Enn einn skrípaleikur Ólafs Ragnars

olafurutras.jpgEnn einn skrípaleikurinn, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson er höfundur og aðalleikari, er hafinn: Forsetinn tekur sér umhugsunarfrest, áður en hann staðfestir lögin um Icesave-samningana. Hann þurfi að hlusta á talsmenn annarra sjónarmiða, þar á meðal þá, sem safnað hafa tugþúsundum undirskrifta með áskorunum á hann um að synja lögunum staðfestingar.

Auðvitað er erfitt fyrir Ólaf Ragnar efnislega að staðfesta lögin um Icesave-samningana, þegar tvennt er haft í huga. Í fyrsta lagi synjaði hann sumarið 2004 fjölmiðlalögunum, sem áttu að tryggja dreifða eignaraðild að fjölmiðlum, staðfestingar með tilvísun til þess, að „gjá“ hefði myndast milli þings og þjóðar. Nú er gjáin miklu breiðari, eins og allir geta verið sammála um.

Í öðru lagi staðfesti hann sumarið 2009 fyrri útgáfu laganna um Icesave-samningana með sérstakri tilvísun til þeirra fyrirvara, sem Alþingi hafði samþykkt við samningana, en þeir fyrirvarar hafa að kröfu Breta og Hollendinga verið felldir út aftur.

En Ólafur Ragnar mun staðfesta lögin. Hann mun reyna að halda því fram, að annað gildi um milliríkjasamninga en venjuleg lög. Hendur forseta séu bundnari um slíka samninga.

Þá skiptir engu máli, að forseti Ungverjalands, Lázsló Sólyom, neitaði 2006 að staðfesta lög um samning milli Ungverjalands og Bandaríkjanna um afnám vegabréfsáritunar, þar eð forsetinn taldi ákvæði í þeim samningi brjóta gegn friðhelgi einkalífs.

Þá skiptir ekki heldur neinu máli, að forseti Tékklands, Vacláv Klaus, neitaði 2001 að staðfesta lög um samning milli Tékklands og annarra Evrópuríkja um sameiginlegar handtökuheimildir, þar sem forsetinn taldi ákvæði í þeim samningi brjóta gegn fullveldi landsins.

Því síður skiptir Ólaf Ragnar máli, að víða í Evrópu er talið, að forsetar geti synjað lögum um milliríkjasamninga staðfestingar, en í tveimur ríkjum, Portúgal og Kýpur, geta þeir líka ógilt slíka samninga óháð því, hvort sérstaka lagasetningu hafi þurft um þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband