14.4.2011 | 07:28
Hafa vinstri menn gleymt Laxness?
Sú var tíð, að snjöllustu setningar Halldórs Kiljans Laxness voru jafnan á vörum vinstri manna, þar sem þeir sátu að tímafreku skrafi sínu á kaffihúsum og þóttust spakir. Ekki hafa þeir þó vitnað oft í slíkar setningar í Icesave-deilunni um það, hvort Íslendingar ættu að greiða skuldir óreiðumanna.
Ein lýsing Laxness í Íslandsklukkunni á þó vel við um það þolgæði, sem lítið land eins og Ísland verður að sýna í deilu við voldugri granna eins og Breta og Hollendinga:
Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.
Tíminn vinnur með okkur í Icesave-deilunni. Við skulum ekki vænta okkur hjálpar, þótt tröll það, sem kallar sig Evrópusambandið, komi með blíðskaparbragði og segist skulu frelsa okkur. Smám saman greiðir þrotabú Landsbankans út forgangskröfur, þar á meðal kröfur, sem bresk og hollensk stjórnvöld gera fyrir hönd innstæðueigenda í löndum sínum, vegna þess að þau hafa þegar greitt út það, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta átti að reiða af höndum, en gat ekki. Vonandi nægir það fyrir höfuðstól kröfunnar, en vexti eigum við auðvitað ekki að greiða, enda var lán Breta og Hollendinga ekki veitt að okkar frumkvæði.
Raunar eru orð eiginkonu hins íslenska bókasafnara Íslandsklukkunnar ekki alveg út í bláinn um þá fræðimenn í Háskóla Íslands, sem spáðu því, að Ísland yrði ýmist Kúba Norðursins eða ný Norður-Kórea, ef Icesave II samningurinn yrði ekki samþykktur (sá samningur, sem Bretar og Hollendingar vildu síðan bæta um litla 200 milljarða króna):
Þesskonar fólk sem íslenskir kalla lærða menn og spekínga eru hér í Danmörk kallaðir landsbýsidjótar og bannað með lögum að þeir komi útfyrir sinn kaupstað.
Ég tók hins vegar eftir því, að hægri mennirnir í Advice-hópnum vitnuðu óspart í Bjart í Sumarhúsum um eitt:
En meðan ég sælist ekki eftir annarra manna gróða, þá kæri ég mig heldur ekki um að bera annarra manna töp.
Það skiptir ekki máli, í hvaða samhengi Laxness setti þessar setningar sínar sjálfar, því að þær geyma í sér algildan sannleika um mannlífið, utan og ofan við dægurmálin, sem hann skipti sér sjálfur af með misjöfnum árangri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook
13.4.2011 | 07:21
Þriðji heimurinn
Stundum er orðasambandið þriðji heimurinn notað um fátækar þjóðir í suðri. Franski félagsfræðingurinn Alfred Sauvy, sem uppi var frá 1898 til 1990, smíðaði það. Hann skrifaði grein undir fyrirsögninni Þrír heimar, ein jörð í LObservateur 14. ágúst 1952. Þar segir: Því að loksins vill þessi Þriðji heimur, vanræktur, arðrændur, fyrirlitinn, eins og Þriðja stétt, líka vera eitthvað.
Fyrsti heimurinn var samkvæmt kenningu Sauvys þróuð iðnríki Vesturlanda, sem bjuggu við kapítalisma og lýðræði. Annar heimurinn var kommúnistaríkin, en þriðja heiminn mynduðu aðrar þjóðir.
Sauvy vísaði með þessu hugtaki beint til frægra orða franska ábótans og byltingarmannsins Emmanuels Josephs Sieyès, sem gaf út bækling í janúar 1789, þar sem sagði: Hvað er þriðja stétt? Allt. Hvað hefur hún verið fram að þessu í stjórnmálum? Ekkert. Hvað vill hún verða? Eitthvað?
Þriðja stétt Frakka á átjándu öld var það, sem við nútímamenn myndum kalla miðstétt, kaupmenn, lögfræðingar, embættismenn og aðrir slíkir. Eins og allir vita, skiptist stéttaþingið franska, sem Lúðvík XVI. kallaði saman 1789, í aðalsmenn, klerka og borgara. Má kalla frönsku stjórnarbyltinguna uppreisn borgaranna gegn aðli og klerkum, þriðju stéttar gegn hinum tveimur.
Þýski sósíalistinn Ferdinand Lassalle talaði síðan um það á síðari helmingi nítjándu aldar, að fjórða stétt, verkalýðsstéttin, væri líka til og ætti heimtingu á mannsæmandi tilveru.
Hvað sem því líður, hafa fræðimenn bent á, að þriðji heimurinn sé lítt nothæft hugtak. Til þess er ekki aðeins sú ástæða, að annar heimurinn er nánast horfinn úr sögunni, heldur líka, að löndin í þessum svokallaða þriðja heimi eru gerólík. Sum hafa skipað sér á bekk með þróuðum iðnríkjum, til dæmis Suður-Kórea og Taívan. Sum eru örsnauð, svo sem Nepal, en önnur vellauðug, til dæmis Kúvæt. Sum eru risastór, Kína, Indland og Brasilía, en önnur mjög lítil, meðal annars eylönd í Karíbahafi og Kyrrahafi.
Því er við að bæta, að forseti tékkneska lýðveldisins, Vaclav Klaus, heldur því fram, að þriðja leiðin, sem sumir segja til milli kapítalisma og sósíalisma, sé leiðin beint inn í Þriðja heiminn!
(Þessi fróðleiksmoli eftir mig birtist í Morgunblaðinu 9. apríl og er sóttur í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún fæst í öllum bókabúðum og er tilvalin fermingar- eða útskriftargjöf, og árita ég hana með ánægju.)
12.4.2011 | 08:26
Grein mín í Wall Street Journal í gær
Wall Street Journal birti eftir mig grein í gær, sem nefnist Íslendingar segja nei. Þar reyni ég að skýra, hvers vegna Íslendingar sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-samningana og hverjar afleiðingarnar verða utan lands og innan.
Íslendingar sögðu nei, af því að þeir vildu ekki greiða skuldir óreiðumanna. Kapítalistar eru velkomnir til Íslands, en þeir hljóta að taka ábyrgð á eigin gerðum eins og við hin. Hvergi er bókstafur um það í alþjóðlegum samningum eða samevrópskum reglum, að ríkissjóður Íslands beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem hér var settur upp. Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér til að afstýra áhlaupi á aðra banka í löndum sínum að snara út fé fyrir innstæðum á Icesave-reikningum.
Afleiðingarnar af neituninni verða, að talsmenn breskra og hollenskra stjórnvalda tala illa um Ísland í nokkra daga, en gera fátt. Þeir senda væntanlega ekki fallbyssubáta hingað eins og Bretar gerðu, þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir munu hika við að sækja skaðabætur fyrir dómstólum, því að það er flókið mál og getur snúist gegn þeim. Þrotabú Landsbankans mun hvort sem er vonandi nægja að mestu leyti fyrir öllum forgangskröfum, þar á meðal kröfum breskra og hollenskra innstæðueigenda. Lánsfjárhæfi Íslands mun augljóslega aukast til langs tíma litið, því að landið skuldar minna við það, að Icesave-samningarnir taka ekki gildi.
Afleiðingarnar innan lands eru einkum þrjár. Hin veika ríkisstjórn veikist enn. Aðild að Evrópusambandinu verður ólíklegri, því að ESB beitti sér hart gegn Íslendingum í þessari deilu. Og þeir tveir gömlu og reyndu stjórnmálamenn, sem lögðust gegn samþykkt samningsins, Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum og Davíð Oddsson í Morgunblaðinu, styrkjast báðir.
Mér til mikillar ánægju sé ég síðan, að Wall Street Journal birti ritstjórnargrein í dag, þar sem tekið er undir sjónarmið Íslendinga í deilunni, og þykist ég vita, hvaða ritstjóri blaðsins situr þar við lyklaborð.
11.4.2011 | 11:07
Stjórnin á að segja af sér
Vitaskuld er eðlilegast og rökréttast, að vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar segi af sér, eftir að kjósendur hafa tvisvar gert hana afturreka með mál, sem hún ræður bersýnilega ekki við, Icesave-málið.
Það hlýtur að vera áhyggjuefni, að vinstri stjórnin hefur pólitískan hag af því, að framhaldið gangi ekki vel, því að þá getur hún sagt við kjósendur: Þarna sjáið þið. Svona fór, af því að þið fellduð samninginn okkar. Stjórnin mun því ekki beita sér af fullri festu og einurð í málinu fremur en fyrri daginn. Í Icesave III björguðu samningamenn stjórnarandstöðunnar því, sem bjargað varð.
Nýir og harðskeyttari menn ættu að taka við og veita forystu í þeim málum, sem þarf að reka. Taka þarf upp hina dæmafáu beitingu hryðjuverkalaganna bresku gegn Landsbankanum og fá líka skýringar á því, hvers vegna Bretar neituðu banka í eigu Kaupþings um fyrirgreiðslu einum breskra banka á ögurstund.
Svara þarf fullum hálsi mönnum eins og aðstoðarfjármálaráðherra Breta, sem segir digurbarkalega, að nú þurfi að gjaldfella skuld Íslendinga. Hvaða skuld? Við skuldum Bretum ekki eitt einasta pund. Þeir skulda okkur hins vegar skýringar á beitingu hryðjuverkalaganna og ruddalegri lokun Singer & Friedlander.
En hvar eru nýir menn?
Ef forysta Sjálfstæðisflokksins hefði beitt sér fyrir nei, þá hefði í fyrsta lagi munurinn á Nei-i og já-i áreiðanlega orðið meiri, líklega 70% gegn 30% í stað 60% gegn 40%, og þá hefði hún í öðru lagi haft siðferðilegt og pólitískt umboð til að taka málið úr höndum þessarar ólánsstjórnar.
Það sást strax og Ólafur Ragnar Grímsson tók að tala máli Íslendinga í sjónvarpi erlendis, hversu mikilvægt er að hafa þar öfluga talsmenn. Það sást líka á hinum mögnuðu skrifum Davíðs Oddssonar í Morgunblaðinu, hversu mikill munur er annars vegar á reyndum og kjörkuðum stjórnmálamanni eins og honum og hins vegar á mörgu því fólki, sem gefur sig að stjórnmálum um þessar mundir; það er ýmist að bugast undan fortíðarklyfjum sjálfs síns eða dauðhrætt við íslensku valdastéttina, á fjölmiðlum og í háskólum og voldugum hagsmunasamtökum, en sú stétt lagðist nánast óskipt á sveif með jáinu.
Langlíklegast er þó, að hin auma vinstri stjórn ríghaldi sér áfram í ráðherrastólana.
10.4.2011 | 12:27
Þjóðmál og Icesave
Í fyrsta hefti tímaritsins Þjóðmála á þessu ári er ritstjóraspjall eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund. Þar segir hann meðal annars:
Hinn 9. apríl nk. verður gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu Icesavesamningana. Þjóðmál hvetja lesendur sína eindregið til að segja Nei. Það er mikilsvert að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort kröfur Breta og Hollendinga séu lögleysa, ekki bara Íslands vegna heldur vegna skipulags bankastarfsemi til frambúðar, sbr. fróðlegar greinar Hallgríms Th. Björnssonar og Örvars Arnarssonar í þessu hefti (bls. 5356 og 6369). Það er í rauninni með öllu forkastanlegt að nokkur maður, sem vill láta taka sig alvarlega, skuli mælast til þess að Alþingi skuldbindi þjóðina til að greiða skuld sem ekki er ljóst hvort Íslendingum beri að greiða og enginn veit hvað er há. Í hinum nýja Icesavesamningi felst bæði mikil óvissa um skuldarfjárhæðina í erlendri mynt (þ.e. heimtur þrotabús Landsbankans) og gríðarleg gengisáhætta þar sem smávægilegar gengissveiflur krónunnar gætu steypt þjóðinni í fjárhagslegt öngþveiti.
Ef vilji er til að semja um þetta mál á einhvern veg ber að gera það á pólitískum forsendum. Öllum er ljóst að málið er af hálfu vinstri stjórnar Steingríms J. og Jóhönnu risavaxið klúður frá upphafi. Með því að hafna nýja Icesavesamningnum gæfist tækifæri fyrir forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar til að taka málið upp að nýju á pólitískum forsendum, berjast með oddi og egg fyrir málstað Íslands á alþjóðavettvangi og fá þannig stjórnmálamenn í Bretlandi og Hollandi til að sýna sjónarmiðum Íslendinga skilning. Það er með öllu fráleitt að fela svo veigamikið mál alfarið í hendur embættismanna eða keyptra málaliða í lögfræðistétt. Með því að segja afdráttarlaust Nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni myndi þjóðin vísa veginn til farsællar lausnar þessa vandræðamáls.
9.4.2011 | 00:43
Fjölmennur fundur og fjörugar umræður
Mér til nokkurrar undrunar var fjölmenni á fyrirlestri mínum um Evrópusambandið og hvalveiðar Íslendinga í Háskóla Íslands í hádeginu í gær. Ég hafði búist við öðru daginn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-málið, eitt mesta hitamál fyrr og síðar.
Ég fór yfir fræðilegan rökstuðning fyrir hvalveiðibanni, eins og kanadíski stærðfræðingurinn Colin W. Clark setti hann fram í Science 1973, og svör við honum eftir þrjá hagfræðinga, sem birtust í sama tímariti 2007. Einnig rakti ég stuttlega átök um hvalveiðar Íslendinga og niðurstöður vísindamanna um ástand hvalastofna á Íslandsmiðum.
Ég benti á, að hvalir við Ísland éta sex milljónir lesta af ýmissi fæðu, mestmegnis krabbadýr, en einnig fisk, þar á meðal loðnu og þorsk. Deilt er um það, hvort hvalirnir éti þannig frá okkur mönnunum, en ég benti á eitt sjónarmið, ef svo reynist ekki vera. Þá afla hvalir fæðu, sem við mennirnir erum ekki færir um með núverandi tækni. Þá má líta á hvali sem fullkomnar leitarvélar og matvinnslustöðvar. Þeir finna fæðu, sem við finnum ekki, og breyta henni í mat, sem við getum síðan etið, hvalkjötið.
Þetta skiptir máli í heimi, þar sem matvælaverð hefur tekið snarpan kipp upp á við. Hinir björtu tímar matvælagnóttar í framhaldi af grænu byltingunni á Indlandi og víðar kunna að vera liðnir. Þá skiptir mannkynið allt máli að nýta hið mikla forðabúr, sem hafið er.
Jafnframt benti ég á, að rétta ráðið til að leysa ágreining hvalfriðunarsinna og hvalveiðimanna (og annarra þeirra, sem nýta hvali óbeint) væri eignarréttur eða einkanýtingarréttur á hvalastofnum. Þá fara hvalir í frjálsum viðskiptum í hendur þeirra, sem best kunna að meta þá. Ég tók þó fram, að þetta mál væri flóknara en virtist í fljótu bragði.
Fjörugar umræður urðu að fyrirlestrinum loknum. Grímur Valdimarsson hjá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, minnti á, að á umhverfisráðstefnunni í Rio de Janeiro 1992 var samþykkt, að þjóðir heims hefðu rétt til sjálfbærrar nýtingar auðlinda sinna. Þetta er mjög mikilvægt. Við Íslendingar höfum rétt til sjálfbærrar nýtingar hvalastofna eins og annarra auðlinda okkar. Ef þessi réttur er tekinn af okkur í hvalveiðum, þá er þess skammt að bíða, að sami réttur verði tekinn af okkur á öðrum sviðum.
Þess vegna megum við alls ekki afsala okkur réttinum til hvalveiða, eins og Evrópusambandið er líklegt til að krefjast í aðildarviðræðum.
Þessi fyrirlestur minn er þáttur í rannsóknarverkefni mínu, Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.4.2011 kl. 12:26 | Slóð | Facebook
8.4.2011 | 15:41
Hið besta á Netinu um Icesave-málið
Ég lagðist í sprang um Netið til að kynna mér betur hinar fjörugu umræður þar um Icesave-samningana. Ég nam sérstaklega staðar við orð tveggja lögfræðinga og tveggja listamanna.
Skúli Magnússon, sem er einn skarpasti ungi lögfræðingurinn okkar og nú ritari EFTA-dómstólsins, útskýrði mjög vel í Silfri Egils, að íslenskir dómstólar hafa lögsögu um skaðabætur í málinu, ef einhverjar verða.
Reimar Pétursson, sem þykir mjög slyngur málflutningsmaður, fór afar skýrt yfir lögfræðilegar hliðar málsins á fundi sjálfstæðismanna í Vesturbæ.
Það er líka gaman að hlusta á einn okkar snjallasta leikara, Egil Ólafsson, tala sinni þrautþjálfuðu, mjúku og þó karlmannlegu rödd fyrir málstað, sem hann er auðheyrilega sannfærður um.
Ekki var síður um vert að lesa vísur Þórarins Eldjárns skálds um Icesave-málið, þar sem hann segir það jákvætt að segja nei við Icesave-samningunum.
Ég hef verið virkur í stjórnmálum í rösk fjörutíu ár og horft þar upp á margt. Mér koma þeir Frosti Sigurjónsson og Jón Helgi Egilsson, sem vilja segja nei og veita ásamt öðrum Advice-hreyfingunni forystu, fyrir sjónir sem einlægir hugsjónamenn, sem vilja gera borgaralegu skyldu sína. Ekkert annarlegt vakir fyrir þeim, að því er mér virðist. Þeir ganga ekki erinda neins, sem ég veit að minnsta kosti um, og sitja ekki fastir í gamlir skotgröfum eins og stundum vill verða með okkur hina. Ekki er úti um Ísland, á meðan slíkir menn rísa upp og berjast fyrir því, sem þeir telja rétt.
8.4.2011 | 09:15
Glögg rök sjö hagfræðinga í Icesave-málinu
Sjö hagfræðingar birtu miðvikudaginn 6. apríl grein bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu um, hvers vegna við ættum að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag. Sumir þeirra eru meðal fremstu fræðimanna þjóðarinnar, eins og Ragnar Árnason prófessor, en ég get borið um, að hann nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi. Hagfræðingarnir eru auk Ragnars þeir Birgir Þór Runólfsson, Jón Helgi Egilsson, Kári Sigurðsson, Ólafur Margeirsson, Sigurgeir Örn Jónsson og Sveinn Valfells.
Hagfræðingarnir sjö færa mjög glögg rök fyrir máli sínu og bæta við mikilvægum sjónarmiðum vegna sérþekkingar sinnar. Hér er greinin:
Alþingi Íslendinga samþykkti nýverið lög til heimildar á staðfestingu nýjustu Icesave-samninganna en forseti lýðveldisins synjaði þeim staðfestingar. Gengur þjóðin því til atkvæðagreiðslu um lögin nk. laugardag, þann 9. apríl. Við undirritaðir viljum hér gera stutta grein fyrir því hvers vegna við teljum farsælast fyrir þjóðina að hafna samningunum.
Áhættusamir samningar
Fullyrðingar um að kostnaður ríkissjóðs vegna samninganna sé aðeins nokkrir tugir milljarða eru reistar á forsendum um mjög hagstæða þróun ákveðinna lykilstærða. Þetta kostnaðarmat hvílir á hagstæðri þróun gengis og eignasafns þrotabúsins. Það er hins vegar ljóst að lítið þarf út af að bregða til að upphæð þessarar skuldbindingar margfaldist og þar með byrði íslensku þjóðarinnar, jafnvel til áratuga. Slíkt er undirstrikað með því að hægt er að framlengja samningana til næstu 35 ára.
Gjaldeyrisáhætta
Seðlabanki Íslands metur það svo að falli gengi krónunnar um 25% á tímabilinu til 2016 þrefaldast skuldbinding þjóðarinnar vegna Icesave. Séð í sögulegu samhengi er sú lækkun alls ekki ótrúleg. Þar má einnig taka mið af núverandi aflandsgengi krónunnar sem er 40-60% lægra en opinbert gengi innanlands er í skjóli gjaldeyrishafta.
Gjaldeyrishöft
Hætt er við að samþykkt samninganna muni framlengja gjaldeyrishöftin til margra ára, eins og reyndar ríkisstjórnin og Seðlabanki hafa einmitt boðað nýverið. Þessi höft eru til mikils skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og koma í veg fyrir að hagkerfið vaxi af krafti. Þá eru þau ekki fullkomin trygging fyrir því að gengi krónunnar falli ekki, enda ræðst gengið af þróun efnahagsmála en ekki óskhyggju einstakra stofnana um verð hennar.
Jafnvægisraungengi
Því hefur verið haldið fram að jafnvægisraungengi muni leita til fyrra jafnvægis og því sé gjaldeyrisáhættan hverfandi. Jafnvægisraungengi síðustu 8-10 ár var óeðlilega hátt, m.a. vegna útlánabólu og innstreymis á erlendu fjármagni sem leiddi til styrkingar krónu óháð öllum grundvallar jafnvægislögmálum. Þróun gengis allra næstu árin ræður mestu um mögulegt tjón sem Icesave-samningarnir geta valdið íslenskum efnahag og raungengi getur verið fjarri langtíma meðaltali í fjölda ára í senn. Þá má benda á að raungengi krónu á móti bresku pundi í dag er ekki veikara heldur þvert á móti sterkara en það var fyrir 10 árum. Allar væntingar um að raungengi krónunnar styrkist verulega á næstu árum eru vægast sagt ótraustar.
Aðgangur að lánsfé
Þá er fullyrt að samþykkt samninganna opni dyr að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Vandséð er hvernig aukin skuldsetning með samþykkt Icesave-samninga á að laða að erlent lánsfé. Fjármagn leitar í arðsöm verkefni, við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Íslensk fyrirtæki með gott rekstrarhæfi hafa aðgang að erlendri fjármögnun, eins og dæmin sanna. Það sem helst torveldar aðgang að erlendu lánsfjármagni nú er miklu frekar ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, haftastefnan hérlendis og óvissa efnahagsmála í hagkerfi í djúpri kreppu.
Álit Moody's og lánshæfimat
Því hefur verið haldið fram að samþykkt samninganna bæti lánshæfimat Íslands. Gott langtíma lánshæfimat Íslands hvílir á traustum efnahag, hóflegri skuldsetningu og áhættu. Lánshæfimatsfyrirtækið Moody's hefur lýst því yfir að höfnun Icesave hafi neikvæð áhrif á lánshæfimat íslenska ríkisins. Úttektin er 2 blaðsíður að lengd og alls ekki fullnægjandi! Ekki er að sjá að fulltrúar fyrirtækisins hafi kynnt sér samninginn með tilhlýðilegum hætti enda er niðurstaðan illa rökstudd. Ekki er rúm til að hrekja alla gallana í röksemdafærslu Moody's en minnt er á að fyrirtækið mat íslensku bankana meðal traustustu skuldara heims rétt áður en þeir hrundu.
Minni áhætta af dómstólaleið
Sterk rök hafa verið færð fyrir því að Bretar og Hollendingar hafi ekkert mál að byggja á fyrir dómi. Samkvæmt því er líklegast að íslenska ríkið taki ekki á sig neinn kostnað verði samningum hafnað. Ef allt færi hins vegar á versta veg í samræmi við áminningarbréf ESA frá 26. maí 2010, þá felur það í sér minni fjárhagslega áhættu en samningurinn sjálfur, þróist gengi krónunnar örlítið á verri veg. Þar til viðbótar er komið í veg fyrir greiðslufalls-áhættu ríkissjóðs vegna skulda í erlendri mynt. Þess ber einnig að geta að Bretar og Hollendingar fá umtalsvert hærri greiðslur ef þjóðin segir nei en þeir hefðu fengið hefði tilskipun ESB verið látin gilda en ekki neyðarlögin.
Niðurstaða
Að öllu samanlögðu er það mat okkar að efnahagsleg áhætta Icesave-samningsins sé of mikil og mun meiri en væri honum hafnað. Að segja nei er að okkar mati sú leið sem er bæði sanngjörn og sú sem lágmarkar efnahagslega áhættu Íslands.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook
5.4.2011 | 15:02
Bestu rökin í Icesave-málinu
Ég tek undir það með Agli Helgasyni, að mikilvægt er, að menn missi ekki stjórn á sér í lokasprettinum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl næstkomandi. Sjálfur ætla ég að segja nei, en ég þekki marga góða menn, sem segjast ætla að segja já, þótt ég voni, að þeir skipti um skoðun. En Aðalsteinn Jónasson lögfræðingur hefur sett fram afar skýr rök fyrir því að segja nei, og geri ég orð hans að mínum:
Það eru sjö meginástæður fyrir því að ég er staðráðinn í því að segja nei við Icesave-samningnum í kosningunum hinn 9. apríl næstkomandi. Þær eru eftirfarandi:
1. Fjárhæð skuldbindingar er háð algerri óvissu þrátt fyrir samning
Ég lærði eina grundvallarreglu af foreldrum mínum þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem fjárráða einstaklingur. Reglan er sú að undirgangast aldrei greiðsluskyldu samkvæmt samningi nema vita nákvæmlega hver hún er. Öðruvísi getur maður ekki metið hvort og þá hvernig maður ætlar að standa við hana. Þrír stórir áhættuþættir hafa veruleg áhrif á greiðsluskyldu Íslands samkvæmt Icesave-samningnum:
a) Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að greiðsluskyldan sé í erlendum gjaldmiðlum, án þess að gengi krónunnar sé fest. Þetta hefur í för með sér að veiking krónunnar hækkar skuldbindingu Íslands. Ekkert þak er sett á veikingu krónunnar og því ríkir fullkomin óvissa um hversu mikið skuldbinding Íslands kann að hækka vegna þessa. Þessi óvissa kann að koma í veg fyrir að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin (eða tefja verulega ferlið), en tilvist þeirra getur beinlínis leitt til þess að mörg stærstu fyrirtæki landsins fari úr landi, með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð.
b) Í öðru lagi ræðst greiðsluskyldan af því hversu mikið fæst greitt upp í skuldina af eignum Landsbanka Íslands hf. Vonandi duga eignir bankans að fullu, en nú ríkir fullkomin óvissa um hve mikið muni fást greitt upp í kröfurnar. Settar hafa verið fram getgátur um það miðað við núverandi aðstæður. Þær aðstæður geta hins vegar breyst til hins verra án þess að ríkissjóður eða aðrir geti nokkuð við það ráðið.
c) Í þriðja lagi er hugsanlegt að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að sú breyting neyðarlaganna að færa innlánskröfur úr flokki almennra krafna í flokk forgangskrafna standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Jafnvel þótt íslenskir dómstólar telji að það hafi verið heimilt er óvíst hvað Mannréttindadómstóll Evrópu gerir ef málið verður sent áfram þangað. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að breytingin standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar munu áhrifin verða þau að innlánskröfurnar falla í flokk almennra krafna, sem aftur þýðir að eignir Landsbankans munu ekki duga nema að mjög litlu leyti fyrir skuldbindingunni með tilheyrandi hækkun á greiðsluskuldbindingu ríkissjóðs.
Hver einstakur áhættuþáttur sem talinn er upp hér að ofan getur hækkað greiðsluskuldbindingu Íslands um tugi eða hundruð milljarða króna án þess að ríkissjóður eða aðrir geti nokkuð við því gert. Í fyrirliggjandi samningi er ekki að finna fullnægjandi fyrirvara, gangi þessir áhættuþættir eftir að hluta til eða í heild sinni. Þar er ekki að finna ákvæði um að greiðsluskuldbindingin breytist eða falli niður við þessar aðstæður. Það er óviðunandi að mínu mati. Sumir segja að líkurnar á að þeir komi fram séu litlar eða engar. Aðrir eru ósammála og segja líkurnar vera umtalsverðar. Kjarni málsins er að það veit enginn hvernig þessir áhættuþættir munu þróast. Að mínu mati skiptir engu máli hversu miklar líkurnar eru, það er nóg að óvissan sé til staðar. Í ljósi framangreinds er furðulegt að heyra fólk tala um að það ætli að ,,kjósa sig frá Icesave« eða ,,setja málið aftur fyrir sig«. Það er einfaldlega ekki hægt á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Einnig fær það ekki staðist að rétt sé að samþykkja samninginn vegna þess að ,,dómstólaleiðin sé háð svo mikilli óvissu og áhættu«. Vissulega er dómstólaleiðin háð óvissu en hún er svo sannarlega ekki meiri en af því að samþykkja samninginn. Þvert á móti hafa menn fært góð rök fyrir því að sú leið sé í raun áhættuminni.
2. Bretar og Hollendingar axla enga ábyrgð samkvæmt samningnum
Fyrirliggjandi samningur gerir ekki ráð fyrir að Bretar og Hollendingar axli neina ábyrgð. Þrátt fyrir það liggur ljóst fyrir að eftirlitsaðilar þessara ríkja fengu upplýsingar um uppbyggingu innstæðutryggingakerfisins áður en útibú Landsbankans voru stofnuð í þessum löndum. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sem byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins, voru eftirlitsaðilum í Bretlandi og Hollandi veittar upplýsingar um ,,tryggingar innlána og bótakerfi sem verndar viðskiptavini útibúsins«, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þessir eftirlitsaðilar vissu, eða máttu í öllu falli vita, hvernig tryggingu innlánseigenda var háttað og gátu brugðist við því á viðeigandi hátt, teldu þeir uppbyggingu kerfisins á Íslandi stofna hagsmunum viðskiptavina útibúsins í hættu. Þrátt fyrir þetta axla Bretar og Hollendingar enga ábyrgð. Ekki er nóg með að Bretar og Hollendingar axli enga ábyrgð samkvæmt samningnum heldur taka þeir litla sem enga áhættu með gerð samningsins. Þeir fá þannig greiddan höfuðstól meintrar skuldar með vöxtum sem eru hærri en þeirra eigin fjármögnunarkostnaður, að viðbættum kostnaði við útgreiðslu.
3. Samningsbrot leiðir ekki sjálfkrafa til skaðabótaskyldu
Ýmsir hafa bent á að það sé umtalsverð hætta á að Ísland tapi málinu ef það fer fyrir EFTA-dómstólinn. Hvort sem sú hætta er mikil eða lítil er ljóst að jafnvel þótt EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi gerst brotlegt við ákvæði EES-samningsins hefur það ekki sjálfkrafa í för með sér skaðabótaskyldu ríkissjóðs. Til eru fjölmörg dæmi um að aðildarríki EES-samningsins hafi gerst brotleg við samninginn, án þess að bótaskylda hafi stofnast. EFTA-dómstóllinn dæmir ekki um skaðabótaskyldu. Skaðabótamál yrði að höfða fyrir íslenskum dómstólum þar sem myndi reyna á ýmis sjónarmið, eins og t.d. um skiptingu sakar vegna gáleysislegrar framgöngu eftirlitsaðila Breta og Hollendinga. Af fræðimönnum á sviði Evrópuréttar hefur auk þess verið bent á að til að bótaskylda komi til álita fyrir samningsbrot á EES-samningnum, þurfi brot að vera ,,nægilega alvarlegt«. Að mínu mati er ólíklegt að dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að hugsanlegt brot á EES-samningnum verði talið nægilega alvarlegt til að bótaskylda geti stofnast. Vissulega fylgir óvissa ef til slíks dómsmáls kemur, en hún er að mínu mati ekki meiri en sú óvissa sem fylgir fyrirliggjandi Icesave-samningi.
4. Engin trygging er fyrir því að aðgangur atvinnulífs að lánsfé muni aukast
Margir halda því fram að verði samningurinn ekki samþykktur, muni íslensk fyrirtæki ekki fá fullnægjandi aðgang að lánsfé. Ef horft er á þá óvissuþætti sem óumdeilanlega fylgja samþykki Icesave-samningsins er erfitt að sjá fyrir sér af hverju aðgengi íslenskra fyrirtækja að lánsfé ætti að aukast við það eitt að samningurinn verði samþykktur. Engin trygging er fyrir því að slíkt aðgengi muni aukast, hvorki í fyrirliggjandi samningi né annars staðar. Sum lánshæfismatsfyrirtæki hafa hótað að færa skuldabréf ríkissjóð í svokallaðan ,,ruslflokk«, verði samningurinn ekki samþykktur. Slíkum hótunum verður að taka með fyrirvara um tengsl þessara fyrirtækja við Breta. Vægi matsfyrirtækjana hefur auk þess verulega minnkað í kjölfar hrunsins, eftir að í ljós kom að þau höfðu gefið ýmsum vafasömum skuldavafningum, sem voru seldir víða um heim, góða einkunn þrátt fyrir enga innistæðu. Ástæður fyrir litlu aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendu fjármagni eru margar. Ein stór ástæða, sem erlendir lánveitendur horfa til, er setning neyðarlaganna sem hafði í för með sér að kröfum þeirra var mismunað með afturvirkum hætti gagnvart innlánskröfum. Erlendir kröfuhafar óttast þannig að fá kröfur sínar ekki greiddar til baka, vegna setningar afturvirkrar löggjafar. Þessu munu erlendir kröfuhafar ekki gleyma næstu árin.
5. Samfélag án ábyrgðar verður samfélag án frelsis
Einstaklingar og lögaðilar verða sjálfir að bera ábyrgð á þeim skuldbindingum sem þeir stofna til. Enginn á að geta stofnað til skuldbindinga sem falla á ríkissjóð. Einstaklingar og lögaðilar þurfa frelsi til að vaxa og dafna, en frelsinu á að fylgja ábyrgð. Ef frelsið hefur í för með sér kvaðir á samfélagið á borð við þær sem Icesave-samningurinn felur í sér þá munu íslenskir launþegar eðlilega gera þá kröfu að frelsi einkafyrirtækja verði takmarkað. Ef almenningur þarf að axla ósanngjarna ábyrgð á gjörðum annarra munum við því framvegis búa í samfélagi án frelsis. Einungis Alþingi Íslendinga hefur umboð til að stofna til ábyrgðar fyrir íslenskt samfélag. Um þetta gilda lög um ríkisábyrgðir nr. 121/2007 sem segja berum orðum í 1. gr.: ,,Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum. Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum þeim sem ábyrgð heimila.« Enginn einstaklingur eða lögaðili hefur samkvæmt þessu umboð til að stofna til ábyrgðar ríkissjóðs og skiptir engu máli hvort þar er um ráðherra að ræða eða aðra. Ísland sem þjóð á undir engum kringumstæðum að þurfa að axla ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis. Því til viðbótar er rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd sem hefur verið bent á, að vegna óvissunnar um endanlega fjárhæð greiðsluskuldbindingarinnar, sé hugsanlegt að samningurinn stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Hvað sem því líður er í öllu falli ljóst að skuldbindingin samkvæmt fyrirliggjandi Icesave-samningi fullnægir ekki þeim skilyrðum sem lög um ríkisábyrgð gera til ríkisábyrgðar. Ástæðan er einföld: Óvissa um fjárhæð skuldbindingarinnar og þar með áhrif hennar á ríkissjóð. Með lögunum um heimild til handa fjármálaráðherra til að gangast í ríkisábyrgð fyrir Icesave-skuldinni er ákvæðum laga nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir vikið til hliðar. Þjóðin mun því ekki njóta góðs af þeirri vernd sem þeim lögum var ætlað að veita.
6. Freistnivandi leiðir til óábyrgrar hegðunar
Ef íslenskt samfélag viðurkennir að einkafyrirtæki geti stofnað til skuldbindinga á kostnað ríkisins skapast sú hætta að stjórnendur fyrirtækja og einstaklingar freistist til að hegða sér með óábyrgum hætti (freistnivandi), t.d. með óhóflegri skuldasöfnun eins og gerðist hjá mörgum fyrirtækjum í aðdraganda hrunsins. Slík hegðun er hættuleg þar sem hún eykur líkur á tjóni fyrir samfélagið í heild sinni. Ef það er einhver lærdómur sem við eigum að draga af hruninu, er það að koma í veg fyrir slíka hegðun en ekki ýta undir hana. Með því að samþykkja Icesave erum við að ýta undir óábyrga hegðun.
7. Grundvallar-mannréttindi að fá að beina réttarágreiningi til dómstóla
Dómstólar hafa það hlutverk að leysa úr ágreiningi sem kemur upp milli aðila. Það eru grundvallar-mannréttindi að fá að vísa ágreiningi sínum til dómstóla, án þess að þurfa að þola hótanir á borð við þær sem Bretar og Hollendingar hafa viðhaft gagnvart Íslandi. Margir innlendir og erlendir fræðimenn hafa fært góð rök fyrir því að ríkissjóður hafi ekki brugðist skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Íslendingar eiga rétt á því að fá úrlausn dómstóla um þetta ágreiningsefni og þá jafnframt hvort og þá hver hugsanleg bótaskylda er.
Í ljósi framangreinds leyfi ég mér að hvetja kjósendur til að falla ekki í þá gryfju að segja já undir þeim formerkjum að kominn sé tími til að ,,kjósa sig frá málinu« eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Það er lykilatriði að allir kjósendur kynni sér öll sjónarmið vel áður en farið er á kjörstað, þar á meðal áhættuna sem sannanlega fylgir því að segja já. Mín skoðun er sú að þeir áhættuþættir séu of margir til að óhætt sé að samþykkja samninginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook
5.4.2011 | 08:01
Þegar Orwell skaut fílinn
Fyrsta hefti Þjóðmála á þessu ári er nýkomið út. Þetta er 7. árgangur tímaritsins. Þar á ég grein, sem heitir Þegar Orwell skaut fílinn á 49.53. bls. Hún er um fræga smásögu Orwells, Shooting an Elephant, sem hefur tvisvar komið út í íslenskum þýðingum, fyrst hjá Rauðum pennum 1937, síðan í greinasafni eftir Orwell, Stjórnmálum og bókmenntum, sem var eitt af lærdómsritum Bókmenntafélagsins 2009.
Smásaga Orwells hefur jafnan verið lesin sem dæmisaga um það, hvernig breska heimsveldið spilli starfsmönnum sínum og liðsmönnum. En ég stakk upp á öðrum úrlestri úr sögunni, sem lesendur geta kynnst, ef þeir eru áskrifendur að Þjóðmálum eða kaupa tímaritið í bókabúðum. Ég sé, að tímaritið fæst meira að segja í Melabúðinni, þar sem ég versla stundum eftir sund.
Smásaga Orwells nýttist mér í rannsóknarverkefni, sem ég annast nú og nefnist: Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting. Einn liðurinn í því verkefni er að kanna, hvernig koma megi í veg fyrir útrýmingu ýmissa þokkafullra risadýra eins og fíls og nashyrnings og sumra hvalategunda, svo sem steypireyðurs (en margar aðrar hvalategundir, til dæmis hrefnan og langreyðurinn, eru alls ekki í neinni útrýmingarhættu).