7.11.2017 | 08:01
100 ár 100 milljónir
Í dag, 7. nóvember 2017, eru heil öld liðin frá byltingu bolsévíka, eins og kommúnistar kölluðu sig í Rússlandi. Þennan dag fyrir hundrað árum rændu Lenín og liðsmenn hans völdum af kjörinni lýðræðisstjórn. Í hönd fór sigurför kommúnista um heim allan, en samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2009, týndu 100 milljónir manna lífi af þeirra völdum: Flestir voru sveltir í hel, aðallega í Úkraínu 19321933 og Kína 19581961, aðrir skotnir, hengdir eða barðir til bana. Sumum var drekkt og lífið murkað úr öðrum í pyndingaklefum eða vinnubúðum. Þótt þessi róttæka hreyfing, sem hóf göngu sína fyrir hundrað árum, yrði smám saman að andlausri stofnun, snerust stjórnmáladeilur um allan heim, líka á Íslandi, löngum um kommúnismann, allt fram til þess að Berlínarmúrinn hrundi 1989. En hvers vegna krafðist kommúnisminn svo margra fórnarlamba? Er alræði óhjákvæmilegt í sameignarkerfi? Hvað getum við lært af þessum ósköpum, sem riðu yfir tuttugustu öld?
Lenín engu skárri en Stalín
Frá upphafi einkenndist bylting bolsévíka af takmarkalausu ofbeldi. Lenín og liðsmenn hans var ráðnir í að láta ekki fara eins fyrir sér og frönsku byltingarmönnunum á átjándu öld, sem sundruðust, bliknuðu og gáfust loks upp. Á tveimur mánuðum haustið 1918 tók leyniþjónusta bolsévíka, Tsjekan, af lífi um 1015 þúsund manns. Til samanburðar má nefna, að undir stjórn keisaranna árin 18251917 voru dauðadómar kveðnir upp af dómstólum, þar á meðal herdómstólum, samtals 6.323, þar af 1.310 árið 1906, eftir uppreisn árið áður. Mörgum dauðadómum var þá ekki fullnægt. Eðlismunur var því frekar en stigsmunur á stjórn kommúnista og rússnesku keisaranna. Upplýsingar úr skjalasöfnum, sem opnuðust um skeið eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna, sýna, að Lenín var síst mildari en eftirmaður hans Stalín. Á meðan hann hafði völd, streymdu frá honum fyrirskipanir í allar áttir um að sýna andstæðingum bolsévíka hvergi vægð. Aðalsmenn, embættismenn og klerkar voru kallaðir fyrrverandi fólk, og þeir, sem ekki voru drepnir eða fangelsaðir, voru sviptir réttindum. Nú var reynt að endurskapa allt skipulagið eftir hugmyndum Marx og Engels, afnema einkaeignarrétt og frjáls viðskipti. Stalín tók upp þráðinn frá Lenín og hóf víðtækan áætlunarbúskap, neyddi bændur af jörðum sínum og inn í samyrkjubú, þótt það kostaði stórfellda hungursneyð í Úkraínu. Jafnframt handtók hann smám saman alla helstu keppinauta sína um völd innan kommúnistaflokksins og neyddi suma þeirra til að játa á sig hinar fáránlegustu sakir í sýndarréttarhöldum.
Stalín og Hitler hleyptu í sameiningu af stað seinni heimsstyrjöld, þegar þeir skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu með svokölluðum griðasáttmála í ágúst 1939. Stalín lét myrða blómann af pólska hernum og flutti tugþúsundir manna úr fyrri valdastétt Eystrasaltsríkjanna á gripavögnum í vinnubúðir norðan heimsskautsbaugs. Bandalagi alræðisherranna tveggja lauk ekki, fyrr en Hitler réðst á Rússland sumarið 1941. Stalín varð þá skyndilega bandamaður Vesturveldanna og hernam eftir stríð mestalla Mið- og Austur-Evrópu. Leppstjórnir kommúnista hrifsuðu þar völd, og uppreisnir voru miskunnarlaust barðar niður. Í Kína sigraði Maó í borgarastríði 1949 og kom á enn verri ógnarstjórn en Stalín í Rússlandi. Talið er, að rösklega fjörutíu milljónir manna hafi soltið í hel, þegar Maó ætlaði árin 19581961 að taka stökkið mikla úr ríki nauðsynjarinnar í ríki frelsisins, eins og marxistar orðuðu það.
Vesturveldin höfðu veitt hraustlegt viðnám, þegar kommúnistar hugðust leggja undir sig Suður-Kóreu sumarið 1950, en smám saman dró úr varnarvilja þeirra. Tókst kommúnistum að leggja undir sig Kúbu 1959 og Suður-Víetnam, Laos og Kambódíu 1975. Hið eina, sem hélt kommúnistum í skefjum í Evrópu, var hinn öflugi her Bandaríkjanna, vopnaður kjarnorku- og vetnissprengjum. En að lokum rættist sú spá, sem austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði sett fram þegar árið 1920, að við víðtækan áætlunarbúskap væri ekki hægt að nýta saman vitneskju, þekkingu og kunnáttu ólíkra einstaklinga, svo að sameignarkerfi væri dæmt til að dragast aftur úr hinu frjálsa hagkerfi. Kommúnistar höfðu réttlætt ofbeldi sitt með því, að brjóta yrði egg til að geta bakað eggjaköku. Menn sáu brotnu eggin. En hvar var eggjakakan? Þegar einarðir leiðtogar náði kjöri í Bretlandi og Bandaríkjunum, Margrét Thatcher og Ronald Reagan, voru dagar heimskommúnismans taldir. Berlínarmúrinn hrundi 1989, og Ráðstjórnarríkin liðu undir lok 1991.
Undirrótin í hugmyndum Marx og Engels
Halldór Laxness sagði mér eitt sinn, að hann hefði horfið frá kommúnisma, þegar honum hefði orðið ljóst, að tatarakaninn sæti enn í Kreml. Þótt skoðun hans væri skemmtilega orðuð, er hún hæpin. Stefna Leníns og Stalíns var í rökréttu framhaldi af hugmyndum Marx og Engels, ekki frávik frá þeim. Í ritum hinna þýsku frumkvöðla leynir ofbeldishugarfarið og ofstækið sér ekki. Í Nýja Rínarblaðinu 7. nóvember 1848 sagði Marx fólk óðum vera að sannfærast um, að aðeins dygði eitt ráð til að stytta blóðugar fæðingarhríðir nýs skipulags, ógnarstjórn byltingarinnar. Í sama blaði 13. janúar 1849 sagði Engels, að sumar smá- og jaðarþjóðir væru ekkert annað en botnfall (Volkerabfälle). Nefndi hann sérstaklega Kelta í Skotlandi, Bretóna í Frakklandi, Baska á Spáni og suður-slavneskar þjóðir. Í næstu heimsstyrjöld munu ekki aðeins afturhaldsstéttir og konungsættir hverfa af yfirborði jarðar, heldur líka afturhaldsþjóðir í heild sinni. Og það eru framfarir. Sérstaklega fyrirlitu Marx og Engels Íslendinga. Í samtali við Bruno Bauer 12. desember 1855 hæddist Marx að tilraunum Íslendinga til að tala eigið mál, og í bréfi frá því í desember 1846 skrifaði Engels, að Íslendingar byggju í jarðhýsum, sypi lýsi og þrífust ekki, nema loftið lyktaði af úldnum fiski. Ég hef oftsinnis freistast til þess að vera stoltur af því að vera þó ekki Dani, hvað þá Íslendingur, heldur bara Þjóðverji. Þótt íslenskir marxistar þykist vel lesnir, hafa þeir lítt haldið slíkum ummælum meistara sinna á lofti.
Það er engin tilviljun, að kommúnismi hefur alls staðar verið framkvæmdur með takmarkalausu ofbeldi. Þegar reynt er að endurskapa allt skipulagið eftir kenningum úr kollinum á einhverjum spekingum, afnema einkaeignarrétt og frjáls viðskipti, verður til stórkostlegt vald, og það er líklegt til að lenda að lokum í höndum þeirra, sem grimmastir eru og blygðunarlausastir. Sumir marxistar vissu raunar af þessari hættu. Í landi, þar sem stjórnin á öll atvinnutækin, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði, skrifaði Trotskíj, eftir að Stalín hafði tekið upp áætlunarbúskap. Og í gagnrýni sinni á lenínismann benti Rósa Lúxembúrg á, að frelsið væri alltaf frelsi andófsmannsins. Þau Trotskíj og Lúxembúrg horfðu hins vegar fram hjá því, að í einkaeignarrétti og frjálsum viðskiptum felst sú valddreifing, sem tryggir frelsið. Því síður virtust þau skilja rök austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks fyrir því, að sameignarstefna væri ætíð leiðin til ánauðar: Þegar stjórna átti atvinnulífinu með áætlunum að ofan, varð of flókið að taka tillit til sérþarfa einstaklinganna , svo að annaðhvort urðu kommúnistar að gefast upp á áætlunarbúskapnum eða reyna að fækka þessum sérþörfum og einfalda þær með því að taka í sínar hendur öll mótunaröfl mannssálarinnar. Til þess að geta skipulagt atvinnulífið urðu þeir að skipuleggja mennina, enda sagði Stalín, að rithöfundar væru verkfræðingar sálarinnar. Kúgunin og einhæfingin er eðlisnauðsyn kerfisins.
Kommúnistahreyfingin íslenska
Hin stórfellda tilraun Leníns og liðsmanna hans til að endurskapa allt skipulagið vakti sömu athygli á Íslandi og annars staðar. Morgunblaðið fylgdist grannt með málum þar eystra. Það þýddi til dæmis á þriðja áratug greinaflokka um kúgun bolsévíka í Rússlandi eftir Anton Karlgren, sem var sænskur sérfræðingur í slavneskum fræðum. Á öndverðum fjórða áratug birti það líka frásagnir eftir breska blaðamanninn Malcolm Muggeridge um hungursneyðina í Úkraínu. En Lenín og Stalín áttu sér líka dygga lærisveina á Íslandi. Brynjólfur Bjarnason og Hendrik S. Ottósson voru fulltrúar á öðru heimsþingi Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, í Moskvu 1920 og heyrðu þar Lenín útlista hernaðargildi Íslands í hugsanlegu stríði á Norður-Atlantshafi. Fyrst störfuðu íslenskir marx-lenínistar innan Alþýðuflokksins, en í samráði við Kremlverja stofnuðu þeir kommúnistaflokk 1930, og varð Brynjólfur formaður hans. Flokkurinn var í nánum tengslum við bróðurflokk sinn í Rússlandi, og sóttu að minnsta kosti tuttugu íslenskir kommúnistar leynilegar þjálfunarbúðir í Moskvu árin 19291938. Skjöl í rússneskum söfnum sýna, að íslenskir kommúnistar þáðu ekki aðeins ráð, heldur líka fjárstuðning frá Moskvu. Þegar Komintern lét það boð út ganga, að kommúnistar skyldu reyna að sameinast vinstri sinnuðum jafnaðarmönnum, tókst íslenskum kommúnistum að fá í bandalag við sig ýmsa Alþýðuflokksmenn, og haustið 1938 var Sósíalistaflokkurinn stofnaður. Við leggjum kommúnistaflokkinn aldrei niður öðru vísi en sem herbragð, sagði Einar Olgeirsson hins vegar í einkasamtali, en hann var formaður Sósíalistaflokksins 19391968.
Sósíalistaflokkurinn studdi Kremlverja dyggilega og fylgdi línunni frá Moskvu með óverulegum undantekningum. Leiðtogar hans voru tíðir gestir austan járntjalds, og flokkurinn þáði verulegan fjárstuðning frá Rússlandi. Tókst honum að koma sér upp fjórum stórhýsum í Reykjavík, við Skólavörðustíg 19, Tjarnargötu 20, Laugaveg 18 og Þingholtsstræti 27. Ekki verður þó sagt, að fræðilegur marxismi hafi verið sterkasta hlið þeirra Brynjólfs Bjarnasonar, sem á efri árum aðhylltist andatrú, og Einars Olgeirssonar, sem gældi við rómantíska þjóðernisstefnu. Þegar sótt var að sósíalistum í Kalda stríðinu, fengu þeir á ný í lið með sér vinstri sinnaða jafnaðarmenn og buðu fram undir nafni Alþýðubandalagsins frá 1956. Á sjöunda áratug var Alþýðubandalaginu breytt í stjórnmálaflokk, og gömlu stalínistarnir misstu tökin á því. Tengslin við Rússland og Kína rofnuðu, en Alþýðubandalagsmenn héldu nokkru sambandi áfram við kommúnista í Rúmeníu og Júgóslavíu og á Kúbu. Við endalok Ráðstjórnarríkjanna 1991 hvarf úr sögunni einn helsti klofningsþáttur hinnar íslensku vinstri hreyfingar, og Alþýðubandalagið var lagt niður 1998. Síðasta verk forystusveitar þess, þar á meðal Svavars Gestssonar, var að þiggja heimboð kúbverska kommúnistaflokksins þá um haustið. Hugðust Íslendingarnir ganga á fund Fidels Castros, en hann kærði sig ekki um að hitta þá. Má því segja með orðum skáldsins, að sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar hafi lokið með snökti frekar en gný.
Vofa kommúnismans
Nasistar Hitlers töpuðu seinni heimsstyrjöldinni, og eftir hana voru ódæði þeirra afhjúpuð í réttarhöldunum í Nürnberg. Nasismi er hvarvetna talinn glæpsamlegur. Kommúnisminn hefur ekki sætt sömu meðferð, þótt eitt hundrað milljónir manna hafi fallið af völdum hans, allt frá því að Lenín og liðsmenn hans rændu völdum í Rússlandi 7. nóvember 1917. Nú standa þó aðeins eftir tvö opinber kommúnistaríki, Kúba og Norður-Kórea. Báðum löndum er stjórnað af fjölskyldum, Castro-bræðrum á Kúbu og Kim-fjölskyldunni í Norður-Kóreu. Einnig þrífst enn eins konar lýðskrums-kommúnismi í Venesúelu. En þótt hinn harðskeytti heimskommúnismi fyrri tíðar sé vissulega dauður, lifa enn ýmsar hugmyndir hans. Víða er horft fram hjá helsta lærdómnum, sem draga má af hinni dapurlegu sögu hans, að eina ráðið til að tryggja frelsið felst í valddreifingu í krafti einkaeignarréttar og frjálsra viðskipta. Vofa kommúnismans gengur enn ljósum logum um Evrópu, ekki síst í háskólum.
(Grein í Morgunblaðinu 7. nóvember 2017.)
29.10.2017 | 07:55
Stjórnmálamenn munu huga að baklandinu
Nú keppast hinir óháðu álitsgjafar RÚV og sumra annarra fjölmiðla við að reyna að lesa vinstri stjórn út úr niðurstöðum kosninganna. Þeir gleyma því, að stjórnmálamenn þurfa alltaf að huga að baklandinu. Það verður áreiðanlega sterk þörf fyrir það í Framsóknarflokknum að taka upp samstarf við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og leggja til hliðar ágreiningsefni. Þetta eru í raun sömu flokkarnir. Sjálfstæðisflokkurinn og þessir tveir flokkar geta farið í stjórn saman, án þess að neitt baklandanna rísi upp gegn því. Þetta geta þeir þrír gert ýmist með Viðreisn eða Flokki fólksins.
Ef þeir flokkar fara hins vegar í vinstri stjórn, þá eru þeir að ganga gegn sínum baklöndum, hygg ég. Til dæmis vill Þorsteinn Víglundsson ekki aðför að atvinnulífinu í anda vinstri stjórnar og Magnús Þór Hafsteinsson ekki straum hælisleitenda frá löndum, sem ekki eru talin brjóta mannréttindi kerfisbundið. Annars er þetta sem betur fer frjálst land, og ef þessir flokkar á miðjunni vilja ólmir sjálfstortímingu með því að ganga inn í vinstri stjórn með sífelldum upphlaupum og úrslitakostum óreyndra hávaðamanna, verðbólgu og stórfelldum skattahækkunum, þá getum við hin ekki komið í veg fyrir það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook
28.10.2017 | 10:54
Undur framfaranna
Nýlega hafa komið út á íslensku tvær merkilegar bækur um undur framfaranna, Heimur batnandi fer eftir breska líffræðinginn Matt Ridley og Framfarir eftir sænska sagnfræðinginn Johan Norberg. Þær staðreyndir, sem þeir vekja athygli á, eru óvefengjanlegar. Fæðuframboð í heiminum hefur stóraukist, en fátækt snarminnkað. Hreinlæti hefur batnað og um leið heilsufar. Dregið hefur úr ofbeldi og glæpum og stríðum fækkað. Efnistök þeirra tveggja eru þó ólík. Ridley leggur áherslu á efnalegar framfarir í krafti atvinnufrelsis, en Norberg skrifar margt um hópa, sem hafa átt undir högg að sækja, en eru nú teknir að njóta sín.
Þegar ég las bækur þeirra Ridleys og Norbergs varð mér hugsað til Íslands um aldamótin 1900. Þá var vatn sótt í brunna. Þegar vatnsveita kom loks til sögu árið 1906 dró snögglega úr taugaveiki, sem hafði smitast með óhreinu vatni. Ein óvænt hliðarafleiðing var líka, að iðgjöld brunatrygginga lækkuðu verulega: Með vatninu var oft gerlegt að ráða niðurlögum elds í húsum. Þetta er dæmi um stigmögnun framfara, þegar eitt leiðir af öðru í sjálfsprottinni þróun eða jákvæðri víxlverkun. Þá voru ekki heldur til hitaveitur eða rafmagnsveitur á Íslandi. Einhver mikilvægasta lífskjarabót Íslendinga varð á öndverðri tuttugustu öld, þegar kuldinn og myrkrið létu undan síga fyrir nýrri tækni.
Þeir Ridley og Norberg benda báðir á, að framfarir felast ekki nauðsynlega í fleiri krásum eða stærra veisluborði, heldur miklu frekar í því, að menn þurfi ekki að hafa eins mikið fyrir gæðunum og áður fyrr. Þeir spari sér tíma og orku. Enn varð mér hugsað til Íslands um 1900. Þá tók það húnvetnska skólasveina þrjá daga að komast á hestum suður í Lærða skólann í Reykjavík. Nú er sami spölur ekinn á þremur klukkutímum. Menn geta því notað tvo sólarhringa og 21 klukkustund til annars, án þess þó að þeir hafi verið sviptir tækifærinu til að fara leiðina á hestum. Ridley og Norberg sýna eftirminnilega fram á, að framfarir eru mögulegar, en ekki sjálfsagðar. »Heimurinn mun ekki farast fyrir skort á undrum, heldur aðeins fyrir skort á undrun,« sagði breski rithöfundurinn Chesterton.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. október 2017.)
23.10.2017 | 09:37
Norberg kl. fimm í dag
Hann kynnir bók sína kl. fimm í dag í stofu N-132 í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands. Fundarstjóri er Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði. Umsegjandi er Þorbjörn Þórðarson fréttamaður, en síðan verða frjálsar umræður. Að fundinum loknum áritar Norberg bók sína. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
21.10.2017 | 15:37
Responses to frequent questions by foreign journalists
Here are some of my responses to foreign journalists who are curious about the situation in Iceland:
It is obvious that if the Left Greens, the Social Democrats and the Pirates gain a majority in Parliament (which they might, even if they might not gain a majority of the population), they will have to form a government together. Their policies and programmes point in that direction, and that is what their votes will expect of them. Their constituencies will simply demand that and not allow them to do anything else. They are entrapped by their own rhetoric. Anyway, the Left Greens are only refusing to exclude any other partners such as the centre-right Independence Party in order to raise their price in coalition talks with the rest of the left. It is a ploy, not a policy.
Iceland has recovered completely economically from the 2008 bank crash, and is flourishing while other European countries are languishing, the victims of stagnation and huge government debts. Iceland has no unemployment, whereas the unemployment rate of young people in some European countries is around 50%. Iceland has achieved this without an increase in inequality. Income distribution in Iceland is now the most even in the world. Iceland also has a strong pension system, mostly well-funded, and the pensioners enjoy better income on average than in the other Nordic countries.
It would therefore be surprising if the Independence Party which has been in government since 2013 would not get good support. Probably it will gain more seats than it seems to be getting now (according to opinion polls), under the old maxim, formulated by Clintons political adviser, Carville: Its the economy, stupid! There is however a relentless personal campaign going on, driven by the overwhelmingly leftwing media in Iceland, against the leader of the Independence Party, Bjarni Benediktsson, all based on the fact that he is a wealthy man from a wealthy family. He has not been shown to have done anything illegal or immoral: He has just taken care of his property in the same way as all wealthy people do. He did not possess any insider information in the bank crash, for example, as he was then a member of parliament, and not a government minister. He simply read the newspapers, as everybody else did.
Likewise, if the left does not gain a majority of seats in the Parliament, probably the other parties would form a government. But the more parties there will be, the more difficult negotiations between them before forming a government will become.
7.10.2017 | 12:47
Voru bankarnir gjaldþrota?
Í nýlegri ritgerð fyrir Brookings stofnunina í Washingtonborg velta Sigríður Benediktsdóttir, Gauti B. Eggertsson og Eggert Þórarinsson því fyrir sér, hvort íslensku bankarnir hafi verið gjaldþrota árið 2008, svo að allar björgunartilraunir hafi í raun verið vonlausar. Þau nefna eina röksemd fyrir því. Samkvæmt bandarískri rannsókn frá 2007 hafi endurheimtuhlutfall fjármálastofnana af ótryggðum kröfum (skuldabréfum) verið 59%, en þetta hlutfall hafi reynst vera 29% fyrir íslensku bankana.
Þessi röksemd er hæpin af ýmsum ástæðum.
Í fyrsta lagi voru samkvæmt neyðarlögunum íslensku allar innstæður tryggðar, innlendar sem erlendar, en í Bandaríkjunum voru aðeins tryggðar innlendar innstæður upp að 100 þúsund dölum, og rannsóknin, sem þau Sigríður vitna í, náði aðeins til áranna 19821999. Tölurnar eru því alveg ósambærilegar, eins og þau Sigríður nefna raunar sjálf.
Í öðru lagi hefði af þessum ástæðum verið rétt að bera saman endurheimtuhlutföll fjármálastofnana í heild. Samkvæmt yfirgripsmikilli rannsókn Nada Mora frá 2012 fyrir Seðlabankann í Kansas-borg voru þau að miðgildi fyrir tímabilið 19702008 24,6% í Bandaríkjunum. En endurheimtuhlutföll íslensku bankanna voru að miðgildi 48% samkvæmt nýlegri og vandaðri rannsókn Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar.
Í þriðja lagi fer endurheimtuhlutfall auðvitað eftir árferði. Mora nefnir í rannsókn sinni, að endurheimtuhlutfallið, sem hún reiknar út fyrir fjármálastofnanir, sé ekki síst lágt vegna ársins 2008, þegar margar fjármálastofnanir féllu. Hér á Íslandi var ekki aðeins kreppa, heldur bankahrun, og það hafði í för með sér gjaldþrot margra skuldunauta bankanna.
Í fjórða lagi lækkar endurheimtuhlutfall við brunaútsölur. Í Bandaríkjunum eru fjármálastofnanir venjulega endurskipulagðar eftir föstum reglum. En allur gangur var á því, hvernig farið var með eigur íslensku bankanna. Í Bretlandi var að mestu leyti komið í veg fyrir brunaútsölur. Þar voru endurheimtuhlutföll Heritable og KSF 98% og 87%. Þeir voru því greinilega ekki gjaldþrota. Annars staðar fékkst aðeins 1020% raunvirðis fyrir banka, til dæmis í Noregi og Danmörku, þar sem stjórnvöld knúðu fram brunaútsölur.
Bankahrunið 2008 var vissulega stórt. En óþarfi er að gera meira úr því en efni standa til.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. október 2017.)
20.9.2017 | 14:20
Hverjir geta talað í nafni þjóðarinnar um stjórnarskrá?
Þjóðin hefur valið stjórnarskrá, segja Gunnar Smári, Þorvaldur Gylfason og fleiri. Í kosningum til stjórnlagaþings var þátttakan aðeins 36,8%. M.ö.o. höfðu 63,2% ekki áhuga. Kosningarnar voru síðan dæmdar ólöglegar. Þá skipaði stjórnin sama fólk í stjórnlagaráð. Kjörsóknin um tillögur þess var 48,4%. M.ö.o. höfðu 51,6% þjóðarinnar ekki áhuga. Af þeim, sem kusu, vildu 67% miða við uppkastið frá stjórnlagaráðinu. Þetta merkir, að einn þriðji kjósenda samþykkti þetta uppkast. Tveir þriðju hluta þjóðarinnar samþykktu það ekki, mættu annaðhvort ekki á kjörstað eða greiddu ekki atkvæði með því. Til samanburðar var kjörsóknin vegna lýðveldisstjórnarskrárinnar 1944 98,4%, og hana samþykktu 98,5% þeirra, sem greiddu atkvæði. Getum við, sem styðjum gömlu, góðu lýðveldisstjórnarskrána, ekki frekar talað í nafni þjóðarinnar en þessir fulltrúar eins þriðja hluta þjóðarinnar, sem leist vel á uppkast hins ólöglega stjórnlagaráðs, en það hóf hvern fund á að syngja saman og hefur síðan verið að kynna skrípaleik sinn erlendis?
9.9.2017 | 20:55
Bloggið sem hvarf
Hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson birti á bloggi sínu 8. október 2009 lista um mestu mistökin, sem gerð hefðu verið fyrir og í bankahruninu íslenska. Hann hefur nú eytt þessu bloggi, en fjölmiðlum í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þótti það fréttnæmt eins og allt annað, sem var til þess fallið að gera lítið úr Davíð Oddssyni. Í Fréttablaðinu og á visir.is var bloggið því endursagt á þeim tíma.
Gauti skrifaði: Stærstu mistökin eru líklega fólgin í veðlánaviðskiptum Seðlabanka Íslands sem ollu gjaldþroti hans. Í þessum viðskiptum töpuðust um 300 milljarðar, sem jafnast á við um 1 milljón á hvert mannsbarn á Íslandi, eða um 5 milljónir á hverja þriggja barna fjölskyldu. Þessi mistök lenda beint á íslenskum skattgreiðendum.
Gauti getur þess ekki, að reglur Seðlabankans um veð voru þrengri en flestra annarra banka, til dæmis Seðlabankans bandaríska, en þar starfaði Gauti frá 2004 til 2012. Hann nefnir ekki heldur, að með Neyðarlögunum frá 6. október 2008 var kröfum Seðlabankans á bankana skipað aftur fyrir kröfur innstæðueigenda. Olli það miklu um bókfært tap hans þá. Raunar kemur fram í nýlegri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, að líklega verður tap skattgreiðenda af bankahruninu ekkert.
Tveir dómar, hvor í sínu landi, skipta hér síðan máli, þótt þeir væru kveðnir upp, eftir að Gauti skrifaði bloggið. Vorið 2011 gerði Hæstiréttur Bandaríkjanna Seðlabankanum þar í landi eftir mikinn málarekstur að upplýsa um veðlán til banka í lánsfjárkreppunni. Sannaðist þá, eins og ég hef áður bent hér á, að bankinn hafði lánað gegn miklu lakari veðum en Seðlabankinn íslenski.
Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu vorið 2016 (í máli nr. 130/2016), að ekkert hefði verið athugavert við veðlán Seðlabankans, og yrði því þrotabú eins lántakandans að endurgreiða honum skuld sína. Seðlabankinn hefði ekki brotið neinar reglur.
Skiljanlegt er því, að Gauti skyldi eyða bloggi sínu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2017.)
1.9.2017 | 10:03
Deilt um einstefnuna í Háskólanum
Ég hef í nokkrum færslum á Facebook deilt á rétttrúnaðarkórinn, sem tekið hefur við af frjálsa samkeppni hugmynda í vísindum. Fyrst skrifaði ég:
Norræna félagið o. fl. halda á næstunni fund um norsku kosningarnar: Þar er aðalræðumaður blaðamaður af Klassekampen, öfgavinstrablaði (Mímir Kristjánsson, fyrrv. formaður Rød ungdom), en síðan eru í pallborði framkvæmdastjóri Vinstri grænna (Björg Eva Erlendsdóttir), formaður ungra pírata (Björt Guðjónsdóttir) og Magnús Þór Hafsteinsson.
Síðan skrifaði ég um fyrirhugað málþing um Umhverfisógn og þörfina á nýrri siðbót:
Á fundi Alþjóðamálastofnunar um norsku kosningarnar tala þrír einstaklingar yst til vinstri (framkvæmdastjóri Vinstri-grænna, blaðamaður á Klassekampen og formaður Ungra pírata) og einn á miðjunni (var í Frjálslynda flokknum sáluga á Íslandi). Hér er annað dæmi um hina furðulegu einstefnu, sem er að vera sífellt algengari í Háskólanum. Allir vita, hvað þessi kór mun syngja saman, og engin rödd mun hljóma öðru vísi.
Með færslunni setti ég mynd af fundarboðinu um umhverfisógnina og þörf á siðbót. Í þriðja skipti skrifaði ég um fyrirlestur um nýfrjálshyggju:
Háskólinn heldur áfram einstefnunni. Aðeins eru boðnir fram fyrirlesarar af vinstri væng. Í kynningu á þessum er sagt: Guy Standing er breskur hagfræðingur við Lundúnarháskóla sem er þekktur fyrir gagnrýni sína á kapítalisma og viðtekna efnahagslega hugsun. Hann hefur með öðrum sömu skoðanir og 98% samkennara minna og 5,7% þjóðarinnar.
Andri Sigurðsson skrifaði þá á Facebook vegg minn:
Hannes, neoliberalismi er það sem við búum við. Hversvegna ættum við ekki að gagnrýna hann? Það er hin vísindalega aðferð. Hvernig ætlar þú að þróast áfram annars? Nei alveg rétt, þú ert sáttu við ástandið. Það er þannig sem við stöðnum.
Ég svaraði honum:
Mér finnst sjálfsagt að gagnrýna nýfrjálshyggju (og hef raunar ekkert á móti heitinu). En þá verður að vera skýrt, við hvað er átt, en nýfrjálshyggja sé ekki notuð sem samheiti um allt, sem venjulegt fólk hlýtur að vera mótfallið. Eðlilegast væri að leggja í heitið þá merkingu, að þetta sé hreyfing, sem þau Thatcher og Reagan beittu sér fyrir og framkvæmdu og sem þeir Hayek og Friedman voru hugmyndasmiðir að. Ég gæti kannast við mig í þeirri merkingu sem nýfrjálshyggjumaður. Og þá verður líka að tryggja, að andstæð sjónarmið nýfrjálshyggjumannanna sjálfra komist líka að, því að vísindin eru frjáls samkeppni hugmynda. En í Háskólanum er römm andstaða frá þessum 98%, sem hafa sömu skoðanir og 5,7% þjóðarinnar, við það að hleypa andstæðum sjónarmiðum að. Þetta er jaðar, sem heimtar að vera miðja, mús, sem kynnir sig sem ljón, þúfa, sem vill heita fjall. Ég gæti nefnt mörg skýr dæmi um það. Á ég að nefna einhver?
29.8.2017 | 07:05
Rannsókn ASÍ á skattbyrði og tekjudreifingu
Nýbirt rannsókn ASÍ á skattbyrði sýnir, að hún hafi aukist helst hjá tekjulægsta hópnum. Ástæðan er sú, segja ASÍ-menn, að persónuafsláttur hefur ekki hækkað í samræmi við laun. Það er út af fyrir sig rétt, en segir ekki alla söguna. Um þetta deildum við Stefán Ólafsson prófessor á sínum tíma. Ég taldi, að persónuafsláttur ætti ekki að hækka í samræmi við laun, því að þá greiddu menn ætíð sama hlutfall af tekjum sínum í skatt óháð því, hvort þær hækkuðu, en auðvitað ættu þeir að taka þátt í sameiginlegum byrðum þjóðarinnar, þegar og ef laun þeirra hækkuðu.
Ástæðan til þess, að skattbyrði tekjulægsta hópsins hefur þyngst, er, að hann er orðinn aflögufærari en áður. Þetta er svipað og þegar fyrirtæki greiðir engan skat, þegar það græðir ekkert, en greiðir tekjuskatt, um leið og það fer að græða. Skattbyrði þess hefur þyngst, en það er fagnaðarefni, til marks um betri afkomu. Raunar er persónuafsláttur hér miklu hærri en á öðrum Norðurlöndum og í öðrum grannríkjum. Ég tel eðlilegast, að allir taki þátt í að greiða fyrir þjónustu ríkisins, en sumir séu ekki skattfrjálsir og geti síðan greitt atkvæði með því að þyngja skattbyrði á aðra, eins og Vinstri grænir virðast vilja. Um allt þetta má raunar lesa nánar í bók minni um skattamál, sem til er á Netinu.