Hefur atvinnufrelsi snarminnkað á Íslandi?

Á hverju ári mælir Fraser-stofnunin í Kanada atvinnufrelsi í heiminum með aðstoð rannsóknarstofnana í öðrum löndum. Í mælingunni er litið til fimm þátta: 1) umfangs ríkisins og opinbers reksturs, skatta og fyrirtækja; 2) lagalegs umhverfis og friðhelgi eignarréttar; 3) aðgangs að traustum peningum; 4) frelsis til alþjóðaviðskipta; 5) reglna á fjármagns- og vinnumarkaði og um fyrirtæki. Niðurstöðurnar eru kynntar á heimasíðunni www.freetheworld.com. Mjög er vandað til þessarar vísitölu, og tóku þrír Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði þátt í að smíða hana.
 
Samkvæmt vísitölunni jókst atvinnufrelsi á Íslandi talsvert árin 1983-1987 og síðan aftur frá 1991 til 2004. Til dæmis var íslenska hagkerfið hið 28. í röð 54 hagkerfa, sem mæld voru 1970. Þá var atvinnufrelsi ekki mikið á Íslandi. Íslenska hagkerfið var hins vegar orðið 13. frjálsasta hagkerfið af 130 árið 2004, áður en lánsfjárbólan hófst. Þetta var fróðleg staðreynd.

Samkvæmt tölunum frá 2009 hafði atvinnufrelsi á Íslandi hins vegar snarminnkað. Vísitala þess hafði hrapað úr 7,8 árið 2004 í 6,8 árið 2009. Íslenska hagkerfið var þá hið 70. af 141, þegar miðað var við atvinnufrelsi. Ísland var þá í röð þeirra fimm landa í heiminum, þar sem atvinnufrelsi hafði minnkað mest árin á undan. Á meðal hinna landanna voru Venesúela og Argentína, en við Íslendingar höfum oftast viljað skipa okkur í röð annarra landa en þeirra.

Núna á mánudagsmorguninn mun dr. Michael Walker, forstöðumaður Fraser-stofnunarinnar, kynna niðurstöður mælinganna fyrir 2010. Þetta gerir hann á morgunfundi Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál á Grand Hotel í Reykjavík kl. 8.30 til 10.30. Full ástæða er til að vekja athygli á þessum fundi, og ég er áreiðanlega ekki eini maðurinn, sem bíður með eftirvæntingu eftir nýjum tölum um atvinnufrelsi á Íslandi.

(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. september 2012.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband