17.2.2022 | 08:26
Saga sigurvegaranna?
Á Söguþingi 2012 kvartaði Skafti Ingimarsson undan því, að ég hefði í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, verið að skrifa sögu sigurvegaranna í Kalda stríðinu og afgreitt íslenska kommúnista (og vinstri sósíalista) sem erindreka erlends valds. Skilja þyrfti íslenska kommúnista í stað þess að fordæma þá. Þetta er hæpið. Skökku skyti við, ef sagnfræðingar færu að skrifa sögu seinni heimsstyrjaldarinnar af skilningi og samúð með málstað nasista, enda komst Nürnberg-dómstólllinn að þeirri niðurstöðu, að samtök þeirra hefðu verið glæpsamleg.
Þó er sannleikskjarni í kvörtun Skafta. Auðvitað þarf að skýra, hvers vegna íslenskir kommúnistar náðu yfirhöndinni í baráttu við jafnaðarmenn árin 19371942 ólíkt því, sem gerðist í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, þar sem jafnaðarmenn voru miklu öflugri en kommúnistar. Ég reyni þetta í nýrri bók minni, Communism in Iceland, 19181998, og hef raunar áður vikið að málinu hér í Fróðleiksmolum.
Ein algeng skýring er hæfir leiðtogar. En ég fæ ekki séð, að leiðtogar kommúnista, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson, hafi verið miklu hæfari en leiðtogar Alþýðuflokksins á þessum tíma, Stefán Jóhann Stefánsson, Haraldur Guðmundsson og Emil Jónsson, þótt eflaust hafi það spillt fyrir Alþýðuflokksmönnunum þremur, að þeir gegndu allir háum embættum, á meðan kommúnistarnir þrír lögðu sig alla í baráttuna.
Önnur skýring er afleikir andstæðinganna: Vinstri jafnaðarmenn á Íslandi hafi undir forystu Héðins Valdimarssonar verið einu norrænu jafnaðarmennirnir, sem tóku samfylkingarboði kommúnista upp úr 1935, en þegar Héðinn hafi viljað snúa aftur í árslok 1939, hafi Alþýðuflokkurinn ekki viljað taka við honum. Benjamín Eiríksson, vinur Héðins, hélt þessu fram við mig og benti á, að sænskir jafnaðarmenn hefðu fagnað endurkomu þeirra Zeths Höglunds og Fredriks Ströms, eftir að þeir misstu trúna á kommúnismann. Eflaust var Héðinn of trúgjarn og Alþýðuflokksforystan of óbilgjörn, en ég held samt, að þessi mistakakenning dugi lítt, enda gerðu leiðtogar kommúnista margvísleg mistök líka. Fleiri skýringa er þörf, þótt eitthvað sé til í þessum tveimur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. febrúar 2022.)
17.2.2022 | 08:22
Tvö ný rit mín
Árið 1961 komu með stuttu millibili út tvö rit eftir Matthías Johannessen, skáld og ritstjóra. Skömmu eftir útkomu hins síðari spurði Tómas Guðmundsson skáld hæversklega í bókabúð: Hefur nokkurt rit eftir Matthías Johannessen komið út í dag? Þessi saga rifjaðist nýlega upp fyrir mér, því að í árslok 2021 gekk ég frá tveimur ritum, sem dreifa á innan tíðar í bókabúðir, en þau verða líka aðgengileg á Netinu.
Annað heitir Bankahrunið 2008 og er 64 blaðsíður. Það er útdráttur á íslensku úr skýrslu minni á ensku fyrir fjármálaráðuneytið, sem ég skilaði 2018. Þar er meginniðurstaðan, að beiting bresku hryðjuverkalaganna á Íslendinga 8. október 2008 hafi í senn verið ruddaleg og óþörf, því að breska fjármálaeftirlitið hafði þegar girt fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga með tilskipun til útibús Landsbankans 3. október, en yfirlýstur tilgangur aðgerðarinnar var einmitt að koma í veg fyrir slíka flutninga. Ein skýring mín á hörku Breta er, að þeir Gordon Brown og Alistair Darling eru báðir Skotar, og þeir vildu sýna kjósendum sínum, hversu varasamt sjálfstæði Skotlands væri.
Hitt ritið er á ensku. Það heitir Communism in Iceland: 19181998 og er 160 blaðsíður. Ég skrifaði það að áeggjan prófessors Stéphane Courtois, ritstjóra Svartbókar kommúnismans, og studdist þá við bók mína á íslensku, sem kom út 2011, Íslenska kommúnista 19181998. Þar er meginniðurstaðan, að hreyfing kommúnista og síðan vinstri sósíalista hafi haft nokkra sérstöðu í íslenskum stjórnmálum, því að hún hafi tekið við fyrirmælum og fjármagni frá alræðisríki og ekki heldur verið með öllu frábitin beitingu ofbeldis. Sú forvitnilega spurning vaknar þá, hvers vegna þessi hreyfing var allt frá 1942 til 1987 hér fylgisælli en hreyfing jafnaðarmanna öfugt við það, sem gerist í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Svar mitt er, að eðlilegast sé að bera Ísland saman við Finnland. Þetta voru fátækustu löndin og nýjustu ríkin í þessum heimshluta, svo að stjórnmálamenning var óþroskaðri en á öðrum Norðurlöndum og jarðvegur frjórri fyrir byltingarstefnu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. febrúar 2022.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook
17.2.2022 | 08:21
Lausnir Úkraínudeilunnar
Um þessar mundir takast Rússar og Úkraínumenn á. En þarf aflsmunur að ráða? Sagan geymir dæmi um friðsamlegar lausnir sambærilegra átaka.
Einn vandinn er, að í Austur-Úkraínu vilja rússneskumælandi menn vera í Rússlandi, en úkraínskumælandi menn vera í Úkraínu. Hér kemur danska lausnin til greina. Þjóðverjar tóku Slésvík af Dönum 1864, en í Norður-Slésvík var fjöldi manns dönskumælandi. Eftir ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni fyrri var íbúum svæðisins leyft að ráða hlutskipti sínu. Norður-Slésvík var skipt í tvo hluta. Í nyrðri hlutanum greiddu 75% kjósenda atkvæði með því að sameinast Danmörku. Í syðri hlutanum greiddu 80% kjósenda atkvæði með því að vera áfram í Þýskalandi. Farið var eftir þessum úrslitum og landamærin færð til friðsamlega. Mætti ekki færa landamæri Úkraínu og Rússlands til á sama hátt með samþykki og atbeina allra aðila?
Annar vandi er, að á Krímskaga kann meiri hluti íbúanna að vilja vera í Rússlandi, eins og Pútín heldur fram. En minnihlutahópar Úkraínumanna og Tatara búa líka á skaganum og eiga sinn rétt. Hér kemur svissneska lausnin til greina: að skipta Krím upp í sjálfstjórnareiningar, eins og kantónurnar í Sviss, og koma þannig í veg fyrir, að meiri hluti geti beitt minni hluta ofríki.
Þriðji vandinn er, að Úkraína vill vera vestrænt ríki, en Kremlverjar mega ekki heyra á það minnst, að það gangi í Evrópusambandið eða Atlantshafsbandalagið. Hér kemur íslenska lausnin til greina: að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu án þess að ganga í Evrópusambandið. Með því væru kostir frjálsra viðskipta og alþjóðlegrar verkaskiptingar nýttir án víðtækra stjórnmálaskuldbindinga. Því er að vísu haldið fram, að EES-ríkin hafi ólíkt ESB-ríkjunum engin áhrif á löggjöf um Evrópumarkaðinn. En í ESB eru smáríkin líka áhrifalaus. Frakkar og Þjóðverjar ráða þar öllu. Úkraína er eins og Ísland á jaðri Evrópu og á því frekar heima í EES en ESB.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook
17.2.2022 | 08:19
Þjóðræknir heimsborgarar
Þeir samkennarar mínir, sem gera lítið úr löndum sínum erlendis, eiga sér ýmsa forvera. Þorlákur Skúlason biskup skrifaði í bréfi til Óla Worms 30. ágúst 1625: Ég hef af aumum örlögum hrakist burt á þennan útkjálka og verð að lifa innan um ómenntað, óþægilegt og dónalegt fólk, hin eina huggun mín er að hugsa um það, hve lífið er stutt, og um tilkomandi samvistir vorar á himnum. Hundrað árum síðar sagði Jón Ólafsson Grunnvíkingur landslýð vera óróasaman með óþokkamál, og eyðir sjálfum sér, yfrið ósamþykkt og sundurlynt fólk, ágjarnt líka, óhreinlynt og illa geðjað. Þeir góðu menn eru miklu færri og fá engu ráðið.
Nokkru áður en Jón Grunnvíkingur samdi athugasemd sína á öndverðri átjándu öld var alnafni hans, Jón Ólafsson Indíafari, staddur á krá í Kaupmannahöfn, þar sem maður einn úthúðaði Íslendingum. Jón spurði, hvort hann hefði komið til Íslands og talaði því af eigin raun. Maðurinn sagðist aldrei myndu fara þangað norður, og greiddi Jón honum að bragði tvö væn kjaftshögg.
Þeir Þorlákur Skúlason og Jón Grunnvíkingur hafa eflaust talið sig heimsborgara, en um þá er mælt, að þeir séu vinveittir öllum löndum nema sínu eigin. Ég tel hins vegar ýmislegt til í lýsingu Hegels gamla á því, hvernig heimsandinn bræðir með sér hugmyndir. Fyrst er sett fram afstaða, sem síðan leiðir til andstöðu, en loks renna hinar ólíku hugmyndir saman og hefja sig um leið upp í niðurstöðu. Í stað þess að greiða þeim, sem níða niður Ísland, kjaftshögg að hætti Jóns Indíafara ættum við einmitt að reyna að sameina þjóðrækni og víðsýni, gerast þjóðræknir heimsborgarar, læra það af öðrum þjóðum, sem þær gera betur en við, en vera þó stolt af þeim góða árangri, sem við höfum náð á mörgum sviðum. Stolt er ekki dramb.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.)
17.2.2022 | 08:17
Rússar loka Memorial-stofnuninni
Hæstiréttur Rússlands samþykkti 28. desember síðast liðinn kröfu ríkissaksóknara landsins um að loka Memorial-stofnuninni rússnesku, en tilgangur hennar er að halda á lofti minningu fórnarlamba kommúnismans og annarra alræðishreyfinga tuttugustu aldar. Var það haft að yfirvarpi, að stofnunin væri tengd erlendum aðilum. Saksóknari kvað stofnunina líka halda því ranglega fram, að Ráðstjórnarríkin hefðu verið hryðjuverkaríki, jafnframt því sem hún dreifði rógi um Föðurlandsstríðið mikla 19411945.
Memorial-stofnunin talar fyrir munn þeirra, sem varnað hefur verið máls. Nú reyna hins vegar Pútín og samstarfsmenn hans að falsa söguna, hylja slóð glæpanna. Ráðstjórnarríkin voru einmitt hryðjuverkaríki. Það var eðlismunur á einræði Rússakeisara og alræði kommúnista. Á tímabilinu frá 1825 til 1905 var 191 maður tekinn af lífi af stjórnmálaástæðum í Rússaveldi. Kommúnistar drápu margfalt fleiri fyrstu fjóra mánuðina eftir valdarán sitt í nóvember 1917. Talið er, að samtals hafi um tuttugu milljónir manna týnt lífi í Ráðstjórnarríkjunum af völdum þeirra, auk þess sem tugmilljónir manna hírðust árum saman við illan aðbúnað í þrælakistum norðan heimsskautsbaugs.
Það er síðan umhugsunarefni, að Rússar skuli kalla þátttöku sína í seinni heimsstyrjöld Föðurlandsstríðið mikla. Þess ber að minnast, að það var griðasáttmáli Stalíns og Hitlers, sem hleypti styrjöldinni af stað, en hann var undirritaður í Moskvu 23. ágúst 1939. Fram í júní 1941, þegar Hitler rauf sáttmálann og réðst á Rússland, voru þeir Stalín bandamenn. Eftir að Hitler lagði Frakkland að velli sumarið 1940, börðust Bretar einir (ásamt samveldislöndunum) gegn alræðisstefnunni. Þá voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Evrópu, Írland, Bretland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss.
Böðlarnir mega ekki fá að drepa fórnarlömb sín tvisvar, í seinna skiptið með þögninni.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. janúar 2022.)
17.2.2022 | 08:16
Frelsiskvöldverðurinn 2021
Atlas Network eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana um heim allan, sem kanna möguleika á sjálfsprottnu samstarfi í stað valdboðs að ofan, verðlagningar í stað skattlagningar. Breski athafnamaðurinn Sir Antony Fisher kom samtökunum á fót árið 1981, en hann hafði ungur hrifist af frelsisboðskap ensk-austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks og stofnað hina áhrifamiklu Institute of Economic Affairs í Lundúnum árið 1955. Samtökin halda árlega uppskeruhátíð hugmynda, Freedom Dinner, og sat ég hann í Miami í Florida-ríki 14. desember.
Hinn heimsfrægi perúski rithöfundur Mario Vargas Llosa, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2010, afhenti verðlaun, sem ætluð eru ungum blaðamanni, og hlaut þau Carla Gloria Colomé fyrir skrif sín um fjöldamótmæli Kúbverja síðast liðið sumar gegn kúgunarstjórn kommúnista, sem hafa á hálfri öld breytt Kúbu í eitt fátækasta land Rómönsku Ameríku. Í frelsiskvöldverðinum söng kúbverski rapparinn Yotuel lagið Patria y Vida, sem er baráttusöngur mótmælendanna.
Atlas Network veitir árlega sérstaka viðurkenningu þeirri stofnun innan samtakanna, sem þykir hafa tekið merkilegast frumkvæði. Er þessi viðurkenning kennd við fjárfestinn Sir John Templeton og nemur 100 þúsund Bandaríkjadölum. Nú fékk hana Centre for Civil Society í Nýju Delí fyrir viðleitni við að tryggja og auka frelsi og starfsöryggi indverskra götusala, en þótt þeir veiti nauðsynlega þjónustu, hafa afskiptasöm yfirvöld iðulega torveldað starfsemi þeirra.
Þriðju verðlaunin, sem veitt voru í frelsiskvöldverðinum, voru Sir Antony Fisher Achievement Award, og hlaut þau að þessu sinni dr. Tom Palmer, sem sér um alþjóðatengsl hjá samtökunum. Tom er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann hefur oft komið hingað til lands, en hann er áhugamaður um íslenskar fornbókmenntir. Í snjöllu þakkarávarpi sagði hann: Sætasti sigur okkar í rökræðu er ekki að yfirbuga andstæðinginn, heldur að hlusta á hann sex mánuðum eða sex árum seinna endurtaka röksemdir okkar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. janúar 2022.)
17.2.2022 | 08:14
Málfrelsi og samfélagsmiðlar
Á ráðstefnu evrópskra íhalds- og umbótaflokka um netfrelsi í Róm 10.12. desember rifjaði ég upp rökin fyrir mál- og hugsunarfrelsi. Bönnuð skoðun gæti verið rétt, og þá missir mannkynið mikils. Hún gæti verið röng, en þá er mönnum hollt að spreyta sig á því að hrekja hana. Og bönnuð skoðun gæti verið að sumu leyti rétt og að sumu leyti röng. En síðasta áratug hafa komið til sögu tveir öflugir samfélagsmiðlar, Facebook og Twitter, sem hafa skert málfrelsi notenda sinna verulega. Þeir takmörkuðu til dæmis mjög svigrúm til að segja fréttir af afritaðri tölvu Hunters Bidens forsetasonar og til að láta í ljós þá skoðun, að kórónuveiran væri upprunnin í kínverskri tilraunastofu. Nokkrum dögum áður en Donald Trump lét af forsetaembætti, lokuðu bæði fyrirtækin jafnvel reikningum hans.
Sagt er á móti, að þetta séu einkafyrirtæki og megi setja reglur um, hverjum þeir hleypi að. Réttur minn til að segja skoðun mína feli ekki í sér skyldu þína til að hlusta á mig eða hleypa mér að tækjum þínum. En í Róm hélt ég því fram, að vegna einokunaraðstöðu sinnar og eðlis væru þessi fyrirtæki almannamiðlar (common carriers) svipað og einkavegir, gistihús og símafyrirtæki. Þótt vegur sé í einkaeigu, má eigandinn ekki banna konum að aka um hann (eins og gert var í Sádi-Arabíu). Gistihús má ekki neita þeldökkum mönnum um afgreiðslu (eins og gert var í Suður-Afríku). Símafyrirtæki má ekki mismuna eftir trúar- eða stjórnmálaskoðunum. Samkvæmt bandarískum lögum bera Facebook og Twitter ekki ábyrgð á því, hvað menn segja á þeim. En ef þeir taka upp ritskoðun, eins og þeir eru að gera (og þá aðallega á hægri mönnum), þá er eðlilegt, að þeir taki á sig slíka ábyrgð. Annaðhvort verða þeir að vera opnir og ábyrgðarlausir eða lokaðir og ábyrgir þeirra orða, sem á þeim falla.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. desember 2021.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook
17.2.2022 | 08:13
Eðlisréttur og vildarréttur
Í Úlfljóti 2007 birti Sigurður Líndal lagaprófessor 80 bls. ritgerð, í rauninni litla bók, um stjórnspeki Snorra Sturlusonar, eins og hún birtist í Heimskringlu, og hefur þessi merkilega ritsmíð ekki hlotið þá athygli, sem hún á skilið. Sigurður greinir þar á milli tveggja hugmynda um lög og rétt: að hann sé eðlisréttur (natural law) eða vildarréttur (legal positivism). Samkvæmt eðlisrétti eru lögin til ofar valdhöfum og óháð þeim. Heilagur Tómas Akvínas fann uppsprettu eðlisréttarins í mannlegri skynsemi, en Snorri Sturluson í venjum og fordæmi, hinum góðu, gömlu lögum, eins og það er stundum orðað.
Samkvæmt vildarrétti eru lögin hins vegar sett af valdhöfum og til marks um vilja þeirra. Á norðlægum slóðum kom vildarréttur til sögu, þegar ríkisvald efldist á miðöldum. Löggjafinn átti þá að vera konungurinn, einvaldurinn. Þessar tvær hugmyndir um lög og rétt rákust eftirminnilega á, þegar norskur sendimaður, Loðinn Leppur, reiddist því mjög á Alþingi 1281, að búkarlar gerðu sig svo digra, að þeir huguðu að skipa lögum í landi, þeim sem kóngur einn saman átti að ráða. Í lýðræðisríkjum nútímans er litið svo á, að lýðurinn sé löggjafinn, þótt í reynd fari kjörnir fulltrúar hans með löggjafarvaldið. En Sigurður benti á, að jafnbrýnt væri að setja löggjafanum skorður, þótt að baki hans stæði meiri hluti í kosningum, og að fornu, þegar hann ríkti sem konungur af Guðs náð.
Kenningin um stjórnarskrárbundið lýðræði hvílir í raun á hugmyndinni um eðlisrétt. Hún er, að til séu almenn sannindi eða lögmál, sem þurfi að vera óhult fyrir lýðræðinu, vildarréttinum, ef svo má segja, svo sem friðhelgi eignarréttarins, atvinnufrelsi, bann við ritskoðun og bann við skattheimtu án lagaheimildar. Þessi almennu sannindi geyma í sér reynsluvit kynslóðanna.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. desember 2021.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook
17.2.2022 | 08:12
Hver var Snorri?
Ég tók þátt í skemmtilegri málstofu Miðaldastofu í Háskóla Íslands 2. desember um Snorra Sturluson. Þar skýrði ég, hvers vegna ég skipaði Snorra fremst í nýlega bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, ásamt heilögum Tómasi Akvínas. Ástæðan er sú, að þeir komu báðir orðum að kenningum, sem John Locke kerfisbatt síðar, þegar hann þurfti að færa rök fyrir byltingunni blóðlausu á Bretlandi 1688. Þessar kenningar voru, að konungar væru seldir undir sömu lög og aðrir og að setja mætti þá af, ef þeir virtu ekki þessi lög. Heimskringlu Snorra má lesa sem viðvörun við konungum, og kemur það skýrast fram í ræðu Þorgnýs lögmanns yfir Svíakonungi og ræðu Einars Þveræings á Alþingi. Raunar gengur Einar Þveræingur svo langt að segja, að Íslendingum sé best að hafa engan konung. Jafnframt benti ég á, að Egill Skallagrímsson væri einn fyrsti raunverulegi einstaklingurinn í mannkynssögunni, og á ég þá við, að hann stígur út úr móðu fjölskyldu, ættbálks og héraðs, reisir konungi níðstöng, steytir hnefa framan í goðin og á sér auðugt tilfinningalíf.
Sverrir Jakobsson sagnfræðiprófessor var andmælandi minn og flutti mál sitt með ágætum. Hann tók undir með mér um stjórnmálahugmyndirnar í Heimskringlu, en gerði aðallega ágreining um tvennt. Í fyrsta lagi væri alls óvíst, að Snorri hefði samið Egils sögu, eins og ég gengi að vísu. Í annan stað hefði Snorri í eigin lífi hegðað sér eins og konungsmaður frekar en andstæðingur konungs. Þótt ég telji sennilegt, að Snorri hafi samið Egils sögu (eins og flestir fornfræðingar), ætla ég ekki að hætta mér út í deilur um það. En ég lét hins vegar í ljós þá skoðun, að aðalheimildarmaðurinn um Snorra, frændi hans Sturla Þórðarson, væri hlutdrægur. Treysta ætti honum varlega.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. desember 2021.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook
17.2.2022 | 08:10
Hengdur fyrir að selja okkur fisk!
Þegar ég átti leið um Prag á dögunum, var mér boðið á alþjóðlega kvikmyndahátíð, helgaðri alræðisstefnu, nasisma og kommúnisma. Þar horfði ég á nýja heimildarmynd eftir tékkneska kvikmyndagerðarmanninn Martin Vadas, Rudolf Slánský: Sér grefur gröf Við gerð hennar notaði Vadas efni, sem fannst fyrir tilviljun vorið 2018, upptökur af hinum alræmdu Slánský-réttarhöldum í nóvember 1952, þegar fjórtán kommúnistaleiðtogar voru leiddir fyrir rétt í Prag og dæmdir fyrir njósnir, skemmdarverk og undirróður. Þeirra kunnastur var Slánský, sem verið hafði aðalritari kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu.
Tveir aðrir sakborningar höfðu nokkur tengsl við Ísland. Otto Katz, sem verið hafði ritstjóri kommúnistablaðs Tékkóslóvakíu, notaði dulnefnið André Simone, og Sverrir Kristjánsson þýddi eftir hann bók, sem kom út á íslensku 1943, Evrópa á glapstigum. Sjálfur hafði Katz þýtt úr tékknesku skáldsöguna Sveitastúlkuna Önnu, á þýsku Anna, das Mädchen vom Lande, eftir Ivan Olbracht. Ég hef bent á, að söguþræðir þeirrar bókar og Atómstöðvar Halldórs K. Laxness eru afar líkir, þótt sögusviðið sé annað, og ætti okkar óþreytandi bókmenntarýnir Helga Kress að skrifa um þetta rækilega ritgerð í Sögu, til dæmis undir heitinu Eftir hvern?
Rudolf Margolius var aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Tékkóslóvakíu, og var honum meðal annars gefið að sök að hafa gert viðskiptasamninga við Ísland. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði undrandi í leiðara, hvers vegna ætti að hengja mann fyrir að kaupa fisk af Íslendingum. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, svaraði með þjósti, að réttarhöldin hefðu verið opinber og sönnunargögnin svo sterk, að sakborningar hefðu ekki treyst sér til annars en játa.
Þeir Slánsky, Katz og Margolius voru dæmdir til dauða og hengdir ásamt átta öðrum sakborningum, en þrír hlutu ævilangt fangelsi. Síðar viðurkenndu yfirvöld, að sakargiftir hefðu verið spunnar upp og játningar knúðar fram með pyndingum og falsloforðum. Þetta voru sýndarréttarhöld.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. nóvember 2021.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:32 | Slóð | Facebook