Þeir duttu í Tjörnina

Tómas Guðmundsson skáld sat sem oftar að kaffidrykkju á Hótel Íslandi einn góðan veðurdag árið 1928. Þar sá hann skólabróður sinn úr lagadeild Háskólans, Stefán Jóhann Stefánsson, heilsa dómsmálaráðherranum, Jónasi Jónssyni frá Hriflu, með virktum. Þá mælti Tómas: „Hann er ekki í buxum af bæjarfógetanum núna.“

Af þessu er saga. Stefán Jóhann hafði verið vinur Lárusar Jóhannessonar, skólabróður þeirra Tómasar úr lagadeildinni. Eitt sinn fengu þeir sér ærlega í staupinu, og í öllu því umstangi datt Stefán Jóhann í Tjörnina. Þá skjögraði Lárus með hann heim til föður síns, Jóhannesar Jóhannessonar bæjarfógeta (móðurafa Matthíasar Johannessen ritstjóra), sem bjó skammt frá, og lánaði honum röndóttar embættisbuxur af fógetanum. En þegar Jónas Jónsson frá Hriflu varð ráðherra sumarið 1927, lét hann það verða eitt sitt fyrsta verk að hrekja Jóhannes bæjarfógeta úr embætti fyrir smávægilegar sakir. Stefán Jóhann var þá orðinn áhrifamaður í Alþýðuflokknum, sem veitti stjórninni hlutleysi.

Í annað skipti datt kunnur maður í Tjörnina, en að þessu sinni ódrukkinn. Magister Björn Bjarnason frá Steinnesi, sem oftast var kallaður Bjúsi, var virðulegur maður og bar sig höfðinglega. Hann kenndi ensku og þýsku í gagnfræðaskóla Reykvíkinga í Iðnó. Björn bjó við Ásvallagötu og gekk jafnan til vinnu sinnar. Einn vetrarmorgun árið 1937 var Tjörnin ísi lögð og ákvað Björn að stytta sér leið og ganga á henni. Þegar hann var á miðri Tjörninni, brast ísinn undan honum, og varð slökkviliðið, sem hafði þá aðsetur í Tjarnargötu, að bjarga honum með því að renna til hans stiga. Í sömu mund var hringt út í hlé í skólanum, og urðu nemendur því vitni að slysinu. Lét Björn ekki sjá sig í skólanum fyrr en að viku liðinni.

Þar sem eftirvæntingin skein af svip hvers einasta nemanda þegar Björn birtist loks í kennslustund hóf hann mál sitt á að segja: „Eins og það geti ekki komið fyrir alla að detta í Tjörnina!“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 1. apríl 2012.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband