Steingrímur J. Sigfússon afhenti erlendum okurkörlum bankana

„Þetta er verra en glæpur, — þetta er heimska,“ sagði franski stjórnmálamaðurinn Antoine Boulay, þegar hann frétti, að Napóleon hefði framið ódæði eitt að nauðsynjalausu.

Hið sama má segja um þá gjörð Steingríms J. Sigfússonar að afhenda erlendum okurkörlum meiri hlutann í tveimur nýju bankanna, Arion og Íslandsbanka. Þessi gjörð er að vísu glæpur, en hún er líka heimska. Hinir svonefndu erlendu kröfuhafar eru sjaldnast fyrirtækin, sem veittu íslensku bönkunum lán, heldur sérhæfð innheimtufyrirtæki, sem kaupa kröfur með miklum afslætti og reyna síðan að fá sem mest upp í þær.

Við erum hér ekki að tala um venjulega banka eða fjármálastofnanir, heldur vogunarsjóði og innheimtufyrirtæki. Þetta eru hræfuglarnir, sem voma yfir hinum alþjóðlega lánsfjármarkaði og stinga sér ákafir niður, þegar þeir sjá vænlega bráð, til dæmis heimskan og illgjarnan fjármálaráðherra í litlu landi. Enga nauðsyn bar til að láta undan óskum þeirra um að afhenda þeim stóra eignarhluta í tveimur bankanna.

Steingrímur skeytti engu um viðvaranir Fjármálaeftirlitsins og breytti þeirri stefnu, sem áður hafði verið mörkuð. Erlend innheimtufyrirtæki eru verstu samstarfsmenn, sem má hugsa sér. Þau hafa engan áhuga á raunverulegri endurreisn íslenska bankakerfisins, heldur á því að fá sem mest sem fyrst upp í kröfur sínar.

Hefði ríkið fjármagnað alla þrjá bankana, eignast þá og rekið (auðvitað til að selja þá síðar), gerðu áætlanir ráð fyrir, að það myndi kosta samtals 385 milljarða. En ríkið hefur þegar lagt í kostnað upp á 406 milljarða til bankanna. (Þar af er lausafjárfyrirgreiðsla í erlendri mynt, sem nemur einum sjötta gjaldeyrisforðans.) Þetta reyndist því vera dýrari lausn. Og munurinn er sá, að útlendir okurkarlar, sem eru svo sannarlegri ekki skárri en hinir íslensku, hafa nú forræði á tveimur af þremur bönkunum. Þegar verðmæti bankanna eykst, mun sú verðmætisaukning lenda hjá þessum okurkörlum, ekki hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum.

Þetta er annað af tveimur dæmum um það, hvernig Steingrímur J. Sigfússon hefur stórlega vanrækt að gæta þeirra hagsmuna, sem honum var trúað fyrir. Hitt er auðvitað Icesave-málið, sem hér þarf ekki að hafa nein orð um. Eigi að láta einhvern ráðherra sæta ábyrgð fyrir Landsdómi, þá er hann Steingrímur J. Sigfússon.

 

 


Rökleysur Egils Helgasonar

Egill Helgason bloggar um hina nýju bók Björns Bjarnasonar, Rosabaug yfir Íslandi. Kenning Egils er, að tvær klíkur hafi barist um Ísland af heift árin fyrir hrun og báðar verið jafnsekar um hrunið.

Það er augljóst, við hverja Egill á. Hann hefur oft nefnt þessar klíkur. Í annarri eru þeir Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og ég. Í hinni eru Baugsfeðgar, Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes í Bónus, ásamt Pálma í Fons.

En þessi kenning Egils er rökleysa.

Hvernig getur Davíð Oddsson, sem varaði hvað eftir annað sem seðlabankastjóri við ofþenslu bankanna og skuldasöfnun Jóns Ásgeirs og klíku hans, verið sekur um hrunið?

Og hvernig getur Björn Bjarnason, sem reyndi sem dómsmálaráðherra að tryggja, að enginn væri hafinn yfir lög í landinu, verið sekur um hrunið?

Söfnuðu þeir skuldunum? Blekktu þeir bankana?

Ef einhver okkar þriggja var sekur, þá var það helst ég, sem hafði þá og hef enn þá sannfæringu, að hugkvæmnir og áræðnir kapítalistar geti við réttar leikreglur starfað öllum til góðs. En þá vanmat ég eflaust mátt hinna óskráðu leikreglna.

Hinar skráðu leikreglur á Íslandi voru hinar sömu og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. En hinar óskráðu leikreglur á Íslandi breyttust í hinum tryllta dansi í kringum gullkálfinn árin 2004–2008, þar sem ekki mátti á milli sjá, hvor dansaði af meiri tilþrifum, Bessastaðabóndinn eða Samfylkingin.

Margt olli auðvitað hruninu, til dæmis hin alþjóðlega lánsfjárkreppa allt frá 2007, skyndilegt og óvænt þrot Lehmann Brothers haustið 2008, andúð erlendis á örum uppgangi íslenskra banka, harkaleg framkoma Breta við Íslendinga og andvaraleysi Fjármálaeftirlits og ríkisstjórnar (þrátt fyrir margar viðvaranir Seðlabankans), en enginn fær efast um, að ein ástæða hrunsins var glannaskapur Jóns Ásgeirs og klíku hans.

Undir lokin skuldaði Jón Ásgeir um þúsund milljarða króna! Hann hefði tekið lán fyrir tannburstanum sínum, hefði hann getað, eins og Ármann Þorvaldsson komst að orði í fróðlegri bók um hrunið.

Að einhverju leyti var þessi glannaskapur Jóns Ásgeirs og klíku hans eðlislægur þeim (og sameiginlegur þeim og fjáraflamönnum erlendis), en að einhverju leyti var ýtt undir hann frá fjölmiðlum og dómstólum á Íslandi. Hinar óskráðu leikreglur breyttust.

Margir menn áttu sinn þátt í því, að hinar óskráðu leikreglur breyttust. Egill Helgason var því miður einn þeirra. En í stað þess að gera upp við fortíð sína reynir hann að endurskilgreina hana. Baugsmálið hafi ekki verið lögreglurannsókn í tilefni kæru, sem leiddi að lokum til dóms fyrir efnahagsbrot (sem var þó furðuvægur), heldur tvær klíkur að berjast.

Finnagaldur fyrr og nú

Flestir Íslendingar höfðu ríka samúð með Finnum, þegar Stalín réðst inn í land þeirra í desemberbyrjun 1939, í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari. Dáðust menn að frækilegri vörn smáþjóðarinnar.

Ekki voru þó allir Íslendingar sammála. Það mun hafa verið Brynjólfur Bjarnason, sem smíðaði háðsyrðið „Finnagaldur“ um stuðning Íslendinga við Finna. Orðið kemur fyrst fyrir í þeirri merkingu, svo að ég viti, í fyrirsögn greinar eftir hann í Þjóðviljanum 7. desember 1939. Tóku þrír einörðustu stalínistar landsins, þeir Þórbergur Þórðarson, Halldór Kiljan Laxness og séra Gunnar Benediktsson, það óðar upp í skrifum sínum.

Það jók á áhrifamátt orðsins, að í fornu máli voru Samar í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands nefndir „Finnar“ og þóttu göldróttir.

Þegar Finnar neyddust til þess í mars 1940 að ganga að flestum kröfum Kremlverja í því skyni að ljúka stríðinu, voru margir Íslendingar daprir og reiðir fyrir þeirra hönd. Hermann Jónasson forsætisráðherra var 14. mars 1940 staddur inni í ráðherraherberginu svonefnda inn af sal efri deildar, sem var. Fór hann hörðum orðum um þjónkun íslenskra stalínista við Moskvumenn. Brynjólfur Bjarnason heyrði til hans og kallaði til hans, að hann væri landsfrægur fyrir heimsku. Rak Hermann Brynjólfi þá löðrung, svo að í small.

Þegar Brynjólfur bar sig upp undan þessu við þingforseta, kvaddi Hermann sér hljóðs og mælti: „Það er gamall og góður íslenskur siður, sem hefur verið notaður í mörg hundruð ár við stráka, sem eru óprúttnir í orðum, að gefa hinn svokallaða íslenska kinnhest.“

Hafa því fleiri íslenskir stjórnmálamenn „heilsað að sjómannasið“ en Árni Johnsen.

Raunar var kinnhestur Hermanns rifjaður upp á þingi níu árum síðar, 31. mars 1949. Stúlka ein, Margrét Anna Þórðardóttir, hafði slegið til Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra, er hann hafði gengið út úr þinghúsinu daginn áður eftir óeirðir á Austurvelli. Brynjólfur Bjarnason sagði af því tilefni: „Hún hefði átt að fá verðlaun!“ Ólafur Thors greip þá fram í: „Ekki var Hermann verðlaunaður, þegar hann gaf þér á kjaftinn!“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er afar hentug útskriftargjöf og selst raunar eins og heitar lummur í því skyni þessa dagana.)


Leikaraskapur í stjórnmálum

Ég sá, að nokkrir samkennarar mínir í Háskóla Íslands höfðu framsögu í hádeginu miðvikudaginn 18. maí um leikaraskap í stjórnmálum. Sjálfur komst ég því miður ekki á fyrirlestra þeirra sökum anna. En ég geri ráð fyrir, að þeir hafi tekið einhver dæmi um efnið úr íslenskum stjórnmálum.

Eitt skýrasta dæmið, sem ég kann sjálfur, er frá árinu 1942. Hallgrímur Hallgrímsson, erindreki Sósíalistaflokksins, hafði fallið sviplega frá. Brynjólfur Bjarnason skrifaði eftirmæli um hann í málgagn sósíalista, Þjóðviljann, 10. desember. Þar sagði hann:

Móðir hans er Sigríður Björnsdóttir í Hafnarfirði. Af Sigríði hef ég ekki önnur kynni en þau, að ég hef lesið eftir hana örstutta blaðagrein. En þessar fáu línur eru mér næg sönnun þess, að hún er steypt úr sama skíra málminum og Hallgrímur sonur hennar var. Morgunblaðið hafði kastað hnútum að Hallgrími fyrir þátttöku hans í spánska frelsisstríðinu. Sigríður svaraði fyrir son sinn með fáum, einföldum orðum, þar sem móðurástin birtist í allri sinni tign.

Sigríður hafði skrifað blaðagrein sína 2. júlí 1938, eftir að Morgunblaðið hafði hneykslast á skrifum Hallgríms frá Spáni, þar sem hann barðist í her lýðveldissinna. Hafði blaðið látið fylgja með, að Hallgrímur hefði lært hernað í Moskvu. Sigríður andmælti því í grein sinni og sagði, að Hallgrímur hefði stundað verkamannavinnu í Ráðstjórnarríkjunum um skeið.

Þetta sagði Hallgrímur móður sinni. En sannleikurinn var annar. Hann var sá, að Hallgrímur Hallgrímsson var í þjálfunarbúðum byltingarmanna í Moskvu 1931–1933 til að læra hernað. Var hann meðal annars með Rauða hernum á heræfingum að námi sínu loknu. Nemendum í þessum þjálfunarbúðum var skipað að halda eðli námsins vandlega leyndu og segjast hafa stundað verkamannavinnu þar eystra.

Móðir Hallgríms vissi ekki betur. Hún trúði syni sínum, sem vonlegt var. En Brynjólfur Bjarnason vissi betur. Í Moskvu dvaldist Hallgrímur á vegum kommúnistaflokksins íslenska, sem starfaði 1930–1938, en þar var Brynjólfur formaður. Samt talaði Brynjólfur um móðurástina, sem birst hefði „í allri sinni tign“ í „fáum, einföldum orðum“ Sigríðar.

Brynjólfur á með þessu sennilega Íslandsmetið í leikaraskap. En hvar skyldi brjóstmynd af þessum prakkara standa? Að sjálfsögðu á pallinum framan við hátíðarsal Háskóla Íslands.

 


Svartamyrkur liggur yfir landinu

Ég las á dögunum mjög fróðlega og fjörlega skrifaða bók, Engan þarf að öfunda, eftir bandarískan blaðamann, Barböru Demick. Hún er um daglegt líf í Norður-Kóreu. Höfundurinn hefur starfað fyrir Los Angeles Times í Kína og Suður-Kóreu og auðvitað farið til Norður-Kóreu, þótt hún segi raunar, að erfitt sé að safna þar einhverjum upplýsingum, því að tveir menn fylgist með hverju hennar fótmáli, og á annar um að leið að hafa gætur á hinum og öfugt.

Ég horfi sjálfur jafnan furðu lostinn á fréttamyndir frá Norður-Kóreu í sjónvarpinu. Yfir þeim er einhver óraunveruleikablær. Þær eru eins og úr kvikmynd eftir George Orwell, þar sem allir eiga að elska Stóra bróður. Kommúnistum hefur í Norður-Kóreu tekist að stofna fyrsta konungsríki sitt: Kim Jong-il tók við völdum eftir föður sinn, Kim il-Sung, og talið er, að yngsti sonur Kims Jong-il verði síðan arftaki hans. Orðin, sem áróðursmenn Norður-Kóreu nota um þessa „leiðtoga“ landsins, hljóma mjög skringilega í eyrum venjulegra Vesturlandamanna.

Kafli er um Norður-Kóreu í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi á íslensku og ritstýrði 2009. Þar eru hroðalegar lýsingar á kúguninni í landinu.

Barbara Demick segir öðru vísi frá. Hún einbeitir sér að mannlega þættinum. Hún rekur örlög nokkurra einstaklinga, sem sumir hafa sloppið, jafnvel fyrir hreina tilviljun, frá Norður-Kóreu, en landamærin við Kína eru enn ekki alveg lokuð. Hún segir frá því, þegar hagsýn móðir, frú Song, reynir að hafa nóg í matinn, eftir að hungursneyð skellur á, og hvernig ungir elskendur, Mí-ran og Jung-san, nýta sér myrkrið á kvöldin til að hittast í leyni, því að undir venjulegum kringumstæðum mega þau alls ekki eigast; faðir Mí-ran hafði barist í her Suður-Kóreu. Bregður Barbara Demick upp ógleymanlegum myndum af lífi venjulegs fólks, sem býr við óvenjulegar aðstæður. Erfitt er að leggja frá sér bókina, fyrr en lesandinn veit, hvað verður um allt þetta fólk, sem hann fær áhuga á og samúð með. Klukkan glymur því eins og okkur hinum.

Barbara Demick minnist á myrkrið á kvöldin. Ég sýni stundum nemendum mínum glæru með loftmynd, úr gervitungli, af þessu svæði að næturlagi. Allt er uppljómað í Japan og Suður-Kóreu, og talsvert er af ljósum í Kína og Rússlandi, norðan landamæranna við Norður-Kóreu. En svartamyrkur liggur yfir Norður-Kóreu. Þetta er enn skýrara tákn um kommúnismann en Berlínarmúrinn, sem nú er hruninn.

En hvenær kvikna ljós í Norður-Kóreu? Þótt landið sé örsnautt land og hungurvofan jafnan á næsta leiti, hika „leiðtogarnir“ ekki við að smíða kjarnorkusprengjur og hafa einn fjölmennasta her í heimi undir vopnum. Mörg hundruð þúsund stjórnmálafangar hírast við vondan aðbúnað í þrælabúðum.

En á sama hátt og Berlínarmúrinn átti sína formælendur, hafa nokkrir Íslendingar þegið boð „leiðtoga“ Norður-Kóreu um skoðunarferðir þangað austur.

Birna Þórðardóttir fór sem fulltrúi Æskulýðsfylkingarinnar (þar sem hún starfaði með Má Guðmundssyni, núverandi seðlabankastjóra) á æskulýðsmót í Norður-Kóreu sumarið 1971 og dvaldist þar eystra í fimm vikur. Var hún líklega fyrsti Íslendingurinn, sem þangað hafði komið, eftir að „alþýðulýðveldið“ var stofnað, og hitti hún Kim il-Sung tvisvar að máli. Henni leist vel á sig í landi, þar sem ríkið tók alla framleiðslu til sín, en skammtaði síðan fólki matvæli.

„Þetta er mjög nostursamt fólk og minnir helst á iðnar býflugur,“ sagði Birna í viðtali við Þjóðviljann. „Og það, sem slær mann helst í stuttri dvöl, eru framfarir og hin stórkostlega efnahagslega uppbygging, sem átt hefur sér stað í Norður-Kóreu eftir viðbjóðslega eyðileggingu í Kóreustríðinu á árunum 1950–53.“ Aðspurð kvað hún dýrkun á Kim il-Sung eðlilega. Þegnar landsins litu á hann sem fyrirmynd svipað og Íslendingar á Jón Sigurðsson. Hún sagði, að Pyongyang væri fögur borg og blessunarlega laus við „blikkbeljur“, en með því átti hún við einkabíla, sem voru auðvitað ekki leyfðir.

Þrettánda „heimsmót æskunnar“, sem kommúnistar skipulögðu, var haldið í Norður-Kóreu 1989. Sóttu það fjórir Íslendingar, Jóhanna Eyfjörð, Sveinþór Þórarinsson, Jóhann Björnsson og Guðmundur Auðunsson. Í viðtali við Þjóðviljann viðurkenndu tveir þátttakendur, þau Jóhanna og Sveinþór, að mikil dýrkun virtist í Norður-Kóreu vera á Kim Il Sung. „Leiðtogadýrkunin á þó sínar eðlilegu skýringar. Foringjadýrkun hefur löngum loðað við austur-asísk ríki, og nægir þar að nefna dýrkun Japana á keisaranum. Reyndar þarf ekki að fara til Asíu til að finna hliðstæður, þótt séu eins stórkallalegar. Hvernig láta ekki Bretar með konungsfjölskylduna?“

Þessa Íslendinga þarf ekki að öfunda af dómgreindarskorti sínum eða ofstæki. Og því síður þarf að öfunda Norður-Kóreumenn af hlutskipti sínu.


Hvað get ég gert fyrir land mitt?

Fræg eru orð Johns F. Kennedys Bandaríkjaforseta við embættistöku hans í janúar 1961: „Þess vegna, landar mínir, spyrjið ekki, hvað land yðar geti gert fyrir yður, — spyrjið, hvað þér getið gert fyrir land yðar.“

Menn voru fljótir að benda á, að bandaríski dómarinn Oliver Wendell Holmes hafði notað svipað orðalag á fundi í Keene í New Hampshire 30. maí 1884: „Við stöldrum við til að rifja upp, hvað land vort hefur gert fyrir oss, og spyrja, hvað vér getum gert fyrir land okkar í endurgjaldsskyni.“

Warren G. Harding, sem var 29. forseti Bandaríkjanna, sagði í sama anda á þingi Lýðveldisflokksins (Repúblikana) í Chicago 1916: „Við verðum að hafa á að skipa borgurum, sem hafa minni áhuga á því, hvað ríkið geti gert fyrir þá, en á því, hvað þeir geti gert fyrir þjóðina.“

Ágætur kunningi minn, David Friedman (sonur Miltons), sem kom hingað til lands 1980, umorðaði hins vegar þessa hugsun háðslega: „Þú skalt ekki spyrja, hvað land þitt getur gert fyrir þig, heldur hvað það hefur gert þér.“ David er eins og margir aðrir frjálshyggjumenn þeirrar skoðunar, að oft geri ríkið illt verra. Það sé frekar meinsemdin en lækningin.

Svipaða hugsun orðaði raunar Ronald Reagan Bandaríkjaforseti svo í ræðu 11. desember 1972: „Ríkið leysir ekki vandann. Það heldur honum uppi fjárhagslega.“

Hins vegar rakst ég á í grúski mínu, að Steingerður Guðmundsdóttir, leikkona og skáld, sem uppi var 1912–1999, notaði svipað orðalag og Kennedy, nær tveimur árum áður en hann flutti ræðu sína. Steingerður, sem var dóttir Guðmundar skólaskálds Guðmundssonar, skrifaði í greininni „Hugleiðingar um listamannalaun“ í Morgunblaðinu 17. apríl 1959: „Afstaða hvers listamanns ætti að vera þessi: hvað get ég gert fyrir landið? ekki: hvað getur landið gert fyrir mig?“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)


Í þættinum Harmageddon

Þriðjudaginn 10. maí kl. 17.00 var ég í viðtali í þætti þeirra Frosta Logasonar og Mána Péturssonar um „þokkafull risadýr“, en svo kalla ég þau dýr, sem enskumælandi menn nefna „charismatic megafauna“. Síðan barst talið að íslenska kvótakerfinu. Þetta viðtal má hlusta á hér.

Ég sagði þeim Frosta og Mána og hlustendum þeirra frá rannsóknarverkefni, sem ég hef umsjón með í Háskóla Íslands, „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting,“ en tilgangur þess er að kanna, hvernig nota má frjáls viðskipti, verðlagningu á  markaði, úthlutun eignaréttinda og skýrari skilgreiningu ábyrgðar til þess að minnka umhverfisspjöll. Hef ég nýlega flutt tvo opinbera fyrirlestra í Háskóla Íslands um þætti í þessu verkefni.

Ein slík umhverfisspjöll eru, þegar sjaldgæfum dýrum er útrýmt. Menn hafa sérstakan þokka á risadýrum eins og fílum og hvölum og vilja ekki, að þau hverfi úr sögunni. Um það er ég sammála þeim, eins og ég sagði í þættinum. Þetta eru mikilfengleg dýr, og man ég vel, hversu vel ég naut skoðunarferðar minnar, safari, í Mala Mala í Suður-Afríku haustið 1987, þar sem ég fór í framsætinu í opnum Landrover um slóðir dýranna á gresjunni í ljósaskiptum kvölds og morgna, en þá eru þau helst á ferð.

En hvernig er best að vernda þokkafull risadýr eins og fíla og nashyrninga? Svar mitt var, að það væri sennilega heppilegra með frjálsum viðskiptum en skilyrðislausu veiðibanni. Ef íbúar á slóðum fílanna og nashyrninganna mega nýta sér þessi dýr sjálfir, selja veiðileyfi á þau og hirða og selja fílabín og nashyrningahorn, sem eftirsótt eru, þá munu þeir gæta dýranna betur en nú er, þegar þeir hafa engan hag af dýrunum nema þann að skjóta þau ólöglega (sem þeir gera). Vernd krefst verndara.

Þessi leið hefur raunar verið reynd með góðum árangri sums staðar í Simbabve og Suður-Afríku, og einnig verður að hafa í huga, þótt vissulega séu allir stofnar nashyrninga í útrýmingarhættu, að sumir stofnar fíla eru það ekki.

Þeir Frosti og Máni sáu óðar hliðstæðuna við kvótakerfið íslenska í sjávarútvegi. Þar var hætta á ofveiði (og hún var raunveruleg, síldin hvarf um miðjan sjöunda áratug, og þorskstofninn var í hættu). Henni var afstýrt með því að veita þeim, sem þegar höfðu skapað sér atvinnu af að nýta fiskistofnana, réttindi til þess að gera það, sem væru ótímabundin og framseljanleg. Þannig höfðu þeir hag af því að veiða fiskinn með sem lægstum tilkostnaði og gátu skipulagt veiðarnar til langs tíma. Þeir, sem síður voru til þess fallnir að veiða fisk, seldu kvóta sína hinum, sem vildu vera eftir í greininnni.

Frá því að heildstætt kvótakerfi var tekið upp (með atkvæðum þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar), eru liðin tuttugu ár. Kerfið hefur reynst vel, og hafa margar þjóðir tekið það upp. Dr. Þráinn Eggertsson prófessor, sem er sérfræðingur í stofnanahagfræði, segir, að þetta sé eina sérstaka framlag Íslendinga til hagkvæmra stofnana eða leikreglna um nýtingu náttúruauðlinda. Engu að síður á nú að eyðileggja kerfið!

Áhyggjuefnið er, að arður myndist í sjávarútvegi. Ég benti á, að þessi arður rennur einmitt til þeirra, sem keyptu kvóta, en ekki hinna, sem hættu í greininni. Það er ómaklegt að refsa þeim mönnum, sem eftir urðu í sjávarútvegi. Á ekki frekar að vera fagnaðarefni, að arður myndist í greininni? Og spurningin er sú, hvort þessi arður nýtist einmitt ekki miklu verr og hverfi jafnvel mestallur að lokum, ef ríkið reynir að gera hann upptækan.

Fyrir þúsund árum fundu Íslendingar Ameríku, og þeir týndu henni aftur. Nýlega fundu þeir kvótakerfið, og þeir virðast ekki hafa vit á því að halda í þetta kerfi. Ætlar sagan að endurtaka sig?


Grunsamlegar tölur

Frétt á dögunum vakti minni eftirtekt en hún átti skilið. Hún var í Wall Street Journal 21. apríl síðast liðinn þess efnis, að Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefði árið 2005 birt landabréf af heiminum undir heitinu „Fimmtíu milljónir loftslagsflóttamanna árið 2010“. Umhverfisstofnunin hefði nú þegjandi og hljóðalaust fjarlægt landabréfið af heimasíðu sinni, enda leið árið 2010 án þess, að nokkur yrði þessara flóttamanna var. Raunar hefur fólki fjölgað frekar en fækkað á sumum þeim svæðum, sem talin voru í mestri hættu vegna loftslagsbreytinga.

Þetta sýnir, hversu varlegt er að treysta ótrúlegum tölum, sem áróðursmenn kasta fram undir yfirskini vísindanna og í nafni virðulegra stofnana. Þeir reyna að mynda andrúmsloft hræðslunnar, svo að meira fé og meiri völd séu sett í hendur þeirra.

Við megum ekki láta talnaflóð drekkja heilbrigðri skynsemi okkar. Hér skal ég nefna tvö önnur dæmi um grunsamlegar tölur, sem ég hef rekist á í rannsóknum mínum.

Alþjóðabankinn birti fram á áttunda áratug athugasemdalaust tölur frá rúmensku stjórninni um hagvöxt í landinu, frá því að kommúnistar rændu þar völdum árið 1945. Samkvæmt þeim hafði meðalhagvöxtur á ári 1950–1975 numið 9,8%. En ef þessar tölur voru reiknaðar aftur á bak, þá kom í ljós, að í byrjun tímabilsins var verg landsframleiðsla á mann langt undir því, sem nægði, til þess að maður gæti lifað. „Margt hefur verið talið miðstýringu til lofs,“ sagði Wall Street Journal af þessu tilefni háðslega 10. ágúst 1979, „en aldrei áður það, að hún geti tryggt upprisu heillar þjóðar frá dauðum.“

Hitt dæmið er, að bann er við verslun með fílabein. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna héldu því fram, að bannið hefði haft svo góð áhrif á viðgang fílastofnsins í Keníu, að fílum hefði þar fjölgað úr 16 þúsund árið 1989 í 26 þúsund árið 1994. En þetta fær ekki staðist. Fílum fjölgar hægt, um 5% á ári. Því var samkvæmt þessum tölum um átta þúsund fílum fleira í Keníu 1994 en eðlilegt var. Hvaðan komu þessir átta þúsund fílar? Hefðu menn ekki orðið þeirra varir, ef þeir hefðu flykkst til Keníu frá öðrum löndum?

Hér ætla ég síðan ekki að rifja upp hrakspárnar í Endimörkum vaxtarins, sem Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur þýddi árið 1974, eða allar reikningsskekkjurnar í áróðri Stefáns Ólafssonar félagsfræðings fyrir skattahækkunum. Villur verða ekki skárri fyrir það, að á þeim sé stimpill vísindanna. Eða eins og Gertrude Stein myndi orða það: Villa er villa … er villa.


Tvö ótrúleg tónlistarmyndbönd

Minn gamli lærimeistari, Friedrich August von Hayek, á afmæli 8. maí 2011. Hann fæddist þennan dag árið 1899 í Vínarborg, þar sem þá var enn höfuðborg tvíburaríkjanna Austurríkis-Ungverjalands, barðist kornungur í her Austurríkiskeisara, en nam lögfræði og hagfræði eftir stríð. Þótti hann snjallastur og djúpsæjastur austurrísku hagfræðinganna svonefndu, sem höfðu eigin kenningar um eðli hins frjálsa hagkerfis, og var hann fenginn til að kynna þessar kenningar í Lundúnum, þar sem hann varð prófessor við hagfræðiskólann (London School of Economics) aðeins 32 ára að aldri, 1931.

Hinn kunni hagfræðingur Sir John Hicks sagði eitt sinn, að „The Hayek Story“ eða sagan af Hayek væri ósögð. Hann átti við það, að á fjórða áratug kepptu þeir von Hayek og John Maynard Keynes um forystuhlutverk í stétt enskumælandi hagfræðinga. Hayek taldi, að heimskreppan væri vegna þess, að fjármálamarkaður hefði ekki starfað við nógu mikinn aga (eða fengið nægar upplýsingar) árin á undan og skilaboðin um arðsamar fjárfestingar því verið röng. Þess vegna hefði orðið til lánsfjárbóla, sem þyrfti að springa. Niðursveifla væri eðlileg afleiðing uppsveiflu. Markaðurinn kæmist í jafnvægi, þegar óarðbær fyrirtæki hefðu hætt starfsemi sinni og laun lækkað. Aðalatriðið væri, að einstaklingar fengju fullnægjandi upplýsingar, svo að framboð lagaði sig að eftirspurn.

Keynes var hins vegar þeirrar skoðunar, að heimskreppan væri vegna smíðagalla í kapítalismanum. Hann næði ekki alltaf jafnvægi af sjálfum sér. Þess vegna þyrfti ríkið að handstýra honum, að minnsta kosti að einhverju marki. Í stað þess að óttinn við atvinnuleysi knýði niður laun, ætti ríkið að lækka þau óbeint fyrir tilstilli gjaldmiðilsins (prenta peninga) í því skyni að tryggja sæmilegan vinnufrið. Í stað þess að hrekja fyrirtæki í gjaldþrot ætti ríkið að leggja þeim til starfsfé (prenta peninga) eða sinna sjálft stórfelldum opinberum framkvæmdum.

Ef til vill má lýsa muninum á kenningum þeirra með því að segja, að Hayek hefði litið á hagkerfið sem viðkvæman gróður, sem hlúa þyrfti að, svo að hann yxi og dafnaði eftir eigin lögmálum, en Keynes talið það vél, sem þyrfti að ræsa og tryggja eldsneyti. Hayek dró fram kosti sjálfstýringar, en Keynes taldi ekki komist hjá einhverri handstýringu. Báðir voru þeir þó frjálslyndir lýðræðissinnar, eins og skýrt kom fram í bréfi Keynes 1945 til Hayeks um hina frægu ádeilu Hayeks á sósíalisma, Leiðina til ánauðar.

Óhætt er að segja, að kenning Keynes hafi orðið ofan á eftir stríð, þótt sumir tækju upp kenningu Hayeks upp úr 1970, þegar úrræði Keynes — að leysa vandann með því að fleygja í hann fé, prenta peninga — virtust ekki duga. Þess má geta, að núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, skrifaði meistaraprófsritgerð sína í Cambridge-háskóla um ólíkar kreppuskýringar þeirra Hayeks og Keynes, og birtist hún 1985 í Fjármálatíðindum, sem ekki koma lengur út. Lagðist Már þar auðvitað á sveif með Keynes, sem var sjálfur frá Cambridge.

En því minnist ég á þetta allt, að á Netinu rakst ég á tvö mjög skemmtileg og vel gerð tónlistarmyndbönd, jafnvel rapparaleg, um hina ólíku sýn þeirra Hayeks og Keynes á hagkerfinu. Eru þau vitanlega leikin. Í öðru myndbandinu, „Fear the Boom and Bust,“ syngja þeir félagar í seðlabankaveislu um kreppuna og úrræði gegn henni. Í hinu, Fight of the Century, fræða þeir bandaríska þingnefnd á skoðunum sínum og svara spurningum. Eru viðfangs- og ágreiningsefnin um margt hin sömu nú og í heimskreppunni upp úr 1930.

Þótt Keynes hafi látist 1946 og Hayek 1992, lifa kenningar þeirra beggja góðu lífi, eins og þessi ótrúlegu tónlistarmyndbönd sýna.


Nordal og nemendur hans

Sigurður Nordal prófessor var einhver áhrifamesti ritskýrandi Íslendinga fyrr og síðar. Hann var snjallt skáld, góður rithöfundur og fyrirlesari og hafði sérstakt lag á fólki. Það leyndi sér ekki heldur, að hann var maður vitur, hafði jafnan þaulhugsað það, sem hann sagði.

Í Oxford sagði mér roskinn kennari í engilsaxneskum fræðum, að Nordal hefði komið þangað og haldið fyrirlestra og hefði mönnum þar þótt mikið til hans koma. Góður vinur minn var sendill hjá kaupmanninum, föður sínum, í æsku og fór þá oft með sendingar heim til Nordals á Baldursgötu. Kvað hann engan mann sér óvandabundinn hafa verið elskulegri og skemmtilegri. Gaf Nordal sér tíma til að rabba við sendilinn unga og gaf honum jafnvel bækur, sem hann taldi honum hollt að lesa.

Svo sem nærri má geta, mótaði Nordal nemendur sína í Háskóla Íslands. Kjartan Sveinsson bókavörður sagði að vísu háðslega í hinni bráðskemmtilegu bók sinni, Afbrigðum og útúrdúrum, sem kom út 2005: „Hann kunni best við þá  hvolpa, sem hann hafði sjálfur alið, þótt ekki fengi hann alltaf þakkir frá þeim að sama skapi.“

Einn nemandi Nordals var Jón S. Guðmundsson, sem kenndi mér íslensku í menntaskóla. Man ég enn vel eftir sumu því, sem hann hafði í kennslustundum eftir Nordal. Eitt var þetta: „Laxdæla saga hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. En líklega hefur tíðarandinn ekki leyft, að saga væri kennd við konu.“

Seinna komst ég að því, að fleiri hafa bent á þetta. Til dæmis kallaði Albert U. Bååth þýðingu sína á Laxdæla sögu, sem kom út árið 1900, „Sagan om Gudrun“. Breski norrænufræðingurinn Bertha S. Phillpotts sagði líka í Edda and Saga frá 1931, að Guðrún væri svo fyrirferðarmikil í Laxdæla sögu, að hún mætti heita ævisaga hennar.

Annað, sem Nordal sagði nemendum sínum og Jón S. Guðmundsson okkur, nemendum sínum: „Hefur Þorgeir Ljósvetningagoði ekki verið að yrkja Völuspá undir feldinum? Hún er svo sannarlega ort á mótum heiðni og kristni.“

Þórarinn Eldjárn fræddi mig síðan á því, að líklega hefði Nordal sagt nemendum sínum eitt, sem Þórarinn fann skrifað eftir honum í minniskompu föður síns, Kristjáns forseta: „Það, sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Snjallt, skýrt, einfalt — þaulhugsað.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 7. maí 2011 og er sótt í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er barmafull af þjóðlegum fróðleik, fæst í öllum bókabúðum og er tilvalin útskriftargjöf.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband