Skattalækkun skynsamleg

Fréttir berast nú af fjöldauppsögnum í bönkum og byggingarfyrirtækjum. Fátt er sárara en að missa starfið fyrirvaralaust. Við höfum öll samúð með því fólki, sem hefur orðið fyrir slíku áfalli, og vonum, að það finni fljótlega önnur störf. Sem betur fer er atvinnuástandið á Íslandi miklu betra en í ríkjum Evrópusambandsins, þar sem atvinnuleysi er stórfellt, einkum hjá ungu fólki. Tækifærin til að brjótast í bjargálnir eru nú miklu fleiri hér en fyrir röskum sextán árum, þegar ráðist var í hinar miklu breytingar í frjálsræðisátt. Það breytir því ekki, að fyrstu merkin um samdrátt eru að koma fram á venjulegu launafólki. Íslendingar gátu ekki búist við, að þeir slyppu einir þjóða við afleiðingar hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu eða verðhækkanir á olíu og matvælum.

t8_lcv8_08_gal_Action05_1024_tcm307-638292Undir slíkum kringumstæðum er skynsamlegt að lækka skatta á launþegum og fyrirtækjum, því að það örvar neyslu og fjárfestingu, svo að störfum fjölgar á ný. Með skattalækkun er fé fært frá ríkinu, sem kann lítt með það að fara, og til einstaklinganna, sem nýta það miklu betur, annaðhvort til eigin ánægjuauka eða í sparnað og með honum fjárfestingu. Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt, að tekjuskattur á fyrirtæki verði lækkaður úr 18% í 15% frá og með næstu áramótum. Það er skref í rétta átt, en vegna fyrirsjáanlegs samdráttar ætti að ganga enn lengra og lækka tekjuskattinn niður í 12%. Jafnframt ætti að lækka tekjuskatt á einstaklinga verulega, til dæmis um 2%.

Þegar minnst er á skattalækkun, heyrist jafnan í úrtölumönnum. Þeir segja, að nú sé þensla og þess vegna sé skattalækkun ótímabær. Þetta er rangt af tveimur ástæðum. Þenslan er fyrirsjáanlega að snúast í samdrátt, svo að það, sem er óheppilegt í dag, verður heppilegt á morgun. Í öðru lagi er skattalækkun ekki aðallega hagstjórnaraðgerð, þótt vissulega megi með henni örva neyslu og fjárfestingu á næsta ári. Hún er tilfærsla á fé til þeirra, sem hafa aflað þess og eiga það skilið. Eitt brýnasta langtímaverkefni okkar er að minnka umsvif ríkisins. Skattheimta hér nemur nú röskum 40% af landsframleiðslu. Það er allt of hátt hlutfall.

Þá spyrja úrtölumenn: Hvar vilja skattalækkunarsinnar nema staðar? Hvað er eðlilegt hlutfall? Ekkert endanlegt svar er til við þeirri spurningu, en til dæmis er skattheimta rétt yfir 30% af landsframleiðslu í Sviss, sem þykir mikið fyrirmyndarríki. Er það ekki hóflegt markmið? Enn segja úrtölumenn: Hvernig á ríkið að afla fjár til nauðsynlegra verkefna, ef skattar lækka? Svarið er einfalt. Til skamms tíma þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af afkomu ríkissjóðs, því að íslenska ríkið er nánast skuldlaust. Tímabundinn fjárhagsvandi er því auðleysanlegur. Til langs tíma mun verðmætasköpun aukast við lægri skatta, svo að skatttekjur ríkisins munu hækka, eins og reynslan hefur margoft sýnt.

Það er engin lausn á aðsteðjandi vanda að taka upp annan gjaldmiðil. Ráðstöfunarfé einstaklinga eykst ekki, þótt það sé skráð í evrum. Skuldir fyrirtækja lækka ekki, þótt þær séu skráðar í pundum. En afkoma einstaklinga og fyrirtækja batnar, ef opinberar álögur á þessa aðila léttast. Við bægjum atvinnuleysisvofunni best frá með myndarlegri skattalækkun.

Fréttablaðið 16. maí 2008. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband