4.4.2012 | 09:06
Þeir duttu í Tjörnina
Tómas Guðmundsson skáld sat sem oftar að kaffidrykkju á Hótel Íslandi einn góðan veðurdag árið 1928. Þar sá hann skólabróður sinn úr lagadeild Háskólans, Stefán Jóhann Stefánsson, heilsa dómsmálaráðherranum, Jónasi Jónssyni frá Hriflu, með virktum. Þá mælti Tómas: Hann er ekki í buxum af bæjarfógetanum núna.
Af þessu er saga. Stefán Jóhann hafði verið vinur Lárusar Jóhannessonar, skólabróður þeirra Tómasar úr lagadeildinni. Eitt sinn fengu þeir sér ærlega í staupinu, og í öllu því umstangi datt Stefán Jóhann í Tjörnina. Þá skjögraði Lárus með hann heim til föður síns, Jóhannesar Jóhannessonar bæjarfógeta (móðurafa Matthíasar Johannessen ritstjóra), sem bjó skammt frá, og lánaði honum röndóttar embættisbuxur af fógetanum. En þegar Jónas Jónsson frá Hriflu varð ráðherra sumarið 1927, lét hann það verða eitt sitt fyrsta verk að hrekja Jóhannes bæjarfógeta úr embætti fyrir smávægilegar sakir. Stefán Jóhann var þá orðinn áhrifamaður í Alþýðuflokknum, sem veitti stjórninni hlutleysi.
Í annað skipti datt kunnur maður í Tjörnina, en að þessu sinni ódrukkinn. Magister Björn Bjarnason frá Steinnesi, sem oftast var kallaður Bjúsi, var virðulegur maður og bar sig höfðinglega. Hann kenndi ensku og þýsku í gagnfræðaskóla Reykvíkinga í Iðnó. Björn bjó við Ásvallagötu og gekk jafnan til vinnu sinnar. Einn vetrarmorgun árið 1937 var Tjörnin ísi lögð og ákvað Björn að stytta sér leið og ganga á henni. Þegar hann var á miðri Tjörninni, brast ísinn undan honum, og varð slökkviliðið, sem hafði þá aðsetur í Tjarnargötu, að bjarga honum með því að renna til hans stiga. Í sömu mund var hringt út í hlé í skólanum, og urðu nemendur því vitni að slysinu. Lét Björn ekki sjá sig í skólanum fyrr en að viku liðinni.
Þar sem eftirvæntingin skein af svip hvers einasta nemanda þegar Björn birtist loks í kennslustund hóf hann mál sitt á að segja: Eins og það geti ekki komið fyrir alla að detta í Tjörnina!
(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 1. apríl 2012.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook
3.4.2012 | 01:02
Hlakkaði í Evrópuþingmönnum?
Fróðleg frétt birtist í Morgunblaðinu á dögunum um ræðu, sem þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, Daniel Hannan, hélt nýlega. Þar kvað hann hafa hlakkað í sumum þar á bæ yfir falli íslensku bankanna: Nú hlytu Íslendingar að leita á náðir Evrópusambandsins.
Sem betur fer hefðu Íslendingar ekki gert þetta, sagði Hannan. Þeir hefðu þess vegna verið óbundnir í gjaldmiðilsmálum ólíkt Grikkjum og Írum. Þeir hefðu ekki heldur eytt fé skattgreiðenda í að bjarga lánveitendum bankanna frá eigin gerðum (þótt vert sé að rifja upp, að hagvitringarnir Már Guðmundsson og Jón Steinsson lögðu það báðir til).
Daniel Hannan benti á, að nú væru tveir þriðju hlutar Íslendinga andvígir því að ganga í Evrópusambandið. Það væri að vonum. Auðlindir þjóðarinnar yrðu þurrausnar (en sjávarútvegur er sem kunnugt er nánast alls staðar í ES rekinn með tapi og stórkostlegum styrkjum úr almannasjóðum). Alþingi yrði héraðsþing eða eins og Jónas Hallgrímsson hefði orðað það: ekki haukþing á bergi, heldur hrafnaþing í holti.
2.4.2012 | 16:17
Már Guðmundsson er pólitískur erindreki
Már Guðmundsson seðlabankastjóri er pólitískur erindreki þeirrar klíku, sem hrifsaði völdin í upplausninni eftir fall bankanna og hefur að markmiði að auka hér ríkisafskipti, hækka skatta, þrengja að duglegum einstaklingum og losa um tengsl við alla aðra en Evrópusambandið.
Hefðbundna hugmyndin á bak við seðlabanka er, að þeir séu sem sjálfstæðastir. Klíkan vissi, að fyrrverandi seðlabankastjórar færu eftir samvisku sinni, ekki fyrirmælum úr forsætisráðuneytinu eða fjármálaráðuneytinu. Þess vegna voru strax samþykkt sérstök lög til að geta flæmt þá alla þrjá úr bankanum.
Jafnframt var staða eins seðlabankastjóra auglýst og skipuð nefnd þriggja manna til að velja úr umsóknum, en um leið sat Már Guðmundsson á leynifundum í forsætisráðuneytinu að semja um launakjör sín. Már fékk auðvitað stöðuna. Þegar hugsanlegar launahækkanir til hans voru skömmu síðar gagnrýndar opinberlega, kvaðst hann myndu afsala sér slíkum hækkunum. Nokkrum misserum síðar stefndi hann sjálfur Seðlabankanum til að knýja fram launahækkun! Þetta kallast söguleg efnishyggja.
Berlega sást í tveimur málum, að Már Guðmundsson er pólitískur erindreki. Annað er Icesave-málið. Þar talaði Seðlabanki Más eins og stjórnvöldum hentaði, þegar þau vildu fá samninga sína samþykkta. Hitt var kauptilboð, sem barst í Sjóvá og Seðlabankinn gat vélað um. Þar leyndi Már ekki andúð sinni á einum tilboðsgjafanum, sem hafði það eitt til saka unnið að vera tengdasonur kunns sjálfstæðismanns.
Már kann handbrögðin frá gamalli tíð. Hann ólst upp á heimili, þar sem heimilisfaðirinn skipulagði fjöldaferðir til kommúnistaríkjanna, en þar voru gjaldeyrisreglur iðulega brotnar (eins og rakið er í bók minni um íslenska kommúnista). Og sjálfur gerðist Már yfirlýstur trotskisti 1974, á meðan hann var áhrifamaður í Fylkingunni. Eins og fram kemur í stórfróðlegum bókum Roberts Services og Dmítríjs Volkogonovs um Trotskíj, var þessi lærimeistari Más ekki síður blóðþyrstur og grimmur en þeir Lenín og Stalín.
Már Guðmundsson stundaði nám í Bretlandi. Þar geisaði allan áttunda áratug og fram á hinn níunda látlaus barátta innan Verkamannaflokksins á milli venjulegra lýðræðisjafnaðarmanna og fámennra, en vel skipulagðra hópa trotskista, sem hugðust ná yfirráðum yfir flokknum, en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Már og félagar hans í Fylkingunni ákváðu 1984 að ganga í Alþýðubandalagið og fylgdu þar fordæmi breskra trotskista. Þeir félagar veðjuðu á Ólaf Ragnar Grímsson frekar en Svavar Gestsson, og smám saman virtust þeir vissulega læra af reynslunni og spekjast.
Undir niðri leyndist hins vegar alltaf sú sannfæring, að meira máli skipti, hver færi með valdið en hvernig því væri haldið í skefjum. Valdboð gæti borið meiri árangur en frjáls viðskipti. Rétta ráðið, þegar einhver ríkisafskipti tækjust misjafnlega, væri að herða á eftirliti og þyngja refsingar, ekki að rýmka um reglur.
Er hagfræði Más aðeins þunn skán utan um gamla skoðun?
Ferðalangur til Rússlands sagði eitt sinn: Klóraðu Rússanum, og þá kemur villimaðurinn í ljós. Hér mætti segja: Klóraðu Má Guðmundssyni, og þá kemur gamli trotskistinn í ljós.
1.4.2012 | 10:55
Heiðursmerki
Nokkra athygli vakti, að kunnir bókmenntamenn tóku við krossi á Bessastöðum á nýársdag 2012. Af því tilefni má rifja upp, þegar Steingrími Thorsteinssyni þóttu stjórnvöld veita heiðursmerki af óþarflegri rausn í tilefni þúsund ára afmælis byggðar á Íslandi 1874, að þá orti hann:
Orður og titlar, úrelt þing,
eins og dæmin sanna,
notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna.
Raunar var til danskt kvæði svipaðs efnis eftir P. A. Heiberg, sem uppi var 1758-1841:
Ordener hænger man paa Idioter,
Stierner og Baand man kun Adelen gier;
Men om de Mallinger, Suhmer og Rot her,
Man ei et Ord i Aviserne seer.
Dog, har man Hierne,
Kan man jo gierne
Undvære Orden og Stierne.
Þetta má þýða svo á laust mál: Heiðurs-merki eru hengd á bjálfa; stjörnur og bönd eru veitt aðlinum. Um menn með nöfnin Malling, Suhm og Roth er ekkert sagt í blöðunum. Hafi maður heila, getur hann verið án heiðursmerkja og krossa.
Heiberg fékk 150 ríkisdala sekt fyrir þennan kveðskap sinn.
Það þóttu síðan fádæmi, þegar Hannesi Hafstein tókst þrátt fyrir fyrri kveðskap Steingríms að krækja heiðursmerki Dannebrog á brjóst honum í konungskomunni 1907. Raunar sagði Pétur Jónsson á Gautlöndum, alþingismaður og ráðherra, þegar hann þáði slíkt merki: Ég veit ekki, hvort er minni hégómaskapur að hafna Dannebrogskrossinum eða þiggja hann.
Á næstu þjóðhátíð, Alþingishátíðinni 1930, þóttu stjórnvöld líka óspör á heiðursmerki, þótt nú væri Fálkaorða komin í stað Dannebrog, og Jón Helgason prófessor orti:
Þótt fólkið sé skuldug og flámælt og ráðlítil hjörð
er forsjónin greiðug við oss,
því Ísland er bráðum hið einasta land hér á jörð
þar sem allir menn hafa kross.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 25. mars 2012.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook
31.3.2012 | 12:42
BRIK-löndin
Ég kenndi veturinn 20102011 Bandarísk stjórnmál, sem ég hafði ekki kennt áður, enda hljóp ég þá í skarðið fyrir annan kennara. Það var skemmtilegt, þótt ég geti ekki kallast sérfræðingur um alþjóðastjórnmál. Svo lengi lærir sem lifir.
Nú er ég að hugsa um að bjóða upp á námskeið næsta vetur, líklega á haustmisseri 2012, um BRIK-löndin fjögur. Þau eru Brasilía, Rússland, Indland og Kína. Ég hef dvalist um nokkurt skeið í þremur af þessum fjórum rísandi stórveldum.
Á meðal þess, sem ég vonast til að gera, er að flétta inn í námskeiðin erindi sendiherra þessara ríkja á Íslandi, en einnig að skoða kvikmyndir frá löndunum, sem brugðið geta ljósi á menningu þeirra og sérkenni.
Við Íslendingar verðum að muna, að fleira er til en Evrópusambandið, þótt sjálfsagt sé að halda góðu sambandi við ríki þess.
31.3.2012 | 01:07
Hvað þarf til?
Mér finnst mál Gunnars Þ. Andersens, fyrrverandi forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins, Ársæls Valfells lektors og þeirra félaga allt hið furðulegasta. Eitthvað býr að baki, og veit ég ekki, hvað það er. Lét Gunnar ekki að stjórn?
Kom hins vegar einhverjum á óvart, að Gunnar laumaði upplýsingum í fjölmiðla til að reyna að ná sér niðri á andstæðingum sínum? Hann varð fyrst landsfrægur fyrir það í Hafskipsmálinu 1985.
Framganga Ársæls Valfells er líka mjög óvenjuleg, þótt auðvitað beri að fagna því, þegar Íslandspósti og bílstjórunum á Hreyfli er veitt samkeppni um pakkasendingar í hús í Reykjavík. En ég hnýt um eitt. Háskólayfirvöld sneru sér til Ársæls Valfells og báðu um skriflegar skýringar á hlut hans að málinu. Hvert var tilefnið? Spurningar fréttamanna? Engar niðurstöður hafa fengist í þessu máli, hvorki um hlut Ársæls né annarra. Ekkert skýrt og afmarkað erindi lá á borði háskólayfirvalda.
Fara háskólayfirvöld í manngreinarálit? Hvað þarf til, að þau hreyfi sig? Árið 2008 birti Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, brot úr dagbókum sínum. Þar er fært inn 8. maí 1996:
Stefán Ólafsson félagsfræðingur sagði okkur Styrmi í morgun í trúnaði að nokkrir vinir Davíðs Oddssonar hefðu beðið Félagsvísindastofnun um að gera könnun á fylgi hans ef hann færi í forsetakjör. Könnunin var gerð skömmu fyrir páska en þó eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um framboð sitt. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að Ólafur fengi um 60% af fylgi þeirra 80% sem svöruðu og tóku afstöðu. Ég man ekki fylgi annarra frambjóðenda en það var hverfandi. Og sjálfur Davíð Oddsson hlaut ekki nema um 10% atkvæða. Margir voru alfarið á móti honum, aðrir vildu að hann héldi áfram í núverandi störfum. Stefán taldi að hann hefði getað reiknað með eitthvað yfir 30% atkvæða ef hann hefði farið í framboð. En þá hefðu þeir sem vildu að hann héldi áfram núverandi störfum kosið hann þegar á hólminn væri komið.
Þetta dagbókarbrot vakti nokkra athygli, og skrifaði DV meðal annars um þetta. Ljóst er, að Stefán, sem þá var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskólans, braut freklega af sér með því að segja þeim Matthíasi og hinum ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarssyni, frá þessari skoðanakönnun, sem Hreinn Loftsson hafði látið Félagsvísindastofnun gera í strangasta trúnaði, en ekki síst að ráði mínu, sem treysti þá Stefáni.
Nú er spurningin: Af hverju sneru háskólayfirvöld sér ekki til Stefáns Ólafssonar sumarið 2008 og báðu um skriflegar skýringar í tilefni fjölmiðlafrétta um trúnaðarbrot hans? Það virðist þó miklu augljósara, að hann hafi brotið af sér á þann hátt, að Háskólanum kæmi við, en Ársæll Valfells. Háskólayfirvöld eiga að fara eftir föstum, almennum, fyrirsjáanlegum reglum, ekki hrekjast undan áreitni fjölmiðlamanna.
30.3.2012 | 12:31
Þrjú erindi
Í mars 2012 hef ég flutt þrjú erindi.
Hið fyrsta var á fundi frjálshyggjudeildar Sambands ungra sjálfstæðismanna í Valhöll fimmtudaginn 8. mars. Þar talaði ég um hægri stefnu. Ég taldi, að allir hægri menn ættu að geta sameinast um fjögur baráttumál: að skattar ættu að vera hóflegir, svo að ekki dragi úr vinnusemi og verðmætasköpun; að oftast væri best að tryggja umhverfisvernd með því að finna umhverfisverndara, skilgreina einkaeignarrétt að gæðum; að hlutverk fjármagnseigenda og framkvæmdamanna í framsæknu og vaxandi hagkerfi væri mikilvægt; og að aldrei mætti gleyma fórnarlömbum alræðisstefnu 20. aldar, nasisma og kommúnisma.
Annað erindið var í stjórnmálaskóla Heimdallar laugardaginn 10. mars. Þar talaði ég um stofnun og séreðli Sjálfstæðisflokksins. Stefnu hans mætti lýsa með orðum Landnámu um Steinunni gömlu, ræðu Einars Þveræings gegn ágjörnum konungum og fleygum orðum tveggja Íslendinga á 20. öld. Loftur Bjarnason sagði: Ég get sofið á næturna, þótt öðrum gangi vel. Og reykvíski smákapítalistinn Júlíus skóari sagði: Sjálfstæði er að sækja það eitt til annarra, sem greitt er fullu verði. En þótt Sjálfstæðisflokkurinn væri rammíslenskur flokkur, væri hann auðvitað hliðstæður frjálslyndum, borgaralegum flokkum annars staðar á Vesturlöndum, sem sæktu rök í boðskap Johns Lockes um takmarkað ríkisvald og kenningu Adams Smiths um sjálfsprottna samvinnu.
Þriðja erindið var á fundi Frjálshyggjufélagsins á Sólon fimmtudaginn 15. mars. Þar talaði ég um íslenska kommúnista 19181998, en um það efni gaf ég út bók fyrir síðustu jól. Ég ræddi meðal annars um ofbeldi íslenskra kommúnista og sósíalista, um njósnir Kremlverja á Íslandi og um rússagullið, sem skipti verulegu máli í stjórnmálabaráttunni hér á landi. Þótt jafnaðarmenn og kommúnistar deildu sama markmiði á 20. öld, gengu þeir víðast í tveimur fylkingum, af því að kommúnistar vildu aldrei hverfa frá ofbeldi sem hugsanlegri leið til valda; um það snerist ágreiningur þessara tveggja fylkinga.
17.3.2012 | 10:37
Valdsmenn standi ekki fyrir sólinni
Þýski rithöfundurinn Bertolt Brecht skrifaði í leikritinu Lífi Galileós 1939: Hamingjusnautt er það land, sem þarf á hetjum að halda. Hann átti við það, að þær þjóðir væru sælastar, sem lentu ekki í slíkum háska, að þær þyrftu að kalla sér til fulltingis á hetjur með brugðinn brand.
Íslenska skáldið Jakob Thorarensen hafði orðað svipaða hugsun í kvæðinu Vergangi 1922:
Einn háski í launsát liggur
gegn landsins glöðu vonum,
og hafið gát á honum,
það hermir gömul spá:
Hann felst í foringjonum,
þá Fróni liggur á.
Ef til vill var það í þessum anda, sem Jón Magnússon, forsætisráðherra 1917-1922 og 1924-1926, sagði: Þeir eru alltaf að stagast á því, að ég sé enginn skörungur. En hvenær hef ég sagst vera skörungur, og hvað ætla þeir með skörung að gera? Jón var í eðli sínu mannasættir.
Skúli Þórðarson sagnfræðingur sagði nemendum sínum í Gagnfræðaskóla Austurbæjar um miðja síðustu öld: Þar sem kóngarnir eru lélegir, þá líður fólkinu vel.
Endurómar þar speki fornkínverska spekingins Laó Tse: Stjórn, sem virðist duglaus, er oft affarasælust fyrir þjóðina. Ströng stjórn, sem skiptir sér af öllu, veldur þjóðinni ófarnaði.
Stundum þarf á hetjum að halda. En oftast geta þjóðirnar bjargað sér af eigin rammleik í starfi og leik. Þá geta þær sagt hið sama við valdsmennina og forngríski spekingurinn Díógenes við Alexander mikla, sem spurði, hvort veita mætti honum einhverja ósk: Já, að þú standir ekki fyrir sólinni.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2012.)
14.3.2012 | 09:41
Grein mín á Bloomberg
Bloomberg-fréttaveitan, sem sérhæfir sig í viðskiptafréttum, bað mig að blogga fyrir sig um landsdómsmálið, og er bloggið hér á ensku, en það birtist fyrst að kvöldi 12. mars 2012.
Ég bendi þar á, að réttarhöldin yfir Geir eiga rætur sínar í stjórnmálasjónarmiðum: Lítill meiri hluti þingmanna vildi ákæra hann, og greiddu flestir þingmenn atkvæði eftir flokkslínum. Með þessu var Geir órétti beittur.
Við fall íslensku bankanna notuðu vinstri menn tækifærið til að gera upp sakir við gamla fjandmenn, en árin 19912004 var atvinnufrelsi aukið og hagkerfið opnað með þeim afleiðingum, að það varð viðkvæmara fyrir erlendum hagsveiflum.
Davíð Oddsson, sem haft hafði forystu um opnun hagkerfisins, sölu ríkisfyrirtækja og skattalækkanir, var flæmdur úr Seðlabankanum, sem hafði áður átt að heita sjálfstæður, og Geir H. Haarde var ákærður fyrir vanrækslu í starfi. Davíð var eini maðurinn í trúnaðarstöðu, sem varað hafði við útþenslu bankanna.
Þessar hefndaraðgerðir virðast þó vera að snúast í höndum vinstri manna og sumir þeirra að sjá að sér. Til dæmis hefur Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lýst því yfir opinberlega, að hann telji ranglátt að gera aðeins einn stjórnmálamann ábyrgan lagalega fyrir falli bankanna.
Íslendingar eru líka að ná áttum eftir áföll síðustu ára. Þeir sjá, að fall íslensku bankanna var enginn einstæður viðburður í veraldarsögunni, heldur aðeins einn þátturinn af mörgum í einhverri verstu lánsfjárkreppu, sem riðið hefur yfir heiminn í hátt í hundrað ár. Grikkland og Írland eru ekki betur stödd lönd en Ísland, en munurinn sá, að Íslendingar neituðu að bjarga lánardrottnum bankanna (af því að þeir gátu það ekki, en það reyndist vera lán í óláni).
Íslendingar eru smám saman að læra, að í stað þess að leita uppi sökudólga ætti að reyna að finna leikreglur, sem laða fram skynsamlega hegðun manna. Það er engin frétt, að bankamenn láti stjórnast af græðgi, en þeirri græðgi þarf að snúa til almannaheilla í stað þess eins að andvarpa yfir henni.
11.3.2012 | 12:40
Ljós og myrkur
Lýsingar ungverska rithöfundarins Arthurs Koestlers og íslenska ritskýrandans Kristins E. Andréssonar á því, hvernig þeir tóku ungir menn trú á kommúnisma upp úr 1930, eru mjög svipaðar.
Koestler sagði í Guðinum sem brást 1950: Að segja, að maður hafi séð ljós er harla lítilfjörleg lýsing á þeirri andlegu hrifni, sem maður fyllist, er verður skyndilega trúaður (og skiptir þá ekki máli, til hvaða trúar hann hefur snúist). Þetta nýja ljós virtist leika um huga minn úr öllum áttum í senn; veröldin öll komst í fastar skorður eins og myndaþraut, sem ráðin hefur verið á augabragði með einhverjum töfrum.
Kristinn E. Andrésson sagði í Enginn er eyland 1971: Af fyrstu ritum, sem ég nú las af athygli um marxismann, brá eins og leiftri upp fyrir mér nýju lífsviðhorfi, sögulegum skilningi, nýjum lífstilgangi og framtíðarsýn. Allt varð mér ljóst af bragði, hugur og heimur, sagan og mannfélagið, þróun þess og markmiðin framundan.
Þótt þeir Kristinn og Koestler tækju trú sína um svipað leyti, urðu örlög þeirra ólík. Koestler fór hinn áhugasamasti til Spánar í borgarastríðinu 1936-1939. Hann kynntist þar ofríki kommúnista, sem hegðuðu sér líkt og þeir áttu eftir að gera víðar, ráku leyniþjónustu, héldu sýndarréttarhöld yfir andstæðingum sínum og tóku þá af lífi.
Áður en Koestler snerist þó opinberlega frá kommúnisma, hafði hann skrifað bók um spænska borgarastríðið. Kristinn fékk ungan samherja sinn, Þorvald Þórarinsson, þá laganema, til að þýða bókina á íslensku. En eftir að Koestler hvarf úr röðum kommúnista, var snarlega hætt við þýðinguna.
Kristinn var til dauðadags sannfærður kommúnisti, en hægri menn létu þýða tvær bækur Koestlers á íslensku, fyrrnefnt rit, Guðinn sem brást (þar sem Koestler og fimm aðrir menntamenn lýsa vonbrigðum sínum með kommúnismann) og hina merku skáldsögu um Moskvuréttarhöldin, Myrkur um miðjan dag.(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 3. mars 2012 og er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er barmafull af sögum og fróðleik.)