Draumur Gunnars að rætast?

GunnarGunnarssonHorfur eru nú á, að Svíþjóð og Finnland hverfi frá hlutleysi og gerist aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það hefði fyrir nokkrum árum þótt saga til næsta bæjar. Kalmarsambandið, sem var ríkjasamband þriggja konungsríkja, Danmerkur, Svíþjóðar ásamt Finnlandi og Noregs ásamt Íslandi, stóð aðeins í röska öld, frá 1397 til 1523. Eftir það skiptust Norðurlönd milli konunga Danmerkur og Svíþjóðar allt til 1814, þegar Danir urðu að láta Noreg af hendi við Svía í sárabætur fyrir Finnland, sem Rússar höfðu tekið af Svíum.

Á nítjándu öld spratt skandínavisminn upp: Danir, Svíar og Norðmenn væru frændþjóðir og ættu að mynda ríkjabandalag, jafnvel ríki. Skandínavisminn beið hins vegar hnekki, þegar Svíar vildu ekki liðsinna Dönum í átökum þeirra við Þjóðverja. Skilnaður Noregs og Svíþjóðar 1905 þótti líka ósigur skandínavismans. Í fyrri heimsstyrjöld voru skandinavísku ríkin öll hlutlaus, en Ísland var þá í raun og veru undir stjórn Breta. Finnar notuðu tækifærið 1917 til að segja skilið við Rússa, og Ísland varð fullvalda ríki í sambandi við Danakonung 1918. Enginn hlustaði á Gunnar Gunnarsson, sem mælti í greinasafni 1927, Det nordiske rige, fyrir ríkjabandalagi Norðurlanda.

Í seinni heimsstyrjöld komu ólíkar aðstæður hinna norrænu þjóða vel í ljós. Svíar gátu verið hlutlausir. Norðmenn og Danir sættu hernámi Þjóðverja. Finnar urðu fyrir árás Rússa og urðu að afhenda þeim mikið land. Íslendingar sættu hernámi Breta. Árið 1948 náðu skandinavísku ríkin þrjú ekki samkomulagi um varnarbandalag. Áherslur þeirra voru of ólíkar. Norðmenn, Danir og Íslendingar komust undir verndarvæng Bandaríkjanna, Svíar treystu á sjálfa sig, og Finnar héldu sjálfstæði gegn því að styggja ekki Rússa. Nú hafa aðstæður gerbreyst. Er draumur Gunnars Gunnarssonar um „det nordiske rige“ að rætast? Erum við á leið til Kalmar?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. maí 2022.)  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband