Davíð þarf engan spuna

Einhverjir hafa látið að því liggja, að í hugleiðingum mínum um rannsóknarnefnd Alþingis hafi ég verið að spinna fyrir Davíð Oddsson. Því fer fjarri. Ég tel, að nefndin þurfi einmitt að vanda sig, til þess að Baugspennarnir og önnur leiguþý útrásaraðalsins geti ekki ómerkt skýrslu hennar. Og rækileg rannsókn leiðir ekki alltaf til þess, að menn séu fundnir sekir. Stundum kemur í ljós, að þeir eru saklausir.

Davíð þarf engan spuna. Hann var eini maðurinn, sem varaði við, á meðan allir aðrir flöðruðu upp um útrásaraðalinn. Hann sagði þegar 19. nóvember 2003 í ræðu á Alþingi: „Og reyndar er maður mjög hugsandi orðinn yfir því, svo maður komi því að hér, með hvaða hætti íslensku bankarnir, allir stærstu bankarnir, eru farnir að haga sér með afskiptum sínum og inngripum í íslenskt atvinnulíf. Þar eru menn komnir út á mjög hála braut, að mínu viti, og ég, sem hef trúað og stutt og verið stoltur af því að standa fyrir einkavæðingu á slíkum bönkum, tel jafnframt að það eigi að reyna að halda þessum bönkum að sínum verkefnum og þeir séu komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir eiga að sinna og skyldum gagnvart almenningi í þeim efnum.“ 

jonasgeir.jpgDavíð átti eflaust við það, hvernig bankarnir jusu fé í Jón Ásgeir Jóhannesson, uns hann skuldaði þeim samtals um eitt þúsund milljarða króna, án þess að hann þyrfti sjálfur að leggja fram nein veð ólíkt öðrum skuldunautum. Er það með ólíkindum. Í ræðu sinni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007 gagnrýndi Davíð síðan einokun þá, sem Jón Ásgeir beitti sér fyrir, og benti á, að bankarnir væru komnir að ystu þolmörkum í þenslu. Hann minntist þar einnig á REI-málið, þegar útrásaraðallinn ætlaði með aðstoð Össurar Skarphéðinssonar að sölsa undir sig eignir Orkuveitu Reykjavíkur: „Útrásarorðið er slíkt töframerki að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almennings, þá er innrásin kölluð útrás.“

Enginn einn innlendur aðili ber beinlínis sök á bankahruninu. Enginn vildi það. Enginn hafði hag af því. Hver sá líka fyrir, að allar lánalínur til Íslands myndu lokast? Eða að Bretar myndu beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum bönkum? En til þess eru tvær ástæður, að Jón Ásgeir Jóhannesson ber allra manna mesta ábyrgð. Í fyrsta lagi stofnaði hann til miklu meiri skulda en hóflegt gat talist. Í öðru lagi beitti hann veldi sínu til að mynda hér það andrúmsloft óhófs og skefjalausrar auðmannadýrkunar, sem okkur varð að lokum dýrkeypt, en um það er meðferð Baugsmálsins í fjölmiðlum og fyrir dómi gleggsta dæmið.

Einhverjir kunna að segja, að Seðlabankinn hafi fyrir hrun ekki gætt fjármálalegs stöðugleika eins og hann eigi að gera að lögum. Því er til að svara, að Davíð varaði hvað eftir annað við, ekki aðeins opinberlega, heldur líka í einkasamtölum. Og af því að ég hlustaði á þau sum, get ég vottað, að hann dró hvergi af. Með þessum viðvörunum gegndi Davíð hlutverki sínu sem seðlabankastjóri. Eigi veldur sá, er varar.

gauti_eggertsson_962348.jpgSeðlabankinn reyndi einnig að halda uppi fjármálalegum stöðugleika með fyrirgreiðslu sinni við viðskiptabankana síðasta árið fyrir hrun, þegar lánalínur frá útlöndum voru flestar lokaðar. Það er  hins vegar kaldhæðni, að sömu eftiráspekingarnir og áfellast bankann fyrir að hafa ekki gætt fjármálalegs stöðugleika deila líka á hann fyrir að hafa veitt viðskiptabönkunum fyrirgreiðslu!

jonsteinsson_962349.jpgÞessir eftiráspekingar hirða ekki um að geta þess, að reglur Seðlabankans um útlán til viðskiptabankanna voru jafnstrangar eða ívið strangari en reglur Evrópska seðlabankans og að vitaskuld féllu kröfur Seðlabankans á viðskiptabankana stórlega í verði eftir setningu neyðarlaganna. Þeir hirða ekki heldur um að geta þess, að það var Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með því, að viðskiptabankarnir veittu réttar upplýsingar um eignir sínar, afkomu og rekstrarhorfur, ekki Seðlabankinn.

Þeir stjórnmálamenn og embættismenn Fjármálaeftirlits og annarra stofnana, sem daufheyrðust við viðvörunum Davíðs, ætluðu sér áreiðanlega ekkert illt. Ég veit ekki betur en þeir séu allir góðir og gegnir einstaklingar. En Fjármálaeftirlitið hafði greinilega ekki burði til að veita viðskiptabönkunum hæfilegt aðhald. Og stjórnmálamennirnir heyrðu það hjá talsmönnunum bankanna, sem þeir vildu heyra, og hjá Davíð það, sem þeir vildu ekki heyra. Því fór sem fór.

(Myndin er af Baugsmönnum (þ. á m. Jóni Ásgeiri og viðskiptafélaga hans, Pálma í Fons) og íslenskum bankamönnum í Skíðaskála þeim í Courchel í Frakklandi, sem Jón Ásgeir kom sennilega undan úr þrotabúi Baugs. Þeir gera sér þar glaðan dag 2006 eða 2007.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband