Furðulegur dómur - og þó fróðlegur

Ég tek undir það með Geir H. Haarde, að dómurinn yfir honum er furðulegur og raunar fáránlegur. Geir er fundinn sekur um að hafa ekki haldið nægilega marga ráðherrafundi um mikilvæg mál! Ef hann er sekur um það, þá eru allir ráðherrar Íslands á lýðveldistímanum sekir um hið sama. Það kom mér ekki á óvart, að fulltrúar vinstri flokkanna í Landsdómi skyldu standa að þessum dómi. Hitt olli mér vonbrigðum, að nokkrir hæstaréttardómarar skyldu taka þátt í þessum gerningi. Þeir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason eiga þó heiður skilinn fyrir að hafa ekki látið annarleg sjónarmið trufla sig.

Í þessu máli tóku fjöllin jóðsótt, og hlægileg lítil mús fæddist. En þótt dómurinn sé furðulegur, er hann líka fróðlegur. Þeir níu af fimmtán dómurum, sem mynduðu meiri hluta, þar á meðal fulltrúar vinstri flokkanna í Landsdómi, sýknuðu Geir af hinum efnislegu ákærum um, að hann hefði getað afstýrt falli bankanna eða gert eitthvað árið 2008 til þess að minnka skaðann á Íslandi af hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Ég vek athygli á því, að jafnvel fulltrúar vinstri flokkanna í Landsdómi treystu sér ekki til annars en að sýkna Geir af þessum ákæruatriðum.

Hver er þá orðinn málatilbúnaður þingmannanna, sem vildu ákæra Geir? Til dæmis þeirra fjögurra, sem greiddu atkvæði með því að ákæra hann, en ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur? Þeirra Skúla Helgasonar, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigríðar Ingu Ingadóttur og Helga Hjörvars?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband