Bréf frá Laxness-fjölskyldunni

bilde_994057.jpgÉg bloggaði hér um daginn, að ég hefði borið gæfu til að hafa Helgu Kress sem samstarfskonu í Háskóla Íslands. Hún hefði lagst í nákvæman prófarkalestur á bók minni, Halldór, sem var fyrsta bindi ævisögu Nóbelskáldsins, Halldórs Kiljans Laxness, en hana gaf ég út árin 2003–2005 í þremur bindum. Hafi ég verið haldinn einhverju oflæti þá (eins og bankamennirnir okkar síðar), þá hafi Helga hrist það úr mér, svo að um munaði.

Nú hefur mér borist tölvuskeyti með athugasemdum við frásögn mína frá fjölskyldu Halldórs K. Laxness, sem mér er auðvitað skylt að birta:

Af gefnu tilefni.

Helga Kress var aldrei ráðin af skyldmennum Halldórs Laxness  til þess að gera úttekt á bókinni Halldór, né heldur af lögmanni fjölskyldunar.  Hún hefur fyrir bragðið aldrei þegið laun frá fjölskyldunni. Ekki nóg með það, heldur hafði hún aldrei aðgang umfram aðra að skjölum HL Lokunin tók gildi eftir að fréttist að þú værir búinn að skila inn handriti til forleggjara og ný gögn, óflokkuð, höfðu verið lögð inn. Bréfasafnið, að okkar mati, var í ólestri og eftirlitslaus ljósritun ekki vitnisburður um góða umgengni. Þá keyrði um þverbak þegar starfsmaður Þjóðarbókhlöðunnar tók ófrjálsri hendi bréfasafn Auðar Laxness, en þau bréf hafa aldrei verið opin almenningi eða gefin safni til varðveislu.

Kveðja,
Halldór Þorgeirsson
Guðný Halldórsdóttir

Ég sendi höfundum skeytisins svar um hæl, sem ég leyfi mér líka að birta:

Sæl. Þakka ykkur tilskrifið. Ég er sammála ykkur um, að hafa þurfi það, sem sannara reynist.

1) Gallinn við frásögn ykkar af störfum Helgu Kress er sá, að annað kom fram í viðtölum við Guðnýju Halldórsdóttur í ársbyrjun 2004. Í Morgunblaðinu 1. apríl 2004 segir í greininni „Undirbúa málsókn gegn Hannesi Hólmsteini“:

Helga Kress, prófessor við Háskóla Íslands, hefur unnið rúmlega 200 blaðsíðna greinargerð um bók Hannesar og gert samanburð á texta hennar við verk Halldórs og fjölmargra annarra höfunda. Að sögn Guðnýjar vann Helga skýrsluna m.a. fyrir afkomendur Halldórs Laxness. [Undirstrikun mín.]

2) Gallinn við frásögn ykkar um bréfasafn Laxness var, að því var lokað í september 2003, talsvert áður en ég lauk handriti mínu og skilaði inn til bókaútgefanda (en það var í nóvember). Í frétt í Morgunblaðinu 28. september 2003, sem er að mestu leyti fengin frá fjölskyldu Halldórs Laxness, kom allt annað fram:

Jafnframt hafi verið tekið fram að Halldór Guðmundsson sem vinnur að ritun ævisögu Halldórs og Helga Kress bókmenntafræðingur hefðu slíkt  leyfi [til að skoða skjölin í hinu lokaða safni; undirstrikun mín].

Frásagnir ykkar í þessu tölvuskeyti stangast því á við það, sem kom fram frá ykkur árin 2003 og 2004.

Raunar er rétt að minna á það, að ég reyndi eins og ég gat að hafa gott samstarf við ykkur í fjölskyldu Laxness. Ég bað útgefanda minn sérstaklega að sýna ykkur handritið, svo að þið gætuð gert athugasemdir. Samkvæmt framburði Bjarna Þorsteinssonar [starfsmanns þáverandi útgefanda míns] fyrir héraðsdómi notuðuð þið tvo daga í það (þótt sá framburður stangaðist á við framburð Guðnýjar Halldórsdóttur fyrir héraðsdómi, sem sagðist aðeins hafa staldrað við stutta stund á skrifstofu útgefandans.)

Ég kannast sjálfur ekki við þetta mál, sem þið nefnið um bréfasafn Auðar Laxness, þótt ég hafi haft óljósar spurnir af einhverjum ágreiningi Guðnýjar Halldórsdóttur og Sigrúnar Klöru Hannesdóttur landsbókavarðar. Það mál er mér óviðkomandi. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð þetta bréfasafn Auðar.

Ég er auðvitað sammála ykkur um, að fara verður varlega með söfn eins og bréfasafn Halldórs K. Laxness. En ég sá ekki betur en það væri í góðu lagi, þegar ég hafði aðgang að því og notaði það sumarið 2003.

Að lokum vil ég gjarnan mælast til þess, að við troðum ekki neinar illsakir. Þessu máli er lokið af minni hálfu. Þótt það kæmi mér mjög á óvart, að ég var fundinn sekur um að brjóta höfundarrétt á Halldóri Laxness, þótti mér það miður og ætlaði mér vitanlega aldrei að gera það.

Virðing mín og aðdáun á Halldóri Laxness jókst við að skrifa um hann, þótt ég skirrðist hvergi við að draga undan skuggahliðar hans, sem voru auðvitað einnig miklar, enda er engin sól án skugga, og ég aflaði mér ómetanlegrar þekkingar á samtíð hans, sem ég bý að í næstu verkum mínum, svo að þetta var í senn ánægjulegt og gagnlegt verk.

Ég skal koma athugasemdum ykkar á framfæri á bloggsíðu minni.

Bestu kveðjur, HHG

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband