Ný dönsk bók staðfestir frásögn mína

Margt er skrifað um undirróður og njósnir hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og þátt Íslendinga í þessu í nýútkominni bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Eftir að ég sendi handritið í prentsmiðju, barst mér ný dönsk bók, Verdensrevolutionens generalstab. Komintern og det hemmelige apparat (Herráð heimsbyltingarinnar. Alþjóðasamband kommúnista og launráð þess), eftir dr. Niels Erik Rosenfeldt. Þar er margt staðfest, sem ég held fram í bók minni.

Eitt er það, að Signe Sillén, eiginkona sænska kommúnistaforingjans og Íslandsfarans Hugos Silléns, sinnti verkefnum fyrir leyniþjónustu Kremlverja á þriðja og fjórða áratug. Munnlegar heimildir, sem dr. Þór Whitehead prófessor lét mig fá, hermdu, að hún hefði um skeið séð um leynilega fjárstyrki til íslenskra kommúnista. Rosenfeldt, sem þaulkannað hefur skjalasöfn í Moskvu, segir, að hún hafi stjórnað leynilegri móttöku- og sendistöð Alþjóðasambands kommúnista í Stokkhólmi.

Annað er, að Lenínskólinn í Moskvu, sem margir íslenskir kommúnistar sóttu, veittu þjálfun í byltingariðju, en af einhverjum ástæðum hafa þeir Jón Ólafsson í Bifröst og Kjartan Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, viljað gera sem minnst úr þeirri staðreynd í umræðum um eðli og hlutverk íslensku kommúnistahreyfingarinnar. Rosenfeldt segir (bls. 131):

Á námskrá voru meðal annars námskeið í marx-lenínisma, stjórnmálahagfræði, þróun hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar og sögu Ráðstjórnarríkjanna og kommúnistaflokksins. En einnig voru haldnar skotæfingar og tilsögn veitt í notkun skotvopna, undirróðri, dulmálssendingum og vopnaðri skæruliðastarfsemi.

Þetta nám var strangleynilegt, og gengu nemendur undir dulnefnum. Hefur mér tekist að hafa uppi á um tuttugu Íslendingum, sem stunduðu þetta nám. En einnig er í bók minni sagt frá nemendum, sem Sósíalistaflokkurinn kom til náms í Ráðstjórnarríkjunum og Mið-Evrópu eftir stríð, og nemendum í flokksskóla Æskulýðsfylkingar Ráðstjórnarríkjanna, Komsomol. Ekki fengu þeir þó neina hernaðarþjálfun, svo að vitað sé.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband