Undrunarefni Sigurðar

Nordiske_flagEnglendingar eru stoltir af því, að með þeim mynduðust snemma venjur, sem stuðluðu að frjálslyndu lýðræði: allir væru jafnir fyrir lögum, en fulltrúasamkomur veittu konungum aðhald. Í merkri ritgerð í ritinu Nordic Democracy árið 1981 bendir prófessor Sigurður Líndal þó á, að Norðurlandaþjóðir bjuggu við svipaðar venjur. Þegar í fornöld lýsti rómverski sagnritarinn Tacitus því, hvernig Germanir komu saman á þingum og leiddu mál til lykta. Þá er heilagur Ansgar fór í kristniboðsferð til Svíþjóðar árið 852, sagði sænskur konungur honum: „Við höfum þá venju, að fólkið sjálft ráði fram úr almennum málum og ekki konungurinn.“

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð leiddu menn fram eftir öldum mál til lykta á svæðisþingum. Fóru þingin með dómsvald og raunar einnig með löggjafarvald, sem takmarkaðist þó af fornum venjum. Misnotuðu konungar vald sitt, mátti setja þá af, eins og víða getur í Heimskringlu. Til að konungar næðu kjöri, urðu þeir að lofa að virða lög og venjur. Stéttaþing voru síðan stofnuð í Svíþjóð 1435 og í Danmörku 1468. Enn fremur urðu konungar að samþykkja margvíslegar réttindaskrár, til dæmis Eiríkur klippingur Danakonungur árið 1282 og Magnús smek Svíakonungur árið 1319. Voru þær ekki síðri ensku réttindaskránni frægu Magna Carta frá 1215.

Ólíkt því sem varð á Englandi, gátu konungar í Svíþjóð og Danmörku þó aukið völd sín um skeið á sextándu og sautjándu öld. Þegar þegnar þeirra kröfðust síðan aukinna stjórnmálaréttinda á átjándu og nítjándu öld, voru kröfurnar oftast studdar enskum hugmyndum. Sigurður Líndal undrast að vonum, að ekki skyldi líka vísað til hins norræna stjórnmálaarfs, sem skýri, hversu djúpum rótum frjálslynt lýðræði gat skotið á Norðurlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband