Pétur Pétursson

Orðið Pétur merkir sem kunnugt er Steinn, Petros á grísku, og hefur löngum verið vinsælt mannanafn.

Þrír nafnkunnir menn í Reykjavík hétu upp úr miðri 20. öld Pétur Pétursson. Þeir voru útvarpsþulurinn með sína þrumuraust, síðan kaupmaður, sem jafnan var kallaður „Pétur í Glerinu“, en þriðji maðurinn var um skeið forstjóri í Álafossi. Haukur pressari, kynlegur kvistur í höfuðstaðnum, sagði eitt sinn við Pétur þul: „Ertu ekki alltaf að fá bréf, sem Pétur í Glerinu á að fá, og líka bréf, sem Pétur í Álafossi á að fá, og þeir að fá bréf, sem þú átt að fá?“ Pétur þulur svaraði: „Jú, en það er gott á milli okkar, og hver fær sitt.“ Þá sagði Haukur: „Þið eruð orðnir of margir. Ég segi það satt. Ég er orðinn þreyttur á þessu.“

Pétur í Glerinu varð á einni svipstundu frægur í Reykjavík, þegar vinur hans, Ewald (Lilli) Berndsen tók hann með á leiksýningu. Hafði Lilli sagt honum, að auk leikara og leikstjóra væri höfundur leikrits oft kallaður fram í sýningarlok og hylltur með lófataki. Þeir félagar horfðu á uppfærslu af Skugga-Sveini eftir Matthías Jochumsson. Pétur hreifst af verkinu, og á meðan lófatakið dundi við, eftir að tjaldið féll, spratt hann á fætur og kallaði hátt og snjallt: „Fram með höfundinn!“

Pétur þulur, sem látinn er fyrir nokkru, var orðheppinn maður og sjófróður. Kynntist ég honum ágætlega. Eitt sinn sagði hann í morgunútvarpinu: „Skyggnið á Sauðárkróki var svo lítið í morgun, að menn sáu bara sína nánustu.“

Löngu fyrir daga þessara þriggja alnafna var uppi bóndi, Pétur Pétursson í Holárkoti í Svarfaðardal. Hann var fátækur, en barnmargur. Þótti grönnum hans nóg um, enda hvíldi framfærsluskylda á þeim, ef bú Péturs leystist upp. Eitt sinn gerði sóknarpresturinn sér ferð til hans og spurði: „Hvenær heldur þú, að þú hættir að eiga börnin, Pétur minn?“ Pétur svaraði: „Ojæja, ojæja, hvenær haldið þér, að Guð hætti að skapa?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband