2.5.2008 | 11:01
Leiðtogi sem ekki brást
Dr. Bjarni Benediktsson, sem hefði orðið hundrað ára 30. apríl 2008, var einn merkasti stjórnmálamaður Íslendinga á tuttugustu öld. Hann var lagaprófessor, áður en hann hóf stjórnmálaþátttöku, og setti fram sterk, lagaleg rök fyrir sambandsslitunum við Dani 1944, sem voru okkur nauðsynleg í óvissu og umróti stríðsins. Þá þegar studdist Ólafur Thors, lengst allra leiðtogi sjálfstæðismanna, mjög við ráð hans. Bjarni var borgarstjóri í Reykjavík 1940-1947, þegar erlendir hermenn dvöldust hér tugþúsundum saman og geipilegur húsnæðisskortur var í bænum. Réð hann fram úr mörgum erfiðum verkefnum af röggsemi og átti drjúgan þátt í viðgangi hitaveitu Reykjavíkur, þótt Winston Churchill þakkaði sér hugmyndina að henni í æviminningum sínum, og hafa raunar fleiri síðan viljað þá Lilju kveðið hafa.
Eitt vandasamasta verkefni Bjarna Benediktssonar var, þegar hann gerðist utanríkisráðherra 1947. Áttu Íslendingar að halda fast við ævarandi hlutleysi landsins, sem lýst hafði verið yfir eftir fullveldið 1918? Eða ganga til liðs við aðrar frjálsar þjóðir? Bjarni hafði í upphafi hikað við að svara. En honum var ljóst, að Íslendingar höfðu í raun horfið frá hlutleysisstefnunni með samstarfinu við breska hernámsliðið, en það var síðan staðfest opinberlega með herverndarsamningnum við Bandaríkjamenn 1941. Þjóðinni var þetta hins vegar ekki eins ljóst eins og Bjarna, og síðan voru kommúnistar beinlínis andvígir frekari tengslum við Vesturveldin. Þeir spurðu með Jóhannesi úr Kötlum: Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?
Á meðan Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra, 1947-1953, skýrði hann út í ræðu og riti, hvernig utanríkissstefna Íslendinga hlyti að markast af legu landsins, aðstæðum í alþjóðamálum, vonum um viðskipti og lýðræðishugsjónum. Gerðist Bjarni einna fróðastur Íslendinga um alþjóðamál. Þessi árin töldu kommúnistar Bjarna hættulegasta andstæðing sinn og beindu spjótum óspart að honum. En hann stóð allt af sér, enda hafði hann óskorað traust flokkssystkina sinna og mikið fylgi með þjóðinni. Hámarki náðu deilur um utanríkismál, þegar kommúnistar og meðreiðarsveinar þeirra gerðu árás á Alþingishúsið 30. mars 1949 til að koma í veg fyrir, að Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Var þeirri árás hrundið af lögreglunni og varaliði, sem trúnaðarmenn Bjarna höfðu skipulagt.
Bjarni var um skeið menntamálaráðherra, síðan ritstjóri Morgunblaðsins í nokkur ár, dómsmálaráðherra í viðreisnarstjórn Ólafs Thors og forsætisráðherra frá 1963 til 1970, þegar hann féll sviplega frá. Hann hafði mjög beitt sér fyrir því um 1950, að hér yrði dregið úr þrálátum höftum og skömmtunarstjórn, en vegna erfiðra aðstæðna tókst það ekki sem skyldi. Tíðarandinn var öndverður atvinnufrelsi eins og því, sem þeir Ólafur Thors og Bjarni aðhylltust, og sterk verkalýðshreyfing undir stjórn kommúnista torveldaði aðlögunarhæfni hagkerfisins. Í forsætisráðherra tíð sinni stjórnaði Bjarni af festu og skörungsskap. Stjórnmálaskoðun hans má best lýsa með því, að hann hafi verið frjálslyndur íhaldsmaður. Frjálslyndi hans kom fram í þeim umbótum, sem hann beitti sér fyrir í efnahagsmálum, en íhaldssemi hans í gætni og raunsæi, þjóðrækni, sögulegum áhuga og ræktarsemi við íslenska tungu. Bjarni fylgdist vel með alþjóðamálum og sagði, að virðing smáþjóða væri jafnan í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á alþjóðavettvangi. Sjálfur var hann forystumaður lítillar þjóðar, sem brást ekki, þegar á reyndi. Hans verður lengi minnst að góðu.
Fréttablaðið 2. maí 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Facebook