Var Jón Sigurðsson óbilgjarn?

jo_769_nsigur_sson.jpgMenn kunna að segja, að Jón Sigurðsson, leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, hafi verið óbilgjarn gagnvart Dönum. Þegar stjórnskipan Dana var í deiglu 1848, setti Jón fram þá kenningu, að hún breytti engu fyrir Íslendinga. Þeir hefðu gert sáttmála við konung 1262, þar sem kveðið væri á um réttindi þeirra og skyldur. Þegar Íslendingar hefðu játast undir einveldi 1662, hefði sáttmálinn frá 1262 fallið úr gildi, en hann tæki aftur gildi um leið og konungur afsalaði sér einveldi. Ísland væri þess vegna fullvalda land í konungssambandi við Danmörku.

Danir tóku rökum Jóns fjarri. Hann sat hins vegar í nefnd um fjárhagslegan aðskilnað Danmerkur og Íslands 1862. Aðrir nefndarmenn töldu eðlilegt að ríkissjóður Dana legði Íslendingum til 42 þúsund ríkisdali á ári. En Jóni reiknaðist til, að Danir skulduðu Íslendingum stórfé vegna einokunarverslunarinnar og upptöku eigna á Íslandi, svo að þeir ættu að greiða Íslendingum 100 þúsund ríkisdali árlega, þegar dregið hefði verið frá framlag til konungs og æðstu stjórnar.

Sumum kann að finnast reikningskrafa Jóns jafnlangsótt og skírskotunin í sáttmálann frá 1262. En hvers vegna bar jafnraunsær maður og Jón fram slík rök? Vegna þess að hann var að reyna að efla sjálfsvirðingu sinnar fámennu, fátæku þjóðar og koma fram af reisn út á við. Íslendingar áttu ekki að leggjast á hnén og biðja auðmjúklega um það, sem þeir þurftu, heldur standa á rétti sínum.

Þetta vissu Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um hervernd. Hið sama var ekki að segja um þá, sem sömdu við Breta í Icesave-deilunni. Þeir fóru ekki að fordæmi Jóns Sigurðssonar, enda runnu öll þeirra vötn til Dýrafjarðar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband