Hverjir hittu harðstjórana?

kapa_arason.jpgBókin Barnið sem varð að harðstjóra eftir Boga Arason, sem hefur um árabil skrifað erlendar fréttir í Morgunblaðinu, fær góða dóma, eins og hún á skilið. Þessi fróðlega og læsilega bók er um nokkra helstu einræðisherra tuttugustu aldar, en einkum um, hvað hafi mótað þá í æsku. Þeir Stalín, Hitler og Maó eru auðvitað þar fyrirferðarmestir. Hvaða Íslendingar hittu þessa menn?

Eini Íslendingurinn, sem ég veit til þess, að talað hafi við Stalín, er Jens Figved, sem var 1929–1932 í leynilegum þjálfunarbúðum í Moskvu. Figved átti við Stalín símtal um að fá að gefa út eftir hann ritgerð, sem birtist á rússnesku haustið 1931. Leyfið fékk Figved: Bréfið birtist á íslensku í fjölritinu Bolsjevikkanum í maí 1934. Nokkrir Íslendingar hlustuðu einnig á Stalín tala, til dæmis Halldór Kiljan Laxness á kosningafundi í Bolshoj-leikhúsinu í desember 1937 og Brynjólfur Bjarnason á 19. þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna í október 1952.

Mér er aðeins kunnugt um tvo Íslendinga, sem hittu Hitler til að skiptast á einhverjum orðum við hann. Annar var Helgi P. Briem, fulltrúi Íslands í danska sendiráðinu í Berlín í lok fjórða áratugar. Í embættiserindum rakst hann stundum á Hitler. Hinn var Gunnar Gunnarsson, sem gekk á fund Hitlers vorið 1940 til að tala máli Finna. Hins vegar hlustuðu margir Íslendingar á Hitler halda ræður á fundum, til dæmis Kristinn E. Andrésson og Bjarni Benediktsson, á meðan þeir stunduðu nám í Þýskalandi haustið 1931.

Flestir Íslendingar virðast þó hafa hitt Maó. Fimm manna sendinefnd sat veislu harðstjórans í Beijing haustið 1952, þar á meðal Jóhannes úr Kötlum og Þórbergur Þórðarson. Þeir Maó og Einar Olgeirsson skiptust líka eitt sinn á orðum. Maó heilsaði enn fremur Steinþóri Guðmundssyni og tveimur öðrum fulltrúum Sósíalistaflokksins í veislu í Beijing haustið 1956. Tekin var ljósmynd af þeim fundi, sem birtist í Rétti 1974 og í nokkrum blöðum. Þegar ég reyndi fyrir nokkrum árum að útvega mér frumrit af þessari mynd í bók um Íslenska kommúnista, var það hvergi finnanlegt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. desember 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband