Tvö afmæli

30. september er ár liðið frá því, að Davíð Oddsson krafðist þess að fá að tala við ríkisstjórnina til að vara hana við yfirvofandi hruni. Hið eina, sem ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerðu eftir fundinn, var að ráðast opinberlega á Davíð fyrir þau ummæli hans á fundinum, að sjaldan hefði verið þyngri rök en nú fyrir því að mynda þjóðstjórn, þótt almennt væri hann mótfallinn slíkum stjórnum. Ísland var að hrynja, og þá voru þessi ummæli aðaláhyggjuefni þeirra Össurar og Þorgerðar Katrínar!

Davíð kom á seðlabankaráðsfund, þar sem ég sat, strax eftir ríkisstjórnarfundinn þennan dag, og þykist ég vita, að hann hafi haft yfir okkur bankaráðsmönnum svipaða tölu og ríkisstjórninni. Ég er að sönnu bundinn trúnaði um þann fund, en get sagt það, að allt, sem Davíð sagði þá, hefur komið fram, eins og raunar það, sem hann hafði sagt á næstu bankaráðsfundum á undan. Hann var rödd hrópandans í eyðimörkinni. Fréttamenn hafa aldrei spurt einnar spurningar, sem er ekki mitt að svara: Hvað sögðu og gerðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans fyrir hrun? Vöruðu þeir einhvern tíma við ástandinu? Gerðu þeir einhvern tíma ágreining um peningastefnuna?

Hitt afmælið, sem má minnast, er sextíu ára afmæli kínverska alþýðulýðveldisins 1. október. Eftir valdatöku kommúnista hófst blóðbað í Kína. Margar milljónir manna voru teknar af lífi. Aðrir sættu kúgun og eftirliti. Allt málfrelsi hvarf í landinu. Þessu er rækilega lýst í Svartbók kommúnismans. En séra Jóhann Hannesson trúboði, sem dvaldist í Kína og síðar í Hong Kong, fræddi Íslendinga líka á þessu í merkum greinaflokkum í Morgunblaðinu 1952. Íslenskir kommúnistar brugðust ókvæða við og réðust harkalega á séra Jóhann, til dæmis þeir Sverrir Kristjánsson og Magnús Kjartansson. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband