga. Takmarka þurfi skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins í beinu framhaldi af þeim hömlum, sem þegar eru reistar við afskiptum þess af skoðanamyndun og meðferð einkaeigna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2020. Myndin er af James M. Buchanan.)


Veggjakrot eða valdhömlur?

FyrirsögnÞegar á níunda áratug síðustu aldar var einu sinni sem oftar rætt af miklum móði á Alþingi um, hvað gera mætti fyrir þjóðina, hallaði Geir Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, sér að sessunaut sínum og sagði í lágum hljóðum: „Er ekki líka rétt að biðja um sérstaka veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri?“ Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég sá í miðborginni sóðalegt veggjakrot eftir ákafafólk, sem hafna vill lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.

Lýðveldisstjórnarskráin var eins og lög gera ráð fyrir samin af Alþingi, en borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hinn 23. maí 1944. Kjörsókn var 98%, og greiddu 98,3% atkvæði með stjórnarskránni, en hún átti uppruna sinn í stjórnarskrá þeirri, sem Kristján IX. færði Íslendingum á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874. Sú stjórnarskrá var ein hin frjálslegasta í Norðurálfunni, enda Norðurlönd þá sem nú að mörgu leyti til fyrirmyndar um stjórnarfar. Stendur réttarríkið óvíða traustari fótum. Til samanburðar má nefna, að kjörsókn var svo dræm 2012 um uppkast veggjakrotaranna að stjórnarskrá, að aðeins mælti um þriðjungur atkvæðisbærra kjósenda með því, að Alþingi hefði það til hliðsjónar, ef og þegar það endurskoðaði stjórnarskrána.

En til hvers eru stjórnarskrár? Þeir fræðimenn, sem dýpst hafa hugsað um það mál, svara: Það er til að skilgreina, hvaða mál þykja svo mikilvæg, að reglum um þau verði ekki breytt í venjulegum atkvæðagreiðslum. Dæmi er málfrelsið. Meiri hlutinn gæti komist í tímabundna geðshræringu og viljað svipta óvinsælan minnihlutahóp málfrelsi, en stjórnarskráin bannar það. Annað dæmi er friðhelgi eignarréttarins.

Stjórnarskrár eru fáorðar, gagnorðar og skýrar yfirlýsingar um, hvernig fara skuli með valdið, svo að hugsanleg misnotkun þess bitni sem minnst á einstaklingum. Eins og skip eru smíðuð til að standast vond veður, eru stjórnarskrá samdar til að standast misjafna valdhafa. Við höfum ekkert að gera við veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri, og því síður höfum við not fyrir stjórnarskrá, sem er ekkert annað en óskalisti um, hvað ríkið eigi að gera fyrir borgarana, eins og veggjakrotararnir í miðborginni krefjast. Nær væri að hafa áhyggjur af því, hvað ríkið getur gert borgurunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. október 2020.)


Minningar um Milton

23.6 FriedmansinChinaAð mér sóttu á dögunum minningar um Milton Friedman, einn virtasta hagfræðing tuttugustu aldar. Ég hitti hann fyrst á fundi Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Stanford í Kaliforníu haustið 1980. Ég sagði honum þá, að ég hefði ósjaldan varið hann fyrir árásum íslenskra vinstri manna. „Þú átt ekki að verja mig,“ sagði Friedman með breiðu brosi. „Þú átt að verja hugsjónir okkar.“

Næst hitti ég Friedman á þingi Mont Pelerin-samtakanna í Berlín 1982. Hann sagði mér þá af ferð sinni til Kína skömmu eftir fundinn í Stanford. Hann hafði snætt hádegisverð með kínverskum ráðherra, sem kvaðst vera á leið til Bandaríkjanna. Hvaða ráðherra sæi þar um dreifingu hráefna? Friedman svaraði: „Þú skalt fara á hrávörumarkaðinn í Síkagó.“ Ráðherrann varð eitt spurningamerki í framan. Friedman reyndi að útskýra fyrir honum, að á frjálsum markaði sæi ríkið ekki um dreifingu hráefna. Þau dreifðust um hagkerfið í frjálsum viðskiptum. Friedman rifjaði líka upp ferð sína til Indlands 1962. Hann kom þar að, sem verkamenn voru að grafa skipaskurð með skóflum. Friedman spurði: „Af hverju notið þið ekki jarðýtur? Það væri miklu hagkvæmara.“ Leiðsögumaður hans svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Þetta skapar atvinnu.“ Friedman var ekki lengi að bregðast við: „Nú, ég hélt, að þið væruð að grafa skipaskurð. En ef þið ætlið að skapa atvinnu, af hverju notið þið ekki matskeiðar?“

Friedman kom til Íslands á mínum vegum haustið 1984. Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hélt honum boð í Ráðherrabústaðnum. Ég stóð við hlið Friedmans og kynnti hann fyrir gestum. Einn þeirra var seðlabankastjóri. Ég gat ekki stillt mig um að segja: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er íslenskur seðlabankastjóri. Hann yrði nú atvinnulaus, ef kenningar yðar yrðu framkvæmdar.“ Friedman brosti kankvís og sagði: „Nei, hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“ Allir hlógu, líka seðlabankastjórinn. Eitt kvöldið héldu íslenskir kaupsýslumenn og iðnjöfrar Friedman veglega veislu. Einn þeirra spurði Friedman: „Hver er að yðar dómi mesta ógnin við kapítalismann?“ Friedman svaraði: „Horfið í spegil. Það eru kapítalistarnir, sem ógna kapítalismanum. Þeir vilja, að ríkið verji þá gegn samkeppni.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2020.)


Gyðingahatur og Íslendingaandúð

Þau Milton Friedman og Anna J. Schwartz gáfu árið 1963 út Peningamálasögu Bandaríkjanna, A Monetary History of the United States, þar sem þau lögðu fram nýja skýringu á heimskreppunni miklu 1929–1933. Hún var, að kreppan hefði orðið vegna mistaka í stjórn peningamála. Bandaríski seðlabankinn hefði breytt niðursveiflu í djúpa kreppu með því að leyfa peningamagni í umferð að skreppa saman um þriðjung. Hann hefði ekki gegnt þeirri skyldu sinni að veita bönkum í lausafjárþröng þrautavaralán.

Eitt versta glappaskotið hefði verið að bjarga ekki Bank of the United States í New York haustið 1930, en það hefði valdið áhlaupum á aðra banka og dýpkað niðursveifluna. Margir hefðu haldið vegna nafnsins, að bankinn væri á einhvern hátt opinber stofnun, en svo var ekki. Bankinn var í eigu gyðinga, og flestir viðskiptavinir voru gyðingar. Þau Friedman og Schwartz töldu líklegt, að gyðingahatur hefði ráðið einhverju um, að bankanum var ekki bjargað.

Hliðstæð ákvörðun var tekin í fjármálakreppunni 2008 um Ísland. Breska Verkamannaflokksstjórnin með þá Gordon Brown og Alistair Darling í broddi fylkingar ákvað að bjarga öllum bönkum í Bretlandi öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Jafnframt lokaði stjórnin útbúi Landsbankans í Lundúnum. Þetta olli því, að íslenska bankakerfið hrundi allt, en ella var það alls ekki sjálfgefið.

Ég tel líklegt, að stjórnmálahagsmunir hafi ráðið einhverju um þessa ákvörðun. Brown og Darling voru báðir frá Skotlandi, og þjóðernissinnar sóttu þar mjög að Verkamannaflokknum. Þeir höfðu því ríka hagsmuni af því að sýna skoskum kjósendum, að sjálfstæði smáþjóðar gæti verið varasamt. Skoska bankakerfið var tólfföld landsframleiðsla Skotlands og hefði hrunið, hefði Englandsbanki ekki veitt skoskum bönkum þau þrautavaralán, sem hann neitaði Heritable og KSF um. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. október 2020.)


Ljónið í Luzern

LionmonumentlucerneÍ grúski mínu í ritum þeirra Karls Marx og Friðriks Engels tók ég eftir því, að þar er á einum stað minnst á íslenska myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen. Það er í grein eftir Engels frá því í nóvember 1847 um svissneska borgarastríðið. Engels hafði ekkert gott að segja um Svisslendinga, sem væru frumstæð fjallaþjóð og legðu ætíð afturhaldsöflum lið. Væri þeim helst saman að jafna við Norðmenn, sem líka væru þröngsýn útkjálkaþjóð.

Enn fremur sagði Engels: „Menn skyldu ekki ætla, að þessir málaliðar væru taldir úrhrak þjóða sinna eða að þeim væri afneitað af löndum sínum. Hafa íbúar Luzern ekki fengið hinn rétttrúaða Íslending Thorvaldsen til að að höggva í klett við borgarhliðið stórt ljón? Það er sært spjóti, en verndar til hinstu stundar liljuprýddan skjöld Bourbon-ættarinnar með loppu sinni, og á þetta á vera til minningar um hina föllnu Svisslendinga 10. ágúst 1792 við Louvre! Á þennan veg heiðrar svissneska bandalagið hina fölu þjónustulund sona sinna. Það lifir á því að selja menn og heldur það hátíðlegt.“

Tvær villur eru að vísu í frásögn Engels. Thorvaldsen gerði ekki sjálfur hina frægu höggmynd í klett við Luzern, heldur var það Lukas Ahorn, sem hjó hana í bergið eftir uppdrætti Thorvaldsens. Og svissnesku hermennirnir féllu ekki í bardaga um Louvre-höll 1792, heldur þegar Parísarmúgurinn réðst á Tuileries-höll, þar sem franska konungsfjölskyldan hafðist þá við. Lágu um sex hundruð Svisslendingar í valnum, er yfir lauk. Í sveit franskra þjóðvarðliða, sem einnig vörðu konungshöllina, var Hervé de Tocqueville, faðir hins fræga rithöfundar Alexis, sem greindi Frönsku stjórnarbyltinguna af skarpskyggni, og var Hervé einn fárra, sem komust lífs af. Konungsfjölskyldan leitaði skjóls hjá Löggjafarsamkomunni, en það reyndist ekki traustara en svo, að konungur var hálshöggvinn í janúar 1793 og  drottning í oktober. Margir hafa lýst minnismerkinu í Luzern, þar á meðal bandaríski rithöfundurinn Mark Twain, enski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle og heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason, sem var á ferð um Sviss árið 1902, en frásögn hans birtist í Sumarblaðinu 1917.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2020.)


Stórlæti að fornu og nýju

Guðmundur Finnbogason landsbókavörður benti á það fyrir löngu, að verulegur samhljómur væri með siðfræðikenningu Aristótelesar og boðskap Hávamála. Kristján Kristjánsson heimspekiprófessor hefur tekið upp þennan þráð í nokkrum fróðlegum ritgerðum. Kristján hefur sérstaklega rætt um dygðina stórlæti, sem Aristóteles lýsir í Siðfræði Níkomakkosar. Í íslenskri þýðingu Siðfræðinnar eftir Svavar Hrafn Svavarsson er þessi dygð kölluð „mikillæti“ og sagt af nokkurri lítisvirðingu, að hún stangist á við siðferðishugmyndir okkar daga. Ég tel þýðingu Svavars Hrafns hæpna, enda á henni neikvæður blær. Mikillæti er annað nafn á drambi. Dygð Aristótelesar var hins vegar fólgin í því, að maður væri stór í sniðum, vissi af því og væri fús til að viðurkenna það. Hún væri meðalhófsdygð, en á öðrum jaðrinum væri yfirlæti og á hinum vanmetakennd.

Eins og Guðmundur og Kristján benda á, var stórlæti mikils metið á Íslandi að fornu, en andstæðu þess var lýst í Hávamálum: Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma. Ég er hins vegar ósammála Svavari Hrafni um, að stórmenni eða afburðamenn séu ekki lengur til, þótt ef til vill tali þeir ekki allir djúpri röddu eða stígi þungt til jarðar, eins og Aristóteles lýsti þeim. Sumir bregða stórum svip yfir lítið hverfi. Bestu dæmin að fornu um stórlæti eru tvær landnámskonur. Auður djúpúðga fór við tuttugusta mann til bróður síns Helga, en hann bauð henni og helmingi liðs hennar vetrarvist. Hún hvarf frá hin reiðasta og fór til annars bróður síns, Björns, sem bauð þeim öllum til sín, enda vissi hann af veglyndi systur sinnar. Steinunn hin gamla fór til frænda síns Ingólfs Arnarsonar, sem vildi gefa henni Rosmhvalanes. Hún vildi kaupa jörðina, en ekki þiggja, og gaf fyrir heklu flekkótta.

Í skáldsögum Ayns Rands, Uppsprettunni og Undirstöðunni, eru hetjurnar stórlátar í skilningi Aristótelesar og Forn-Íslendinga. Howard Roark lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum. John Galt neitar að vera þræll múgsins. Hank Rearden vill uppskera eins og hann sáir. Hvarvetna eru til menn, sem geta orðið afburðamenn. En þar eru líka til menn, sem vilja verða afætur. Skáldsögur Rands eru um afburðamenn, sem vinna fyrir sjálfa sig, ekki afæturnar. Stórlæti er ekki úrelt dygð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2020.)


Kaldar kveðjur

Í Íslendinga sögum eru þrír löðrungar sögulegir. Auður Vésteinsdóttir tók fé það, sem reynt var að bera á hana, til að hún segði til manns síns, og rak í nasir Eyjólfs hins gráa. „Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig.“ Þorvaldi Halldórssyni, fyrsta manni Guðrúnar Ósvífursdóttur, sinnaðist svo við hana sakir eyðslusemi hennar, að hann rak henni kinnhest. „Nú gafstu mér það er oss konum þykir miklu skipta að vér eigum vel að gert en það er litaraft gott,“ sagði hún. Gunnar á Hlíðarenda missti eitt sinn stjórn á sér, eftir að kona hans, Hallgerður Langbrók, hafði látið stela mat, og löðrungaði hana. Þegar hann löngu síðar bað um lokk úr hári hennar til að nota í bogastreng, þá er óvinir hans sóttu að honum, sagði hún: „Þá skal ég nú muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“

Frægasti löðrungurinn eftir það var sá, sem Hermann Jónasson forsætisráðherra veitti Brynjólfi Bjarnasyni, foringja íslenskra kommúnista, í ráðherraherberginu í Alþingishúsinu 14. mars 1940, eftir að þeim hafði orðið sundurorða um vetrarstríðið finnska, en Stalín hafði ráðist á Finna nokkrum mánuðum áður, og studdi Brynjólfur Stalín ólíkt flestum Íslendingum. Svo sem við var að búast, hafði Þjóðviljinn, málgagn kommúnista (sem nú kölluðu sig sósíalista) hin verstu orð um Hermann.

Í nýútkominni bók Kjartans Ólafssonar um íslensku sósíalistahreyfinguna er rifjað upp, að á flokksþingi Sósíalistaflokksins í nóvember 1966 var hart deilt um, hvort leggja ætti flokkinn niður og gera Alþýðubandalagið (sem verið hafði kosningabandalag) að stjórnmálaflokki. Brynjólfur Bjarnason var því andvígur, en varð undir. Kjartan hafði haft forystu um málið, en hann segir í bókinni, að hann hafi verið á leið út í lok þingsins, þegar Brynjólfur hafi gengið upp að honum og rekið honum löðrung (bls. 455). Raunar bætir Kjartan því við, að hann hafi tvisvar séð hinn aðalforingja íslenskra sósíalista, Einar Olgeirsson, slá til manna, þegar hann reiddist. Við hin hljótum að þakka okkar sæla fyrir að hafa aldrei verið í flokki með þessum mönnum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. september 2020.)


Selurinn Snorri

Þegar ég var barn að aldri fyrir röskum sextíu árum, gleypti ég í mig söguna um Selinn Snorra eftir norska teiknarann og rithöfundinn Friðþjóf (Frithjof) Sælen. Það fór þá auðvitað fram hjá mér, að ritið er ekki aðeins skemmtileg myndasaga handa börnum, heldur líka snjöll dæmisaga um hernám Noregs. Snorri er saklaus kópur í Íshafinu, sem veit ekki af neinum háska, en er trúgjarn og óvarfærinn. Vinir hans eru aðrir selir og rostungurinn Skeggi frændi. En hann á líka óvini. Honum stafar hætta af ísbirninum Voða, sem er tákn rússneskra kommúnista, en Hitler og Stalín voru í bandalagi frá 1939 til 1941 og hrundu saman af stað seinni heimsstyrjöld. Mávahjónin Sultur og Svöng eru á sveimi í kringum selina, en þau eru fulltrúar norsku kvislinganna. Þau eru með glampa í gulum augunum og rauð merki yfir þeim. „Það var eins og þau væru alltaf að bíða eftir einhverju.“ Snorri er ginntur í hættuferð á ísjaka, en í kringum hann er háhyrningurinn Glefsir á sveimi og hyggur á illt. Hvalurinn er tákn þýskra nasista. Sögunni lýkur vel, því að saman leiða Snorri og Skeggi frændi Glefsi í gildru, og vinnur Skeggi, sem er tákn bresku þjóðarinnar, á Glefsi.

Friðþjófur notar dýrasögu til að koma boðskap sínum á framfæri eins og George Orwell í Dýrabæ, en sú saga er um sorgleg endalok rússnesku byltingarinnar. Sjálfur er Friðþjófur aðallega í list sinni undir áhrifum frá bandaríska teiknimyndahöfundinum Walt Disney. Bókin kom út á norsku haustið 1941, rösku ári eftir að nasistar hernámu Noreg, og var hún bönnuð innan mánaðar, en útgefandinn hafði verið varaður við, og var bókin þá uppseld frá honum. Höfundurinn barðist í andspyrnuhreyfingunni norsku og flýði til Bretlands árið 1944, en sneri heim í stríðslok. Rit hans er fjörlega skrifuð barnabók með vel gerðum myndum, sem lesa má sem sjálfstætt ævintýri um dýralíf í Íshafinu, og kom hún út á sænsku 1946 og á ensku og íslensku 1950. Sagan hefur notið fádæma vinsælda hér á landi og komið út í sex útgáfum, en einnig verið sett upp í Leikbrúðulandi. Snorri selur er auðvitað fulltrúi norsku þjóðarinnar, og það er engin tilviljun, að Friðþjófur teiknari velur honum nafn hins íslenska sagnritara, sem skráði sögu Norðmanna frá öndverðu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. september 2020.)


Hvað skýrir rithöfundarferil Snorra?

2.1 Snorri_sturluson_1930Eftir því sem ég skoða betur rithöfundarferil Snorra Sturlusonar, myndast skýrar tilgáta um hann í mínum huga. Hún er þessi: Snorri semur Eddu, áður en hann fer á fund Noregskonungs, í því skyni að endurvekja skáldskaparlistina, hefðbundna aðferð Íslendinga til að afla sér fjár og frama í konungsgarði. Þegar hann kemur til Noregs 1218, eru þeir Hákon konungur og Skúli jarl ævareiðir Íslendingum fyrir átök við norska kaupmenn. Hafa þeir við orð að senda her til Íslands. Snorri verður þess áskynja, að þeir ætli raunar að ganga lengra og leggja undir sig Ísland. Hann vill sjálfur, að Íslendingar séu vinir konungs, ekki þegnar. Nærtækt er því að friða konung með blíðmælum, en setjast við það, þegar heim kemur 1220, að semja sögu þess konungs, sem áður hafði árangurslaust seilst til mannaforráða á Íslandi, Ólafs digra, núverandi konungi til eftirbreytni.

Snorri semur þessa sögu, Ólafs sögu helga, fyrst allra konungasagna, og er ris hennar, þegar Einar Þveræingur flytur ræðu sína á Alþingi 1024 og minnir á, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og sé því best að hafa engan konung. Í henni er líka ræða Þórgnýs lögmanns til Svíakonungs 1018 um, að hann skuli settur af, haldi hann ekki frið og lög við bændur. Snorri hefur frjálsari hendur um að bera Svíakonungi illa söguna en Ólafi digra, dýrlingi norsku kirkjunnar.

Síðan ákveður Snorri að teygja verkið í báðar áttir, skrifa heildarsögu Noregskonunga, Heimskringlu. Hann gerir þar greinarmun á hinum góðu konungum, sem héldu sköttum í hófi og virtu hin fornu lög, og hinum vondu, sem voru ágjarnir og ófriðsamir. Framarlega í Heimskringlu setur hann sögu, sem hann hefur eflaust samið sjálfur eins og ræður Einars og Þórgnýs. Hún er um landvættirnar, sem verja Ísland, en með henni er Snorri að segja Noregskonungi, að erfiðara kunni að vera að leggja Ísland undir sig með hervaldi en hann haldi. Snorri er eins og Sighvatur Þórðarson á undan honum hinn fullkomni hirðmaður. Hann segir konungi óbeint hug sinn í ræðum Einars og Þórgnýs og sögunni um landvættirnar. Heimskringla er Bersöglismál í óbundnu máli.

Jafnframt er Heimskringla í raun um árekstur tveggja stjórnmálahugmynda, hinnar fornu germönsku hugmyndar um Genossenschaft, lýðvald, jafningjasamband, eins og var á Íslandi, og hinnar nýju hugmyndar, sem kemur frá Róm, um Herrschaft, drottinvald, konungsstjórn, eins og hafði myndast í Noregi, en um þann árekstur mætti segja margt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband