Ísland í sambandi við Svíþjóð

Eftir bankahrunið 2008 hefur oft heyrst, að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum. Þeir þurfi skjól. Þeir hafi til dæmis gengist á hönd Noregskonungi 1262 til að fá skjól af Noregi. Hvað sem þeirri kenningu líður, reyndist lítið skjól í Noregi. Það land varð nánast gjaldþrota í Svartadauða um miðja fjórtándu öld. Því var um megn að halda uppi siglingum til Íslands, og varð að fela það Hansakaupmönnum. Jafnframt var alla fjórtándu öld linnulaus togstreita um völd í Noregi og öðrum norrænum konungsríkjum.

16219600_120010815683.jpgÍsland blandaðist á óvæntan hátt inn í þessa togstreitu. Magnús VII. Eiríksson Noregskonungur, sem tók við ríki 1319, varð um leið konungur Svíþjóðar. Norðmenn settu hins vegar Magnús af 1343 og tóku yngri son hans, Hákon Magnússon, til konungs. Eftir það var Magnús aðeins konungur í Svíþjóð. En hann hélt yfirráðum yfir hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi, Grænlandi, Íslandi og Færeyjum. Svíþjóð gekk hins vegar úr greipum hans 1364. Ísland var því í tuttugu og eitt ár í konungssambandi við Svíþjóð, en ekki Noreg. Ísland lenti síðan 1380 ásamt öðrum norskum skattlöndum undir stjórn Danakonungs, þegar sonarsonur Magnúsar, Ólafur Hákonarson, erfði norsku krúnuna, en hann hafði orðið Danakonungur 1376. Hélst konungssambandið við Danmörku allt til 1944.

Magnús VII. var iðulega kallaður smek. Var það jafnan haft eftir skýringarlaust í íslenskum heimildum. Eftir nokkurt grúsk (og aðstoð Árnastofnunar) hef ég komist að því, að orðið er ekki íslenskt, heldur sænskt og merkir kjass eða flaður. Deila fræðimenn um, hvort það vísi til þess, að konungur hafi frekar verið hneigður til karla en kvenna, eins og svarinn óvinur hans, heilög Birgitta, hélt fram, eða að hann hafi verið veikur fyrir smjaðri. En eftir þessum tveimur merkingum mætti ýmist þýða viðurnefnið sem „kjassari“ eða „kjassaður“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband