Breytti NASA tölum veðurstofunnar?

Enginn getur neitað því, að veður hefur hlýnað síðustu áratugi. Ég man vel eftir því, þegar ég var drengur á sjötta áratug tuttugustu aldar, að stundum var ófært í barnaskóla sökum snjókomu, og afabróðir minn, dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri, var reglulegur gestur í útvarpinu til að tala um kal í túnum. Enginn getur heldur neitað því, að einhver gróðurhúsaáhrif verki á veðrið. Ágreiningur hugsandi manna hlýtur að vera um tvennt annað: hvort önnur áhrif á loftslag séu jafnmikilvæg eða mikilvægari (til dæmis áhrif sólar eða hafstrauma) og hvernig (og hvort) eigi að bregðast við því, ef hlýnunin reynist að mjög miklu leyti vera af mannavöldum.

Í þessu sambandi vekja tvær nýlegar fréttir athygli mína. Önnur er, að sextán vísindamenn skrifuðu undir opið bréf, sem birtist í Wall Street Journal 27. janúar 2012. Þar fullyrða þeir, að ástæðulaust sé að fyllast ótta vegna hlýnunar jarðar. Þeir benda einnig á þá athyglisverðu staðreynd, að jörðin hefur ekki hlýnað að ráði síðustu tíu ár. Sú tilgáta, að hlýnun jarðar stafi af losun koltvísýrings út í andrúmsloftið, hefur því að minnsta kosti veikst. Miklu meiri koltvísýringur er nú losaður út í andrúmsloftið en fyrir tíu árum, en samt hefur jörðin ekki hlýnað að ráði.

Vísindamennirnir sextán rifja upp, að í tölvuskeyti frá 2009, sem laumað var í Netið, sagði ákafur stuðningsmaður tilgátunnar um hlýnun af mannavöldum, Kevin Trenberth: „Sannleikurinn er sá, að við getum ekki skýrt, hvers vegna ekki hlýnar um þessar mundir, og það er fáránlegt.“ Höfundar opna bréfsins í Wall Street Journal telja, að margir vísindamenn ekki síður en stjórnmálamenn hafi veðjað á tilgátuna um hlýnun jarðar af mannavöldum. Hún auðveldar þeim að útvega sér styrki og fá áheyrn og áhrif. Vísindamenn eru um það líkir öðru fólki, að þeir vita oftast betur af eigin hag en annarra.

Hin fréttin er, að bandaríska geimferðastofnunin, NASA, virðist hafa breytt tölum frá veðurstofunni um hitastig í Reykjavík á tuttugustu öld. Þetta er skilmerkilega rakið á heimasíðu Ágústs H. Bjarnasonar verkfræðings. Þar eru nokkur fróðleg línurit. Eitt er frá veðurstofunni og sýnir hitafar í Reykjavík 1866–2009. Þar sést til dæmis, að langtímaþróunin (meðaltöl síðustu þrjátíu ára á hverjum tíma) hefur ekki verið í átt til mikillar hlýnunar á tuttugustu öld. Einnig sjást vel á línuritinu frostaveturinn mikli 1918 og hlýindaskeiðið á Íslandi um 1940.

Á heimasíðu NASA eru birt ýmis línurit um hitafar í Reykjavík á tuttugustu öld. Eitt er svipað og línurit veðurstofunnar. Þar er hlýnun óveruleg. En annað línurit er „leiðrétt“. Þar hefur tölum veðurstofunnar verið breytt, en afleiðingin er, að talsverð hlýnun birtist skyndilega frá upphafi til loka tuttugustu aldar. Hvort tveggja hverfur, frostaveturinn mikli 1918 og hlýindaskeiðið um 1940.

Hvað veldur því, að vísindamennirnir hjá NASA, sem margir styðja dyggilega tilgátuna um hlýnun jarðar af mannavöldum, breyta svo tölum veðurstofunnar? Með hvaða rökum? Og er við því að búast, að þeir hafi á sama veg breytt tölum frá öðrum aðilum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband