Óhappamenn frekar en friðflytjendur

Palme.Castro.1975Al Gore þakker sér netið, eins og alræmt er, og nú fer Ólafur Ragnar Grímsson ískyggilega nálægt því að eigna sér frið í heiminum. Sagði hann í viðtali við Sjónvarpið 14. maí, að frumkvæði sex þjóðarleiðtoga árið 1984, sem hann kom að, þótt hann væri ekki einn leiðtoganna, hefði mjög stuðlað að friði. Þetta er fjarri lagi. Kalda stríðinu lauk með fullum sigri Vesturveldanna af tveimur ástæðum.

Hin fyrri var sú, sem austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði þegar sagt fyrir um á hagfræðingafundi í Vín í janúar 1920: Í miðstýrðu hagkerfi er miklu erfiðara að nýta sérþekkingu einstaklinganna en í dreifstýrðu, og þegar til lengdar lætur, dregst það þess vegna aftur úr. Seinni ástæðan var sú, að um 1980 stigu fram tveir öflugir leiðtogar lýðræðisríkja, þau Margrét Thatcher og Ronald Reagan. Þau efldu svo varnir Vesturlanda, að Kremlverjar sáu sitt óvænna og gáfust í raun upp. Kommúnisminn hrundi, ekki með braki, heldur snökti.

Aldrei kom neitt annað frá málvinum Ólafs Ragnars sex en frómar yfirlýsingar, og raunar voru sumir þeirra óhappamenn eins og Raúl Alfonsin í Argentínu, Julius Nyerere í Tansaníu, Olof Palme í Svíþjóð og Rajiv Gandhi á Indlandi. Argentína, sem verið hafði eitt ríkasta land heims um aldamótin 1900, var löngum á tuttugustu öld undir stjórn óábyrgra lýðskrumara, sem kunnu það ráð eitt að herða á seðlaprentun. Tansanía þáði meiri þróunaraðstoð en flest önnur ríki, en varð skýrt dæmi um aðstoð án þróunar, á meðan Hong Kong varð jafnskýrt dæmi um þróun án aðstoðar. Ríkisafskipti jukust svo í Svíþjóð undir forystu Palmes, að öll nýsköpun hvarf, og urðu Svíar að breyta um stefnu í lok níunda áratugar. Hagvöxtur á Indlandi tók ekki við sér, fyrr en eftir að Indverjar sneru frá áætlunarbúskap og ofstýringu Nehru- og Gandhi-fjölskyldunnar, sem fylgt hafði verið illu heilli frá 1947 til 1991.     

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. maí 2023. Myndin sýnir Olof Palme munda byssu í heimsókn hjá einræðisherranum Fidel Castro á Kúbu, en um 40 þúsund manns féllu af völdum kúbversks kommúnisma, hundruð þúsunda voru geymd í þrælkunarbúðum og tíundi hluti þjóðarinnar flýði, ein milljón manna.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband