Sögulegar deilur

Tveir kunnustu menntamenn Ítala á tuttugustu öld voru heimspekingurinn Benedetto Croce og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Báðir voru þeir frjálshyggjumenn, en þeir deildu um, hvað í því fælist. Croce var lærisveinn Hegels og taldi sögu mannkyns sögu heimsandans, sem kæmist smám saman til vitundar um sjálfan sig og yrði frjáls. Sagan væri saga frelsisins: í upphafi hafði aðeins einn maður verið frjáls, harðstjórinn, síðan einn hópur, höfðingjastéttin, og loks allir menn. Í riti um Evrópusögu árið 1931 lét Croce í ljós þá skoðun, að tengsl frjálshyggju við atvinnufrelsi væri skilorðsbundin og aðeins söguleg, ekki rökleg. Menn gæti verið frjálsir, þótt einkaeignarréttur væri afnuminn eða verulega skertur. Croce gerði greinarmun á liberalismo, frjálshyggju sinni, og liberismo, afskiptaleysisstefnu í efnahagsmálum.

Einaudi tók undir það, að maðurinn lifði ekki á brauði einu saman, en benti á, að hagfræðileg greining þyrfti ekki að hafa í för með sér andlausa nytjastefnu. Hún væri aðallega aðferð við að skoða afleiðingar af ólíkum úrræðum. Sárafáir hagfræðingar hefðu fylgt fullkominni afskiptaleysisstefnu. Einaudi hafnaði því þó algerlega, að frelsi gæti þrifist í ríki, sem hefði afnumið einkaeignarrétt. Í fyrsta lagi yrðu borgararnir þá svo háðir stjórnvöldum um afkomu sína, að þeir væru ekki frjálsir nema að nafninu til. Í öðru lagi gerðu sameignarsinnar ráð fyrir, að allir ættu að þramma saman að settu marki. Þeir gætu ekki leyft óháðum félögum eða stofnunum að trufla þá göngu. Einaudi sagði, að vissulega gæti atvinnufrelsi farið saman við einræði í stjórnmálum, eins og dæmi Napóleons III. í Frakklandi sýndi. En hið gagnstæða ætti ekki við: þegar atvinnufrelsi væri stórlega skert, væri úti um borgaraleg réttindi og lýðræðislegt stjórnarfar. Greinarmunur Croces á liberalismo og liberismo væri misráðinn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. mars 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband