Hvað var Geir að fara?

Ekki er ég viss, að allir hafi vitað, hvað Geir H. Haarde var að fara, þegar hann talaði um það á blaðamannafundi sínum á dögunum, hversu vel það ætti við, að þeir Atli Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson settu á svið réttarhöldin yfir honum.

Geir var vitaskuld að vísa í það, að þeir Atli, Steingrímur og Ögmundur eru pólitískir erfingjar kommúnistahreyfingarinnar íslensku, en þar sem kommúnistar komust til valda, settu þeir jafnan á svið sýndarréttarhöld yfir andstæðingum sínum. (Ögmundur er raunar systursonur eins skeleggasta stalínista á Íslandi, Stefáns Ögmundssonar, sem hlaut harðasta dóminn fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949 og fór margoft í lystiferðir til Ráðstjórnarríkjanna.)

Alræmdustu sýndarréttarhöldin voru yfir Búkharín og félögum hans í Moskvu í marsbyrjun 1938, og var Halldór Kiljan Laxness viðstaddur þau. Ákærurnar voru fráleitar, enda var sök þeirra Búkharíns aðeins sú, að Stalín taldi þá ógna sér. Í væntanlegri bók minni er kafli um réttarhöldin og hina óhugnanlegu frásögn Laxness af þeim.

Sakborningarnir voru skotnir í hnakkann í kjallara Ljúbjanka-fangelsisins.

Einnig eru fræg Slánský-réttarhöldin í Prag í nóvember 1952, en um þau er annar kafli í bók minni, því að tveir sakborningar tengdust Íslandi. Bók eftir einn þeirra, ævintýramanninn Otto Katz, öðru nafni André Simone, hafði verið þýdd á íslensku, og eitt ákæruatriðið á hendur öðrum þeirra, dr. Rudolf Margolius, var, að hann hafði sem aðstoðarráðherra utanríkisviðskipta í Tékkóslóvakíu gert verslunarsamning við Ísland. Hef ég skrifast á við son Margolius, sem hefur aðstoðað mig við rannsóknir mínar. Þetta voru ekki aðeins sýndarréttarhöld, heldur líka lítt dulbúnar gyðingaofsóknir.

Sakborningarnir í Slánský-réttarhöldunum voru hengdir.

Nú krefjast þeir Atli, Steingrímur og Ögmundur þess, að Geir H. Haarde sæti tveggja ára fangelsi fyrir að hafa verið pólitískur andstæðingur þeirra, því að auðvitað vita þeir jafnvel og aðrir, að Geir framdi engan glæp, braut engin lög. Sök hans er sú ein að vera í röngum flokki.

Sennilega eigum við samt í ljósi sögunnar að þakka fyrir, að þeir Atli, Steingrímur og Ögmundar krefjast ekki harðari refsingar. En eru framfarirnar þær, að mannæturnar eru farnar að nota hníf og gaffal?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband