Þeir færðust til vinstri, ekki Bjarni til hægri

Nú kyrja þeir fáu, sem enn treysta sér til þess að verja vinstri stjórnina, saman í einum kór, að Bjarni Benediktsson hafi færst til hægri með því að gagnrýna óhófleg ríkisútgjöld. Og sumir fjölmiðlar taka undir.

Uppgjör ríkisreikninga sýnir, að frá því að vinstri stjórnin tók við 2009, hefur hún safnað feikilegum skuldum, sem hún ætlar að velta yfir á næsta kjörtímabil. Hún er engu betri en bankamennirnir fyrir fall bankanna, sem harðast voru gagnrýndir fyrir óhóflegar lántökur. „Take the money and run,“ eins og sagt var, eða: „Syndafallið kemur eftir minn dag.“

Í raun og veru hafa íslenskir vinstri menn farið langt til vinstri síðustu misseri. Það sýndu til dæmis viðbrögð þeirra við bókum okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um ágreining jafnaðarmanna og kommúnista í íslenskri vinstri hreyfingu árin 1918–1938. Sá ágreiningur snerist um, hvort virða ætti lýðræði eins og jafnaðarmenn vildu eða beita ofbeldi, þegar þess þyrfti með, eins og kommúnistar kröfðust. Inn í það fléttaðist síðan ágreiningur um afstöðuna til einræðisríkisins mikla í austri, sem Lenín og Stalín stjórnuðu.

Svo virðist, ef marka má nýlegar greinar í Tímariti Máls og menningar og Herðubreið, sem vinstri menn á Íslandi taki sér stöðu með gömlu kommúnistunum gegn gömlu jafnaðarmönnunum, en bækur okkar þriggja um þetta tímabil sýna, að margar ásakanir jafnaðarmanna á hendur kommúnistum í hinum sögulegu átökum þessa tímabils voru réttar. Eins og fram hefur komið opinberlega, hyggst ég svara þeim greinum á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband