Margrét Thatcher

Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, var jarðsungin þriðjudaginn 16. apríl 2013. Hún var hugrökk eins og ljón og kæn eins og refur, en svo lýsir Machiavelli öflugum stjórnmálamanni. Með festu sinni og baráttugleði vakti hún blendnar tilfinningar í hópi starfsbræðra sinna í Evrópu, hinna gráklæddu, virðulegu, miðaldra manna með hálsbindi, sem komu öðru hvoru saman og töluðu í nafni Evrópu. „Frú Thatcher! Hún hefur augun úr Caligúlu og varirnar frá Marilyn Monroe,“ mælti forseti Frakklands, François Mitterand, við ráðherra Evrópumála í stjórn sinni, Roland Dumas.

Thatcher sagði mér hins vegar eitt sinn í kvöldverði: „Gallinn við stjórnmálamennina á meginlandinu er, að þeir hafa aldrei skilið hina engilsaxnesku hugmynd um frelsi innan marka laganna.“ Allt frá því, að Jóhann landlausi neyddist til að skrifa undir Magna Carta 1215, var í Englandi reynt að takmarka vald konungs við það, sem hóflegt gæti talist, og breytti engu, þegar þing kom í stað konungs. Lögin setja jafnt valdsmönnum og einstaklingum skorður.

Napóleon sagði af nokkurri lítilsvirðingu, að Englendingar væru kramaraþjóð. En í heimsstyrjöldinni síðari bjargaði þessi kramaraþjóð öðrum Evrópuþjóðum undan sjálfum sér. Og þótt stjórnmálamennirnir á meginlandinu skildu illa frelsi innan marka laganna, ekki síst atvinnufrelsi, var Jón Sigurðsson sömu skoðunar og Thatcher: „Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórnaraðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi,“ sagði Jón í Nýjum félagsritum 1844. Með félagsfrelsi átti hann vitaskuld við atvinnufrelsi.

Það var hins vegar Rauða stjarnan, málgagn Rauða hersins rússneska, sem kallaði Thatcher fyrst „járnfrúna“, og festist það við hana. Það var dæmigert um Thatcher, að hún tók nafnið sjálf upp. Hún sagði í ræðu í kjördæmi sínu, Finchley, 31. janúar 1976: „Járnfrú Vesturlanda. Ég? Kaldastríðskona? Já, einmitt — ef þeir vilja leggja þann skilning í málsvörn mína fyrir þeim verðmætum og réttindum, sem okkur þykja ómissandi.“ Það átti síðan fyrir Thatcher að liggja í góðu samstarfi við Ronald Reagan að vinna kalda stríðið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband