Íslenska efnahagsundrið

Á ráðstefnu á dögunum um auðsköpun í smáríkjum flutti ég erindi um íslenska efnahagsundrið. Það er jafnsögulegt og hið írska, sem margt hefur verið skrafað um. Ísland var eitt fátækasta land Vestur-Evrópu fram á tuttugustu öld, og var meginástæðan sú, að þróun fiskveiða og myndun þéttbýlis var hvor tveggja hindruð í bændaveldinu. Íslendingar voru síðan hálfdrættingar á við Dani í landsframleiðslu á mann til 1940. Tímabilið 1940-1991 mældumst við að vísu stundum í röð tekjuhæstu þjóða, en tekjur okkar voru að miklu leyti vegna stríðsgróða í heitu stríði eða köldu, sífellt aukinnar hlutdeildar í heildarafla á Íslandsmiðum vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar og jafnvel rányrkju á þessum miðum. Tekjur okkar voru því svipular, enda spáðu virtir hagfræðingar því um 1990, þegar syrti í álinn, að Ísland kynni aftur að verða eitt fátækasta land Vestur-Evrópu. Forsætisráðherra þess tíma talaði beinlínis um, að hann hafnaði vestrænum hagstjórnarhugmyndum.

D.OddssonandRÁrnasonÁrið 1991 urðu umskipti. Með peningalegu aðhaldi og í samráði við aðila vinnumarkaðarins tókst að koma verðbólgu niður í hið sama og í grannríkjunum. Með aðhaldi í ríkisfjármálum var þrálátum hallarekstri snúið í afgang, sem notaður var til að grynnka á skuldum hins opinbera. Ýmsir sjóðir voru lagðir niður, en áður hafði biðstofa forsætisráðherra verið full af fólki, sem suðaði um styrki í vonlaus fyrirtæki. Kvótakerfið í sjávarútvegi fékk að vaxa og dafna. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur á fyrirtæki lækkaður úr 45% í 18%. Eignarskattur og hátekjuskattur voru felldir niður og tekjuskattur (hlutur ríkisins) á einstaklinga lækkaður um 8%. Aðgangur að Evrópumarkaði var tryggður með samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Fyrirtæki í eigu hins opinbera voru seld fyrir röska 120 milljarða íslenskra króna. Munaði þar mest um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankann og Búnaðarbankann.

Nær samfelldur og ör hagvöxtur hefur verið hér frá 1995, sem hvorki er reistur á stríðsgróða né rányrkju, heldur  hagræðingu og auðsköpun. Lífskjör almennings hafa batnað um meira en 50%. Ísland er nú í röð ríkustu og frjálsustu þjóða heims samkvæmt alþjóðlegum mælingum. Tekjuskipting er samt ekki ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Raunar kom í ljós í nýlegri rannsókn Evrópusambandsins, að fátækt er hér einna minnst í Evrópu. Barnabætur til láglaunafólks eru hér miklu hærri en í Svíþjóð (en lægri til hálaunafólks), og á Norðurlöndum eru lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Íslandi. Lífeyrissjóðir Ísleninga eru einhverjir hinir öflugustu í heimi. Síðustu ár hafa íslenskir víkingar hafið stórkostlega útrás, keypt fyrirtæki og annað í grannríkjunum, farið fram með verði, en ekki sverði eins og forðum.

Hvað olli íslenska efnahagsundrinu? Festa í peningamálum og ríkisfjármálum, frelsi til viðskipta, myndun einkaeignarréttar á auðlindum, sala ríkisfyrirtækja og skattalækkanir. En ef til vill eru tvær aðrar spurningar nú forvitnilegri. Hvaðan komu íslensku víkingunum fé til að kaupa fyrirtæki sín hér og erlendis? Augljós skýring er auðvitað hinir öflugu lífeyrissjóðir. En önnur skýring ekki síðri er, að fjármagn, sem áður var óvirkt, af því að það var eigendalaust, óskrásett, óveðhæft og óframseljanlegt, varð skyndilega virkt og kvikt og óx í höndum nýrra eigenda. Hér á ég aðallega við fiskistofnana og ríkisfyrirtækin fyrrverandi, en líka ýmis samvinnufélög. Hin spurningin er, hvernig við getum haldið áfram á sömu braut. Svarið er einfalt: Lækkum myndarlega skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Getur norræni tígurinn stokkið fram úr hinum keltneska?

Fréttablaðið 19. september 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband