26.2.2011 | 23:44
Guðríðar saga
Furðulegur nöldur- og vanmetatónn er í sumu fólki þessi misserin. Til dæmis vitnar Egill Helgason með velþóknun á bloggi sínu í einhvern kynjafræðing, sem sagði á ráðstefnu:
Landafundirnir eiga sérstaklega að vera söluvænn atburður, 1000 ára gömul ímynd sem engir Íslendingar kannast við á neinn hátt. Guðríður Þorbjarnardóttir er allt í einu orðin ofsaleg þjóðhetja, fyrsta konan sem eignaðist hvítt barn í Ameríku. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt á þessa konu minnst.
Þetta er haft eftir fræðimanni og sett á bók! Takið ekki aðeins eftir tóninum, heldur líka hinu klúra götumáli: ofsaleg. Hér talar einstaklingur, sem kann að vera skólagenginn, en er ekki menntaður.
Ég man vel eftir flugvélinni Guðríði Þorbjarnardóttur, sem Loftleiðir ráku og skírðu í höfuðið á þessari hetju. Og allir þeir, sem lesið hafa Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, og það eiga allir Íslendingar að hafa gert, vita, hver Guðríður Þorbjarnardóttir var.
Raunar hafa sumir fræðimenn sagt, að Eiríks saga rauða hefði frekar átt að heita Guðríðar saga Þorbjarnardóttur (eins og Laxdæla hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur).
Sýnt hefur verið með fornleifarannsóknum á Anse-aux-Meadows á norðurodda Nýfundnalands, að norrænir menn höfðu þar búsetu. Frásagnir Guðríðar sögu Þorbjarnardóttur og Grænlendinga sögu hafa því verið staðfestar að einhverju leyti, þótt auðvitað megi ekki taka sögurnar bókstaflega um allt.
Það var merkilegt afrek að sigla alla þessa leið á litlum farkostum. Í hinni bráðskemmtilegu bók, Ævisögu þorsksins, eftir Mark Kurlansky segir, að fornmenn hafi getað þetta vegna þorsksins: Hann varðveitti næringargildi sitt betur en annar fiskur.
Einnig verður að hafa í huga, að um árið 1000, þegar Guðríður og hennar fólk sigldu vestur um haf, var miklu hlýrra en síðar varð. Það er fyrst nú, sem er að verða jafnhlýtt og var fyrstu öldina eftir landnám.
Og ef satt er, að Guðríður hafi líka gengið suður (sem merkir aðeins eitt, að fara í pílagrímsför til Rómar), þá var hún svo sannarlega víðförlasta kona í heimi um langan aldur. Það er í frásögur færandi.
25.2.2011 | 20:18
WSJ, Ríkisútvarpið og málstaður Íslendinga
Andriki.is vekur athygli á því, að hið virta stórblað Wall Street Journal tekur afstöðu með Íslendingum í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Í leiðara blaðsins 23. janúar er bent á, að aðgerðir breskra og hollenskra stjórnvalda haustið 2008 voru ekki til að hjálpa Íslendingum, heldur breskum og hollenskum sparifjáreigendum:
Sú ákvörðun að bjarga innlánseigendum á Icesave kostaði ríkisstjórnir [Bretlands og Hollands] 3,1 milljarð punda. En allir þeir fjármunir fóru til þeirra eigin þegna sem höfðu tekið þá ákvörðun að leggja sparifé sitt inn á Íslandi. Þessar aðgerðir voru á engan hátt liður í því að koma í veg fyrir nær algert hrun íslenska bankakerfisins eða hrun gjaldmiðilsins.
Einnig segir í leiðaranum, að framkoma Breta og Hollendinga gagnvart Íslandi frá bankahruninu hafi síst verið þeim til sóma.
Ef ríkisstjórnir Bretlands og Hollands töldu þessar björgunaraðgerðir nauðsynlegar þá var það þeirra mál. En það kemur vart á óvart að Íslendingar vilji ljúka málinu eins og nýleg skoðanakönnun bendir til. En það ætti ekki að taka sem réttlætingu fyrir því að í tvö og hálft ár hafa Bretar og Hollendingar úthrópað Ísland.
Financial Times hefur tekið í sama streng. Hvers vegna getur íslenska Ríkisútvarpið ekki lagt málið fyrir á þennan eðlilega hátt, eins og hin erlendu stórblöð, í stað þess að tala sífellt um Icesave-skuldina, þegar ekki er um neina skuld að ræða, heldur aðeins kröfu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook
23.2.2011 | 12:37
Til er leið út úr Icesave-vandræðunum
Það sjónarmið er eðlilegt og fullgilt, að smáþjóð eins og Íslendingum er lítt vært í sífelldum deilum við stærstu viðskipta- og grannþjóðir okkar eins og Breta og Hollendinga. Auðvitað verðum við að leysa ágreiningsmál okkar friðsamlega. Það er allra hagur.
Eflaust er það þetta, sem hefur vakað fyrir nokkrum stuðningsmönnum nýgerðs Icesave-samkomulags úr stjórnarandstöðuflokkunum, þótt alls ekki væri hyggilegt af þeim að taka ábyrgð á því, sem ríkisstjórnin á ein að taka ábyrgð á, enda verður að vera skýr verkaskipting stjórnar og stjórnarandstöðu.
En sum ágreiningsmál eru þess eðlis, að betra er að fara sér hægt. Icesave-málið er slíkt mál. Furðulegt er að heyra suma spekinga segja, að erfitt sé að hafa þetta mál yfir sér? Gera þeir sér ekki grein fyrir, að vandræðin minnka af sjálfum sér með hverjum deginum, af því að heimtur úr þrotabúi Landsbankans verða skárri með hverjum deginum? Þess vegna á að bíða eins lengi og kostur er með að leiða málið til lykta.
Það var líka auðheyrt á aðalsamningamanni Íslendinga, Lee Buchheit, sem mun hafa unnið mjög gott starf í samninganefndinni við Breta og Hollendinga ásamt Lárusi Blöndal hæstaréttarlögmanni, fulltrúa stjórnarandstöðunnar, að hann taldi dómstólaleiðina vænlega.
Málið snýst um, hvort ríkissjóður Íslands beri að lögum ábyrgð á skuldbindingum hins íslenska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður var eftir lögum og reglum EES, Evrópska efnahagssvæðisins.
Íslendingar hafa haldið því fram, að ríkissjóður beri ekki slíka lagalega ábyrgð, enda er hvergi stafkrók um það að finna í evrópskum lögum og reglum, eins og Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson, prófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, hafa báðir bent á.
Forstöðumaður hins norska sjóðs, sem starfar eftir nákvæmlega sömu evrópsku reglum og hinn íslenski, aftekur, að ríkissjóður Noregs beri ábyrgð á skuldbindingum hins norska sjóðs.
Hvergi var sagt opinberlega og afdráttarlaust, að ríkissjóður bæri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins, þótt auðvitað væri ekki unnt að segja hið gagnstæða skýrt á erfiðum stundum, þar sem það hefði óhjákvæmlega haft í för með sér áhlaup á íslensku bankana og raunar sennilega á fleiri banka.
Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ríkið reynt að halda bönkunum gangandi, þótt engin opinber og yfirlýst ábyrgð væri á skuldbindingum þeirra við innstæðueigendur. En kringumstæður voru ekki eðlilegar haustið 2008, enda höfðu fjármálaráðherra Hollands og aðalseðlabankastjóri Evrópu báðir lýst yfir því, að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóða banka samkvæmt reglum EES ætti ekki við, þegar fjármálakerfi heillar þjóðar væri í voða.
Það var vegna ótta við áhlaup á aðra banka sem breska og hollenska ríkið snöruðu út tryggingu til allra innstæðueigenda í útbúum Landsbankans í þessum löndum, þegar ljóst var, að Tryggingarsjóðurinn íslenski gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er þetta fé, sem þessir aðilar eru nú að krefja íslenska ríkið um.
Ein ástæðan til þess, að íslensku bankarnir voru verr staddir en ella, var, að breska ríkið hafði lokað útbúum Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi í stað þess að veita þeim neyðarlán eins og öllum öðrum bönkum, líka í eigu erlendra aðila, hafði verið veitt, auk þess sem ríkið setti Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök. Enginn vafi er á því, að með þessu felldi breska ríkið eigur bankanna stórkostlega í verði. Hver á að bera tjónið af þessari valdníðslu?
Ef Bretar og Hollendingar vilja láta reyna á kröfur sínar á hendur ríkissjóði, þá er eðlilegast, að þeir höfði mál í varnarþingi hins íslenska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þeir ættu með öðrum orðum að leggja málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. (Leggi þeir málið fyrir dómstóla í öðrum löndum, þá verða þeir að lokum að fá staðfestingu íslenskra dómstóla á úrskurðum hinna erlendu dómstóla, svo að þeir eru þar litlu að bættari.)
Málið snýst ekki um, hvort við fáum afslátt á kröfu, heldur hvort okkur beri skylda til að greiða kröfu. Hvaðan kom sú skylda?
21.2.2011 | 11:48
Hann heilsaði Jónasi
Jónas Jónsson frá Hriflu var skarpur maður, en átti erfitt með að hemja sig. Þegar hann var ráðherra í minnihlutastjórn Framsóknarflokksins árin 19271932, þótti hann misnota jafnt veitingarvald sitt í kennslumálaráðuneytinu og ákæruvald sitt í dómsmálaráðuneytinu í þágu stjórnmálahagsmuna. Þess vegna sagði Hermann Jónasson við hann í Ráðherrabústaðnum 1937, þegar þeir kepptu um það, hvor þeirra ætti að vera forsætisráðherra: Þú kannt að skrifa, en ekki að stjórna. Og þess vegna sagði Bjarni Benediktsson eitt sinn við hann með hógværlegu brosi: Þín vinnubrögð í ríkisstjórninni verða jafnan öðrum til viðvörunar.
Eitt fórnarlamb Jónasar var Jóhannes Jóhannesson, bæjarfógeti í Reykjavík, sem Jónas hrakti úr embætti og fékk síðan dæmdan fyrir litlar sakir (hann hafði ekki fremur en margir aðrir bæjarfógetar eða sýslumenn reiknað dánarbúum í vörslu sinni fulla vexti). Jóhannes var virtur maður, lengi alþingismaður Seyðfirðinga fyrir Íhaldsflokkinn og síðar Sjálfstæðisflokkinn. Má nærri geta, að þetta mál varð honum mikill áfall. Á efri árum sagði hann einni frændkonu sinni frá því eftir gönguferð, að hann hefði þar hitt Jónas frá Hriflu og heilsað honum. Heilsaðirðu honum Jónasi? spurði konan undrandi. Já, auðvitað, ég hef aldrei gert honum neitt, svaraði Jóhannes.
Minnir þessi skemmtilega saga á aðra af gríska heimspekingnum Sókratesi, sem Xenófón greinir frá í Minningum sínum. Sókrates furðaði sig á því, þegar maður einn reiddist, af því að oflátungur nokkur hefði ekki tekið kveðju hans: Hlægilegt! Þú hefðir ekki reiðst, hefðir þú rekist á mann við verri heilsu en þú. En þú kippir þér upp við að hitta mann, sem er ókurteisari en þú.
En sanngjarnasti dómurinn um Jónas frá Hriflu er ef til vill sá, sem hinn vitri bændahöfðingi Bjarni Ásgeirsson kvað upp: Honum verður fyrirgefið mikið, af því að hann hefur elskað mikið. Vísaði Bjarni þar vitanlega í hina helgu bók, en í Lúkasarguðspjalli er komist svo að orði um bersyndugu konuna: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið.
(Þessi fróðleiksmoli birtist eftir mig í Morgunblaðinu 19. febrúar 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)
19.2.2011 | 14:43
Hver er besti maturinn?
Þrjár söguhetjur Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns, hafa öðlast sjálfstætt líf í þjóðarvitundinni sem tákn um ákveðna mannlega eiginleika: Bárður á Búrfelli um nískuna, Gróa á Leiti um söguburð með sakleysislegu yfirbragði og Þorsteinn matgoggur um græðgi, sem er auðvitað líka ein af dauðasyndunum sjö.
Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta, sagði Þorsteinn matgoggur. Orðhvatur rithöfundur, sem nú situr á Alþingi, hafði þessi orð raunar fyrir nokkrum árum í blaði eftir Íslendingi á þorrablóti.
Hvað sem því líður, er fátt skemmtilegra en að gæða sér á ljúffengum mat. Ég gerði það að gamni mínu á dögunum, þar sem ég er að hrista af mér nokkur aukakíló og þarf þess vegna að gæta hófs í mat og drykk, að velta fyrir mér, til hvers ég gæti hlakkað.
Nokkrir eftirlætisréttir mínir eru þeir, sem voru á boðstólum á Hótel Holti, þegar ég var ungur og stórmál að fara á veitingastað. Forrétturinn var grafinn lax með sinnepssósu (sem er af einhverjum ástæðum miklu bragðbetri á Hótel Holti en annars staðar), aðalrétturinn lambalundir með jarðeplum (kartöflum) og ábætirinn crepes suzettes (flamberaðar pönnukökur í Grand Marnier-sósu).
Góður vinur minn, Pétur heitinn Björnsson í Vífilfelli, kenndi mér að drekka hið ágæta rauðvín Chateau Cantenac Brown með þessum réttum. Það fæst enn í Ríkinu.
Annar góður vinur minn, sem hefur gaman af matreiðslu, bauð mér einu sinni heim til sín í gómsætan kvöldverð. Forrétturinn var grafin ýsa, sem hafði verið í sítrónulegi í sólarhring, ef ég man rétt, og aðalrétturinn var humarhalar í smjörsósu. Hef ég sjaldan smakkað betri mat, og muna hin fjölmörgu börn þessa vinar míns enn eftir ánægju minni með hann.
Á slíku kvöldi á skraufþurrt Puligny Montrachet, sem þarf auðvitað að vera ískalt, best við. Ég hef því miður ekki séð það í Ríkinu og held, að það fáist ekki þar.
Annars finnst mér líka mjög góður grillaður kjúklingur í sveppasósu með frönskum jarðeplum, þótt sennilega þyki sumum sá réttur heldur hversdagslegur. Með kjúklingnum er að mínum dómi best að drekka kælt Beaujolais.
Ég er raunar með aldrinum að verða hrifnastur af Búrgundarvínum með mat. En bestu fordrykkirnir eru, finnst mér, Dry Martini eða Manhattan. Man ég vel eftir boðum hjá móður eins vinar míns og bekkjarbróður í menntaskóla, sem nú er virðulegur sendiherra, og veitti hún óspart Manhattan. Á ég ljúfar minningar um höfðinglegar veitingar á því heimili á menntaskólaárunum og oft síðar. Reynsla mín er hins vegar sú, að konum finnst oftast Kir Royal betri en þessir tveir fordrykkir.
Á námsárum mínum í Oxford var ég í tvö ár það, sem kallað var R. G. Collingwood Scholar eða verðlaunaþegi á garði mínum, Pembroke, og fylgdu því þrjár ókeypis máltíðir á viku við háborðið, High Table, þar sem kennarar og gestir þeirra snæddu. Fyrir mat var ætíð drukkið sérrí-glas í sérstökum sal, Broadgates Hall, undir borðum fengu menn sérvalið hvítvín og rauðvín úr kjallara garðsins, eftir matinn var sest inn í þriðja salinn og flöskur af Madeira og portvíni látnar ganga, og að lokum var horfið aftur inn í fyrsta salinn, Broadgates Hall, og borið fram kaffi eða viskí.
Í Oxford lærði ég að meta andabringu í glóaldinsósu (appelsínusósu), sem oft var á boðstólum á háborðinu. Þegar ég sé andabringu á matseðlum á veitingastöðum, rifjast alltaf upp þessi tvö ánægjulegu ár þar, 1984 og 1985. (Heimspekingurinn R. G. Collingwood, sem þessi verðlaun voru kennd við, var sonur W. G. Collingwoods, sem ferðaðist um Ísland 1897 og gerði fjöldann allan af skemmtilegum vatnslitamyndum af sögustöðum.)
Þegar ég hef skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur á Íslandi, hef ég iðulega sett saman matseðil eitthvert kvöldið, þar sem forréttur er reyktur áll með eggjahræru, aðalréttur hreindýrasteik með sykurgljáðum jarðeplum og ábætir bláberjaskyr. Þetta þykir útlendingum hið mesta hnossgæti, sem það og er. Ef hóparnir eru litlir, þá voga ég mér að bjóða frekar upp á grafinn hval í forrétt.
Annars er einn eftirminnilegasti málsverður minn sá, sem ég fékk haustið 1987 í Suður-Afríku. Liðsforingi í hernum bauð mér í hádegisverð. Forrétturinn var krókódílahalar og aðalrétturinn gíraffasteik. Krókódílahalarnir voru á bragðið einhvers staðar á milli kjúklinga og humars, en gíraffasteikin var dæmigerð villibráð, safarík og römm.
Liðsforinginn bauð mér líka með í ferð þyrlusveitar sinnar næsta dag til Angólu, þar sem fylgjast átti með skæruliðum, en ég afþakkaði kurteislega.
Við þurfum ekki að vera eins gráðug og Þorsteinn matgoggur forðum til að njóta þess að setjast við matborðið. Nautn er ekki nauðsynlega fíkn. Gott er að geta hlakkað til einhvers.
17.2.2011 | 01:19
Menn geta grennst
Ég endurnýjaði við síðustu áramót heitin, sem ég hafði gefið næstu áramót á undan, fyrir rösku ári. Þau voru að:
1. reyna að grenna mig,
2. leitast við að spara, draga úr eyðslu,
3. hreinsa til á skrifborðinu, ljúka ýmsum verkefnum.
Ég hef verið tiltölulega ánægður með efndir þriðja heitisins. Í árslok 2009 kom út eftir mig bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör og haustið 2010 ritið Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem ég hef haft í smíðum í fimmtán ár. Vinn ég nú af kappi að ýmsum öðrum verkefnum, sem sum hafa beðið allt of lengi.
Að sama skapi hef ég verið óánægður með efndir fyrsta og annars nýársheitisins. En fyrir rúmum þremur vikum ákvað ég að taka mig á um fyrsta heitið. Ég hætti alveg að bragða áfengi og tók að iðka langar gönguferðir daglega til að auka brennsluna, fjörutíu til fimmtíu mínútur hverja ferð. Jafnframt ákvað ég að sneiða hjá fæðu, sem rík væri að kolvetni.
Þetta hefur haft þær afleiðingar, að ég hef lést um fimm kíló, og er ég að vonum sáttur við það. En aðalatriðið er samt að fara ekki í megrun, því að það mistekst alltaf, menn bæta við sig aukakílóum, eftir að megruninni lýkur. Aðalatriðið er að breyta lífsháttunum nægilega og þó hóflega til þess, að þess sjái stað.
Því má síðan skjóta inn í, að góður árangur við að efna fyrsta heitið sparar stórfé og auðveldar þannig að standa við annað heitið.
Ég tek það fram, að ég ætla ekki í neitt stórkostlegt framtíðarbindindi. Ég ætla til dæmis að fá mér hanastél og borðvín á afmælisdaginn minn, sem framundan er. En um Bakkus er það að segja, að hann er góður þjónn, en vondur húsbóndi.
Þetta má orða öðru vísi. Hver er munurinn á fíkn og nautn? Á átvaglinu og sælkeranum? Á ofdrykkjumanni og hófdrykkjumanni? Ekkert eitt og endanlegt svar er til, en samt liggja einhver ósýnileg og lítt skilgreinanleg mörk á milli fíknar og nautnar. Ég ætla að reyna að halda mér við nautnina.
16.2.2011 | 01:41
Söguskýringar Egils Helgasonar
Egill Helgason skrifar nú á bloggi sínu:
Tíminn frá sirka 1990 og fram að hruninu er að mörgu leyti glataður tími. Menn stærðu sig af miklum efnahagsframförum, en í raun voru þær knúðar áfram af lánaþenslu.
Ójöfnuður fór vaxandi, fjármálamenn urðu ofurríkir og náðu kverkatökum á vestrænu samfélagi.
Lítilþægir stjórnmálamenn létu gott heita þeir voru fyrst og fremst þjónar fjármálavaldsins eða höfðu ekki hugmyndaflug til að sjá út fyrir rétttrúnað samtímans. Hugmyndfræðin gekk út á markaðurinn myndi leysa öll vandamál af sjálfu sér það reyndist vera tálsýn.
Þetta er nánast allt rangt eða stórlega úr lagi fært, að minnsta kosti um Ísland. Eins og sést á einu línuritinu í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út 2009, hófst lánsfjárþensla ekki að ráði hér fyrr en 2004.
Miklar framfarir urðu í krafti aukins atvinnufrelsis og lægri skatta tímabilið 19952004, en næstu ár á undan var atvinnulífið að jafna sig eftir kreppu. Kjör almennings bötnuðu um þriðjung.
Tekjuskiptingin varð ekki ójafnari á þessu tímabili, svo að neinu næmi. Tölur Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar um þetta reyndust rangar, eins og ég bendi á í ofannefndri bók minni. Tekjuskiptingin hér mældist árið 2004 svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og talsvert jafnari en í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Fátækt var hér 2004 einna minnst í heiminum, og raunar mældist fátækt meðal roskins fólks þá hin minnsta í heimi. (Þetta sýndi viðamikil lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins.)
Lífeyrissjóðir urðu hér sjálfbærir ólíkt því, sem er í mörgum grannríkjum okkar, þar sem þeir fara fyrirsjáanlega í þrot, ef ekki verður að gert.
Stórfelldar skattalækkanir skiluðu miklum árangri, eins og ég rek í ofannefndri bók minni. Þegar tekjuskattur á fyrirtæki lækkaði úr 40% í 15%, jukust skatttekjur af þeim. Sneiðin minnkaði, en kakan stækkaði.
Mörg fleiri dæmi má nefna um það, sem á raunar ekki að þurfa að stafa ofan í nokkurn mann: Vinnufýsi manna og verðmætasköpun eykst, þegar þeir fá að halda eftir stærri hluta af afrakstrinum.
Stjórnsýslulög og Upplýsingalög voru sett til að tryggja betur rétt einstaklinga gegn kerfinu. Framkvæmdastofnun, Atvinnutryggingasjóður og aðrar stofnanir, sem höfðu það hlutverk helst að verðlauna taprekstur, voru lagðar niður, svo að biðstofa forsætisráðherra tæmdist.
Menn þurftu ekki lengur að veifa flokksskírteini eða fæðingarvottorði til að fá eðlilega afgreiðslu mála sinna.
Hér voru í gildi nákvæmlega sömu reglur um fjármálamarkaðinn og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Hið eina, sem er rétt í þessari lýsingu Egils Helgasonar, er, að hér á landi náðu fjárglæframenn því miður kverkataki á þjóðlífinu, þótt það gerðist tímabilið 20042008 frekar en árin á undan.
Fámenn klíka undir forystu skuldakóngsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sölsaði undir sig áhrifamikla fjölmiðla og beitti þeim harkalega gegn þeim, sem þorðu að gagnrýna hana. Þessi klíka átti greiða leið inn á Bessastaði, og sumir stjórnmálamenn vörðu hana af kappi, til dæmis Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í hinni alræmdu Borgarnesræðu vorið 2003.
Davíð Oddsson gagnrýndi þessa klíku af einurð. Hann varaði við því, að sami hópurinn réði skoðanamyndun og verðmyndun í landinu. Þess vegna var fjölmiðlum Jóns Ásgeirs sigað á hann.
En hvað sagði Egill Helgason? Hann skrifaði í DV 23. október 2004:
Fyrsta skrefið til velgengni var að kveða gömlu forréttindastéttina í kútinn. Það var heldur ekki erfitt, hún var orðin svo úr tengslum við veruleikann. Forpokuð og stöðnuð. Það þurfti bara að blása aðeins, þá hrundi gamla dótið eins og spilaborg. Engum þótti vænt um það eða kærði sig um það; það var til dæmis algerlega staðnað í yfirstéttarlegum smekk sínum. Í staðinn eru komnir þessir ævintýramenn markaðarins, menn tækifæranna sem hafa á sér yfirbragð dirfsku og útrásar.
Og þegar yfirvöld tóku til meðferðar kæru frá einum viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs á hendur honum fyrir efnahagsbrot, sem hann hlaut síðar dóm fyrir, skrifaði Egill 17. ágúst 2005:
Og maður er strax orðinn dauðleiður á þessu. Allar horfur eru líka á að þetta haldi áfram fram yfir héraðsdóm og hæstarétt það sem er einna verst er að fólk er hálfpartinn neytt til að taka afstöðu til mála sem kannski koma því ekkert sérstaklega mikið við. Fer maður kannski á endanum að segja eins og Lyga-Mörður í Njálu þegar hann frétti að Gunnar og Otkell væru að berjast við Rangá: Þeir einir munu vera að ég hirði aldrei þó að drepist.
Egill Helgason getur ekki skrifað sig frá sögulegum staðreyndum. Orð Lyga-Marðar verða ekki því sannari sem þau eru endurtekin oftar. Hér var mikið framfaraskeið árin 19912004. Ísland var árið 2004 eitt besta land í heimi eftir öllum mælingum. Eftir það fór hins vegar allt norður og niður, því að hin fámenna klíka fjárglæframanna hrifsaði til sín öll völd með dyggilegri aðstoð áhrifamikilla álitsgjafa eins og Egils Helgasonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook
14.2.2011 | 15:56
Þingmaðurinn Ólafur Thors
Ólafur Thors var fyrst kjörinn á þing 1926 og sat þar óslitið til andláts síns 1964. Þótti strax sópa að honum. Eftir að hann hafði setið um hríð á þingi, sagði þó einn flokksbróðir hans, Pétur Ottesen: »Þú mætir allt of illa á nefndarfundi, Ólafur, þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið!« Ekki stóð á svarinu: »Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni!«
Kona Ólafs var Ingibjörg, dóttir Indriða Einarssonar, fyrsta Íslendingsins til að ljúka hagfræðiprófi. Raunar var Indriði kunnari fyrir áhuga sinn á leiklist. Lét Jónas Jónsson frá Hriflu einu sinni svo um mælt: »Það er einkennileg tilviljun, að hinn kunni hugsjónamaður íslenskrar leikmenntar, Indriði Einarsson, skyldi hafa átt að tengdasonum tvo mestu leikara á Íslandi, þá Jens Waage og Ólaf Thors.«
Vorið 1958 sátu þeir Ólafur, Hannibal Valdimarsson og fleiri menn á kaffistofu Alþingis. Útvarp var þar í gangi, en leikin voru óskalög sjúklinga. Ólafur raulaði undir einu þeirra. Sagði þá Hannibal: »Er nú strandkapteinninn farinn að syngja?« Ólafur svaraði: »Já, og skítkokkurinn má taka undir!«
Ein saga af Ólafi er í bókinni Kæri kjósandi, sem kom út 2000, og hafði ég ekki áður lesið hana eða heyrt. Ólafur deildi eitt sinn á þingi hart við Halldór Ásgrímsson, afa og alnafna Halldórs forsætisráðherra. Sagði Ólafur: »Herra forseti, háttvirtur annar þingmaður Austfirðinga hafði eftir mér ummæli hér áðan. Þau voru rangt höfð eftir.« Halldór kallaði fram í: »Ég hef skrifað þau hér niður hjá mér.« Ólafur svaraði að bragði: »Það er ekki að sökum að spyrja. Maður, sem hugsar vitlaust, hann skrifar vitlaust!« Væri gaman að vita, hvort þessi saga hefur birst einhvers staðar áður. Ég hef að minnsta kosti ekki fundið ummælin í Alþingistíðindum.
Frændi minn, framsóknarmaðurinn Björn Pálsson af Guðlaugsstaðakyni, settist á þing 1959. Eftir að hann hafði flutt jómfrúræðu sína á þingi, gekk hann til Ólafs og spurði: »Jæja, hvernig fannst þér ræðan?« Ólafur svaraði: »Björn minn, þú hefðir átt að vera kominn á þing fyrir löngu, því að þá hefði ég ekki alltaf verið talinn vitlausasti maðurinn á þingi!«
Þess má geta, að Björn mælti, þegar Ólafur lést á gamlársdag 1964: »Nú er bara einn skemmtilegur maður eftir á Alþingi.«
(Þessi fróðleiksmoli minn birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2011 og er sóttur í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)
12.2.2011 | 23:49
Ný gögn um hlutdrægni Egils Helgasonar
Vignir Már Lýðsson birtir afar fróðlegt blogg á Pressunni.is 9. febrúar 2011 um hlutdrægni Egils Helgasonar, umræðustjóra Ríkisútvarpsins. Hefur Vignir Már tekið saman lista um þá, sem komið hafa fram í þætti Egils frá hruni. Þar eru tíðustu gestirnir þessir:
- Sigrún Davíðsdóttir (9)
- Lilja Mósesdóttir (7)
- Ólafur Arnarson (7)
- Gunnar Smári Egilsson (6)
- Andri Geir Arinbjarnarson (6)
- Benedikt Sigurðarson (6)
- Bjarni Benediktsson (6)
- Þór Saari (5)
- Þorvaldur Gylfason (5)
- Eiríkur Bergmann Einarsson (5)
- Eva Joly (5)
- Jón Baldvin Hannibalsson (5)
- Marinó G. Njálsson (5)
- Jóhann Hauksson (5)
- Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir (5)
- Jóhannes Björn Lúðvíksson (5)
- Agnes Bragadóttir (5)
- Jón Daníelsson (5)
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (5)
- Vilhjálmur Bjarnason (5)
Vignir Már reynir að flokka álitsgjafana, sem fram koma í þætti Egils. 25% þeirra teljast samkvæmt mati hans hægri menn, 73% vinstri menn, og óvíst er, hvernig flokka megi 2%.
Þessar tölur segja mikla sögu.
9.2.2011 | 16:04
Sjónarmið Björns Bjarnasonar
Björn Bjarnason skrifar á heimasíðu sína:
Því meira sem ég les af skýringum um Icesave III þeim mun sannfærðari verð ég um hve misráðið er að láta ekki reyna á málið fyrir dómstólum. Auðheyrt var á Lee Bucheit, aðalsamningamanni Íslands í lokasamningalotunni, að hann var hlynntur því að láta dómara fjalla um málið. Umboð hans í nafni Steingríms J. Sigfússonar var hins vegar að semja.
Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru kynnt sterk lögfræðileg rök gegn skyldu Íslendinga til að verða við kröfum Breta og Hollendinga.
Margir erlendir lögfræðingar hafa bent á haldleysið í áliti ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, sem síðan var stuðst við af leiðtogaráði ESB og framkvæmdastjórn ESB sumarið 2010. Þessir lögfræðingar segja afdráttarlaust að löglaust sé að gera þær kröfur á hendur Íslendingum sem Bretar og Hollendingar hafa gert. Þá benda þeir á að fráleitt sé að stjórnmálamenn taki pólitískt af skarið um jafnmikilvægt lögfræðilegt álitaefni.
Ég tek undir með Birni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook