Ginningarfífl

Prófessorarnir Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson hafa klifað á því síðustu mánuði, að ójöfnuður hafi hér stóraukist. Stjórnarandstæðingar hafa tekið hressilega undir með þeim. Til marks um aukinn ójöfnuð nefna þeir Þorvaldur og Stefán svonefndan Gini-stuðul, sem er mælikvarði á tekjuskiptingu. Þar sem tekjuskiptingin er jöfn, er stuðullinn 0, en þar sem hún er eins ójöfn og framast má verða (einn maður hefur allar tekjurnar), er stuðullinn 1.

Hinn 10. ágúst 2006 birti Þorvaldur Gylfason grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Hernaður gegn jöfnuði“. Þar kvað hann ríkisskattstjóraembættið hafa reiknað út fyrir sig Gini-stuðla fyrir Ísland tólf ár aftur í tímann. (Það er aukaatriði, að enginn hjá embættinu kannast við að hafa gert þetta.) Samkvæmt tölum Þorvalds var Gini-stuðull fyrir Ísland árið 2005 0,36 og hafði hækkað árlega að meðaltali um rösk 0,1 stig. Þorvaldur kvað sögulegt, að tekjuskiptingin á Íslandi væri orðin eins ójöfn og í Bretlandi.

Hinn 31. ágúst 2006 birti Stefán Ólafsson grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Aukning ójafnaðar á Íslandi“. Þar gerði hann tölur Þorvalds að sínum, enda væru þær, sagði Stefán, í góðu samræmi við lífskjarakönnun, sem Evrópusambandið vinnur að í samstarfi við hagstofur aðildarríkjanna auk Sviss, Noregs og Íslands. Stefán birti með greininni línurit um, að Gini-stuðullinn fyrir Ísland hefði farið úr 0,25 árið 1995 í 0,35 árið 2004. Þetta væri miklu ójafnari tekjuskipting en annars staðar á Norðurlöndum.

Stefán bætti um betur í viðtali við Fréttablaðið 30. október 2006. Þar sagði hann, að ójöfnuður hefði aukist hraðar á Íslandi síðustu tíu árin en í Chile á valdadögum herforingjastjórnar Pinochets. Þessi ummæli þóttu sæta slíkum tíðindum, að Fréttastofa útvarpsins birti sama dag sérstaka frétt um þau. Greinarnar og viðtölin má sjá á heimasíðum Þorvalds, Stefáns, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins á Netinu.

Ég benti á það opinberlega fyrir skömmu, að þeir Þorvaldur og Stefán hafa rangt fyrir sér. Ástæðan er einföld. Í tölum þeim um Gini-stuðla, sem þeir notuðu fyrir Ísland, var söluhagnaður af hlutabréfum tekinn með. Hann veldur mestu um, hversu ójöfn tekjuskiptingin mælist á Íslandi, því að hann skiptist fremur ójafnt. Í tölum þeim um Gini-stuðla, sem Þorvaldur og Stefán notuðu fyrir önnur lönd, er söluhagnaður af hlutabréfum hins vegar ekki tekinn með, enda er það ekki venja, þar eð þetta eru óreglulegar fjármagnstekjur.

Hvorki Þorvaldur né Stefán hafa leiðrétt tölur sínar opinberlega, en Stefán lætur þessa atriðis stuttlega getið í nýlegri ritgerð í vefriti Stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála. Um eitt hundrað manns lesa það rit, þúsund sinnum færri en sáu ummæli Stefáns í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Nú er nýkomin út skýrsla Hagstofu Íslands, Lágtekjumörk og tekjudreifing 2003-2004. Þar er stuðst við þá lífskjarakönnun Evrópusambandsins, sem Stefán vitnaði í. Margt kemur þar merkilegt fram. Árið 2004 reyndist fátækt (samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins) til dæmis vera einna minnst á Íslandi af öllum Evrópulöndum. Hún var aðeins minni í einu landi, Svíþjóð, en meiri í 28 löndum, þar á meðal Noregi, Danmörku og Finnlandi.

Ekki var síður athyglisvert, að tekjuskipting á Íslandi var samkvæmt skýrslunni jafnari en í langflestum öðrum löndum Evrópu. Gini-stuðull árið 2004 fyrir Ísland var 0,25. Hann var aðeins lægri í þremur löndum, Slóveníu, Svíþjóð og Danmörku, og munar þó litlu. Gini-stuðull var hærri (tekjuskipting ójafnari) í 28 löndum. Hann var 0,26 fyrir Finnland og 0,28 fyrir Noreg.

Þessar tölur eru reiknaðar út eins í öllum Evrópulöndum, án söluhagnaðar af hlutabréfum. Þær sýna, að ójafnaðartal þeirra Þorvalds og Stefáns var út í bláinn. Tölur þeirra um Gini-stuðla fyrir Ísland voru rangar eða að minnsta kosti ósambærilegar við tölur frá öðrum löndum. Stjórnarandstæðingar urðu ginningarfífl þeirra.

Fréttablaðið  9. febrúar 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband