Óþægileg ósannindi

an_inconvenient_truthDaginn áður en tilkynnt var, að Norðmenn hefðu sæmt Al Gore friðarverðlaunum Nóbels, felldi breski háyfirdómarinn Sir Michael Burton úrskurð um það í Lundúnaborg, að heimildarmynd Gores, Óþægilegur sannleikur (Inconvenient Truth), væri of hlutdræg og villandi til þess, að sýna mætti hana í breskum skólum án sérstakra viðvarana. Höfðu foreldrar barns í einum skólanum höfðað mál. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu, að Gore hefði vissulega lagt fram gögn um það, að jörðin væri að hlýna og að hlýnunin væri að einhverju leyti af mannavöldum, en nokkuð væri um ýkjur og órökstuddar hrakspár í myndinni. Þetta væri áróðurs- frekar en fræðslumynd.

Dómarinn taldi bert, að níu atriði í mynd Gores stæðust ekki.

• Gore héldi því fram án þess að geta lagt fram um það gögn, að í næstu framtíð myndi yfirborð sjávar hækka um 6-7 metra (20 fet). Þetta gæti aðeins gerst á árþúsundum.
 
• Það væri ekki rétt, sem fram kæmi í mynd Gores, að ýmsar eyjar í Kyrrahafi væru orðnar óbyggilegar vegna hlýnunar jarðar.

• Línurit, sem Gore sýndi um samband koltvísýrings í andrúmslofti og hitastigs síðustu 650 þúsund ár, væri ekki nógu nákvæmt til að sýna það, sem hann teldi það gera.

• Gore segði fyrir um, að Golfstraumurinn hætti að leita til norðurs vegna loftslagsbreytinga, en í skýrslu sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um þetta væri það talið afar ólíklegt.

• Gore fullyrti, að Chad-vatn í Afríku væri að þorna upp vegna hlýnunar jarðar. Vísindamenn teldu aðrar skýringar líklegri, til dæmis fólksfjölgun og ofbeit, enda hefur vatnið minnkað áður.

• Gore staðhæfði, að jökulhettan væri að hverfa af Kilimanjaro-fjalli í Afríku. Ekki hefðu verið lögð fram nægileg gögn um, að það væri vegna hlýnunar jarðar, og raunar hóf snjór að hopa af fjallinu á nítjándu öld.

• Gore kunngerði, að fellibylurinn Katrina, sem gekk yfir New Orleans í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, ætti upptök sín í hlýnun jarðar. Ekki hefðu verið lögð fram nægileg gögn því til stuðnings. Fellibylurinn var síst harðari en ýmsir aðrir, sem áður hafa gengið, en olli meira tjóni, þar eð flóðavarnir höfðu verið vanræktar í Louisiana.

• Gore segði, að vegna hlýnunar jarðar drukknuðu ísbirnir í örvæntingarfullri leit að ísi lögðum svæðum. Ekki væru til nein gögn um það, nema hvað vitað væri, að fjórir ísbirnir hefðu eitt sinn drukknað að undangengnum miklum stormi. (Raunar er ísbjörnum að fjölga á Norðurslóðum fremur en hitt samkvæmt nýjustu skýrslum.)

• Gore tilkynnti, að kóralrif væru að hvítna vegna hlýnunar jarðar. Erfitt væri í því dæmi að greina að hlýnun og önnur umhverfisáhrif.

Hinn breski dómari hafði starfað í Verkamannaflokknum og samtökum jafnaðarmanna í Bretlandi, áður en hann tók við embætti. Hann tekur í úrskurði sínum einkum mið af sérfræðingaskýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en bendir samt á þessa níu galla á heimildarmynd Gores.

Fróðlegt er að bera heimildarmynd Gores saman við aðra, sem sýnd var í bresku sjónvarpi og íslensku undir heitinu „Blekkingin mikla um hlýnun jarðar“. Sú mynd var tvímælalaust áróðurs- frekar en fræðslumynd, þótt í henni kæmu fram margir virtir vísindamenn, sem efuðust um, að yfir okkur vofði vá vegna hugsanlegrar hlýnunar jarðar. Á vef Veðurstofu Íslands er bent á nokkra galla á þeirri heimildarmynd. Þeir eru þó ekki eins margir og alvarlegir og á mynd Gores, sem auk þess hefur haft miklu meiri áhrif.

Úthlutun friðarverðlauna Nóbels til Als Gores orkar tvímælis. Venjan er síðan sú, að val viðtakenda er trúnaðarmál. En Gore aflýsti fyrir skömmu öllu því, sem var á dagskrá hans daginn, sem tilkynnt var um verðlaunin, og frestaði fyrirhugaðri utanlandsferð, sem ber upp á sama dag og verðlaunin verða afhent í desember. Norðmönnum er lítill sómi að.

Fréttablaðið 19. október 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband