Í Kastljósi með Stefáni Snævarr

Ég tók þátt í umræðum í Kastljósi Sjónvarpsins fimmtudagskvöldið 18. ágúst. Tilefnið var, að út er komin bók dr. Stefáns Snævarrs heimspekings, Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.

Ég benti á það, að bók Stefáns er að mestu leyti ádeila á íslenska vinstri menn fyrir þrennt, ódugnað þeirra við að halda uppi rökræðum, kreddur þeirra úr göróttri fortíð (stalínismans) og þjónkun við auðjöfrana á hinum örlagaríku árum 2004–2008.

Tvær helstu stoðir frjálshyggjunnar stæðu af sér gagnrýni Stefáns. Fyrri stoðin er sú sannfæring, að valdið sé hættulegt og mennirnir misjafnir, svo að takmarka beri valdið, halda því í skefjum, mynda mótvægi við það. Þetta kemur skýrt fram í stjórnspeki Johns Lockes.

Seinni stoðin er sú hugmynd, að mönnum gangi oftast betur að fullnægja þörfum sínum með frjálsum viðskiptum en valdboði að ofan. Regla geti komist á, án þess að nokkur komi henni á. Þessa hugmynd um sjálfstýringu má rekja til Adams Smiths, föður hagfræðinnar.

Stefán Snævarr gagnrýnir í bók sinni hagfræðina sem fræðigrein. Ég get tekið undir margt í gagnrýni hans, en tel þó, að sú frjálshyggjuhagfræði, sem ég og margir aðrir höfum beitt, sé í rauninni vinnutilgáta eða rannsóknaráætlun. Hún er fólgin í því að reyna á þanþol kenningarinnar um sjálfstýringu. Hversu margt geta menn leyst með verðlagningu frekar en skipulagningu, viðskiptum frekar en valdboði? Eins og ég hef leitt í ljós í fjölda bóka, má nota slíkar lausnir á miklu fleiri sviðum en almennt er talið.

Ég vakti athygli á því, að Stefán talar um frjálshyggju sem sjöundu pláguna, og hefði hún átt snaran þátt í bankahruninu íslenska. En orðið „plága“ kemur úr Gamla testamentinu, eins og ég minnti á. Hagkerfið sveiflaðist upp og niður, löngu áður en frjálshyggja þeirra Johns Lockes og Adams Smiths kom til sögunnar.

Einnig vísaði ég því á bug, að kenna mætti frjálshyggjunni um bankahrunið. Árin 1991–2004 var hér aðeins reynt að koma á svipuðu fyrirkomulagi og annars staðar í álfunni, en breytingin var auðvitað mikil, jafnvel róttæk, því að Ísland var svo langt á eftir grannríkjunum um margt. Þar voru til dæmis bankar ekki ríkisreknir eins og hér.

Ég sótti líka á fimmtudaginn útgáfuhóf, sem Stefán efndi til í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Þar flutti Jón Baldvin Hannibalsson ræðu og veittist að mér. Kvað hann mig sekari um að spilla æskulýðnum en Sókrates forðum, en hann var sem kunnugt er dæmdur til dauða fyrir tvennt, að trúa ekki á guði Aþenuborgar og spilla æskulýðnum. Fundust mér þetta heldur kaldar kveðjur, en vona, að Jóni Baldvini þyki ég ekki eiga skilið sömu refsingu og Sókrates.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband