Brovarí

Þorpið Brovarí nálægt Kænugarði er í fréttum þessa dagana vegna innrásar Pútíns og liðs hans í Úkraínu. Þetta þorp gegnir örlitlu hlutverki í íslenskri bókmenntasögu, því að Halldór Kiljan Laxness sagði í Gerska æfintýrinu frá för þangað. Hann skoðaði þar samyrkjubú, sem hét Íljíts í höfuðið á Vladímír Íljíts Lenín. Laxness kvað íbúana hafa verið hina ánægðustu. Skáldið heimsótti meðal annars átta manna fjölskyldu, sem bjó í fimm herbergja húsi.

Heimsóknir erlendra gesta til Brovarí á dögum Stalíns voru hins vegar ekkert annað en einn stór blekkingarleikur. Til er frásögn af því, þegar franski stjórnmálamaðurinn Eduard Herriot átti að heimsækja sama þorp fimm árum áður. Þá var roskinn kommúnisti látinn leika forstöðumann samyrkjubúsins. Allt þorpið var þrifið. Húsgögn voru tekin úr leikhúsi þorpsins og komið fyrir í samkomusal verkamanna. Gluggatjöld og borðdúkar voru sendir frá Kænugarði. Kálfum og svínum var slátrað og bjór útvegaður. Öll lík voru hirt upp af þjóðveginum og betlarar reknir burt.

Þorpsbúum var sagt, að taka ætti upp kvikmynd, og þeir, sem valdir voru til þátttöku, fengu nýjan fatnað frá Kænugarði, skó, sokka, föt, hatta og vasaklúta. Konurnar fengu nýja kjóla. Fólk var látið setjast til borðs, þegar von var á Herriot. Það fékk stóra kjötbita og bjór með. Það tók rösklega til matar síns, en þá var því fyrirskipað að snæða hægt. Síðan var hringt frá Kænugarði og sagt, að för Herriots í þorpið hefði verið aflýst. Fólkið var umsvifalaust rekið frá borðum og skipað að skila öllum fatnaði, nema hvað það mátti halda eftir sokkum og vasaklútum. Öllu hinu varð að skila í búðirnar í Kænugarði, sem höfðu lánað það.

Nú hefur þessi leikvöllur lyginnar breyst í vígvöll, því að Kremlverjar vilja ekki, að Úkraína gerist vestrænt ríki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. mars 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband