200 milljarða óþarft tap

Tímaritið Þjóðmál er nýkomið út, barmafullt af forvitnilegu efni eins og endranær. Ritstjóraskipti hafa orðið: Jakob F. Ásgeirsson stjórnmálafræðingur, sem hefur verið ritstjóri frá upphafi af framúrskarandi dugnaði og metnaði, hefur horfið til annarra starfa (hann er meðal annars að skrifa ævisögu Bjarna Benediktssonar), en Óli Björn Kárason hagfræðingur tekið við. Óli Björn (sem hefur meðal annars verið ritstjóri Viðskiptablaðsins og DV) skrifar reglulega í Morgunblaðið af yfirsýn og þekkingu.
Tímaritið er til sölu í bókabúðum, en ég birti í því ritgerð um hugsanlegt 200 milljarða tap Íslendinga á margvíslegri handvömm eftir bankahrun. Hér er útdráttur úr ritgerðinni:

Fyrir bankahrunið 2008 voru ýmsir erlendir bankar í eigu íslenskra fyrirtækja. Hér verða þrír þeirra skoðaðir. Í Danmörku átti Kaupþing FIH banka, og tók Seðlabankinn hann að veði 6. október 2008 fyrir €500 milljóna neyðarláni til Kaupþings. Að tilhlutan danskra stjórnvalda og ráði Seðlabankans var bankinn seldur haustið 2010, og var söluverð háð væntanlegu tapi næstu árin. Svo virðist sem Seðlabankinn fái aðeins um helminginn af láni sínu aftur. Nú er verið að leggja bankann niður, og eiga danskir eigendur hans von á verulegum gróða, miklu hærri en nemur tapi Seðlabankans. Hvað gerðist? Í Bretlandi átti Landsbankinn Heritable Bank og Kaupþing KSF, Kaupthing Singer & Friedlander. Bresk stjórnvöld lokuðu þeim báðum í október 2008, færðu innlánsreikninga til keppinautar þeirra og settu þá í skiptameðferð. Jafnframt veittu bresk stjórnvöld öðrum bönkum í Bretlandi ríflega lausafjárfyrirgreiðslu eða lögðu þeim til aukið fjármagn. Nú er skiptameðferð að ljúka á Heritable Bank og KSF, og er endurheimtuhlutfall í báðum bönkum nálægt 100%, þótt lagst hafi á búin afar hár lögfræði- og skiptakostnaður, auk þess sem sú eign, sem fólst í rekstri og viðskiptavinum, varð verðlaus og aðrar eignir seldust eflaust ekki á hámarksverði. Hvað gerðist? Hér er leitast við að svara þessum spurningum með því að rannsaka gögn um bankana og ræða við þá, sem áttu hlut að máli. Niðurstaðan er, að hugsanlega hafi tapast að óþörfu hátt í milljarður punda eða 200 milljarðar króna í þessum þremur bönkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband