Vínarborg, nóvember 2022

Fyrst kom ég í tónlistarhúsið í Vín, Staatsoper Wien, árið 1974. Ég var þá í erindum Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, á ráðstefnu í borginni og skrapp einn míns liðs á söngleik, Don Carlos eftir Verdi, sem saminn var upp úr leikriti Schillers. Mér fannst hann heldur langdreginn. Ég held að vísu, að ég kynni betur að meta verkið nú en þá. Árið 2019 var ég aftur staddur í borginni og horfði þá á listdans, ballet, Pétur Gaut, eftir Edvard Grieg. Tónlistin var afar ljúf og þægileg, og tíminn leið áfram áreynslulaust. Við vorum tveir, og í hléinu fengum við okkur kampavín.

Í nóvember 2022 var ég enn staddur í Vínarborg og átti að halda aðalræðuna til heiðurs viðtakanda Hayek-verðlaunanna þetta árið, en þau hlaut skólabróðir minn frá Oxford, dr. Emilio Pacheco, sem var lengi forstjóri Liberty Fund í Bandaríkjunum. Stofnunin, sem veitti verðlaunin, Hayek Institut, bauð okkur nokkrum fyrst sunnudagskvöldið 6. nóvember í kvöldverð á Rote Bar á Sacher gistihúsinu, þar sem ég hafði stundum átt ánægjulegar stundir áður, og síðan á söngleikinn La Traviata eftir Verdi í söngleikahöllinni, og var uppfærslan mjög kunnáttusamleg. Stefið var auðvitað, að kona með fortíð ætti sér enga framtíð.

Það var þó erfitt að taka hinar sterku ástríður helstu söguhetjanna í Traviata alvarlega. Þær virtust margar vera viti sínu fjær. Og þó. Daginn eftir sóttum við málstofu hjá Hayek Institut um nýútkomna ævisögu Hayeks eftir Bruce Caldwell og Hansjörg Klausinger, fyrra bindi, og þá kom í ljós, að árið 1950 hafði Hayek kastað frá sér öllu til þess að ganga að eiga æskuástina sína. Hann skildi fyrri konu sína og tvö börn þeirra eftir í Bretlandi með allar þær jarðnesku reytur, sem hann hafði eignast, sagði prófessorsembætti sínu í Lundúnum lausu og hélt til Bandaríkjanna, þar sem hann hóf kennslu við Chicago-háskóla. Ef til vill er það þá rétt, sem David Hume hélt fram, að skynsemin væri ambátt ástríðnanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. nóvember 2022.)


Búkarest, nóvember 2022

Í fyrirlestrarferð til Búkarest í nóvemberbyrjun 2022 rifjaðist margt upp fyrir mér um samskipti Íslendinga og Rúmena. Stundum var hér á landi vitnað í ummæli rúmenska rithöfundarins Panaits Istratis um rússnesku byltinguna: „Þeir segja, að ekki sé hægt að baka eggjaköku nema brjóta egg. Ég sé brotnu eggin. En hvar er eggjakakan?“

Eftir seinni heimsstyrjöld hrifsuðu kommúnistar völd í Rúmeníu og komu á sömu ógnarstjórn og annars staðar. Íslenskir kommúnistar voru tíðir gestir í Rúmeníu næstu áratugi, þar á meðal á fjölmennu æskulýðsmóti í Búkarest 1953. Morgunblaðið hafði tvo „njósnara“ í þeirri ferð, og stungu lýsingar þeirra í stúf við lofgjörðir annarra þátttakenda.

Rúmenía tók ekki þátt í innrásinni í Tékkóslóvakíu árið 1968, svo að Alþýðubandalagið hélt áfram samskiptum við rúmenska kommúnista. Svavar Gestsson lét í ljós þá von eftir boðsferð til Rúmeníu árið 1970, að hinn gamli smali úr Karpatafjöllum, Ceausescu, gæti sameinað hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu. Guðrún Helgadóttir hitti Ceausescu að máli ári síðar og sagði, að hann væri „sjarmör“ og óvenjugæfulegur af þjóðarleiðtoga að vera.

Þau Svavar og Guðrún tóku ekkert mark á lýsingum Bárðar Halldórssonar málfræðings í Morgunblaðinu á eymd og kúgun í landinu, en hann hafði verið þar við nám. Því síður tóku þau mark á lýsingum lútersks prests, Richards Wurmbrands, á ofsóknum á hendur kristnum mönnum í Rúmeníu í bókinni Neðanjarðarkirkjunni, sem kom út árið 1971.

Í Búkarest fór ég á Byltingartorgið í miðborginni, en þar gerði mannfjöldi hróp að Ceausescu 21. desember 1989, og var það upphafið að endalokum hans. Enn líða Rúmenar fyrir 45 ára ógnarstjórn kommúnista.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. nóvember 2022.)


Tuggur um Amasón-skóginn

Flestir fréttamenn reyna áreiðanlega að gera sitt besta. Svo var eflaust um Hallgerði K. E. Jónsdóttur, sem hringdi í mig á dögunum frá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar til að spyrja mig um nýlegt forsetakjör í Brasilíu, þar sem vinstri maðurinn Lula sigraði hægri manninn Bolsonaro naumlega. Hún nefndi, að Bolsonaro þætti skeytingarlaus um Amasónskóginn. Ég svaraði því til, að útlendingar yrðu að greiða Brasilíumönnum sérstaklega fyrir það, ef þeir vildu koma í veg fyrir nýtingu skógarins. Væntanlega fæli slík nýting líka aðallega í sér, að nytjajurtir kæmu í stað villigróðurs, plöntur á móti plöntum.

Hallgerður sá ástæðu til að leiðrétta mig, því að hún hnýtti aftan við ummæli mín: „Taka ber fram að Amazonskógurinn er stærsti villta svæðið í heimi og jafnframt það svæði sem hefur mesta lífríkisfjölbreytni. Þá er meira en 10 prósent alls súrefnis í andrúmsloftinu framleitt í skóginum. Þá ber að geta að ræktað land hefur minni líffræðilegan fjölbreytileika en stórborgir og því ekki rétt að gróður yrði ekki minnkaður. Auk þess hafa helstu mótmælendur nýtingar Amazonskógarins verið frumbyggjar hans, sem telja um milljón manna.“

Þetta er því miður allt rangt, þótt á því sé tuggið í bergmálsklefum fjölmiðlanna, svo að Hallgerði sé nokkur vorkunn. Lífríkisfjölbreytni þarf ekki að minnka við það, að skógur sé nýttur. Atlantshafsskógurinn í Brasilíu er aðeins 15% af því, sem hann var, þegar Evrópumenn komu fyrst til landsins, en lífríkisfjölbreytni hans er svipuð. Og Amasón-skógurinn framleiðir ekkert súrefni, þegar hann er í jafnvægi, því að jafnmikið súrefni eyðist þá við rotnun og dauða jurta og verður til við sóltillífun.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022.)


Bloggfærslur 23. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband