Reductio ad Hitlerum

hitler_495545.jpgNýlega kom út í Bandaríkjunum greinasafn um bankahrunið íslenska, sem Gísli Pálsson og E. Paul Durrenberger ritstýrðu. Í formála víkja þeir að frægu hugtaki Hönnu Arendt, hversdagslegri mannvonsku (banality of evil), sem hún notaði í tilefni réttarhalda yfir Adolf Eichmann í Jórsölum. Síðan segja þeir: „Þó voru Eichmann og hans líkar ekki aðeins að hlýða fyrirmælum. Þeir trúðu í einlægni á þann málstað og það kerfi, sem þeir þjónuðu. Nýfrjálshyggjan er jafnhversdagsleg. Við teljum, að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, með rætur sínar í Bandaríkjunum og hámarki í kröfunni um hröð umskipti, hnitmiðaða og samfellda áróðursvél og framgang Chicago-skólans í hagfræði og kynningu nýfrjálshyggjunnar sem heilsteypts hugmyndakerfis, sé söguleg hliðstæða. Hún virðist eðlileg, enginn virðist ábyrgur, og allir eru aðeins að hlýða fyrirmælum.“

Þeir Gísli segja líka: „Nýfrjálshyggja sækir réttlætingu í „vísindalega“ hagfræði. Samt sem áður hefur hún haft í för með sér ólýsanlegt ofbeldi og eymd um allan heim. Frá sjónarmiði fórnarlambanna séð er þetta vissulega sambærilegt við árásir víkinga. Framkvæmd þessarar hugmyndafræði og almenn viðurkenning hennar, hvort heldur í smáu eða stóru, er skýrt dæmi um hversdagslega mannvonsku.“

Þessari samlíkingu hefur verið gefið sérstakt nafn, „Reductio ad Hitlerum“, Hitlers-aðleiðslan. Er varað við henni í rökfræði. Til dæmis getur verið, að frjálshyggjumaður trúi af sömu ástríðu á málstað sinn og nasisti. En með því er ekkert sagt um, hvort frjálshyggja sé skyld nasisma. Raunar er frjálshyggja eins langt frá nasisma og hægt er að vera, því að kjarni hennar er viðskipti frekar en valdboð. „Tilhneiging þín til að skjóta á náungann minnkar, ef þú sérð í honum væntanlegan viðskiptavin,“ sagði frjálshyggjumaður á nítjándu öld. Frjálshyggja hefur hvergi verið framkvæmd hrein og tær, en samkvæmt alþjóðlegum mælingum eru þau lönd, sem helst nálgast frjálshyggjuhugmyndir um hagstjórn, Sviss, Ástralía, Nýja-Sjáland, Bretland og Kanada. Hverjum dettur öðrum í hug en Gísla Pálssyni og E. Paul Durrenberger að bera þau saman við Hitlers-Þýskaland?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband