Fréttatilkynning frá HÍ - Frétt í RÚV

Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands 27. október 2013 segir, að Dennis Meadows flytji þann dag fyrirlestur á vegum Háskólans og Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun. Þar segir eins og um almælt tíðindi sé að ræða: „Þeir ríku geta ekki gert ráð fyrir að fá sífellt meira á meðan að þeir fátæku berjast við að ná sömu kjörum.  Þjóðfélög sem byggja á markaðshyggju og vergum veldisvexti geta ekki gengið til lengdar því vöxturinn krefst orku og takmarkaðra auðlinda.“

Sleppum málvillunni (á meðan að). Sleppum líka ruglandinni (hvaða kjörum berjast hinir fátæku fyrir? sömu kjörum og áður eða sömu kjörum og hinir ríku?). En það er einkennilegt, ef Háskóli Íslands er allt í einu tekinn upp á því sem stofnun að halda því fram, að „markaðshyggja“ (væntanlega íslensk þýðing á kapítalisma) geti ekki gengið til lengdar. Sú skoðun er að minnsta kosti mjög umdeild. Sósíalisminn er hruninn (nema í Norður-Kóreu, þar sem honum er haldið uppi með ógnarstjórn), en kapítalisminn lifir enn og virðist vera í fullu fjöri.

Síðan segir í fréttatilkynningunni: „Dr. Meadows er þekktastur fyrir að vera meðhöfundur skýrslunnar „Takmörk vaxtar“ (Limits to Growth) sem samin var fyrir Club of Rome árið 1972.“ Og síðar segir: „Í skýrslunni „Takmörk vaxtar“ (Limits to Growth) nýttu höfundar kvik kerfislíkön til að sýna afleiðingar samspils fólksfjölgunar og takmarkaðra náttúruauðlinda. Tilgangurinn var ekki að spá ákveðið um framtíðina heldur að kanna samskipti veldisvaxtar og takmarkaðra auðlinda.  Nú, 40 árum eftir að skýrslan kom út, reynist líkanið hafa staðist og þau vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir eru of margir jarðarbúar, eyðilegging vistkerfa, mengun og þverrun náttúruauðlinda.“

Svo er að sjá sem höfundur fréttatilkynningarinnar viti ekki, að bókin Limits to Growth kom út á íslensku 1974 undir heitinu Endimörk vaxtarins. Ég fer yfir það í nýjasta hefti Vísbendingar, („Líkan Meadows hrundi, ekki heimurinn“, 2. tbl. 32. árg., bls. 2–3), hvernig spár Rómarklúbbsins í þessu riti hafa reynst. Mikla kokhreysti þarf til þess að halda því fram, eins og höfundur fréttatilkynningarinnar gerir, að líkan Meadows og félaga hans hafi staðist. Til þess þarf að endurskilgreina boðskap þeirra í Endimörkum vaxtarins.

Ég vissi ekki fyrir af fyrirlestri Meadows, svo að ég gat ekki sótt hann vegna annarra skuldbindinga. Ég hefði svo sannarlega verið fús til að halda uppi andmælum, hefði til mín verið leitað í tæka tíð. Rætt var við Meadows í Speglinum og í kvöldfréttum Sjónvarpsins kvöldið áður. Þar var Meadows ekki spurður einnar einustu gagnrýninnar spurningar, heldur fékk hann að láta gamminn geisa.

Í sjónvarpsviðtalinu sagðist Meadows muna, þegar olíutunnan kostaði þrjá dali, en nú kostaði hún um hundrað dali. Engin athugasemd var gerð. En þetta er augljós talnabrella: Færa verður dalina til sama gildis, ef á að bera þá saman. Í grein minni í Vísbendingu sýni ég þróun verðs á olíutunnu frá 1964 til 2012 á sambærilegu verðlagi (í árslok 2013). Olíutunnan kostaði til dæmis um 20 dali (á verðlagi ársins 2013) árið 1972, þegar Endimörk vaxtarins komu út á ensku, og hún var komin niður í 17 dali árið 1998, röskum aldarfjórðungi síðar, en rauk upp síðar.

Eiga þetta að heita vísindi? Eða mega menn segja hvað sem er, ef þeir eru andstæðingar kapítalismans?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband