200 milljarða óþarft tap

Tímaritið Þjóðmál er nýkomið út, barmafullt af forvitnilegu efni eins og endranær. Ritstjóraskipti hafa orðið: Jakob F. Ásgeirsson stjórnmálafræðingur, sem hefur verið ritstjóri frá upphafi af framúrskarandi dugnaði og metnaði, hefur horfið til annarra starfa (hann er meðal annars að skrifa ævisögu Bjarna Benediktssonar), en Óli Björn Kárason hagfræðingur tekið við. Óli Björn (sem hefur meðal annars verið ritstjóri Viðskiptablaðsins og DV) skrifar reglulega í Morgunblaðið af yfirsýn og þekkingu.
Tímaritið er til sölu í bókabúðum, en ég birti í því ritgerð um hugsanlegt 200 milljarða tap Íslendinga á margvíslegri handvömm eftir bankahrun. Hér er útdráttur úr ritgerðinni:

Fyrir bankahrunið 2008 voru ýmsir erlendir bankar í eigu íslenskra fyrirtækja. Hér verða þrír þeirra skoðaðir. Í Danmörku átti Kaupþing FIH banka, og tók Seðlabankinn hann að veði 6. október 2008 fyrir €500 milljóna neyðarláni til Kaupþings. Að tilhlutan danskra stjórnvalda og ráði Seðlabankans var bankinn seldur haustið 2010, og var söluverð háð væntanlegu tapi næstu árin. Svo virðist sem Seðlabankinn fái aðeins um helminginn af láni sínu aftur. Nú er verið að leggja bankann niður, og eiga danskir eigendur hans von á verulegum gróða, miklu hærri en nemur tapi Seðlabankans. Hvað gerðist? Í Bretlandi átti Landsbankinn Heritable Bank og Kaupþing KSF, Kaupthing Singer & Friedlander. Bresk stjórnvöld lokuðu þeim báðum í október 2008, færðu innlánsreikninga til keppinautar þeirra og settu þá í skiptameðferð. Jafnframt veittu bresk stjórnvöld öðrum bönkum í Bretlandi ríflega lausafjárfyrirgreiðslu eða lögðu þeim til aukið fjármagn. Nú er skiptameðferð að ljúka á Heritable Bank og KSF, og er endurheimtuhlutfall í báðum bönkum nálægt 100%, þótt lagst hafi á búin afar hár lögfræði- og skiptakostnaður, auk þess sem sú eign, sem fólst í rekstri og viðskiptavinum, varð verðlaus og aðrar eignir seldust eflaust ekki á hámarksverði. Hvað gerðist? Hér er leitast við að svara þessum spurningum með því að rannsaka gögn um bankana og ræða við þá, sem áttu hlut að máli. Niðurstaðan er, að hugsanlega hafi tapast að óþörfu hátt í milljarður punda eða 200 milljarðar króna í þessum þremur bönkum.


Hlustað á kúbverskan útlaga

img_0428.jpgÉg brá mér á Borgarbókasafnið laugardaginn 10. október. Rithöfundurinn og skáldið Orlando Luis Pardo Lazo hélt þar fyrirlestur á vegum Pen klúbbsins íslenska um mannréttindabrot á Kúbu, og var rithöfundurinn Sjón fundarstjóri. Eftir ofsóknir leynilögreglu Castros ákvað Pardo að flytjast til Bandaríkjanna. Hann kvaðst hissa á því, þegar menn héldu, að hann væri stuðningsmaður Lýðveldisflokksins bandaríska (Repúblikana) fyrir það eitt, að hann gagnrýndi stjórnarfar á Kúbu. Það einkenndist af ritskoðun, kúgun og einstefnu. Rithöfundar, sem leyfðu sér að gagnrýna stjórnvöld eða tala um önnur mál en opinberir aðilar hefðu sett á dagskrá, væru eltir uppi, hrelltir, fangelsaðir, oft pyndaðir og stundum líflátnir. Pardo kvaðst helst telja sig vinstri mann, en Vesturlandabúar mættu ekki loka augunum fyrir því, að á þessari suðrænu eyju væru íbúarnir kúgaðir. Pardo brá upp glæru, þar sem sætaskipan á Alþingi Íslendinga var auðkennd með ólíkum litum á sætum ólíkra flokka, og annarri glæru með sætaskipan á þingi Kúbu, þar sem aðeins sætu fulltrúar eins flokks og öll sæti væru því eins á litinn. Pardo brá upp mörgum glærum með kúbverskum menntamönnum, sem hefðu verið ofsóttir, þar á meðal rithöfundinum Carlos Franqui, sem var fjarlægður af ljósmyndum, eftir að hann snerist gegn kommúnisma. Pardo sýndi einnig nokkur brot úr ræðum Castros, þar á meðal hinni alræmdu ræðu, sem hann hélt 13. mars 1963, þegar hann réðst á þröngar buxur, sem ungir, kúbverskir gagnbyltingarsinnar gengju í og væru kvenlegar. Þá lýsti Pardo því, sem kalla mætti þjóðflutninga frá Kúbu: Margir Kúbverjar hefðu „greitt atkvæði með árunum eða fótunum“ með því að flýja á bátum eða flytjast á annan hátt burt frá Kúbu. Taldi hann Raúl Castro, sem tekið hefði við völdum af Fidel, bróður sínum, ekki hafa beitt sér fyrir neinum raunverulegum eða mikilvægum umbótum í frjálsræðisátt. Líklegast væri, að sonur Raúls tæki við stjórnartaumunum að honum gengnum. Ég hugsaði með sjálfum mér, að þá væri Kúba orðin erfðaveldi eða konungsríki eins og Norður-Kórea.

Ein merkilegasta glæra Pardos sést á ljósmyndinni hér að ofan (sem ég tók á iphone minn): Kommúnistar höfðu 1962 sett upp á Kúbu fjölda kjarnorkuflugskeyta, sem miðað var á stærstu borgir Bandaríkjanna. Voru þau ekki tekin niður, fyrr en Kennedy Bandaríkjaforseti hótaði stríði. Fjölmenni var á fundinum, og sá ég þar meðal annarra Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Einar Kárason rithöfund og Halldór Guðmundsson, forstjóra Hörpunnar. Ekki var minnst nema lítillega á hinn mikla áhuga sumra Íslendinga á liðnum árum á því að styðja einræðisstjórn Castros á Kúbu. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, málgagns sósíalista, fór til Kúbu 1962, skrafaði við Che Guevara og hlustaði á Castro flytja langar ræður. Einn viðmælandi hans þá var Carlos Franqui, sem kom við sögu í fyrirlestri Pardos. Birti Magnús síðan ferðabókina Byltinguna á Kúbu og lofsöng Castro hástöfum. Nokkrir Íslendingar, þar á meðal Silja Aðalsteinsdóttir, um skeið ritstjóri Þjóðviljans, og Páll Halldórsson, sem enn lætur að sér kveða í kjarabaráttu opinberra starfsmanna, voru sjálfboðaliðar á sykurekrum Kúbu. Síðasta verk Alþýðubandalagsins haustið 1998, áður en flokkurinn var lagður niður og skipti sér á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, var að taka boði kúbverska kommúnistaflokksins um ferð sérstakrar sendinefndar til Kúbu. Var hún undir forystu Svavars Gestssonar og Margrétar Frímannsdóttur, og reyndu þau að ná fundi Castros, sem hirti hins vegar ekki um að hitta þau. Eins og ég bendi á í Íslenskum kommúnistum 1918–1998 má því segja, að sögu Alþýðubandalagsins hafi ekki lokið með gný, heldur snökti (not with a bang, but with a whimper, eins og T. S. Eliot orti).


Bloggfærslur 14. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband