Sænsk áhrif

Þegar ég hlustaði fyrir skömmu á fróðlegan fyrirlestur dr. Nils Karlsons um „nýju, sænsku leiðina“, sem felst í auknu atvinnufrelsi og lækkun skatta, rifjaðist upp fyrir mér, að sænskir hagfræðingar hafa haft nokkur áhrif á Íslandi á tuttugustu öld, til góðs og ills. Til dæmis voru hagfræðiskrif Jóns Þorlákssonar, verkfræðings og forsætisráðherra, að miklu leyti sótt í verk sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var ötull málsvari frjálsra viðskipta.

Annar kunnur sænskur hagfræðingur, Erik Lundberg, kom hingað 1935 til að veita þáverandi vinstri stjórn ráð, en aðallega lagði hann það þá til, að Íslendingar hættu að lifa um efni fram, og hefur margt verið sagt af minna viti. Lundberg sneri aftur hingað 1955 á ráðstefnu um, hvort Norðurlandaþjóðir ættu að endurreisa myntbandalag það, sem stóð frá 1873 til 1914 og gaf góða raun. Voru þá íslensk króna, dönsk, sænsk og norsk allar jafngildar og skiptanlegar.

Þriðji frægi sænski hagfræðingurinn, Gunnar Myrdal, lagði leið sína til Íslands sumarið 1952 og kvað kreppu og matvælaskort vofa yfir heiminum, og kann það að hafa haft sitt að segja um, að landbúnaðarframleiðsla til útflutnings var aukin á Íslandi.

Alþekkt hagfræðilegt sjónarmið íslenskt er ef til vill líka sænskt að uppruna. Gleðimaðurinn Þórður Guðjohnsen sagði eitt sinn: „Nú er brennivínið orðið svo dýrt, að ég hef ekki efni á að kaupa mér skó!“ Minnir þetta á fleyg ummæli sænska háðfuglsins Alberts Engströms í skopblaðinu Strix 1903: „Brennivínið verður aldrei svo dýrt, að það sé ekki peninganna virði.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. janúar 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband