Hafa vinstri menn gleymt Laxness?

Sú var tíð, að snjöllustu setningar Halldórs Kiljans Laxness voru jafnan á vörum vinstri manna, þar sem þeir sátu að tímafreku skrafi sínu á kaffihúsum og þóttust spakir. Ekki hafa þeir þó vitnað oft í slíkar setningar í Icesave-deilunni um það, hvort Íslendingar ættu að greiða skuldir óreiðumanna.

Ein lýsing Laxness í Íslandsklukkunni á þó vel við um það þolgæði, sem lítið land eins og Ísland verður að sýna í deilu við voldugri granna eins og Breta og Hollendinga:

Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.

Tíminn vinnur með okkur í Icesave-deilunni. Við skulum ekki vænta okkur hjálpar, þótt tröll það, sem kallar sig Evrópusambandið, komi með blíðskaparbragði og segist skulu frelsa okkur. Smám saman greiðir þrotabú Landsbankans út forgangskröfur, þar á meðal kröfur, sem bresk og hollensk stjórnvöld gera fyrir hönd innstæðueigenda í löndum sínum, vegna þess að þau hafa þegar greitt út það, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta átti að reiða af höndum, en gat ekki. Vonandi nægir það fyrir höfuðstól kröfunnar, en vexti eigum við auðvitað ekki að greiða, enda var „lán“ Breta og Hollendinga ekki veitt að okkar frumkvæði.

Raunar eru orð eiginkonu hins íslenska bókasafnara Íslandsklukkunnar ekki alveg út í bláinn um þá fræðimenn í Háskóla Íslands, sem spáðu því, að Ísland yrði ýmist Kúba Norðursins eða ný Norður-Kórea, ef Icesave II samningurinn yrði ekki samþykktur (sá samningur, sem Bretar og Hollendingar vildu síðan bæta um litla 200 milljarða króna):

Þesskonar fólk sem íslenskir kalla lærða menn og spekínga eru hér í Danmörk kallaðir landsbýsidjótar og bannað með lögum að þeir komi útfyrir sinn kaupstað.

Ég tók hins vegar eftir því, að hægri mennirnir í Advice-hópnum vitnuðu óspart í Bjart í Sumarhúsum um eitt:

En meðan ég sælist ekki eftir annarra manna gróða, þá kæri ég mig heldur ekki um að bera annarra manna töp.

Það skiptir ekki máli, í hvaða samhengi Laxness setti þessar setningar sínar sjálfar, því að þær geyma í sér algildan sannleika um mannlífið, utan og ofan við dægurmálin, sem hann skipti sér sjálfur af með misjöfnum árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband